Morgunblaðið - 28.10.2019, Blaðsíða 15
15
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 28. OKTÓBER 2019
Mjá Eins og sannkallaður hefðarköttur var þessi krúttlegi kisi um helgina borinn um bæinn af bláklæddri stúlku.
Eggert
Á nýafstöðnum fundi
borgarstjórnar Reykja-
víkur, sem settur var kl.
14 hinn 15. október sl.,
var samþykkt, með 12
atkvæðum gegn 11,
samkomulag sem rík-
isstjórn Vinstri grænna,
Framsóknarflokksins
og Sjálfstæðisflokksins
gerði við bæjarstjóra
Sjálfstæðisflokksins á
höfuðborgarsvæðinu og
borgarstjóra Samfylkingarinnar og
varðar samgöngumál.
Þáttaskil í loftslagsmálum?
Í bókunum fundar borgarstjórnar
er ítrekað minnst á hve mikil þátta-
skil hafa orðið með því að samþykkja
þennan sáttmála. Þessi sáttmáli á
víst að leysa loftslagsmál fyrir Ísland
allt.
Það mætti halda að verið væri að
framkvæma e.k. kraftaverk. Þar ger-
ast guðlausir fyrst trúaðir. Það er
gott ef satt er en eftir stendur að
framkvæmdir eru ekki hafnar og nið-
urstaða varðandi kostnað, áhættu og
árangur liggur ekki fyrir.
Mosfellsbær skilinn
útundan – brotin loforð
Lykilatriði fyrir Mosfellinga er að
Sundabraut komist í gagnið og losi
bæjarfélagið sem fyrst
undan umferðarþunga
sem eykst ár frá ári. Þó
svo að bæjarbúum í
Mosfellsbæ hafi verið
lofað að losna við
flöskuháls á Vestur-
landsvegi verður eng-
inn stokkur gerður í
gegnum bæinn sem
margoft hefur verið lof-
að svo sameina megi
hverfi hans og auka
lífsgæði bæjarbúa.
Bæjarstjórinn í Mos-
fellsbæ, ásamt fáeinum
sjálfstæðismönnum og borgarstjóra
Samfylkingarinnar, ritaði engu að
síður undir viljayfirlýsingu árið 2018
þess efnis að Sundabraut yrði sleppt.
Allir í skipulagsnefnd bæjarins, frá
nýlega afstöðnum fundi þeirrar
nefndar, fjölluðu um mikilvægi lagn-
ingu Sundabrautar.
Þegar litið er til borgarlínu, eins
ágæt og hún kann að vera, mætir þar
Mosfellsbær einnig afgangi. Kemur
þessi lína seint og um síðir í bæinn.
Þetta er miður og lýsir máttleysinu.
Bæjarstjórinn hefur því miður sýnt
linkind.
Sundabraut mætir afgangi
Þeir vita það sem neyðast til að
sitja í umferðarteppu að þar eru al-
menningsvagnar einnig fastir og
brenna flestir olíu á meðan vinstri-
menn og fáeinir villuráfandi sjálf-
stæðismenn, ásamt sýnishorni af
Framsókn reyndar, leitast við að
flækja málin.
Á meðan bíðum við öll enn í um-
ferðarteppu næstu árin, undir álagi
og getum ekki sótt börnin á réttum
tíma til að dvelja lengur með þeim
heima við.
Allt í boði framangreindra snill-
inga. Nú segir meirihlutinn í Mos-
fellsbæ, sem og fáeinir aðrir í póli-
tískri tilvistarkreppu, að allt þetta sé
gert fyrir „komandi kynslóðir“.
Sundabraut frá 1984
Árið 1984 komst Sundabraut á að-
alskipulag Reykjavíkur. Það var árið
þegar lagið „When Doves Cry“ með
Prince var á toppnum á Billboard-
listanum og Tina Turner vermdi ann-
að sætið með laginu „What’s Love
Got To Do With It“.
Það var árið 1984 sem Salóme Þor-
kelsdóttir, fv. þingmaður Mosfell-
inga, sagði eftirfarandi í ræðustól á
Alþingi 11. desember: „Nú er unnið
að svæðaskipulagi fyrir höfuðborgar-
svæðið á vegum Samtaka sveitarfé-
laga á höfuðborgarsvæðinu sem tek-
ur til þróunar þessa svæðis á
mörgum sviðum næstu 20 ár. Mik-
ilvægt er að samræmd áætlun um al-
menningssamgöngur verði hluti af
þessari stefnumótun.“ Það var þá
sem Sundabraut var hluti af þessari
sniðmynd.
Árið 1994 var hafist handa við að
koma lagningu Sundabrautar í far-
veg og þá á vakt Sjálfstæðisflokksins
í borginni. Þessum áformum hafa
vinstrimenn raskað með því að skipu-
leggja hverfið Vogabyggð með þeim
hætti að útiloka besta kostinn við
lagningu þessa mikilvæga sam-
göngumannvirkis. Nú kórónar for-
ysta Sjálfstæðisflokksins þetta með
því að sneiða algjörlega hjá skynsem-
inni.
Áhættumat ekkert
í nýjum áformum
Á bæjarstjórnarfundi í Mosfellsbæ
16. október sl. fór fram fyrri umræða
um þetta verkefni er varðar sam-
göngubætur á höfuðborgarsvæðinu.
Í meðfylgjandi gögnum er engin
skýrsla um áhættumat á fram-
kvæmdum draumsýnarinnar. Líkur
eru á að svo hafi einnig verið þegar
málið var tekið fyrir í borgarstjórn
Reykjavíkur.
Hvað um fjárhagslega áhættu
verkefnisins? Hvar er greiningin á
því? Þessi stærðargráða, sem hér um
ræðir, skiptir milljarðatugum. Í raun
ætti að geta um þessa áhættu í riti
Seðlabanka Íslands varðandi fjár-
málastöðugleika enda gætu skulda-
bréf bæði ríkis og sveitarfélaga farið
á alla vegu lendi verkefnið fjárhags-
lega undir vatni.
Hvað um framkvæmdaáhættu?
Hún er hvergi tilgreind þrátt fyrir
ábendingar um slíka áhættu og aðra
áhættuþætti í greinum fagfólks sem
tekur þátt í opinberri umræðu um
borgarlínur og samgöngur almennt.
Vanbúið áhættusamt verkefni
Mál þetta allt er vanbúið, bæði í
hendur kjörinna fulltrúa og til al-
mennings. Því er spurning hvort ekki
sé verið að brjóta 10. grein Stjórn-
sýslulaga nr. 37/1993 varðandi það
sem segir í greinargerð með frum-
varpinu sem síðar varð að fram-
angreindum lögum.
Þar segir m.a. um 10. grein: „Í
rannsóknarreglunni felst m.a. sú
skylda stjórnvalds að sjá til þess, að
eigin frumkvæði, að málsatvik stjórn-
sýslumáls séu nægjanlega upplýst
áður en ákvörðun er tekin í því.“
Því bókaði greinarhöfundur ósk
sína um að slík áhættugreining á
verkefninu yrði unnin áður en farið
yrði í síðari umræðu.
Þetta mál allt er óvandað og í
ógöngum.
Eftir Svein Óskar
Sigurðsson » Þetta segir nú meiri-
hlutinn í Mosfellsbæ,
sem og fáeinir aðrir í
pólitískri tilvistarkreppu,
að sé allt gert fyrir
„komandi kynslóðir“.
Sveinn Óskar
Sigurðsson
Höfundur er bæjarfulltrúi Miðflokks-
ins í Mosfellsbæ og 1. varaforseti
bæjarstjórnar Mosfellsbæjar.
Samgöngur í ógöngum og Mosfellsbær útundan
Tæknibreytingar skapa okk-
ur ný tækifæri en skapa á
sama tíma nýjar ógnir. Allir
kannast við hin svokölluðu Níg-
eríubréf, en þau eru hreinn
barnaleikur í samanburði við
þær háþróuðu aðferðir sem
netþrjótar nota nú til að reyna
að hafa fé af fólki og fyrir-
tækjum í gegnum netið. Þetta á
ekki bara við um tilraunir til
fjársvika heldur eru óprúttnir
aðilar að reyna að stela gögn-
um og jafnvel taka niður fyrir-
tæki og vefi. Það eru fjölmörg
dæmi um að vefir fyrirtækja
hafi legið niðri tímabundið.
Fyrir sum fyrirtæki fer stærsti
hlutinn af viðskiptunum nú
fram í gegnum vefi þeirra
þannig að það getur verið dýrt
spaug.
Sumir telja að stríð framtíð-
arinnar verði ekki rekin með
vopnum, heldur í gegnum vefinn. Slíkar árásir muni ekki
bara beinast gegn hinu opinbera heldur eru fyrirtæki sem
eru hluti af mikilvægum innviðum landa, eins og fjár-
mála-, fjarskipta-, samgöngu- og orkufyrirtæki, einnig í
hættu. Öll stærstu fyrirtæki landsins eru á tánum í þess-
um efnum en við þurfum með fræðslu að styðja betur við
minni fyrirtæki sem hafa ekki sama bolmagn og þekkingu
til að takast á við þessa hluti. Það er enginn óhultur.
Það er engin skömm að því að verða fyrir barðinu á há-
þróuðum fjársvikamönnum á netinu, ekki frekar en að
menn þurfi að skammast sín fyrir að það sé brotist inn
heima hjá þeim. En, rétt eins og við getum gert ýmislegt
til að minnka líkur á því að það verði brotist inn heima
hjá okkur, þá geta fyrirtæki gert ýmislegt til að koma í
veg fyrir að þau verði fyrir barðinu á netárásum. Í þeirri
viðleitni að stuðla að aukinni fræðslu um þetta efni hafa
Samtök atvinnulífsins og samgöngu- og sveitarstjórn-
arráðuneytið ákveðið að loka evrópska netöryggis-
mánuðinum með fundi um netógnir sem steðja að íslensk-
um fyrirtækjum á Grand hótel klukkan 8.30 á
fimmtudagsmorgun. Þar mun háttsettur stjórnandi hjá
Norsk Hydro segja frá alvarlegri árás sem þau urðu fyrir,
sagt verður frá því hvernig fræðasamfélagið getur hjálpað
fyrirtækjum og hvernig íslenskir bankar standa að þess-
um málum.
Það geta verið erfiðir tímar á öld sem var gerð fyrir
tæki, ekki fyrir hjörtu, eins og skáldið sagði. Við þurfum
að gera allt sem í okkar valdi stendur til að gera okkur þá
ögn bærilegri.
Eftir Halldór Benjamín
Þorbergsson
» Sumir telja
að stríð
framtíðarinnar
verði ekki rekin
með vopnum,
heldur í gegnum
vefinn.
Halldór Benjamín
Þorbergsson
Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Geta netárásir
fellt fyrirtæki?