Bændablaðið - 12.09.2019, Page 50

Bændablaðið - 12.09.2019, Page 50
Bændablaðið | Fimmtudagur 12. september 201950 LESENDABÁS Stóra tækifærið – eða heilaspuni hugstola manns Þegar ég skrifaði grein um sauðfjárræktina í Bændablaðið fyrir tveimur árum, og þóttist færa rök fyrir því að lausaganga sauðfjár væri tímaskekkja, sagði einn kunningi minn að þetta væru svosem ágætar hugmyndir hjá Stefáni en hann væri bara 60 árum á undan tímanum! Mér fannst þetta skemmtileg athugasemd og var á vissan hátt sammála honum því eins og ég sagði í greininni var ég sjálfur ekki trúaður á skjótar breytingar. Því miður hefur ekki margt breyst á tveimur árum hjá sauðfjárbændum sjálfum, afkoman er áfram skítleg, framleiðslan of mikil (þótt bændur réttlæti stöðuna vegna lítilla birgða sem skýrast af niðurgreiddum útflutningi eins og vant er) og óbreytt tilhneiging þeirra til að leggja landið undir sig í 10–12 vikur á ári. En þótt tíminn standi í stað hjá sauðfjárbændum er ekki svo í heiminum almennt. Það þarf ekki að rekja þá vá sem mannkynið stendur frammi fyrir vegna hlýnunar jarðar. Þótt menn greini á um áhrif einstakra þátta, vægi þeirra og umfang, þá er ljóst að neysluhættir munu breytast. Það dregur úr kjötneyslu, ekki síst kjöts af jórturdýrum, og vægi fæðu neðar úr fæðukeðjunni verður stærri hluti af matvælaneyslu mannkyns. Miðað við breytingar á umræðu hér á landi síðustu 2–3 misseri má gera ráð fyrir að þessar breytingar verði hraðari en áður var talið. Okkur sem erum alin upp á fjölbreyttu fæði úr nærumhverfinu (sauðfjárafurðum, sjávarfangi og kartöflum úr garðinum heima) fækkar sífellt og leikskólakynslóðin (fólk fætt eftir 1970) tekur yfir eins og eðlilegt er og er nú að verða allsráðandi í þjóðfélaginu. Þetta fólk hefur þar að auki minni rætur í sveitum landsins, á færri skyldmenni þar en áar þeirra o.s.frv. Margt af þessu fólki eru miklir nát túruunnendur og útivistarfólk og hefur ríka þörf á að ferðast um landið. En ekki síst fjölgar fólki sem vill lifa umhverfisvænna lífi, bæði með breytingu á neysluháttum og því að stuðla að aðgerðum sem draga úr losun gróðurhúsa­ lofttegunda. Það má því gera ráð fyrir að samúð með sauðfjárbændum fari enn dvínandi. Set sjálfur mikla fyrirvara um árangur af endurheimt votlendis Af aðgerðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hefur ekki síst verið bent á endurheimt votlendis og skógrækt. Ég set sjálfur mikla fyrirvara um árangur af endurheimt votlendis. Ekki einasta tel ég að verulega skorti á staðbundnar rannsóknir á áhrifum þess að bleyta upp land sem að mestu var þurrkað upp með skurðgreftri fyrir 40–60 árum, heldur tel ég einnig að óverulegt land fáist til verksins. Þó nokkurt land í eigu opinberra aðila og einkaaðila sem ekki stunda búskap, verði í boði, verður það aldrei talið nema í einhverjum tugum eða hundruðum hektara að hámarki. Jafnvel þó þekktur markaðsmaður úr fjölmiðlavinafélaginu hafi verið ráðinn til verksins. Með óbilandi trú á skógrækt Ég hef hins vegar óbilandi trú á skógrækt og minni á að í skýrslu vísindamanna við ETH háskólann í Zürich (Bastin et al., 2019. The global tree restoration potential. Science, 365:76­79) er leitt líkum að því að stóraukin skógrækt í heiminum sé möguleg leið til að koma í veg fyrir óhóflega hækkun hitastigs á jörðinni. Þeir telja að nægt land þar sem hægt er að planta skógi, sem ekki er nýtt til matvælaframleiðslu og undir innviði, sé til staðar á jörðinni til slíks. Hér á landi gera þeir ráð fyrir að hægt sé að planta skógi í a.m.k. fjórðung alls lands og er það svipað hlutfall og talið er að hafi verið skógi vaxið við landnám. Auk þess að binda koldíoxið, draga úr landeyðingu og stuðla að bættum vatnsbúskap, felast veruleg tækifæri í skógrækt til atvinnusköpunar. Timbur er trúlega byggingarefni framtíðarinnar. Neikvæð umhverfisáhrif sementsvinnslu og stáliðnaðar gera timbur æ eftirsóknarverðara og hafa tækniframfarir síðustu ára gert mögulegt að byggja hagkvæmari og stærri mannvirki úr tré en áður. Einnig má gera ráð fyrir að efni unnin úr trjám leysi stóran hluta plastumbúða af hólmi í framtíðinni. Enn sem komið er þekkjum við fyrst og fremst bann við notkun plastpoka og einnota umbúða. Gera má ráð fyrir að bann við notkun plasts verði mun umfangsmeira á næstu árum. Líklegt verður að telja að bann við notkun frauðplasts í umbúðum verði að veruleika á næstunni og eins verða bændur trúlega að búa sig undir bann við notkun rúlluplasts innan fárra ára. Meðan enn er við lýði stóriðja í landinu sem krefst brennslu kolefnis, er illskárra að brenndur sé íslenskur grisjunarviður en að fluttir séu inn skipafarmar af trjám í tugþúsundavís til brennslunnar. Stóraukin ræktun á nytjaviði er því frábært framlag okkar sem nú byggjum landið, til bæta fyrir syndir okkar og leggja inn og mynda höfuðstól sem börn okkar og barnabörn geta notið vaxtanna af. Skref inn í nútíðina að girða af búféð Það væri því illa farið með landið, tímann og tækifæri til framtíðar ef við þyrftum að bíða í sextíu ár enn til að augu ráðamanna, bænda, landeigenda og almennings opnist fyrir þeim möguleikum sem skapast við að frelsa landið úr herkví liðinna alda. Með því að banna lausagöngu sauðfjár og taka upp háttu menningarþjóða sem girða búféð af en ekki skóginn væri stigið stórt skref inn í nútímann. Mér er að sjálfsögðu ljóst að ekki er um einfalda aðgerð að ræða við svo viðamikla stefnubreytingu sem hér er lögð til. En í ljósi þess hve miklu opinberu fé er varið til sauðfjárræktar, óæskilegra áhrifa jórturdýra á styrk gróðurhúsalofttegunda og ávinnings af skógrækt, má hlutlausum aðila vera ljóst að því fjármagni og óræktuðu landi sem nú er nýtt í þágu sauðfjárræktar, er betur varið til að rækta skóg en beita þar sauðfé. Við eigum þegar kappnóg framræst land á láglendi til að beita lambfé á til vaxtar og fullorðnu fé til viðhalds yfir sumartímann, sem dugar til innanlandsneyslu. Ég skora á starfsmenn RML á sviði fóðurfræði og sauðfjárræktar að gera grein fyrir land­ og fóðurþörf við búskaparhætti sem byggja á beit á ræktað land og láglendisúthaga. Ég bið menn samt í lengstu lög að forðast mítur um hið einstaka íslenska fjallalamb og halda sig við bókina en ekki bábiljur. Ég skora jafnframt á Skógræktina að sýna framá hvernig hægt er að margfalda skógrækt í landinu á næstu árum miðað við þær forsendur að ekki þurfi að girða af skóginn, að hægt sé að margfalda ræktun skógarplantna til útplöntunar (mögulega með nýrri tækni) og að aðeins land til matvælaframleiðslu og mannvirkjagerðar auk náttúrulegra takmarkana (öræfi, jöklar, vötn og ár o.s.frv.) setji verkefninu skorður. Í samvinnu við Byggðastofnun og atvinnuþróunarfélög víðs vegar um landið verði gerð áætlun sem sýni mannaflaþörf og dreifingu um landið og í framtíðinni úrvinnslustaði. Stuðlar að mótvægisaðgerðum í loftslagsmálum, styrkir byggð Með aðgerðum af þeim meiði sem hér er lýst má því allt í senn stuðla að mótvægisaðgerðum í loftslagsmálum, styrkja byggð í landinu, stofna höfuðstól fyrir komandi kynslóðir og tryggja sauðfjárbændum öruggari framtíð með stýrðri framleiðslu eins og hér er gert ráð fyrir. Draga myndi úr álagstörnum eins og smalamennskum og eftirleitum fram eftir vetri eins og víða tíðkast. Aðlögun að markaðsaðstæðum með lengingu sláturtíma og meiri heimavinnslu yrði auðveldari, fyrir nú utan þá vinnu sem sauðfjárbændum byðist við skógrækt á jörðum sínum og þar með þann virðisauka sem jörðunum félli í skaut. Hafi stjórnvöld einhvern metnað til að standa við stóru orðin um framlag Íslands í baráttunni við loftslagsvána þá fæ ég ekki séð hvernig þau geta horft framhjá þeim rökum sem hér hafa verið tíunduð. Stefán Tryggva- og Sigríðarson Stefán Tryggva- og Sigríðarson. Höfundur að glíma við lífsgátuna í smíðahúsi sínu. Margt býr í lerkinu. Er þitt bú öruggur og góður vinnustaður? PO RT h ön nu n Kynntu þér leiðbeiningaefni um öryggi og vinnuvernd í landbúnaði á bondi.is bónDinn bEr mikla ábYrgð sem bóndi þá berð þú ábyrgð á að vinnuaðstæður á býlinu séu með þeim hætti að sómi sé að. Álagsmeiðsli eru aðalorsök þess að bændur þurfa að taka veikindaleyfi. Einsleit vinna, röng beiting líkamans, titringur og langir vinnudagar geta leitt til álagsmeiðsla.

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.