Sveitarstjórnarmál - 2019, Blaðsíða 22
22
SVEITARSTJÓRNARMÁL
Gæði, þjónusta, ábyrgð - það er Tengi
Smiðjuvegi 76 • Kópavogi • Sími 414 1000 • Baldursnesi 6 • Akureyri • Sími 414 1050 • www.tengi.is • tengi@tengi.is
Opið virka daga frá kl. 8-18 og laugardaga kl. 10-15
OLÍUSKILJUR
• Þýsk gæði og hugvit
• Hægt að fá í mismunandi útfærslum
• Olíuskiljur í flokki II
• Áralöng reynsla
fyrir minni iðnaðargólf
Eydís Ásbjörnsdóttir tók á síðasta ári við
formennsku í bæjarráði Fjarðabyggðar,
fyrst kvenna og braut við það blað í sögu
sveitarfélagsins. Ekki voru það þó einu
sögulegu tíðindin úr þessu fjölmennasta
sveitarfélagi Austurlands, þar sem Eydís, sem
skipar fyrsta sæti Fjarðalistans, er jafnframt
fyrsta konan til að leiða bæjarmálasamtök í
Fjarðabyggð. Að sveitarstjórnarkosningum
loknum síðastliðið vor eftir sigur
Fjarðalistans, gerði hún sér síðan lítið fyrir og
fór fyrir myndun nýs meirihluta, eftir átta ára
setu í minnihluta.
Hún játar því, að sér hafi fundist
undarlegt að vera fyrsta konan til að leiða
bæjarmálaframboð í Fjarðabyggð og að það
hafi ekki gerst fyrr en árið 2018. Þessi rísandi
stjórnmálakona á Austfjörðum er enda
þekkt fyrir hógværð og rólynt fas. Þeir sem
þekkja Eydísi vel segja þó, að undir kyrrlátu
yfirborði leynist glerhörð jafnaðarkona
með mikla réttlætiskennd. Árangur hennar
í stjórnmálum megi rekja til þess, að hún
vandi vel valið á þeim orustum sem hún
ákveður að taka.
Hlakkar til að takast á við spennandi
og krefjandi starf
„Formennskan í bæjarráðinu leggst vel í mig,
þetta er spennandi og krefjandi starf,“ segir
Eydís sem leiðir ásamt forseta bæjarstjórnar,
Jóni Birni Hákonarsyni, nýjan meirihluta
Fjarðalistans og Framsóknarflokksins í
Fjarðabyggð. „Ég hlakka til að starfa með
fjölbreyttum og sterkum hópi fólks, sem
er reiðubúinn að leggja mikið á sig fyrir
samfélagið okkar.“
Eydís segist alltaf hafa haft mikinn
áhuga á bæði félagsstörfum og
sveitarstjórnarmálum. „Ég vil láta gott
af mér leiða og valdi að fara þessa leið.
Skemmtilegast við sveitarstjórnarmálin eru
áskoranirnar, að ögra sjálfum sér. Þá kynnist
maður mörgu frábæru fólki með alls konar
skoðanir og myndar tengsl, sem er mér
afar dýrmætt.“ Spurð að því hvort og þá
hvað henni leiðist við stjórnmálin, svarar
Eydís að bragði: „Óheiðarleiki, ekki bara í
stjórnmálum heldur í lífinu almennt. Þá
hverfur allt traust um leið.“
Nýi meirihlutinn náði fljótlega saman
að kosningum loknum og segir
Eydís að það megi þakka góðum
undirbúningi Fjarðalistans fyrir
sveitarstjórnarkosningarnar. Fyrir vikið
gekk hún ásamt félögum sínum til
meirihlutaviðræðna með afar skýrt
málefnaumboð. „Framsóknarflokkurinn
reyndist reiðubúinn í þessa vegferð með
okkur. Við horfum bjartsýn fram á veginn og
tökum samhent þeim áskorunum sem verða
á okkar leið,“ segir hún og brosir.
Á meðal þess sem nýi meirihlutinn vinnur
að er umhverfisstefna Fjarðabyggðar til
fjögurra ára. „Einnig er verið er að vinna að
endurskoðun og nýrri stefnumörkun fyrir
fræðslu- og frístundamál sveitarfélagsins.
Þetta er mikil vinna sem á vonandi eftir að
halda áfram að efla sveitarfélagið“
Bjartsýn baráttukona
Eydís hefur setið í bæjarstjórn Fjarðabyggðar
frá árinu 2010. Hún tekur alvarlega það
umboð sem kjósendur hafa treyst henni fyrir
og segist stefna ótrauð að betri heimi, með
aukin jöfnuð og velferð að leiðarljósi. „Ég
hef alltaf haft mikinn áhuga á félagsstörfum
og stjórnarmálum. Ég vil láta gott af mér
leiða í samfélaginu okkar og valdi því
að fara þessa leið. Ég hef gott og traust
bakland, sem er forsenda þess að geta
starfað á hinum pólitíska vettvangi.“ svarar
hún hispurslaust, spurð um upphafið að
stjórnmálaþátttökunni hjá sér.
Samhliða setu sinni í bæjarstjórn
Fjarðabyggðar, hefur Eydís gegnt
ýmsum trúnaðarstörfum á vettvangi
sveitarfélaganna, s.s. í stjórn Lánasjóðs
sveitarfélaga, Hafnasambands Íslands,
Starfsendurhæfingar Austurlands og
Vaxtasamnings Austurlands. Það vita svo
eflaust færri, að henni voru upphaflega
ætluð allt önnur örlög en að alast upp á
Austfjörðum. Foreldrar Eydísar, Ásbjörn
Guðjónsson og Guðrún Valgerður
Friðriksdóttur, eru fædd og uppalin í
Vestmannaeyjum, en í kjölfar eldgossins í
Heimaey tók fjölskyldan sig upp og fluttist
austur á firði. Skömmu síðar eða um sumarið
1973, fæddist Eydís og ólst upp á Eskifirði.
Þar býr hún nú með eiginmanni sínum,
Kristjáni Svavarssyni, umhverfistækni hjá
Alcoa og tveimur yngstu sonunum. Barnalán
er mikið á bænum, en Eydís á Ásbjörn, 25
ára, Andrés, 24 ára og Pálma sem er 12 ára
og stjúpbörnin Þórhildi, 31 árs og Svavar
Kristján, 24 ára.
Málefnasamningur meirihlutans (Fjarðalistans og Framsóknarflokks) undirritaður í júní 2018. Á
myndinni eru: Pálína Margeirsdóttir, Sigurður Ólafsson, Hjördís Helga Seljan Þóroddsdóttir og Einar Már
Sigurðarson í efri röð. Fyrir framan eru þau Jón Björn Hákonarson og Eydís Ásbjörnsdóttir.
Eydís með syni sínum, Pálma Kristjánssyni, við
opnun Norðfjarðarganga þann 11. nóvember
2017.