Morgunblaðið - 11.12.2019, Qupperneq 29

Morgunblaðið - 11.12.2019, Qupperneq 29
MENNING 29 MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 11. DESEMBER 2019 Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is Heimurinn sem brot úr heild er heiti áhugaverðrar sýningar með verkum myndlistarmannanna Önnu Jóa og Gústavs Geirs Bollasonar sem stend- ur yfir í Listasafni Árnesinga í Hveragerði. Henni lýkur um næstu helgi og eru því síðustu forvöð að sjá hana en sýningarstjóri er Jóhannes Dagsson, sem er bæði menntaður í myndlist og heimspeki. Útgangspunktur sýningarinnar er teikningin en báðir vinna listamenn- irnir þó í fleiri miðla sem tengjast þeim hugmyndum sem sýningin byggist á. Í texta sem fylgdi sýning- unni úr hlaði segir Jóhannes að á henni séu vísbendingar um „heima sem eru persónulegir, heima sem innihalda aðrar athafnir en þær sem við erum vön að lifa, heima sem eru liðnir, heima sem hafa ekki ennþá hafist. Brotin eru skynjanleg og í gegnum skynjun okkar á þeim verð- ur til aðgengi, brotakennd leið. Þetta eru ekki heimar búnir til úr hug- tökum eða óhlutbundnum for- skriftum eða formúlum, heldur höf- um við hér tækifæri til að reyna á eigin skinni, í gegnum skynjun og veru, drög að heimi“. Tilheyra heimi menningarinnar Anna og Gústav Geir stunduðu bæði framhaldsnám í Frakklandi að loknu námi við MHÍ og hafa bæði lagt sitt af mörkum til að koma myndlist annarra á framfæri. Anna var meðstofnandi og umsjónarmaður Gallerís Skugga og hefur verið list- gagnrýnandi, meðal annars hér á Morgunblaðinu, og stundakennari í listfræði. Gústav Geir er einn af stofnendum listrýmisins Verksmiðj- unnar á Hjalteyri og rekur hana. Þau hafa bæði átt verk á fjölmörgum sýn- ingum, innanlands og erlendis. Anna segir að á þessari sýningu séu verk sem hún hafi unnið að síð- ustu árin og hafi sprottið af skyn- rænni snertingu við efni og munstur á stöðum þar sem hún hefur dvalið og í hversdagslegum veruleika. Um sé að ræða litblýantsteikningar, vatns- litaverk, nokkur olíumálverk, leir- verk og ljóðræna texta. „Þetta teng- ist allt efnislegum hlutum. Formi þeirra, ásýnd og brotakenndri merk- ingu sem má lesa út úr þeim.“ Hún segir efnistök þeirra Gústavs Geirs ólík en þau eigi sameiginlegt að vinna með fundna hluti sem eru brot úr stærri heild. „Þessi brot tilheyra heimi menningarinnar en hafa ratað aftur út í náttúruna, hafa velkst þar um og brotnað niður. Það er ákveðinn lykill að sýningunni að þessi brot verða á vegi okkar beggja á mörkum menningar og náttúru. Brotin sem ég hef fundið öðlast nýja merkingu í myndrænni túlkun sem byggist á fagurfræðilegri og hugmyndalegri könnun.“ Gústav Geir kveðst sýna ólík verk, skúlptúra, teikningar og stuttmyndir, sem spretti þó af sama grunni. Skúlp- túrana segir hann sitja á óljósum mörkum, svo áhorfendur átti sig ekki alltaf á því hvort um áhöld eða skúlp- túra sé að ræða. „Sumir þeira hafa ákveðið notagildi og einhverjir hafa verið lengi utandyra og hafa verið hluti af umhverfi og lífi,“ segir hann. „Þeir eru settir saman sem listaverk en við að vera úti í náttúrunni verður lífríki til í þeim.“ Anna segir stóran hluta sinna verka á sýningunni sóttan í safn postulíns- og leirbrota sem hún hefur rekist á í fjörum undanfarinn áratug en í slíkum gönguferðum hafi hún veitt þessum menningarteiknum at- hygli. „Ég fór að horfa á postulíns- brot sem fundin málverk, vegna myndmálsins á yfirborði þeirra. Brot- in kveikja ýmiskonar minningar og hugrenningar, eins og hvaðan þau komi, brot sem höfðu áður notagildi, og hvers vegna þau hafi lent í hafinu og orðið aftur hluti af náttúrunni.“ Postulínsbrotin segist Anna bæði hafa fundið í fjörugöngum á suður- strönd Íslands og á strönd Vancou- ver-eyju við Kanada vestanvert, þar sem hún dvaldi um hríð. Þannig tengi þessi verk á sinn brotakennda hátt saman tvær eyjar og tvö höf og bygg- ist í senn á staðarkennd og hreyfan- leika. „Máluð blómin og munstrin á brotunum verða hluti af lífríki fjör- unnar en til verður breytilegur merk- ingarheimur sem ég kanna í minni myndrænu túlkun.“ Vitnisburður um tengsl Gústav Geir segir teikningar sínar á sýningunni gerðar með blýanti og trélitum og vera nokkuð abstrakt en þær kvikni út frá hugmyndum um líf- ræna framþróun í rústum. Hann kalli þær „Svipi“. Þá séu stuttmyndirnar frá síðustu þremur árum, þær séu ekki línulegar heldur brotakenndar og margræðar – en öll tengist verkin og fjalla á sinn hátt um tímann og hringrásina. Anna talar líka um hringrás merk- ingar og ummerkin um manninn í náttúrunni. „Form postulínsbrota þar sem maður gengur fram á þau í nátt- úrunni minnir til að mynda á fjöll og jökla sem kveikir þanka um um- hverfismál en einnig listasöguna. Brotin eru vitnisburður um menn- ingartengsl, áhrif hnattvæðingar og fjöldaframleiðslu. Samtímis er hvert brot einstakt, í efnisleika sínum og þeirri merkingu sem það tekur á sig í huga hvers og eins í nýju samhengi. Ég er að þreifa á þeirri merkingu,“ segir hún að lokum. Svipir Ein teikninga Gústavs Geirs, um lífræna framþróun í rústum. Þreifað á merkingu brotanna  Verk eftir Önnu Jóa og Gústav Geir Bollason á sýningu í Listasafni Árnesinga  Fjölbreytileg verk en þau vinna með fundna hluti sem eru brot úr stærri heild Merkingarheimur Anna Jóa. Á mörkum Gústav Geir Bollason. . Postulínsbrot Önnu Hluti af gvassverkinu „Rocky Mountains“. ICQC 2020-2022 Nánari upplýsingar um sýningartíma á sambíó.is

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.