Morgunblaðið - 26.07.2019, Page 26
SUND
Bjarni Helgason
bjarnih@mbl.is
„Það gekk allt upp hjá mér í dag (í gær) og í raun
betur en maður hafði þorað að vona. Ég er fyrst
og fremst stoltur og ánægður með árangur minn á
þessu móti,“ sagði sundkappinn Anton Sveinn
McKee í samtali við Morgunblaðið í gær.
Anton stóð sig frábærlega á heimsmeist-
aramótinu í sundi í 50 metra laug sem fram fór í
Gwangju í Suður-Kóreu en hann setti Íslandsmet
í 100 metra bringusundi og þá tvíbætti hann Ís-
landsmetið í 50 metra bringusundi. Hápunktinum
náði Anton svo í gær þegar hann náði lágmarki í
200 metra bringusundi fyrir Ólympíuleikana í
Tókýó 2020. Hann náði því í undanrásunum með
því að synda á 2:10,32 mínútum en lágmarkið er
2:10,35. Anton komst með því í milliriðil og endaði
að lokum í 16. sæti í greininni.
„Markmiðið fyrir mótið var að ná lágmarkinu
fyrir Ólympíuleikana í annaðhvort 100 metra
bringusundinu eða 200 metra bringusundinu.
Sjálfur átti ég frekar von á því að ná því í 100
metrunum þar sem ég hef unnið mjög mikið í bæði
styrknum og hraðanum að undanförnu. Ég náði
upp mjög góðum hraða í bæði 100 metrunum og
50 metrunum en datt aðeins niður þegar leið á
sundið þannig að núna þarf ég fyrst og fremst að
einbeita mér að því að halda uppi jöfnum hraða
allt sundið. Það var ekki beint skellur að ná ekki
ólympíulágmarkinu í 100 metrunum en það vakti
mann aðeins og núna þarf maður bara að leggja
ennþá harðar að sér. Að sama skapi náði ég að
setja saman frábært sund í morgun (gærmorgun)
í 200 metra bringusundinu sem skilaði mér rétt
undir lágmarkinu og það var frábær tilfinning.“
Allt gekk fullkomlega upp
Anton viðurkennir að það sé þungu fargi létt af
honum eftir að hafa náð lágmarkinu fyrir Ólymp-
íuleikana en lágmarkinu náði hann í undanrásum í
200 metra bringusundi.
„Ég var að vinna með töluvert lengri tök í und-
anrásunum og ég passaði mig vel þar að taka ekki
of mikið á því fyrr en á síðustu fimmtíu metr-
unum. Það gekk fullkomlega upp þar sem lág-
markið náðist og sundið var í raun eins vel útfært
og hægt var að hafa það. Í milliriðlunum vildi ég
meira bara sjá hvar ég stæði gegn öðrum keppi-
nautunum mínum og ég átti svo sem ekkert endi-
lega von á því að komast áfram í úrslitin. Mark-
miðið var þess vegna að negla bara á þetta þar og
synda eins hratt og ég gat og eins og kom í ljós
þegar sundið var hálfnað þá vantaði aðeins upp á
úthaldið hjá mér en það mun koma. Það að vera
loksins búinn að ná lágmarkinu tekur ákveðna
pressu af manni og þetta var í raun mikill léttir.
Núna get ég fyrst og fremst einbeitt mér að því að
æfa vel því það er oft þannig, þegar markmiðið er
að reyna ná ákveðnu lágmarki, að það fer mikill
fókus í það verkefni. Þá þarf maður að hvíla vel á
milli móta og hugsa mjög vel um sig, en þar sem
lágmarkið er komið get ég alfarið einbeitt mér að
ákveðnum atriðum sem ég vil skerpa vel á fyrir
Ólympíuleikana og það er frábært.“
Leiðin liggur til Virginíu
Anton hefur verið búsettur í Boston í Banda-
ríkjunum að undanförnu en starfað í New York og
það hefur því verið mikið flakk á honum en á því
verður stór breyting í haust.
Ég hef starfað sem ráðgjafi hjá Ernst & Young
í Bandaríkjunum frá því í september 2017 en
fyrirtækið er starfrækt í New York á meðan ég bý
í Boston. Það er því mikið flakk á mér og ég mæti í
raun til New York á mánudögum og fer svo heim
til Boston á fimmtudögum þannig að það er mikið
rót á manni sem hjálpar ekki beint þegar að mað-
ur vill verða afreksmaður í íþróttum. Þetta sýnir
manni hins vegar að það er allt hægt og ég hef
mikla trú á því að ég geti bætt mig ennþá frekar
þegar ég byrja að einblína alfarið á sundið. Núna
ætla ég svo að taka mér frí frá vinnu í óákveðinn
tíma. Ég er búinn að vera að æfa einn undanfarna
mánuði og hef í raun bara fengið sendar æfingar
frá þjálfaranum mínum Will Leonhart sem ég hef
farið eftir og svo hef ég bara sent honum tímana
og hvernig mér hefur gengið. Þetta hefur verið
bæði erfitt og óreglulegt hjá mér þar sem ég hef
verið að vinna mikið líka en núna verður breyting
á því. Ég ætla að flytja til Virginíu í haust þar sem
ég mun æfa við Virginia Tech-háskólann með öðru
sundfólki sem er líka á leið á Ólympíuleikana. Þar
verð ég undir handleiðslu þjálfarans Sergio Lopez
sem er þjálfari hjá skólanum og hann er einnig að
þjálfa atvinnumenn í sundi. Markmiðið þar er svo
bara að æfa eins og atvinnumaður og einbeita sér
alfarið að sundinu. Ég er virkilega spenntur fyrir
þessu því núna fæ ég loksins tækifæri til þess að
æfa eins og ég vil æfa og ég tel að þetta muni skila
mér miklu þegar upp er staðið.“
Viðhorfið breyttist í Alabama
Anton úrskrifaðist frá Alabama-háskólanum
vorið 2017 en á tíma sínum í skólanum keppti
hann með skólaliðinu í sundi. Hann segir að við-
horf sitt til sundsins hafi breyst mikið eftir dvöl
sína í Bandaríkjunum.
„Auðvitað er maður smá smeykur við það að
taka sér frí frá vinnu en eins og þetta horfir við
mér þá tek ég mér árs frí núna og þegar sund-
skýlan fer upp á hilluna getur maður unnið upp
vinnutapið. Ég tók þá ákvörðun að fara alla leið í
þessu núna og ég hef trú á því að þetta reddist allt
saman á endanum.. ÍSÍ og Sundsamband Íslands
hafa staðið þétt við bakið á mér og svo er mark-
miðið að finna sér styrktaraðila líka fyrir Ólymp-
íuleikana. Viðhorf mitt gagnvart sundinu hefur
breyst mikið á undanförnum árum. Í Bandaríkj-
unum eru öll sundmót liðakeppnir og þú vilt
standa þig vel fyrir liðið og liðsfélaga þína. Þú ert
ekki einn í þessu og þú ert ekki að gera þetta af
einhverri skyldurækni eins og þetta var kannski
aðeins orðið hjá mér áður en ég fór út. Ég hef allt-
af viljað standa mig vel fyrir Ísland á öllum þeim
stórmótum sem ég hef farið á en eftir sumarið
2017 tók ég mér ákveðna pásu frá þannig keppn-
um. Í dag lít ég á þetta sem ákveðin forréttindi að
fá að keppa fyrir Íslands hönd á stórum sundmót-
um og ég gæti ekki verið glaðari og liðið betur
með það sem ég hef afrekað á þessu móti í Suður-
Kóreu,“ sagði Anton Sveinn McKee í samtali við
Morgunblaðið.
Ljósmynd/Simone Castrovillari
Gwangju Anton Sveinn McKee stingur sér til sunds í 200 m bringusundinu þar sem hann náði ÓL-lágmarkinu og komst í milliriðil á HM.
Fórnaði vinnunni fyrir Tókýó
Anton Sveinn McKee setti þrjú Íslandsmet í Suður-Kóreu Hefur æft við
erfiðar aðstæður í ár Á mikið inni og ætlar sér stóra hluti á Ólympíuleikunum
26 ÍÞRÓTTIR
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 26. JÚLÍ 2019
HM U21 karla
Leikið á Spáni:
8-liða úrslit:
Egyptaland – Noregur......................... 29:27
Frakkland – Danmörk ......................... 35:32
Slóvenía – Portúgal .............................. 25:26
Túnis – Króatía ..................................... 24:27
Leikir um sæti:
9-10: Þýskaland – Spánn...................... 29:28
11-12: Svíþjóð – Brasilía ...................... 36:30
13-14: Serbía – Ísland........................... 24:22
15-16 Ungverjaland – S-Kórea............ 40:36
17-18 Barein – Japan............................ 23:22
Halldór J. Sigfússon þjálfar Barein.
19-20 Nígería – Síle .............................. 34:26
21-22 Argentína – Bandaríkin............. 23:20
23-24: Kósóvó – Ástralía ...................... 38:20
Í blaðinu í gær birtist ekki rétt
mynd með umfjöllun um Hildigunni
Ýri Benediktsdóttur sem var valin
besti ungi leikmaðurinn í 11. umferð
Pepsi Max-deildar kvenna í fótbolta.
Beðist er velvirðingar á mistökunum
en Hildigunnur er á myndinni hér að
ofan.
KA hefur bætt við sig öðrum
spænskum knattspyrnumanni fyrir
baráttuna í síðustu níu umferðum Ís-
landsmótsins. Sá heitir David Cuerva
og er 28 ára miðjumaður. Landi hans
Iosu Villar kom til KA á dögunum og
fór beint í byrjunarliðið í leik liðsins
gegn ÍA.
Víkingar í Ólafsvík hafa einnig feng-
ið spænskan knattspyrnumann í sínar
raðir. Það er 28 ára gamall sóknar-
maður, Jordi Vidal, sem lék síðast
með Ciudad Real í D-deildinni í heima-
landi sínu. Hann er uppalinn hjá Real
Madrid en hefur leikið á Kýpur, í Grikk-
landi og í Þýskalandi.
Haraldur Franklín Magnús hafnaði í
43. sæti á Borre Open golfmótinu sem
lauk í Noregi í gær en hann lék þriðja
og síðasta hringinn á pari, 73 höggum.
Hann var samtals á tveimur höggum
undir pari á mótinu sem var liður í
Nordic-mótaröðinni.
Enska knattspyrnufélagið Everton
seldi í gær enska framherjann Ade-
bola Lookman til RB Leipzig í Þýska-
landi fyrir 22,5 milljónir punda.
Arsenal fékk í gær spænska knatt-
spyrnumanninn Dani Ceballos lán-
aðan frá Real Madrid út næsta tímabil.
Hann er 22 ára miðjumaður sem hefur
leikið sex A-landsleiki fyrir Spán. Þá
keypti Arsenal 18 ára varnarmann,
William Saliba, af St.Étienne í Frakk-
landi fyrir 27 milljónir punda en lánaði
hann aftur þangað í eitt ár.
Spjótkastarinn Ásdís Hjálmsdóttir
náði í fyrrakvöld sínum besta árangri á
árinu þegar hún kastaði 59,27 metra á
móti í Finnlandi. Hún fékk brons-
verðlaun á mótinu. Íslandsmet Ásdísar
er 63,43 metrar en hún keppir núna að
því að ná lágmarki fyrir heimsmeist-
aramótið sem fram fer í Katar í sept-
ember. Til þess þarf hún að
kasta 61,50 metra
á næstu
vikum.
Eitt
ogannað
Ísland hafnaði í 14. sæti á heimsmeistaramóti U21 árs
karla í handknattleik eftir ósigur gegn Serbum, 24:22, í
leik um þrettánda sætið í Vigo á Spáni í gær. Serbar
voru með örugga forystu í hálfleik, 16:9, og staðan var
23:14 þegar skammt var eftir en íslenska liðið átti góðan
endasprett. Bjarni Ófeigur Valdimarsson skoraði 6
mörk fyrir Ísland, Jakob Martin Ásgeirsson 4, Gabríel
Martínez Róbertsson 3, Elliði Snær Viðarsson 3, Orri
Freyr Þorkelsson 2, og þeir Sigþór Gunnar Jónsson,
Kristófer Andri Daðason, Hafþór Már Vignisson og
Sveinn José Rivera skoruðu eitt hver.
Fjórtánda sætið á Spáni
Bjarni Ófeigur
Valdimarsson
Danski knattspyrnumaðurinn Morten Beck Guldsmed er
kominn til Íslands í annað sinn og hefur samið við FH-
inga um að leika með þeim út þetta tímabil. Hann er 31
árs sóknarmaður sem lék með KR-ingum árið 2016 en
gekk þá undir nafninu Morten Beck Andersen. Þá skor-
aði hann 6 mörk í 21 leik fyrir KR á Íslandsmótinu og 4
mörk í Evrópuleikjum. Síðustu tvö ár hefur Morten leik-
ið með Viborg í dönsku B-deildinni, þar sem hann var
samherji Ingvars Jónssonar, en áður með Fredericia,
Hobro, Silkeborg, Skive og AGF og hann á að baki á
þriðja hundrað leiki í dönsku deildakeppninni. vs@mbl.is
FH náði í fyrrverandi KR-ing
Morten Beck
Guldsmed