Feykir


Feykir - 30.05.2018, Blaðsíða 11

Feykir - 30.05.2018, Blaðsíða 11
Árni Birgir hætti á sjónum og gerðist vert Í land eftir 30 ár á sjó Hann var sjómaður dáðadrengur en drabbari eins og gengur, segir í þekktu kvæði Ragnars Jóhannessonar og á það vel við vertinn á Grandanum á Sauðárkróki, Árna Birgi Ragnarsson. Hann fór ungur á vertíð, vann bæði í landi og á sjó og sjómennskan varð hans aðalstarf þangað til hann snéri kvæði sínu í kross og gerðist gistihúss- og kráareigandi á Sauðárkróki. Feykir fékk Árna Birgi til að rifja upp sjómannslífið og ástæðu þess að hann ákvað að hætta á sjónum. „Ég fór á vertíð í janúar 1976 til Grindavíkur á netabát með Jóni Steinbjörns á Hafsteinsstöðum og var þar í fimm mánuði. Kom svo heim um miðjan maí og fór þá á eldgamla Hegranesið, það fyrsta. Sverrir hét hann sem var með þann bát, kallaður Eplarauður,“ segir Árni og heldur áfram upptalningunni á áhöfninni. „Það voru skraut- legir kallar um borð; Kalli Kobba, Lalli Kobba, Tryggvi á Sauðá, Binni Rafns og Djóki náttúrulega. Það var helvíti mikið drukkið í landlegum,“ rifjar Árni upp og hlær. Árni var ekki orðinn 18 ára þegar hann fór til Grindavíkur en náði þeim aldri á Nesinu þar sem hann var í eitt ár. Þá lá leiðin til Vestmannaeyja þar sem hann dvaldi í nærri tvö ár. „Ég vann í frystihúsi, Vinnslu- stöðinni, og svo seinni vertíðina var ég á sjó, á netabát. Kom svo heim um sumarið ´78 og fór á Drangey með Gvendi Árna, þá japönsku, og var þar til ´81. Fór þá og múraði aðeins með pabba og Halla á Hamri þegar verið var að reisa steinullarverk- smiðjuna. Svo fór ég á Hegra- nesið ´83 um vorið með Júlla skipstjóra. Þá var nýbúið að lengja það. Þar var ég alveg til 1990 en fór þá aftur í land og fór að múra með gamla en þá var verið að byggja hótelið í Varmahlíð og var alveg þangað til það kláraðist, ´91 minnir mig.“ Sá gamli sem Árni nefnir er Ragnar Guðmundsson múr- ari eða Raggi Skíði eins og hann er einnig kallaður eftir Skíða- stöðum þar sem hann bjó lengi. Árni heldur upprifjuninni áfram: „Svo fór ég á Drangeyna með Bjössa Jónasar, fórum í Smuguna. Þar vorum við að fletja og salta, mokfiskirí en ekkert út úr því að hafa. Ekkert nema vinna,“ segir hann og útskýrir það þannig að útgerðin hafi ákveðið verðið sjálf og ekki verið að hafa það of hátt. Árni var á Drangey til ársins ´95 um veturinn en þá fór hann á Málmeyna sem kom sama ár til Sauðárkróks á sjómanna- daginn og er enn í eigu Fisk Seafood. Þar var hann til ársins 2006 en þá slasaðist Árni og náði sér ekki eftir það. Fór hann aldrei aftur á frystitogara en sem kokkur fór Árni á Sighvat frá Grindavík með Skagfirðingnum Halldóri Gestssyni árið 2013 en hætti svo í desember í fyrra þegar þau hjónin, Árni og Sigríður Magnúsdóttir, Sigga Magg, keyptu Micro bar and bed á Aðalgötunni á Króknum. Árni segir að mikil breyting hafi orðið í öryggismálum sjómanna undanfarin ár enda fer enginn út á dekk öðruvísi en með hjálm og allir í beltum og líflínum en þegar Árni var að byrja var hann bara með derhúfuna á hausnum og í bússum. „Það þótti nóg,“ segir Árni sem segir mikið hafa breyst með sjómannaskólanum í Sæbjörgu en þangað fara allir sjómenn á fimm ára fresti. Fullyrðir Árni að slysum og dauðsföllum hafi snarlega fækkað á sjó og þakkar það því framtaki. Dauðaleggurinn festist Þrátt fyrir auknar öryggiskröfur á sjó er ekki hægt að koma í veg fyrir öll slys og það fékk Árni að reyna. „Það var nú bara í blíðuveðri. Við vorum að taka síðasta hollið þegar dauðalegg- urinn festist undir hlera og ég ætlaði að rykkja í hann en þá datt hlerinn niður og ég fékk hann í öxlina og fékk mikinn slink. Það brotnaði upp úr viðbeininu og rifnaði upp. Ég fór í aðgerð loksins þegar maður komst, þremur árum seinna. Þá var mér sagt að það væru helmingslíkur á því að ég jafnaði mig. Enda var það raunin, ég er að drepast í þessu enn þann dag í dag,“ segir Árni sem þrátt fyrir allt er sáttur við sjómannsferilinn enda margt skemmtilegt sem á daga hans hefur drifið. „Já, og siglingarnar stóðu upp úr á sínum tíma, bæði til Englands og Þýska- lands. Þá var maður yfirleitt vel birgur af öllu,“ segir hann brosandi og útskýrir að þá sé hann að tala um fleira en áfengi. Það var allt keypt til heimilisins, heimilistæki og fleira enda miklu ódýrara en gerðist á Íslandi. Árni segist ekki hafa lent í neinum sjávarháska en rifjar þó upp atvik þegar brot reið yfir skipið sem hann var á. „Fengum einu sinni helvítis hrotta brot á Málmeynni sem lagði hana nánast alveg á hliðina. Það splundruðust gluggarnir í setustofunni og sjór fór niður um allt. Það var þó nokkuð tjón.“ Árni segist hafa verið í koju ásamt fleirum og menn hafi flogið úr þeim við atganginn. Sem betur fer sluppu allir með skrekkinn utan einn sem slasaðist nokkuð. Sem dæmi um þann kraft sem var í þessu broti segir Árni að þeir hafi verið með hákarl bundinn upp á rekkverkið á bakborða. Brotið kemur á afturhluta brúarinnar og aftur fyrir og hákarlinn er fyrir framan spilið. „Hann sleit rekkverkið í burtu og fór þvert yfir skipið og lenti á flott- rollshlera sem var þvílíkt keðjaður og með járnkrókum sem eru skrúfaðir að og festir. Hákarlinn lendir á hleranum og spýtti honum í sjóinn. Einn djöfulsins hákarl! Það hefur ekki verið neitt smá fart á helvítinu. Þeir sem voru uppi voru nýkomnir niður, annars hefði getað orðið slys þar.“ Sáttur við að vera kominn í land Nú er Árni kominn í land og farinn að reka bar og gistihús, Grandann, sem áður hét Micro eins og áður er getið. Aðspurður um hvernig það hafi komið til segir hann að um gamlan draum hafi verið að ræða hjá þeim hjónum. „Við vorum búin að tala um þetta í nokkur ár og Sigga hafði spurt Árna, eiganda Micro, hvort hann vildi ekki selja, sem var ekki. Svo allt í einu hringir hann og spurði hvort við hefðum verið að meina þetta og hún hélt það nú. Svo að við slógum til og keyptum í desember síðast- liðnum,“ segir Árni en um er að ræða gistihús með fimm tveggja manna herbergjum. Hann segir sæmilegt búið að vera að gera í vetur og sumarið að verða fullbókað svo von er til að það verði góð nýting í sumar. Árni segist líka það vel að vera orðinn vert og ætlar hann að hafa opið sem mest í sumar á Grandanum. Áður en spjalli okkar er lokið segist hann vilja óska sjómönnum til hamingju með daginn og ætlar hann að skemmta sér með þeim í Miðgarði á laugardagskvöldið en þar verður mikið húllum hæ fyrir alla sem mæta. Árni Birgir fyrir utan Grandann sem hann og Sigga kona hans keyptu í desember í fyrra. MYND: SIGGA MAGG Ungur Árni á sjó, berhöfðaður og í bússum. MYND: INGÓLFUR GUÐMUNDSSON 21/2018 11

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.