Feykir


Feykir - 17.01.2018, Blaðsíða 7

Feykir - 17.01.2018, Blaðsíða 7
Myndir í vinnslu. fór ég að læra um frumlitina og að teikna frumformin og þess háttar sem manni þótti jafnvel hálfskrýtið þegar maður var 13 ára, að vera að teikna þríhyrninga og kúlur og svona. En svo fékk ég Jóhann Briem sem kennara í landsprófi í Reykjavík og hann skipaði mér hér um bil að fara í námið. Ég var alltaf með 10 í einkunn þar en ég held það hafi verið ósköp auðvelt því þetta voru svo óvinsælir tíma svo ef einhverjir einn eða tveir höfðu áhuga þá var manni borgið.,“ segir Helgi og hlær við. „En svo var þetta bara bein braut eftir það, ég fór að vísu eitt ár í Verslunarskólann vegna þess að ég komst ekki inn fyrst en það var bara biðtími svo ég þyrfti ekki að fara að vinna á höfninni eða eitthvað svoleiðis. Og eftir það var ég bara í þessum skólum í níu ár, í þessum svokölluðu æðri myndlistarskólum,“ segir Helgi sem stundaði nám í myndlist í tveimur skólum í Hollandi eftir að hafa lokið námi í Myndlistar- og handíðaskóla Íslands. Margar sýningar framundan Helgi hefur verið afkastamikill listamaður um dagana og hafa verk hans verið á sýningum víða um heim. Helgi segist í rauninni vinna mest í Evrópu en öðru hvoru í Bandaríkjunum og stundum jafnvel í Kína þó það sé meira tilfallandi. Framundan er safnasýning sem byrjar nú um miðjan apríl í Danmörku. „Við erum fjórir saman, með tveimur látnum listamönnum. Sú sýning fer svo til Kína og kannski Þýskalands. Sýningin er í tengslum við tvo látna listamenn sem voru fæddir á miðri 19. öldinni, annar þeirra var mjög þekktur danskur listamaður sem hét Willumsen og svo annar kínverskur, mjög þekktur. Sýningin byggir á því að sýna verk eftir okkur með verkum sem þeir unnu þegar þeir voru á okkar aldri. Svo verður eitthvað spunnið í kringum það. Hugmyndin er þessi miðaldra listamaður vegna þess að oftast er mest spennan í kringum þá ungu og svo kannski aftur þegar menn eru orðnir gamlir. Við erum þarna þrír, Dani, Þjóðverji og ég, sem höfum sýnt svolítið saman en svo er þarna Kínverji, jafnaldri okkar, með í þessu þannig að þetta er fjölþjóðlegt.“ Og fylgið þið þá sýningunum eftir? „Í þessu tilfelli þá gerum við alltaf installasjónir [innsetningar] saman, það er að segja, við tökum einhvern ákveðinn vegg og vinnum verk á hann. Svo er ég er að fara að sýna í Noregi um svipað leyti líka. Það er svona mælst til þess að maður fari með en ég reyni að velja úr hvað þarf, ef maður er einn eða með fáum þá er það frekar en ef það eru hópsýningar. En þetta er oft gott því þá sé ég þessa menn sem eru að sýna úti og kynnist þeim og þess háttar.“ Þrenningin er algeng í myndum Helga. Blaðamanni leikur forvitni á að vita hvernig sýningarstaðir eru ákveðnir og hvort það sé að frumkvæði listamannsins sjálfs? „Það eru yfirleitt sýningarstjórar sem hafa samband, alltaf í mínu tilfelli, ég hef aldrei verið að reyna að ýta þessu neitt. En hins vegar er mjög misjafn peningur í þessu og oft þarf maður að borga með. Og heimamenn eiga mestan hluta markaðarins úti nema þú sért verulega frægur þannig að það er aldrei nema maður rétt lafi af þessu. Það er auðvitað alltaf hægt að sækja um styrki en það er mjög takmarkað. Ég er að sýna hvað eftir annað fyrir Ísland úti og það er meira að segja oft basl. Ég hef fengið listamannalaun fjórum eða fimm sinnum yfir starfsævina þannig að þetta er nú mikið minna en margir halda, alla vega þessir sem eru alltaf að kvarta, ég er ekkert viss um að þeir séu svo margir, heldur bara hávaðasamir. Ég er stundum alveg hissa á hvað fólk lætur út úr sér á Facebook til dæmis.“ Helgi hefur mest lagt stund á málaralist á listferli sínum en stundar einnig leirlist. Fyrir nokkrum árum dvaldi hann heilan vetur í Hollandi þar sem hann vann að gerð leirskúlptúra þar sem hann segist í fyrsta sinn hafa gert stór verk, kannski 2,5 metra á hæð, ólíkt því sem hann hefur getað á vinnustofu sinni sem eru flestir ekki nema um hálfur metri. Nú í september stendur til að Helgi sýni 17 litla leirskúlptúra í Belgrad Biennale. En hvað ertu helst að fást við þessa dagana? „Þessi sýning sem byrjar í Silkiborg og ég var að tala um áðan, hún þarf mjög mikið magn af myndum. Þetta byggist upp á verkum unnum á pappír, ég er hvort eð er alltaf að vinna þannig, og ef það bætist eitthvað við sem mig langar til að hafa þá fer ég með það en að öðru leyti er það búið. Í Belgrad verð ég með 365 olíuteikningar á A4 pappír, þær voru hugsaðar alveg frá því að vera minnstu skissur yfir í að vera kláraðar myndir. Myndröðin byggist á að myndirnar eru jafnmargar og dagarnir í árinu og tók nokkur ár að gera og er unnin á árunum 2010-13. Hún fer öll út þannig að þetta er svolítið mikið og svo fara líka 17 skúlptúrar. Svo var ég að pakka inn verkum sem fara til Noregs. En það er erfitt að vinna myndlist undir pressu og ég kann illa við það. Þegar ég var á Feneyja Biennalnum 1990 þá voru mér boðnar sjö einkasýningar í einu svo það lá við að mér féllust hendur, en svo fóru eiginlega öll galleríin á hausinn. Það var þarna svolítil kreppa í listheiminum. En það er ekki gott að vinna svona undir álagi. Samt er gott að setja sjálfum sér markmið, eins og til dæmis serían með eina mynd á dag, þá hefur maður það til að stefna að.“ Sækir hugmyndirnar víða En hvernig er vinnudagurinn hjá þér, vinnurður bara venjulegan vinnutíma? „Já, ef ekki meira. Ég er venjulega byrjaður að vinna svona fimm á morgnana, fer svo í sund klukkan sjö og held svo áfram og er til svona fimm eða sex á daginn, kannski með göngutúrum á milli. Allir atvinnumenn sem ég þekki eru vinnudýr, þvert ofan í það sem ég held að almenningur haldi. Þeir eru flestir sívinnandi, það eru svo margir hér á Íslandi sem þurfa að hafa lifibrauð sitt af þessu. Ég er sjálfur líka að kenna stundum. Ég var að ljúka við bók sem heitir 33 artists, 33 acts. Allir þessir 33 listamenn hafa helling af aðstoðarmönnum, t.d. Damian Hirst sem er með 250 aðstoðarmenn,“ segir Helgi. „Maður gerir sér einhvern veginn ekki grein fyrir hvernig þetta er. Þetta á kannski ekki við um þessa almennu listamenn en það sýnir auðvitað að þetta er ójafn leikur ef verið er að hugsa um magn, en list er ekki beinlínis magnið eða neitt svoleiðis.“ Aðspurður segist Helgi sækja sér efnivið í hér um bil hvað sem er og segir einn kostinn við að temja sér reglulegan vinnutíma vera að þá vinni hann sig inn í innblásturinn á hverjum degi. „Ég held nú að í raun og veru sé það hluti af því sem kallað er innblástur, maður er að vinna og þá koma ljósglamparnir öðru hvoru. Þetta er líka mikið fólgið í lestri og ýmsu þess háttar, lestur og fréttir og svona hafa talsverða innkomu í mína list og það er kannski augsýnilegra á minni myndunum sem eru á mörkum þess að vera skissur.“ Sem dæmi um verkefni segist Helgi vera að vinna að langri myndröð sem hann segir að muni halda áfram fram í rauðan dauðann. Verkið, sem nefnist Heim felst í því að hann er að mála öll heimili sem hann hefur búið á. „Ég er langt frá því að vera búinn en hef lokið við alla sveitina í Dölunum og Stykkishólm. Ég mála á litlar krossviðsplötur sem er stillt upp á stöpla og síðast þegar þeir voru sýndir í Listasafni Kópavogs voru þeir nálægt hundrað og fylltu alveg heilan sal. Þetta er hugsað svolítið eins og skógur,“ segir Helgi. Krossviðarplöturnar standa á plexigleri sem gefur pínulitla speglun eins og gler, annars vegar sýnir hún herbergin í húsunum sem hann hefur búið í og hinum megin eitthvert landslag eða eitthvað úr umhverfinu. „Ég á eftir allar íbúðirnar sem ég hef búið í í Reykjavík,“ bætir hann við. „Svo er það skrýtið en þegar ég var að vinna við leirgerð í Hollandi fyrir stuttu þá fór ég og heimsótti þessi tvö hús sem ég hef búið í þar og það var bara eins og fólk væri skelfingu lostið. En ef maður bankar upp á hér þá er fólk bara ánægt. Þetta sýnir svona svolítinn menningarmun kannski. Þannig að ég ætlaði að ná þessum tveimur húsum þegar ég var þennan vetur í Hollandi en tókst það ekki. Ég fæ kannski myndir þaðan eða eitthvað, verð með einhver spjót úti,“ en Helgi dvelur í húsunum ef hann getur meðan hann málar en lætur sér annars nægja að taka ljósmyndir eða hraðskissa myndirnar upp. Í haust opnaði Helgi list- sýningu á heimili sínu á Hofsósi en hann á gallerí sem hann nefnir Gallerí ganginn og var sýningin sett upp á ganginum heima hjá Helga en einnig á gangi vinnustofu hans í Reykjavík. Á sýningunni eru verk eftir listamanninn Yuri Rodekin sem er Rússi, búsettur í Austurríki. Til stendur að verk eftir fleiri listamenn fái að prýða veggi gangsins á næstunni. Helgi segir að þrátt fyrir smæð samfélagsins á Hofsósi hafi verið góð mæting á opnunina, hátt í 30 manns. „Það er ekkert megin markmið hjá mér að það komi margir, það er bara fínt að menn komi og sjái þetta. Þetta er aðallega gaman fyrir mig og opnanirnar eru alltaf skemmtilegar, hvort sem það eru 5 eða 50,“ segir Helgi lítillátur. Það er að sjálfsögðu ekki hægt að skilja við listamann sem hefur unnið víða út um hinn stóra heim án þess að spyrja hvernig sé fyrir listskaparann að búa á eins litlum stað og Hofsós er. Svarið er ósköp hæverskt: „Eins og ég sagði þá er ég vanur litlum stöðum, ef þú ert að tala um það, og ég er með vinnustofu á Fellsströndinni og ég hef líka unnið á Grænlandi. Mér líður bara vel alls staðar þar sem ég er,“ segir myndlistarmaðurinn Helgi Þorgils að lokum. 03/2018 7

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.