Fréttir - Eyjafréttir - 05.07.2017, Page 10
10 Eyjafréttir / Miðvikudagur 5. júlí 2017
Eftir fund ræddi blaðamaður við
þau James Burleigh og Christine
Dure-Smith frá Merlin en bæði eru
þau vongóð og bjartsýn fyrir
komandi tímum.
„Þetta hefur tekið lengri tíma en
við höfðum vonað en við er samt
bjartsýn,“ sögðu þau James
Burleigh og Christine Dure-Smith
þegar blaðamaður spurði út í
framvindu mála. „Öll okkar samtöl
við fólk hérna á Íslandi hafa verið
jákvæð en það eru engin fordæmi
fyrir svona löguðu, þetta er
fordæmið, þannig að allir vilja vera
vissir um að hér sé rétt staðið að
verki. Þetta verkefni kom mjög
óvænt þannig allir þurfa að fá sínar
skýringar á því og þurfum við að
sýna þolinmæði,“ sagði James.
Hvernig fannst ykkur viðbrögð
fólks hér í dag? „Mjög góð, við
erum í skýjunum. Augljóslega
skildum við ekki það sem fram fór
á íslensku en maður sá það í
andlitum fólks að það er jákvætt
gagnvart þessu og ánægt að fá
nánari skýringar. Gagnsæi skiptir
miklu máli svo fólk skilji ástæður
okkur fyrir þessu verkefni. Þetta
snýst ekki um neinn gróða heldur
að gera hið rétta í stöðunni en það
getur hljómað framandi í eyrum
fólks þegar stórt fyrirtæki eins og
Merlin er annars vegar,“ sagði
James.
Á öllum þeim stöðum sem heyra
undir Merlin er það stefna fyrir-
tækisins að notast við heimamenn
eins og unnt er. „Jafnvel þótt við
verðum með erlenda sérfræðinga til
að byrja með þá viljum við þjálfa
upp heimamenn svo þeir geti tekið
við innan fárra ára. Í verkefni sem
þessu, þar sem höfuðtilgangurinn er
að gera það rétta í stöðunni, er mjög
mikilvægt að samfélagið í heild
sinni finnist það vera partur af
verkefninu og verkefnið partur af
þeim. Að því leyti finnst okkur
Keikó verkefnið vera frábrugðið því
sem við erum að gera þar sem þau
voru frekar mikið út af fyrir sig. Við
viljum vera staður fyrir Vestmanna-
eyjar frekar en fyrir Merlin,“ sagði
Christine.
Hvað mun þetta verkefni gera fyrir
Vestmannaeyjar sem samfélag?
„Þetta er mjög áhugavert. Það sem
við höfum orðið var við hingað til
er að það er mjög fjölbreytt verslun
hérna og mikil kunnátta sem við
höfum þegar sett okkur inn í, hvort
sem það eru verktakar eða aðrir þá
eru allir tilbúnir til að vinna með
okkur. Þetta mun svo sannarlega
skila enn einu stóra verkefninu til
bæjarfélagsins sem í augnablikinu
er í miklum framkvæmdum eins og
allir vita. En við verðum líka að
fara varlega því verkefni á þessari
stærðargráðu og með þennan
tilgang sem á sér engin fordæmi
mun vekja athygli og fá mikla
umfjöllun. Eyjan hefur sínar
takmarkanir stærðarlega séð, hún
getur ekki tekið á móti milljónum
ferðamanna og verðum við því að
varðveita það sem hún hefur upp á
að bjóða og taka réttar ákvarðanir,“
sagði James.
Mun taka tíma og þjálfun að
venjast nýjum aðstæðum
Undir hvaða kringumstæðum þurfa
hvalirnir að dvelja innandyra? „Við
höfum augljóslega ekki fullkomlega
tæmandi rannsóknir á veðráttunni
frá degi til dags, hvort sem það er
ölduhæð, vindur eða annað. Víkin
er nokkuð vel varin frá náttúrunnar
hendi og getur verið allt að fjögurra
metra ölduhæð fyrir utan hana án
þess að það hafi áhrif á víkina
sjálfa. Aftur á móti geta verið
sterkir straumar og hringiður neðan-
sjávar í víkinni og fyrir hvíthvali
sem hafa verið í sundlaugum tekur
tíma og þjálfun að venjast þessum
aðstæðum. Fyrstu veturna þurfa
hvalirnir líklega að koma inn en það
er alls ekki víst en við mundum
aldrei gera neitt sem gæti stofnað
lífi þeirra og heilsu í hættu. Þangað
til þeir verða nógu sterkir munum
við hafa varann á,“ sagði James og
bætir við að það sé nokkuð auðveld
aðgerð að koma hvölunum inn í
hús. „Það verður auðvelt í saman-
burði við það að ferðast með
hvalina í 35 klst. frá Shanghai.“
Þegar talið barst að því hvort
hvalirnir myndu þrífast í kletts-
víkinni benti Christine á að Keikó
hafi plummað sig vel alveg þangað
til hann átti að fara að lifa í villtri
náttúru. „Þessi dýr eru mjög
félagslynd og eru þessir þrír hvalir
mjög vanir fólki. Ef bátur rennur
upp að víkinni munu þeir vilja
koma og rannsaka hvað sé um að
vera og sömuleiðis þegar fólk er að
klifra í fjöllunum, þeim þykir það
áhugavert því hingað til hafa þeir
nánast bara fengið að sjá öskrandi
kínversk börn. Þetta mun vera
fullkomlega frábrugðið því sem þeir
hafa átt að venjast og alveg pottþétt
betra.“
Kynningarfundur Merlin Entertainments:
Engin fordæmi fyrir
svona löguðu
:: Þurfum að sýna þolinmæði :: Fullkomlega frábrugðið því sem hvalirnir hafa átt
að venjast og alveg pottþétt betra
Heimkynni hvalanna í Klettsvík verður 1 km².Rauða línan sýnir leiðina út í kvína frá bryggju.
Eins og kortið sýnir verður safnið stórt í sniðum.
Einar KriStinn HElgaSon
einarkristinn@eyjafrettir.is
Fulltrúar Merlin á kynningarfundinum í Eldheimum.