Sveitarstjórnarmál

Volume

Sveitarstjórnarmál - 2019, Page 5

Sveitarstjórnarmál - 2019, Page 5
Það vill stundum gleymast að á Íslandi eru tvö stjórnsýslustig jafn rétthá. Það fengu sveitarfélögin enn og aftur að reyna nú nýlega, þegar formanni og framkvæmdastjóra sambandsins var tilkynnt að frysta ætti framlög í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga um tveggja ára skeið, samkvæmt tillögu fjármála- og efnahagsráðuneytisins að fjármálaáætlun ríkisins fyrir árin 2020-2024. Tekjutap sveitarfélaga af þeirri aðgerð árin 2020 og 2021 hefur verið áætlað samtals um 3,3 ma.kr. Bent hefur verið á að hálfu fjármála- og efnahagsráðuneytisins að um eðlilegt og sanngjarnt framlag væri að ræða af hálfu sveitarfélaganna vegna óvissunnar í efnahagsmálum. Virðist þá litlu skipta að tekjuskerðing hjá jöfnunarsjóði getur ekki leitt til annars en þjónustuskerðinga hjá þeim er síst skyldi, s.s. gagnvart fötluðu fólki og öðrum samfélagshópum í viðkvæmri stöðu. Þá getur efnahagsleg óvissa hjá sveitarfélögum vart talist minni en hjá ríkinu, m.a. vegna launahækkana í kjölfar yfirstandandi kjarasamninga og aflabrests sem hafa mun mjög alvarleg neikvæð áhrif á mörg sveitarfélög. Eins og komið hefur fram, hefur fjármálaráðherra undrast viðbrögð sambandsins og sveitarfélaga við þessari tillögu, sem var þó ekki kynnt eins og sveitarfélögin hefðu val, heldur sem orðnum hlut. Þessi aðgerð ríkisvaldsins ristir jafnframt mun dýpra en svo að málinu verði snúið upp í eitthvert hefðbundið karp. Að ríkisvaldið geti einhliða og fyrirvaralaust stillt skatttekjur sveitarfélaga af miðað við tímabundnar þarfir ríkissjóðs, er ekki boðlegt. Þessi vinnubrögð ganga í berhögg við þann samstarfsvilja sem ríkt hefur á milli ríkis og sveitarfélaga um sameiginlega stjórn opinberra fjármála, umbætur í opinberri þjónustu, fullfjármögnun verkefna og fækkun svonefndra grárra svæða. Ekki bætir úr skák, að ráðuneytið skuli yfirhöfuð hafa talið þessa leið færa á sama tíma og langvarandi og þrálát ummerki um vanfjármögnun sveitarstjórnarstigsins blasa við. Í því felst að sveitarfélögin geta ekki axlað 3,3 ma.kr. tekjuskerðingu, jafnvel ekki þótt niðurskurðurinn dreifist á tvö ár. Þessi staða í samvinnu ríkis og sveitarfélaga hefur valdið sveitarstjórnarmönnum, hringinn í kringum landið, miklum vonbrigðum. Allir ættu að vita að mikil vinna hefur verið lögð í að stilla saman strengi stjórnvalda í opinberum fjármálum. Þessi vinna fór fyrir alvöru af stað í kjölfar hrunsins og hefur skilað sér í betri yfirsýn og vandaðri hagstjórn. Um það eru flestir, ef ekki allir, sammála. Þá sæta áform sem þessi furðu, þar sem litlu skiptir fyrir heildaráhrifin á hagkerfið hvort útgjöld ríkis eða sveitarfélaga eiga í hlut. Að ríki og sveitarfélög séu á sömu blaðsíðunni í fjármálastjórninni, skiptir hins vegar öllu máli. Að lokum þetta: Eina skynsamlega ályktunin sem dregin verður af þessu öllu er, að fjármála- og efnahagsráðuneytinu hljóti að hafa orðið á og að hér séu mistök á ferðinni. Mistök þarf að leiðrétta og hvað þessi áform varðar þá hlýtur það að verða niðurstaðan. Verði það aftur á móti ekki reyndin bindum við hjá sambandinu vonir við að í þinglegri meðferð tillögunnar að fjármálaáætlun ríkisins verði þetta lagfært. Það má ekki gleymast að stjórnsýslustigin eru tvö og þau verða að hafa fjárhagslegt sjálfstæði til að standa undir þjónustuskyldum sínum um leið og allir eru meðvitaðir um ábyrgð sína varðandi hagstjórnina og þar vilja sveitarfélögin axla ábyrgð í góðri samvinnu við ríkisstjórn. FORYSTUGREIN Ríki og sveitarfélög þurfa að vera á sömu blaðsíðunni Aldís Hafsteinsdóttir formaður Okkar kjarna hugmyndafræði er að allir nemendur eiga að fá tækifæri til að hámarka sína hæfni. www.infomentor.is

x

Sveitarstjórnarmál

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Sveitarstjórnarmál
https://timarit.is/publication/1063

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.