Morgunblaðið - Sunnudagur - 06.10.2019, Blaðsíða 17

Morgunblaðið - Sunnudagur - 06.10.2019, Blaðsíða 17
Marie Le Pen, forystumaður Þjóðfylkingarinnar, komst því í fyrsta sinn í lokaslaginn og „neyddust“ því stuðningsmenn sósíalista til að kjósa Chirac sem ill- skárri kost. Þótt hann fengi rúm 80 prósent at- kvæðanna var staða hans nú veik. Hann reyndi að styrkja hana með því að hlaupa frá stuðningi við Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra í atlögunni gegn Saddam Hussein. Það hafði ætíð þótt veikur blettur á Chirac að vingast um of við einræðisherra með engan lýðræðis- legan bakgrunn og þess háttar samband hafði verið við Saddam Hussein. Þrálátur orðrómur var að auki um að einræðisherrann hefði lætt að forsetanum vel- vildarfé sem svaraði til hálfs milljarðs íslenskra króna. Það verður þó að teljast ósannað. Forsetinn seldi svo Hussein kjarnorkuver, sem Ísr- ael laskaði verulega með fyrirbyggjandi loftárásum sínum. Á síðustu pólitísku metrunum voru franskir dómstólar að gera forsetanum fyrrverandi lífið leitt og enduðu með því að dæma hann til tveggja ára skil- orðsbundinnar fangavistar, en Chirac var þá langt leiddur af sjúkdómum, meðal annars elliglöpum. Þessi tilþrif rannsóknardómstóla urðu þó ekki til þess að forsetinn fengi ekki fullan sóma af ríkisins hálfu þegar kom að útför hans. Fyrsti forseti 5. lýðveldisins, og annað stjórnmála- stórmennið af tveimur, á eftir Napóleon, í franskri sögu, snuðaði hið opinbera um stórfenglega útför sem honum hefði örugglega staðið til boða og var jarðaður nánast í kyrrþey samkvæmt fyrirmælum hans. Það var aldrei áhættulaust að hunsa fyrirmæli hershöfð- ingjans og það var ekki heldur gert í þessu tilviki. Smælki úr minningabanka Eins og fyrr segir á bréfritari margar minningar af kynnum við Jacques Chirac á langri leið. Sjálfur sagði hann einu sinni efnislega þegar þessir áttu tveggja manna tal. „Lýðræðisskipulagið leiðir til þess að þeir menn sem maður kynnist í alþjóðlegu samstarfi koma og fara. Það er gott og blessað og ekki skal amast við því. En við tveir erum alltaf til staðar. Það er ósköp þægilegt að geta gengið að minnsta kosti að einum manni vísum, hvort sem maður er borg- arstjóri, forsætisráðherra eða forseti.“ Og þetta var rétt. Við hittumst alloft í Hotel de Ville, stundum á fundum, en stundum í dýrðlegum fögnuði í þessu ráðhúsi Parísar. Dýrindis rauðvíni var hellt í glös en um leið og fjölmiðlar voru á braut var glas borgarstjórans fjarlægt og komið með glas með Cor- ona, mexíkönskum bjór, ef rétt er munað. Reyndar hafði Kohl kanslari sama hátt á og þeir báðir voru sólgnir í léttreyktar pylsur eða þunnt niðurskornar skinkusneiðar eða annað af því tagi. Sjálfsagt hefur áhætta kanslarans ekki verið jafnmikil og forsetans hvað rauðvínið varðar. Minnisblöð voru gjarnan skrifuð í kjölfar mikilvægra alþjóðlegra funda og fjölluðu þau um þau mál sem efst voru á baugi í veröldinni þá stundina. En utan funda og ræðuhalda urðu stundum eftirminnileg atvik sem engu skiptu þó um framþróun mannkyns (svo maður gerist hátíðlegur). Eitt sinn eftir leiðtogafund í París þar sem fundað var á efsta þrepi leiðtoga Nato og Rússa var kvöldverðarboð í Élysée-höllinni fögru. Þar gekk allt fyrir sig með hefðbundnum hætti hvað gamla leikþátt- inn um rauðvínið varðaði. Þegar sal hafði verið lokað hófst tal yfir hið stóra hringborð þar sem setið var yfir kræsingum. Það voru ógleymanlegar efnislegar umræður. En öðru hvoru var skálað fyrir smáu eða stóru og stjórnaði gestgjaf- inn því að sjálfsögðu. Einhverjir makar höfðu fylgt sínum leiðtogum til Parísar, en voru ekki á þessum „vinnukvöldverði“. Þannig hafði Hillary Clinton fylgt Bill til Parísar. Frakklandforseta þótti því sjálfsagt og tilhlýðilegt að skála fyrir bandarísku forsetafrúnni fjarstaddri. Var það gert með kostum. Fljótlega hallaði aðstoðar- maður gestgjafans sér að honum og hvíslaði í eyra hans. Í kjölfarið sagði Chirac að sér hefði verið bent á að önnur forsetafrú væri í París, frú Yeltzín, og nú skyldum við skála fyrir henni með jafn góðum óskum og fyrir Hillary rétt áðan. Allir litlu drengirnir teygðu sig í staupið sitt og lyftu því en þá var sagt „niet“ með þrumurödd. Staupin stöðvuðust öll mislangt frá vörum hvers og eins. Hvað, sagði gestgjafinn á sínu máli og var þýtt. „Niet“ sagði Yeltzín aftur og bætti (efnislega) við: „Þegar ég var skorinn upp við hjartabilun nýverið þá lét sú kona sig hafa það að sofa á sitt græna eyra á meðan ég lá undir hnífnum. Það kemur ekki til greina að skála fyrir slíkri kerlu, þótt fjarri heimahögum séum.“ Og staupin sigu í átt að borðinu og nokkur stund leið áður en nokkur teldi rétt að teygja sig í þau á ný, uns gestgjafinn fann nýtt og óumdeilt tilefni. Fleira sögu- legt gerðist í þessu hátignarboði en ekki eru efni til að rifja það upp að svo stöddu. Margbrotinn maður Chirac átti sér margvísleg hugðarefni auk stjórnmál- anna og var hann þannig mikill áhugamaður um kín- verska sögu, list landsins og menningu og þótti þekk- ingu hans á öllum þeim þáttum viðbrugðið. Það kom því ekki á óvart þegar Xi Jinping forseti Kína minntist forsetans fyrrverandi með mikilli hlýju og að kínverskir miðlar gerðu mjög mikið úr fráfalli hans og útför. Það var stundum haft á orði að Jacques Chirac hefði skipt oftar um meiriháttar skoðanir í stjórnmálum en hann skipti um meiriháttar hjákonur. Um þetta seinna hafa öfundarmenn hans sjálfsagt ýkt en það var dálítið til í hinu fyrra. En bréfritara þykir vænt um allar þær minningar sem hann á um þann mann og á að auki í safni sínu margar myndir af þessum tveimur frá ýmsum skeið- um og ýmsum stöðum sem skerpa þær. Fari hann vel. Morgunblaðið/Eggert ’Jacques Chirac var mjög hlýr maður íviðkynningu og léttur í framgöngu oggæddur kímnigáfu sem var hvorki ögrandi néuppáþrengjandi. Hann naut þess að skiptast á skoðunum og umgangast fólk, svo hann naut lengi velvildar almennings. 6.10. 2019 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 17

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.