Morgunblaðið - 04.12.2019, Side 6
6 MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 4. DESEMBER 2019FRÉTTIR
Ný tegund skemmtistaða hefur ver-
ið að ryðja sér til rúms víða erlend-
is á síðustu árum. Um er að ræða
sambland hefðbundinnar ölstofu eða
veitingastaðar og íþróttaiðkunar.
Úrval svona staða hefur einnig
verið að aukast hér á landi. Auk
keiluhalla og snóker-/púlstaða, er
t.d. væntanleg MiniGolf veröldin
sem Sigmar Vilhjálmsson hyggst
opna í Skútuvogi. Þá opnaði Golf-
klúbburinn í Holtagörðum dyr sínar
í fyrsta sinn fyrir tveimur árum.
Viggó Viggósson, framkvæmda-
stjóri og einn eigenda Golfklúbbs-
ins, segir í samtali við Viðskipta-
Moggann að þessari tískubylgju
hafi vaxið mikið ásmegin á síðustu
árum. Golfhermastaðir hafi vissu-
lega verið til í áratugi en þá fyrst
og fremst hugsaðir fyrir kylfinga.
Viggó bætir við að hann hafi mögu-
lega verið með þeim fyrstu í heimi
til að fá hugmyndina um veitinga-
/skemmtistað með golfhermum.
Hugmyndin hafi þó ekki orðið að
veruleika hjá honum fyrr en árið
2017 með opnun Golfklúbbsins. Þar
er hægt að spila golf á 66 mismun-
andi golfvöllum í fimm golfhermum,
borða og drekka og skemmta sér
um leið.
„Þetta er mjög vaxandi tegund af
skemmtistöðum, og eru Bretar leið-
andi á þessu sviði. Þar í landi má
finna allskonar staði; borðtennis-,
púl-, þythokkí- og pílustaði svo eitt-
hvað sé nefnt. Svo auðvitað keilu-
hallirnar sem flestir þekkja,“ segir
Viggó.
Topgolf sótt af milljónum
Þá segir hann að fyrirtækið
Topgolf sé sem dæmi orðið gríðar-
lega vinsælt í Bandaríkjunum og
Bretlandi, en tugir milljóna manna
sækja æfingasvæði þess utanhúss
á hverju ári, spila golfleiki og
skemmta sér um leið. „Það má
segja að Topgolf hafi brotið ísinn
og sýnt fram á að fólk sem ekkert
kann í golfi hefur mjög gaman af
því að fara í golfleiki. Topgolf er
að opna innanhússstaði núna, sam-
bærilega mínum stað. Þeir eiga
örugglega eftir að ganga vel. Það
eru miklar hræringar í bransanum
og undanfarin ár hefur allur bún-
aður sem nýtist í golfherma verið
að batna mikið. Sem dæmi um
áreiðanleika golfherma þá er varla
nokkur atvinnukylfingur í dag sem
ekki æfir með slíkum búnaði. Þar
fæst enda mun betri tölfræði út úr
æfingunum, og hægt er að taka
myndbönd af sveiflunni og skoða
hana frá öllum sjónarhornum.
Höggnemar og tölvusjón hafa
þróast mjög hratt og hefur gjör-
breytt gæðum búnaðarins.“
Fáir höfðu trú á verkefninu
Viggó segir að hugmyndin að
Golfklúbbnum hafi upphaflega
fæðst á árunum fyrir hrun, en
erfiðlega hafi gengið að fá fjár-
festa í lið með sér. Fáir hafi haft
trú á verkefninu. Að lokum ákvað
hann að láta slag standa og opna í
Holtagörðum. „Ég var með þeim
fyrstu í heiminum til að opna
svona stað – þ.e. veitinga-/
skemmtistað með golfhermum.
Fyrst þegar ég fékk hugmyndina
féllust mér hendur því hermarnir
höfðu ekki náð þeim þroska sem
ég taldi og vildi, en svo fleygði
tækninni fram. Ég vildi opna stað
þar sem fólk, bæði vanir kylfingar
og almenningur sem aldrei hefur
farið í golf, myndi upplifa golf
sem hreina skemmtun, og fá
tækifæri til að koma og hafa gam-
an af. Fólki fannst hugmyndin
skrýtin í upphafi því mörgum
finnst golf óaðgengilegt, en að
mínu mati er þetta bara leikur
sem allir geta spilað og skemmt
sér í.“
Fleiri staðir á leiðinni
Viggó útilokar ekki að opna
fleiri staði hér á landi. „Ég hef
viðrað ákveðnar hugmyndir um
það, en rekstur veitingahúsa er
ekki góður á Íslandi núna. Menn
þora ekki að snerta á svona hug-
myndum eins og staðan er í dag.
Það hamlar för.“
Mögulega fyrstur með hugmyndina
Þóroddur Bjarnason
tobj@mbl.is
Ný tegund skemmtistaða
hefur verið að ryðja sér til
rúms bæði hér á landi og
annars staðar.
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Viggó segir að fólki hafi fundist hugmyndin skrýtin í upphafi því mörgum finnist golf óaðgengilegt.