Morgunblaðið - 26.07.2019, Qupperneq 20
20 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 26. JÚLÍ 2019
E
kki ætti að koma á óvart þó að
fólkið í Vestmannaeyjum
virðist ögn frábrugðið öðrum
Íslendingum. Ýmis áföll,
sorgir og sigrar hafa mótað sögu og
sjálfsmynd Vestmannaeyinga og þar
sem þeir hafa verið einangraðir frá
meginlandinu hafa þeir lært þá lexíu
vel að stundum dugar ekkert annað
en að bretta upp ermarnar og leysa
vandamálin sjálf-
ur.
Lára Skærings-
dóttir, kennari við
Grunnskóla Vest-
mannaeyja, kann-
ast vel við þessi
sérkenni og það
góða veganesti
sem það veitir
börnunum að
alast upp í sam-
félaginu á eynni.
„Það er stundum sagt að það þurfi
heilt bæjarfélag til að ala upp barn og
það er einmitt það sem gerist í Vest-
mannaeyjum. Hér stendur sam-
félagið saman og þeir sem þurfa að
takast á við áföll og erfiðleika eiga
vísan stuðning frá samborgurum sín-
um. Þá er mikill metnaður í skóla- og
íþróttastarfinu, leikfélagið virkt, tón-
listarlífið öflugt og nóg um að vera.“
Áhrifa eldgossins gætir enn
Lára kom í heiminn á fæðingardeild í
Vestmannaeyjum árið 1969 og var því
þriggja ára þegar eldgosið sneri öllu á
hvolf. Hún man mjög óljóst eftir þess-
um tíma, en sterkasta minningin er af
því að vera í pollagalla niðri í lest í
Danska Pétri á leið til Þorlákshafnar í
slæmu veðri. „Kannski að sú upplifun
hafi haft eitthvað með það að gera að
ég er mjög sjóhrædd manneskja í
dag.“
Hún segist ekki hafa áttað sig á því
fyrr en löngu síðar hve mikið áfall eld-
gosið var fyrir eyjarskeggja, og hve
mikill töggur var í þeim sem ákváðu að
snúa aftur út í Eyjar eftir að elds-
umbrotunum lauk. Hún man betur eft-
ir því þegar fjölskyldan flutti til baka,
einu og hálfu ári eftir að hafa flúið gos-
ið eins fljótt og hægt var. „Allt var svo
svart, dimmt og skrítið en á þessum
tíma var lítið um það að fólk talaði um
tilfinningar sínar og bæjarbúar
reyndu einfaldlega að byrja að láta líf-
ið ganga sinn vanagang. Ekki fyrr en
fjórum áratugum síðar heyrði ég sumt
eldra fólkið í bænum tala um það
hvernig því leið að þurfa að yfirgefa
heimili sín í skyndi og hve vont því
þótti að ekki hefði verið betur á móti
því tekið uppi á landi. Var misjafn-
lega tekið á móti fólki enda virtist al-
mennt misjafn skilningur lagður í
þessa reynslu eyjarskeggja. Á móður
mína hafði eldgosið svo djúpstæð
áhrif að hún fór aldrei upp á hraunið
og er mjög illa við það enn í dag.“
Frelsi og stuðningur
Lára á ekki ættir langt aftur í Vest-
mannaeyjum en á þó stóra fjölskyldu
í Eyjum. „Amma var úr Þykkva-
bænum, og afi undan fjöllunum og
komu þau saman til Eyja. Þau eign-
uðust átta börn, hann föður minn þar
á meðal, og eru sjö enn á lífi í dag,“
segir Lára, en ættinni hefur fylgt
mikið barnalán, og sjálf átti Lára tvo
bræður, skara frændsystkina og sjálf
á hún fjögur börn, fimm fósturbörn
og samtals sjö barnabörn. „Föður-
fjölskyldan mín er náin og í góðu
sambandi og stór hluti hennar er bú-
settur í Eyjum,“ bætir hún við.
Lára blómstraði í Eyjum og sýndi
snemma hæfileika á sviði hárgreiðslu.
Þorsteina Grétarsdóttir hárgreiðslu-
kona tók hana undir sinn verndar-
væng og fékk Lára sérstaka undan-
þágu frá menntamálaráðuneytinu til
að mega hefja starfsþjálfun strax í 10.
bekk. Fyrir vikið tókst henni að út-
skrifast frá Iðnskólanum í Reykjavík
aðeins 18 ára gömul. Jafnframt starf-
aði hún við hlið Guðbjargar Svein-
björnsdóttur í fjórtán ár. Var það
góður tími og jafnan líf og fjör á hár-
greiðslustofunni.
Hún minnist uppvaxtarára sem
einkenndust af frjálsræði og sem
unglingur leiddist Láru aldrei í Eyj-
um. „Það var alltaf mikið um að vera
og hægt að leika sér um alla eyjuna.
Svo þegar ég hafði aldur til mátti ég
skjótast upp á land á sveitaböll, en
fannst samt alltaf nóg í boði af hátíð-
um og skemmtunum, s.s. á sjó-
mannadegi, 17. júní, Jónsmessu og
Þjóðhátíð. Þá var nóg af vinnu í boði
og strax tólf ára gat ég nælt mér í
smá pening með því að vinna í fisk-
vinnslunni yfir sumarið.“
Árið 2004 lenti Lára í alvarlegu bíl-
slysi og þurfti að finna sér nýtt starf
sem færi betur með líkamann. Úr
varð að hún settist aftur á skólabekk,
lauk kennaraprófi 2007 og hefur
smám saman sérhæft sig í ensku-
kennslu. Hún nýtur sín í skólastarf-
inu, enda forréttindi að undirbúa
börn bæjarins fyrir lífið, milli þess
sem hún tekur þátt í pólitík, hjálpar
til í Leikfélagi Vestmannaeyja og
stýrir Rotary-klúbbnum.
Hvergi fundið svona gott samfélag
Ekkert fararsnið er á Láru og fjöl-
skyldu og hefur hún þegar prófað að
búa annars staðar um skeið; sem au
pair í Bandaríkjunum í eitt ár og í
fimmtán mánuði á Nýja-Sjálandi.
„Það besta við að fara í burtu er hvað
það er yndisleg tilfinning að koma aft-
ur heim,“ segir hún en tekur fram að
dvölin vestanhafs og hjá andfætling-
um hafi verið afskaplega ánægjuleg,
en það jafnist hreinlega enginn staður
á við Vestmannaeyjar. „Það er sam-
félagið og þessi mikla nánd á milli
íbúa sem erfitt er að finna annars
staðar.“
Það eina sem kannski mætti kvarta
yfir eru samgöngurnar milli lands og
Eyja og ekkert grín að vera sjó-
hræddur Vestmannaeyingur og þurfa
að sigla í þrjár klukkustundir til Þor-
lákshafnar. Lára lætur sig hlakka til
þess þegar búið verður að taka nýjan
Herjólf í notkun og leysa vanda
Landeyjahafnar svo að sigla megi
rakleiðis þangað flesta mánuði ársins,
enda siglingartíminn stuttur og ferða-
lagið því ekki eins erfitt fyrir sjó-
hrædda. Hún segist láta sig hafa það
að sigla til Þorlákshafnar ef mikið
liggur við, en sneiða hjá því að sigla ef
veðrið er ekki gott og nánast alveg út
úr myndinni að ráðast í ferðalagið
þangað frá nóvember fram í mars.
„Ég hef, af þessum sökum, stundum
þurft að sleppa því t.d. að sækja
skemmtileg námskeið eða viðburði í
landi og get ekki beðið eftir þeirri
samgöngubót sem felst í nýjum Herj-
ólfi.“ ai@mbl.is
Ljósmyndir/Óskar Pétur Friðriksson
Fannst alltaf nóg í boði í Eyjum
Lára Skæringsdóttir seg-
ir það hafa verið yndis-
lega tilfinningu að flytja
aftur heim til Eyja eftir
búsetu í Bandaríkjunum
og á Nýja-Sjálandi. Hún
er sjóhrædd og sér fram
á mun meira ferðafrelsi
með nýjum Herjólfi.
Frá hátíðahöldum í tilefni gosloka og 100 ára afmælis fyrr í sumar. Vestmannaeyingar kunna að gera sér glaðan dag.
Lára
Skæringsdóttir
„Það er samfélagið og þessi mikla nánd á
milli íbúa sem erfitt er að finna annars stað-
ar,“ segir Lára um heimabæinn. Bæjarbúar
fylgjast með útiviðburði í sumar.