Sveitarstjórnarmál - 2019, Blaðsíða 36
36
Grétar Ingi Erlendsson háði sína fyrstu
kosningabaráttu í fyrravor og hefur þessi
ungi nýliði vakið verðskuldaða athygli
á vettvangi sveitarstjórnarmálanna í
Sveitarfélaginu Ölfusi. Ekki var hann þó á
leiðinni í pólitík þegar hann ákvað að slá
til í aðdraganda kosninganna. „Í sannleika
sagt þá var ég alls ekkert á leiðinni út í
sveitarstjórnarmál, þó að ég hafi lengi
haft mikinn áhuga á þeim og haft sterkar
skoðanir á málefnum sem lúta þar að,“
viðurkennir Grétar glaðlega.
Eftir að hafa fengið vingjarnlega
hrindingu frá vinum og vandamönnum
ákvað hann að lokum að slá til og sér
alls ekki eftir því. Fátt sé meira gefandi
en að fá að vera virkur þátttakandi í
uppbyggingu síns sveitarfélags. En átti
hann von á að komast inn? „Ég vonaði
það að minnsta kosti en það fór alveg eftir
dagsforminu hverju sinni. Undir lokin var
ég þó nokkuð viss um að komast inn þar
sem að ég átti mjög mörg samtöl við íbúa
sveitarfélagsins sem öll voru gríðarlega
jákvæð. Ég átti hins vegar ekki von á
meirihluta kosningu. Það var hressandi
upplifun.“
Að gera gott samfélag betra er helsta
keppikeflið hans og segist Grétar þess
vegna forðast að hengja sig í einstök
málefni. „Sveitastjórnarfólk verður að
geta sett á sig marga hatta og sinnt
öllum málefnum af alúð. Blessunarlega
er maður umkringdur góðu fólki,
bæði í bæjarstjórn og svo auðvitað
starfsmönnum sveitarfélagsins, sem allir
eru boðnir og búnir að veita handleiðslu í
hinu og þessu.“
Margt hefur þannig lagst á eitt um að
gera stjórnmálaþátttökuna að frábærri
upplifun hjá Grétari. „Enn fremur er ég svo
heppinn að búa í sveitarfélagi sem hefur
óþrjótandi tækifæri. Hver dagur hefur
upp á eitthvað nýtt að bjóða og auk þess
hef ég kynnst frábæru fólki í gegnum
starfið sem ég mun búa að til frambúðar.“
Þessi nýi reynsluheimur hefur þó einnig
haft á sér óvæntar hliðar. „Það sem
kom mér helst á óvart var vinnuálagið.
Málin eru fjölbreytt og spennandi en
á sama tíma gríðarlega krefjandi. Eins
og frægt er orðið hér í Þorlákshöfn þá
var mér sagt af góðum manni að þetta
væri ekkert mál, þetta væru bara tveir
fundir í mánuði. Það reyndist ekki alveg
rétt og gleymdist algjörlega að nefna
öll nefndar- og stjórnarstörfin sem
nauðsynlegt er að sinna. Á móti kemur að
bæjarfulltrúastarfið er mun skemmtilegra
en ég þorði nokkurn tímann að vona.“
Um helstu málin þetta kjörtímabilið
segir Grétar að þau séu að sjálfsögðu
áframhaldandi uppbygging hafnarinnar
í Þorlákshöfn, veitumálin í dreif- og
þéttbýli, atvinnumálin og svo málefni
aldraðra. „Enginn veit svo hvað framtíðin
ber í skauti sér, en miðað við hversu hratt
hlutirnir hafa gerst fram á þessu, þá óttast
ég helst að enda á Alþingi,“ segir hann
um framtíðarplönin hjá sér að þessu
kjörtímabili loknu og brosir.
Mun skemmtilegra
en ég þorði að vona
Grétar Ingi Erlendsson, bæjarfulltrúi í Sveitarfélaginu Ölfusi
Síðasta orðið
Síðasta orðið birtir stutt viðtöl við
sveitarstjórnarfólk um lífið og tilveruna í
sveitarstjórn.
Grétar Ingi Erlendsson, bæjarfulltrúi í
Sveitarfélaginu Ölfusi.