Fréttir - Eyjafréttir

Tölublað

Fréttir - Eyjafréttir - 21.12.2016, Blaðsíða 19

Fréttir - Eyjafréttir - 21.12.2016, Blaðsíða 19
19Eyjafréttir / Miðvikudagur 21. desember 2016 Aðspurður hversu lengi hann hefur verið til sjós segir Einar Jóhann Jónsson á Dala-Rafni að fyrsta reynsla sín af sjónum hafi verið þegar að hann var 16 eða 17 ára gamall. „Pabbi reddaði mér þá túr á gömlu Bergeynni, nokkrum árum seinna var ég svo plataður á humartroll á Maríu Péturs í mánuð og síðan byrjaði ég á Dala-Rafni sumarið 2008 og hef verið þar síðan,“ segir Einar og bætir við að hann hafi alltaf viljað vera sjómað- ur, alveg þangað til hann fór fyrsta túrinn. „Mig langaði að verða sjómaður alveg þangað til að ég fór minn fyrsta og eina túr á Bergeyna. Eftir það ákvað ég að þetta myndi ég aldrei nokkurn tíma gera aftur, alveg þangað til að Ingimar vinur minn plataði mig á Maríu Péturs með honum, Sigga Óla og Ágústi Halldórs. Ég var strax orðinn sjóveikur og ælandi yfir borðstokk- inn við Klettsvíkina, en ég kláraði mánuðinn og lofaði sjálfum mér að þetta myndi ég aldrei gera aftur. Síðan réði ég mig í afleysingar á Dala-Rafn 2008 og ætlaði bara að taka tvo til þrjá túra en líkaði svo vel að ég er þar enn,“ segir Einar. Fríin og peningarnir Hvað er mest heillandi við sjómennskuna? „Það sem heillar mest við sjómennskuna eru fríin, svo peningarnir og svo er það líka góð tilfinning að sigla inn í heimahöfn með smekkfullan bát af þorski,“ segir Einar. En er alltaf góður mórall á sjónum? „Já, þetta væri ekki gerandi ef mórallinn væri ekki góður. Auðvitað kemur það fyrir að það verða árekstrar á milli manna og er ýmislegt sagt í hita leiksins en tíu mínútum seinna eru allir orðnir vinir aftur,“ segir Einar. „Það getur verið erfitt að tvinna þetta tvennt saman og væri ekki hægt ef að maður ætti ekki skilningsríka og góða konu,“ segir Einar þegar hann er spurður út í sjómennsku og fjölskyldulífið. „Það er ekki allra að vera sjómannskona og er bara fyrir þær alhörðustu enda getur fjarveran orðið allt að fjórar vikur. Oft getur söknuðurinn orðið mikill og þá sérstaklega eftir að dóttir okkar fæddist, en þá þakkar maður fyrir hvað tæknin er orðin góð og að maður geti „face time-að“ heim og séð fjölskylduna,“ segir Einar. Árið hjá þeim á Dala-Rafni hefur verið þokkalegt að mati Einars og bætir hann við að margt hafi breyst síðan Ísfélagið keypti skipið fyrir tæpum þremur árum. „Við erum að fá minna borgað á kíló en á móti kemur að kvótastaðan er mikið betri sem gerir okkur kleift að vera að allt árið. Að sama skapi hefur fjarveran aukist, þar sem Ísfélagið á vinnslu á Þórshöfn sem verður að halda gangandi líka og þá reynir á mórallinn um borð,“ segir Einar. Gríðarleg óánægja í stéttinni Hvað finnst þér um uppboðsleiðina sem hefur mikið verið í um- ræðunni? „Ég er ekki hrifinn af þessari uppboðsleið og held að hún myndi sökkva litlu útgerðunum á örfáum árum, því þær hafa ekki bolmagn í að keppa við þessa stóru,“ segir Einar. En hvað með kjarasamningana, hver er þín tilfinning gagnvart þeim? „Mín tilfinning er sú að það sé alveg gríðarleg óánægja í stéttinni með þennan samning. Menn eru búnir að fá sig fullsadda af því að borga olíuna á skipin og þurfa að þola tíu prósent launalækk- un í sjö ár ef útgerðinni dettur í hug að kaupa nýtt skip. Ætli menn hafi ekki verið að vonast eftir meiri árangri í þessum málum og eins með fiskverðið, að við sem löndum í stöðvarnar myndum færast nær þeim sem landa á markað, en enn ber þó nokkuð á milli. Það er vonandi að menn nái einhverri lendingu í þessu sem báðir aðilar geti sætt sig við,“ segir Einar. Eyþór hrekkjóttur Aðspurður hvort hann gæti deilt með lesendum einni skemmtilegri sögu af sjónum var Einar ekki tregur til. „Fyrir einhverjum árum síðan, ég man ekki alveg tímasetn- inguna, kom reglugerð frá Hafró um talningu sjófugla sem slæðast í veiðarfæri og þá aðallega net. Eyþór skipstjóri tók sig til og breytti aðeins orðalaginu í tölvunni hjá sér og prentaði það svo út og kom með um borð og taldi öllum trú um að nú þyrftum við að fara að telja alla fugla sem að við myndum sjá útá sjó. Þetta var gleypt hrátt af okkur öllum og var óánægjan um borð vægast sagt mikil með helvítis kjaftæðið í Hafró. Eyþór hélt andlitinu allan túrinn og einnig þann næsta og var mannskapurinn sendur einn af öðrum útá dekk að telja fugla á milli hala. Á sjómanna- deginum voru svo nokkrir verðlaun- aðir með viðurkenningarskjali fyrir þessi ósköp. Þetta er einn af betri hrekkjum hans Eyþórs, en alls ekki sá eini,“ segir Einar og tekur fram að Ágústi Halldórssyni hefur ekki enn tekist að leggja hann af velli í sjómann, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Kristinn Arnar hefur starfað hjá Ísfélaginu síðan árið 2012 og segist vera mest á lyftara þegar hann var spurður út í sitt hlutverk hjá fyrirtækinu. „Ég er þannig séð ekkert með neitt sérstakt hlutverk, vinn mikið á lyftara og við kassavélarnar á vöktum svo milli þess er ég reglulega í einhverri viðhaldsvinnu innan frystihússins.“ Er góður mórall á vinnustaðnum? „Hann er það nú langoftast en hann getur nú líka farið svolítið niðrá við eins og í hverri annarri vinnu,“ segir Kristinn. Kostir og gallar við vinnuna? „Svona, það fyrsta sem mér dettur í hug eru launin og félagar manns sem maður vinnur með. Í sambandi við galla dettur mér ekki neitt í hug eins og er en þeir eru eflaust nokkrir,“ segir Kristinn. Hvernig hefur árið verið hjá ykkur? „Árið var mjög gott ef ég á að segja eins og er. Það fiskaðist vel í uppsjávarveiðunum svo ég best veit þannig að það var nóg af vöktum hjá okkur,“ segir Kristinn sáttur. Er eitthvað sem stendur upp úr á þínum ferli í Ísfélaginu? „Það sem stendur mest uppúr síðan ég byrjaði er eiginlega bara hvað Ísfélagið hefur þróast mikið. Það er magnað að fylgjast með fyrirtækinu færast svona uppá við,“ segir Kristinn. Í lokin vildi Kristinn ekki gefa neitt upp þegar hann var beðinn um að deila einni sögu úr lífinu í Ísfélag- inu. „Ég held það sé best að halda öllum skemmtilegum sögum innan veggja frystihússins en annars vil ég bara óska Ísfélaginu til lukku með 115 árin,“ segir Kristinn og hlær. Í rúm 40 ár hefur Ólafur Guð- mundsson verið í föstu starfi hjá fyrirtækinu, fyrst hjá Hraðfrysti- stöðinni og síðan Ísfélaginu eftir sameiningu 1992. Í dag gegnir hann stöðu þjónustustjóra útgerða ásamt Páli Hjarðar Þorvaldssyni og Eyþóri Harðarsyni útgerðarstjóra. En hvað felst í því að vera þjón- ustustjóri útgerða? „Það felst í því að þjónusta og hafa umsjón með daglegum rekstri skipa Ísfélagsins. Skipulag, umsjón og eftirlit með viðhaldi skipanna og innkaupum því tengdu. Allskonar snúningar í kringum öflun aðfanga, þjónusta við löndun og almenna vinnu við skipin. Sem sagt, umsjón og eftirlit með búnaði og daglegum rekstri skipanna og öllu sem því tengist. Og allt í samráði við útgerðarstóra félagsins,“ segir Ólafur. Er eitthvað ár eftirminnilegra en annað hjá fyrirtækinu? „Það er kannski ekkert eitt ár sem er eftirminnilegast, en nokkur eru mjög minnisstæð. T.d. árið 1981 voru loðnuveiðar bannaðar og þá var farið að verka saltfisk í þrónum í FES. Árið 1992 þegar Hraðfrysti- stöðin og Ísfélagið voru sameinuð. Og ekki síst bruninn á Ísfélaginu í desember árið 2000. Í öll þessi skipti reyndi mjög á stjórnendur og starfsfólk félagsins, þó á misjafnan hátt væri,“ segir Ólafur. Hvernig hefur árið 2016 verið fyrir Ísfélagið? „Ég held að það hafi verið nokkuð gott ár, þrátt fyrir erfiðleika í sölumálum, og styrk- ingu krónu,“ segir Ólafur. En hafa nýju bátarnir verið að standa undir væntingum? „Já, tvímælalaust, þ.e. eftir að komist var yfir barnsjúkdóma sem oft fylgja í byrjun. Með þessum nýju bátum kemur meira rekstaröryggi, minna viðhald og ekki síst mögu- leikar á að koma með mun betra hráefni að landi,“ segir Ólafur. Hann segist vera bjartsýnn á farsæla lausn milli útgerðarmanna og sjómanna aðspurður um málið. „Ég hef ekki trú á öðru en að það náist að lenda þessu farsællega.“ Hvaða áhrif telur þú uppboðs- leiðina á kvótanum geta haft á fyrirtæki eins og Ísfélagið? „Eflaust hefði það talsverð áhrif á fyrirtækið eins og rekstur þess er í dag og gæti skapað óvissu í rekstrinum frá einum tíma til annars. En í öllum breytingum geta falist tækifæri, þó að maður sjái þau ekki fyrir,“ segir Ólafur. Að lokum segir Ólafur að rekstur í sjávarútvegi sé ekki síst háður duttlungum náttúrunnar. „Þetta sést ágætlega á því að enn hefur engum loðnukvóta verið úthlutað fyrir næstu vertíð. Þetta sést einnig ágætlega ef 115 ára saga félagsins er skoðuð. En samt hefur nokkuð góður stöðugleiki náðst í rekstrinum á síðustu árum og vonandi helst það áfram,“ segir Ólafur. Einar KriSTinn HELGaSon einarkristinn@eyjafrettir.is Ísfélag Vestmannaeyja 115 ára :: Einar Jóhann Jónsson sjómaður á Dala-Rafni: Góð tilfinning að sigla inn í heimahöfn með smekkfullan bát af þorski Ísfélag Vestmannaeyja 115 ára :: Kristinn Arnar Einarsson, frystihús: Stendur upp úr hvað Ísfélagið hefur þróast :: Það er magnað að fylgjast með fyrirtækinu færast svona uppá við Ísfélag Vestmannaeyja 115 ára :: Ólafur Guðmundsson, þjónustustjóri útgerða: Með nýjum skipum kemur meira rekstrar- öryggi og minna viðhald :: Og ekki síst möguleikar á mun betra hráefni

x

Fréttir - Eyjafréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.