Feykir


Feykir - 11.07.2018, Blaðsíða 7

Feykir - 11.07.2018, Blaðsíða 7
við útskrift, sem var sérstaklega fyrir skiptinemana, fyrir góðan námsárangur. Það sem Margret Rún vissi ekki þá var að hún var með hæstu lokaeinkunnina af 313 nemendum sem einnig voru að útskrifast. „Ég vissi reyndar ekki að ég hefði verið hæst allra en fjölskyldan mín hringdi í mig í síðustu viku, en þá höfðu útskriftargögnin mín verið send heim,“ segir hún. Margret Rún stundaði nám í hefðbundnum áföngum eins og stærðfræði, náttúrufræði sögu og ensku. „Kennarinn okkar í náttúrufræði var alltaf reglulega með skyndipróf til að ganga úr skugga um að við kynnum efnið vel og ekkert vantaði upp á,“ útskýrir Margret Rún og bætir við.“ „Mér fannst þetta pínu óþægilegt fyrst en þetta vandist á endanum.“ Margret Rún var einnig í enskuáfanga fyrir þá nemendur sem skara fram úr í ensku. Kennarinn veitti henni viðurkenningu fyrir góðan árangur en hann segir m.a. í umsögn sinni: „Margret er skiptinemi frá Íslandi. Það sem gerir hana mjög sérstaka er að enska er hennar annað tungumál en hún er einn af mínu bestu nemendum í ár. Læsi hennar á tveimur tungumálum er alveg ótrúlegt.“ Margret Rún upplifði fjölda viðburða sem við Íslendingar þekkjum bara úr kvikmyndum og þáttum. Hún tók þátt í Homecoming, sem er dansleikur fyrir alla nemendur skólans. Dansleikurinn fer fram eftir homecoming game, sem er heimaleikur fótboltaliðsins og er venjulegur skóladansleikur þar sem nemendur klæða sig upp og fara saman í mat fyrir ballið. Margret Rún fór einnig á Prom sem er einungis fyrir tvo elstu árgangana í skólanum. Þar bjóða nemendur hvor öðrum út á frumlegan máta, klæða sig upp í síðkjóla og jakkaföt og hittast í mat áður en haldið er á dansleiki. Hún var einnig dugleg að sækja leiki hjá fótboltaliðinu. „Ég var ekki með neinar væntingar, þannig séð, en þetta var töluvert öðruvísi en ég hafði gert ráð fyrir,“ útskýrir Margret Rún. Ýmiss konar þemu voru í gangi á fótboltaleikjunum allan veturinn og oft var peningum safnað fyrir góð málefni. Veðrið var einnig frekar milt, um 10-20°C. Einu sinni þurfti þó að fresta skólanum, eina daginn sem snjóaði, en skólanum var frestað um þrjár klukkustundir. „Ég fékk reyndar mömmu til að senda mér úlpuna mína, því það gat verið frekar kalt að sitja á áhorfendapöllunum á fótboltaleikjunum,“ segir Margret Rún Sérstakar æfingar vegna skotárása Margret Rún fékk einnig að upplifa viðvarandi ótta við skotárásir í skólum landsins. Mjög reglulega voru æfingar þar sem æft var hvernig nemendur eiga að bregðast við árásum. Lögreglumaður var alltaf á skólasvæðinu og einnig gangaverðir á göngum skólans. „Við máttum ekki vera á göngunum nema vera með sérstakan passa sem heimilaði okkur það. Ef nemendur voru á göngunum án passa voru þeir sendir á bókasafnið eða í matsalinn,“ útskýrir Margret Rún. Sérstakir umsjónartímar voru haldnir þar sem Margret Rún og vinkona hennar, Kristine sem var skiptinemi frá Noregi, æfðu ásamt öðrum skólasystkinum sínum lokun (e. lockdown) á skólanum. „Við þurftum að læra mismunandi hljóð í brunabjöllunni, en sérstakt hljóð kemur þegar yfirvofandi árás er á skólann. Í fyrsta tímanum veltum við mikið fyrir okkur hvað við værum eiginlega búnar að koma okkur í,“ segir Margret Rún. Þegar skólanum er lokað vegna árásar fer í gang ákveðið ferli og svört gluggatjöld koma niður svo ekki sé hægt að sjá inn í stofuna frá ganginum. Nemendur þurfa svo að draga niður gluggatjöld, stafla borðum og stólum fyrir hurðina og aðra innganga ásamt því að finna sér eitthvað sem hægt er að henda í árásarmanninn. Ef nemendur eru ekki komnir inn í stofurnar við lokun verða þeir bara að leita sér skjóls annars staðar en óheimilt er að hleypa fólki inn í stofurnar eftir að þeim hefur verið lokað. „Í kjölfarið af Parkland- árásinni, þar sem brotamaðurinn kveikti á brunabjöllunni, var það sérstaklega kennt að ef lokunarviðvörunin kemur og svo brunaviðvörunin, þá er okkur óheimilt að fara út. Það er það sem hann gerði, hann beið eftir því að allir kæmu fram á gang,“ segir Margret Rún. Margret Rún fékk einnig tækifæri til að ferðast en hún fór ásamt skiptinemafjölskyldu sinni til Hawaii og eyddi heilli viku þar. „Mig hafði alltaf langað að fara til Hawaii og þarna rættist sá draumur,“ segir hún. Stefnir á háskólanám í heilbrigðistengdum greinum Fjölskyldan ferðaðist einnig í kringum vinnuferðir hjá skiptinemamóður hennar og Margret Rún ferðaðist líka með sinni eigin fjölskyldu þegar hún kom út í heimsókn við lok dvalarinnar. Skiptinemasystir Margretar keppti líka víðsvegar í fótbolta og var töluvert um ferðalög vegna þessa. Margret Rún hvetur alla til að kynna sér það að fara sem skiptinemi. „Ég mæli virkilega mikið með þessu fyrir alla þá sem vilja stíga út fyrir þægindarammann sinn. Þó að þetta hafi verið mjög krefjandi ár, þá myndi ég aldrei vilja breyta því að hafa farið. Eins og ég mun alltaf segja, þá var þetta einstaklega þroskandi lífsreynsla og það er margt sem ég hef tekið til mín frá þessu ári, allar þær minningar sem ég mun eiga að eilífu og allt fólkið sem ég kynntist,“ segir Margret Rún. Margret Rún hyggst flytja í haust til Akureyrar og klára stúdentsprófið í VMA. ,,Ég stefni svo á að fara í háskólanám, eitthvað heilbrigðistengt,“ segir Margret Rún. Hún hafði á sínum yngri árum mikinn áhuga á því að verða réttarmeinafræðingur en eftir að hún fékk heilahristinginn og meðferðina hjá sjúkraþjálfaranum kvikn- aði áhugi á því að fara í sjúkraþjálfaranám. ,,Mér fannst alveg ótrúlegt að sjúkra- þjálfarinn minn úti vissi alltaf hvað amaði að hjá öllum, og það heillaði mig,“ segir Margret Rún að lokum. Margret Rún æfði bæði og keppti í tennis meðan hún bjó úti. Margret Rún og Kristine vinkona hennar á útskriftardaginn. Margret Rún með skiptinemafjölskyldu sinni. Margret Rún ásamt fjölskyldum sínum. Frá vinstri: Auðunn, faðir Margretar, Kristi, Margret Rún, Taylor, Berglind, móðir Margretar, og Jóhanna Björk. Fyrir framan Margreti Rún er Ryan. Margret Rún á Hawaii með Taylor og Noru vinkonu þeirra. 27/2018 7

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.