Sveitarstjórnarmál


Sveitarstjórnarmál - 2019, Blaðsíða 25

Sveitarstjórnarmál - 2019, Blaðsíða 25
25 erum stolt af því að verðmætasköpun er mikil í Fjarðabyggð. Sveitarfélagið fór í mikla innviðauppbyggingu sem var forsenda þess að hér byggðist upp álver á sínum tíma. Á þessum tíma kom efnahagshrunið með öllum þeim áskorunum sem því fylgdi. Á sveitarfélaginu hvíla því talsverðar lánaskuldbindingar, en á móti kemur sterkur tekjugrunnur. Það er svo á tímum eins og þessum sem það kemur berlega í ljós, hversu mikilvægt það er að atvinnulífið byggi á fleiri stoðum en einni.“ Eitt öflugt sveitarfélag Að sögn Eydísar er gott að búa á Austurlandi. Ekkert sé þó sjálfgefið í þessum efnum og mikilvægt sé að íbúum landshlutans auðnist að standa saman. „Ég er fullviss um, að úti á landsbyggðinni er nándin meiri, bæði við samfélagið og náttúruna og stressið er minna. Baráttan snýst um að halda í þá þjónustu sem er til staðar og því meiri sem fjarlægðin er frá höfuðborgarsvæðinu, því meira skerðist opinber þjónusta. Við þurfum að berjast fyrir öllu sem við höfum, en vonandi herðir það og hjálpar okkur að sjá það sem skiptir máli í lífinu. Allt sem við gerum þurfum við að gera sjálf og það er því verulega gaman að sjá hversu blómlegt mannlífið er á Austurlandi.“ Hún segist af þessum ástæðum ofboðslega þakklát fyrir það mikla menningarlíf og fjölbreytta íþróttastarf sem fólkið fyrir austan nær að halda úti og hversu öflug samfélögin eru. „Ef okkur auðnast að standa saman þá held ég að við höfum öll tækifæri til að vinna áfram að öflugri uppbyggingu á okkar frábæra samfélagi á Austurlandi.“ Fjögur af sjö sveitarfélögum á Austurlandi eiga nú í sameiningarviðræðum eða Fljótsdalshérað, Borgarfjörður eystri, Seyðisfjörður og Djúpivogur. Varðandi æskilegan fjölda sveitarfélaga segist Eydís til framtíðar litið, sjá landshlutann fyrir sér sem eitt sameinað sveitarfélag. „Á Austurlandi búa ríflega 10.000 manns eða um 3% landsmanna. Ef þessir 10.000 íbúar stæðu saman og töluðu í takti værum við án efa sterkari. Við þurfum að hverfa af braut átaka og sundurlyndis og leggja á okkur það sem þarf til að ná samstöðu, áður en sameining getur orðið að veruleika. Við erum ekki á þeim stað í dag, en trú mín og von er sú að BJARTSÝN BARÁTTUKONA við séum á réttri leið. Unga fólkið kemur okkur á leiðarenda.“ Fjölkjarna sveitarfélag með sjö byggðarkjarna Hún segir margt mega læra af reynslu Fjarðabyggðar, fjölkjarna sveitarfélags sem varð til í nokkrum sameiningum á síðustu áratugum. Því fylgi að sjálfsögðu áskoranir að samþætta þarfir dreifðra byggða, en Fjarðabyggð spannar sjö firði með Mjóafjörð nyrstan og jafnframt eina minnstu byggð landsins. Þaðan rekur svo, suður með strandlengju Austfjarða, hver fjörðurinn annan eða Norðfjörður, Eskifjörður, Reyðarfjörður, Fáskrúðsfjörður og Stöðvarfjörður. Eftir sameiningu við Breiðdalshrepp á síðasta ári er Breiðdalur svo orðinn syðsti hluti sveitarfélagsins, sem er það fjölmennasta á Austurlandi með um 5.100 íbúa samtals. Það var ánægjuleg viðbót þegar Breiðdalshreppur varð hluti Fjarðabyggðar, sveitarfélagið stækkaði mikið landfræðilega og við bættist öflugur landbúnaður og ferðaþjónusta. „Ekkert fjölkjarna sveitarfélaga er byggt upp eins og Fjarðabyggð, með fjóra sambærilega bæjarkjarna og þrjá minni, þar af einn einangraðan samgöngulega stóran hluta ársins. Við lítum hins vegar á sveitarfélagið, ekki sem vandamál heldur einstakt tækifæri til að þjóna þessum fallegu bæjarkjörnum okkar. Hver kjarni hefur sína sérstöðu og það kemur í okkar hlut að styðja einstaka sérstöðu hvers og sjá til þess að hver bæjarkjarni blómstri á sínum forsendum.“ Að mati Eydísar er togstreita á milli einstakra bæjarkjarna eða byggðarlaga, jafnframt eðlilegur hluti af lífinu, ekki bara á Austurlandi heldur alls staðar. „Innan sveitarfélaga togast á einstök byggðarlög eða hverfi. Það er bara eðlilegt í ljósi þess að takmörkuð gæði eru til skiptana og það sama á við um sveitarfélög innbyrðis - sama hvert litið er. Aðalatriðið er að kjörnir fulltrúar, við sem fáum umboð samborgara okkar, missum ekki sjónar af því mikilvægasta, sem er að berjast fyrir bættum hag samfélagsins í heild sinni. Það eru öll sveitarfélög á landinu í sömu baráttunni. Kannski birtist togstreitan betur á landsbyggðinni, út af því að við erum í sífelldri varnarbaráttu fyrir því sem við höfum, á sama tíma og við verðum að berjast fyrir auknum lífsgæðum íbúanna okkar.“ Á sama hátt hallar mikið á sveitarfélögin í samskiptum við ríkið, sem er ekki boðlegt. „Það er ætíð verið að koma fleiri verkefnum frá ríkinu yfir á sveitarfélögin. Það er í sjálfu sér ekki slæmt, vegna þess að við viljum sinna nærþjónustunni vel. Það vill hins vegar alltof oft gleymast, að fjármagn verður að fylgja með ef leysa á verkefnin af hendi. Þess vegna er tímabært að endurskoða tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga.“ segir Eydís, Eydís í fundarherbergi bæjarráðs á bæjarskrifstofum Fjarðabyggðar.

x

Sveitarstjórnarmál

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Sveitarstjórnarmál
https://timarit.is/publication/1063

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.