Brautin - 15.12.1999, Blaðsíða 11

Brautin - 15.12.1999, Blaðsíða 11
BRAUTIN 11 Engillinn Jólasaga eftir Kristmann Guðmundsson Þessi litla saga er 1940 ára gömul. En eigi að síður gæti hún gerzt enn þann dag í dag - og ætíð meðan góð böm og gott fólk kunna að biðja Guð sinn um hjálp og lækningu við því, sem að þeim gengur. Jæja, sagan gerðist í lítilli borg á stærð við Akureyri, í landi sem nú heitir Israel. Borgin stóð við stórt vatn undir lágum hæðum, og í útjaðri hennar var lítið hús í dálitlum garði. Húsið var aðeins eitt herbergi, sem í senn var dagstofa, svefnherbergi og eld- hús, því að hjónin sem áttu það voru fátæk. En garðurinn kringum það var býsna fallegur, og þar uxu nokkur ávaxtatré, döðlupálmar og olífuviður, auk fíkjutrjáa, berjarunna og blóma, því þetta land var ákaflega frjósamt. Hjónin, sem þarna bjuggu áttu sjö ára gamla telpu, er hét Sara, og morguninn, sem þessi saga gerðist, sat hún úti í einu horni garðsins, er sneri að götunni, en þar óx einmitt mikið af rauðum draumasóleyjum, og hún var að horfa á þessi fallegu blóm. En hún gaf líka gaum að krökkum á hennar aldri, sem voru að leika sér hinum megin við götuna - og hana langaði mikið til að vera með í þeim hópi. En sá hængur var á að þessi litla telpa var mesti aumingi til heilsunnar. Hún hafði orðið fyrir slysi, þriggja ára gömul, þannig að annar fóturinn á henni var styttri en hinn, svo að hún var draghölt og gat alls ekki hlaupið. En auk þess hafði hún fengið bólusótt á unglingsaldri, og eftir það var hún útsteypt í mjög Ijótum örum um allan líkamann og andlitið. Og það sem verra var: þessi ör vildu ekki gróa, svo oft vall úr þeim gröftur og vilsa. Af þeim sökum verkaði aumingja litla stúlkan talsvert óhugnarlega á annað fólk, ekki sízt bömin. Það er auðvitað ljótt að hrekja frá sér lítil börn, sem eru eitthvað veik og eiga bágt, og góðir krakkar gera það náttúrlega ekki. En því miður eru ekki öll börn góð, og sum eru líka kjánar, sem skilja ekki hvað þau eru að gera undir slíkum kringumstæðum. Og fyrir bragðið var þessi litla stúlka fjarska einmana.Ef hún fór út á götuna og reyndi að fara í leik með jafnöldrum sínum, þá gerðu vondu krakkarnir hróp að henni og sögðu að hún væri ljót og andstyggileg og ráku hana burtu. - Ljót var hún nú reyndar alls ekki, því að þrátt fyir bóluörin hafði hún hreinan og fagran svip, liðað, kolsvart hár, og stór, falleg augu sem voru þó oftast dapurleg, því að henni leið sjaldanst vel. Nálega eina yndi hennar var að horfa á blómin í garðinum. Og sem hún sat þama í horninu hjá rauðu draumasóleyjunum þennan morgun, þá sá hún allt í einu sérkennilegan mann koma gangandi eftir götunni. Hann var klæddur hvítum kyrtli, hávax- inn, með gulljarpt hár niður á herðar og mjög bjartan svip. Henni varð starsýnt á hann, því að henni fannst hann svo falleg- ur - hún hafði aldrei séð jafnfall- egan mann. - Mamma hennar hafði sagt henni frá englunum, og henni datt strax í hug að þetta væri kannski einn af þeim. Hann fór séi' hægt og rólega, var ekkert að flýta sér, eins og flest- ir aðrir, virtist djúpt hugsi, en var þó góð legur og hýr, og telpan tók strax eftir því, hvað hann hafði fögur og dimm Ijóm- andi augu. Hún starði á hann, meðan hann nálgaðist hægt og hægt, unz hann var kominn á móts við hana, hinum megin við lágu grjóthleðsluna milli garðsins og götunnar. Þar nam hann staðar, leit á hana og brosti til hennar. Og nú sannfærðist hún hreint og beint um að þetta væri raunverulega engill, því að hún hafði aldrei séð nokkra manneskju brosa svona fallega. Það var eins og andlitið á honum ljómaði af hvítri og gullinni birtu. Góðleikinn í svip hans kom henni til að gleyma öllu öðru, og þess vegna varð hún ekkert feimin við hann, þegar hann heilsaði henni og spurði hvað hún héti. „Eg heiti Sara,“ svaraði hún. „Og ég er sjö ára.“ „Hvers vegna ert þú ein hérna, barnið mitt?“ spurði hann þá, og hún tók eftir því, hvað hann hafði mildan og huggandi mál- róm. „Af hverju ertu ekki að leika þér við hina krakkana?" Þá varð litla stúlkan mjög döpur á svipinn, en áður hafði hún brosað alveg ósjálfrátt við ókunna manninum. „Þau vilja ekki leika við mig,“ anzaði hún niðurlút. „Það er af því að ég er svo ljót. Svo er ég líka hölt og get ekkert hlaupið.“ „Ertu ljót?“ sagði ókunni maðurinn undrandi og brosið hans verð eilítið glettið. „Ekki get ég séð það. Mér finnst þú vera falleg lítil stúlka.“ Þá varð telpan heldur betur hissa, því að hún hafði aldrei heyrt neinn segja þetta fyrr. Hún leit upp til hans og spurði, dálítið snaggaralega, því að henni datt í hug, að hann væri kannski að gera gys að henni: „Sérðu þá ekki bóluörin alls staðar á mér - þau er með versta móti í dag, af því að ég var of lengi úti í sólarhitanum í gær. Og sjáðu svo bara hvað annar fóturinn á mér er styttri en hinn.“ „Jú,“ sagði maðurinn í hvíta kyrtlinum. „Eg sé þetta hvort- tveggja. En ég sé þig líka eins og Guð sér þig; Hann hefur skapað þig og honum finnst þú falleg.“ Nú gekk alveg fram af Söru litlu. Hún starði á manninn, stei- ni lostin af undrun. „Já, en,“ stamaði hún. „Öllum öðrum finnst ég ljót - og mér sjálfri líka. Eg hef nefnilega speglað mig í Kapernaumlindinni 0£ það var ósköp að sjá mig. Eg er hreint ekkert hissa á því þó krakkarnir vilji ekki hafa mig með sér. Mér þykir líka best að horfa á allt sem er fallegt og leiðist allt sem er ljótt, svo ég skil þau bara vel.“ Maðurinn varð nú alvarlegur á svipinn og horfði um stund þegjandi á telpuna. Loks mælti hann: „Hefurðu aldrei beðið Guð að lækna þig og gera þig heilbrigða?“ „Jú,“ svaraði Sara litla. „Það hef ég svo sannarlega. Og ég held líka að hann geri það ein- hvern tíma. Já, ég er nærri viss um það, enda þótt pabbi og mamma segi að það sé víst ekki hægt. Þau hafa farið með mig til prestanna og þeir hafa lagt hendur fyrir mig og reynt að hjálpa mér. En þeir hafa líka sagt að ég muni sennilega aldrei fá bót á þessu, það sé þannig lagað. Samt bið ég nú Guð á hverjum degi að lækna mig, og því hætti ég aldrei, hvað sem hver segir.“ „Þú heldur þá að hann geti það, jafnvel þótt foreldrar þínir og prestarnir séu á öðru máli?“ spurði ókunni maðurinn. „Já,“ svaraði telpan, róleg og ákveðin. „Eg er alveg viss um að hann getur læknað mig, en það er náttúrlega ekki víst að ég hafi unnið til þess; ég er stun- dum að hugsa um það. Reyndar hef ég víst aldrei gert mikið illt af mér - og þó - stundum svolítið óhlýðin við hana mömmu, en ég hef líka alltaf beðið hann að fyrirgefa mér það. - Nei, ég veit ekki hvort ég á það skilið, en stundum finnst mér hvíslaði ofurlágt í eyrað á mér, einkum þegar ég er að sofna á kvöldin: Eg mun lækna þig, ég mun lækna þig. Þess vegna er ég nærri viss um að hann gerir það einhvern tíma. - Veiztu hvað: þegar ég vakna á morgnana, þá þreifa ég alltaf framan í mig, til að vita, skilur- ðu. En æ, það eru ætíð sömu örin og vilsan. - og ekkert lengist fóturinn á mér heldur. En samt - einhvern tíma - já, ein- hver tíma -.“ Ókunni maðurinn brosti. Svo steig hann yfir lága grjótgarðinn og gekk til telpunnar. Hún sá brosljómann á andliti hans og þo var hann alvarlegur á svipinn. „Já,“ sagði hann. „Eg held lfka að Guð bæði geti og vilji lækna þig. En hvað myndir þú gera fyrir hann í staðinn, ef hann gerði það?“ „Eg myndi náttúrlega reyna að vera góð stúlka,“ anzaði Sara litla. „ Og ég myndi alveg áreiðanlega aldrei vera vond við þá sem eiga bágt, því að ég veit hvað manni getur sárnað það ósköp mikið.“ Maðurinn í hvíta kyrtlinum varð nú fjarska alvarlegur í bragði. Hann kraup á annað kné sitt fyrir framan telpuna, horfði á hana andartak með Ijómandi augum sínum oglagði svo aðra hönd sína á kollinn á henni. „Verði þér að trú þinni, góða barn,“ mælti hann mildum rómi. Þau horfðust í augu andartak, og telpan fann undarlegan titring fara um allan líkama sinn. Og nú sá hún greinilega ljómann hvíta og gullna um höfuð mannsins. Á þessari stundu var hann var svo fallegur að hún varð enn sannfærðari um hann væri engill. Svo reis hann á fætur, brosti til hennar og steig aftur yfir lága grjótgarðinn út á götuna. I þeim svifum kom móðir telpunnar út úr húsinu og kallaði á hana: „Komdu nú inn, Sara mín,“ sgði hún. „Þú hefur ekki gott af því að vera úti í hádegishitanum.“ Sara litla stökk á fætur - og hún varð þess alls ekki vör í fyrstunni að báðir fætur hennar voru orðnir jafnlangir; hún hljóp í spretti heim að húsinu. „Mamma!“ hrópaði hún. „Mamma - það kom engill og talaði við mig! Ja, ég held að það hafi verið engill, hann var svo fallegur. Sjáðu, hann er þarna ennþá!“ Móðirin leit út á götuna, þar sem maðurinn í hvíta kyrtlinum fjarlægðist hægum skrefum, og það brá fyrir brosi á andliti hennar. „Engill! sagði hún. „Eg sé nú ekki betur en að þetta sé hann Jesús Jósefsson smiður, fra'Nasaret, sem var héma um árið með bræðrum sínum að byggja samkunduhúsið. Það er annras orðið langt síðan hann var hér á ferð.“ Svo leit hún á dóttur sína, og í sama bili náflölnaði hún og riðaði, eins og ætlaði að hníga niður. Því að þetta var nfnilega ekki halta Ijóta og bólugrafna telpan hennar, sem henni þótti þrátt fyir allt svo vænt um. Nei, þarna fyrir framan hana stóð yndisfagurt, alheilt barn, með ljósbrúnt fallegt og lýtalaust andlit. Hún ljómaði öll af heil- brigði og gleði, horfði á móður sína og sagði: „Eg er nærri viss um að þetta var enginn - eða heldurðu, mamma - heldurðu kannski að það hafi verið Guð - sjálfur?" Góð heilsa gulli betri Sendum Vestmannaeyingum bestu óskir um gleðilegjól farsælt komandi ár HEILSUSTOFNUN N.F.L.Í. HVERAGERÐI

x

Brautin

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Brautin
https://timarit.is/publication/1411

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.