Fréttabréf Öryrkjabandalags Íslands - 01.03.1992, Side 28
Minning
Hj álmar Vilhj álmsson
fv. ráðuneytisstjóri
f. 16. júlí 1904
d. 19. október 1991
Hjálmar Vilhjálmsson var vara-
formaður Hússjóðs Öryrkjabanda-
lagsins frá stofnun hans 1966 til ársins
1986, er hann óskaði eftir að verða
leysturfrá því starfi. Ásamt þáverandi
formanni sjóðsins, Oddi Ólafssyni,
mótaði hann starfsemina af gætni og
íhygli. Þeir félagar lögðu mjög vel
saman, Oddur með hugkvæmni og
eldmóði, en Hjálmar með hollráðum
um framkvæmd þess mögulega. Slíkt
tvíeyki er lán hvers fyrirtækis eða
stofnunar, sértaklega í byrjun og á
meðan verið er að móta stefnuna.
Sá sem þessar línur ritar var svo
lánsamur að fá að starfa með tvíeykinu
og reyna að læra nokkuð af þeim
félögum. Það er trúa hans að allir, sem
urðu svipaðrarreynslu aðnjótandi, hafi
orðið betri menn.
Hjálmar var hógvær maður og ekki
mikið fyrir að láta á sér bera, fylginn
sér en sanngjam, búinn miklum hæfi-
leikum, samvinnulipur og ráðhollur.
Jafnframt bjó hann yfir mikilli þekk-
ingu og reynslu að því er varðar stjóm-
sýslu og félagsmál. Hann hafði því þá
eiginleika sem prýða góðan embættis-
mann, sem á að framkvæma og fylgja
eftir ákvörðunum pólitískt kjörinna
fulltrúa með mismunandi viðhorf.
Hjálmar stýrði félagsmálaráðu-
neytinu frá ársbyrjun 1953, fyrst sem
skrifstofustjóri og síðar sem ráðu-
neytisstjóri, af röggsemi en þó með
mildi, svo sem við á þegar fjallað er
um viðkvæm mál fólks. Hann lét af
störfum þar samkvæmt eigin ósk ári
áður en hann þurfti vegna aldurs.
Ráðuneytisstjórastarfinu fylgir
lagasmíð og formennska í nefndum,
sem fjalla um setningu og
endurskoðun löggjafar, m.a., þeirrar
sem snertir húsnæðismál og málefni
fatlaðra og öryrkja. Þar átti
Öryrkjabandalagið hauk í homi, sem
kom ýmsu góðu til leiðar, og raunar
miklu fleiru en við flest gerum okkur
ljóst. Vegna þekkingar á löggjöf og
framkvæmd hennar gat Hjálmar
leiðbeint Hússtjórninni við fjáröflun
til íbúðabygginga.
Hjálmar var meðal stofnenda
Styrktarfélags vangefinna árið 1958
og formaður þess fyrstu 17 árin. Undir
fory stu hans lyfti félagið Grettistökum
í málefnum þroskaheftra, bæði til þess
að draga úr fordómum og til þess að
bætaaðstöðu þeirra. Aðráðum Hjálm-
ars tókst að fá markaðan tekjustofn til
félagsins, sem síðar leiddi ti 1 stofnunar
Framkvæmdasjóðs fatlaðra.
Hjálmar var kominn á sjötugsaldur
þegar við kynntumst. Hann var nokkuð
seintekinn, en fljótt fór vel á með
okkur. Fundir í Hússtjóm voru fáir en
skemmtilegir og hófust oft með
kersknislegum athugasemdum vara-
formanns um framkvæmdagleði
formanns, sem var þó báðum mjög að
skapi. Síðan kom alvaran og mál voru
afgreidd með stuttum en skýrum um-
ræðum vegna sérstakra hæfileika og
Hjálmar Vilhjálmsson.
gagnkvæms trausts formanns og vara-
formanns. Fundum lauk á léttum nót-
um, þar sem kímni og góðvild hins
virðulega ráðuneytisstjóra naut sín
vel.
Eg hef áður sagt að hugkvæmni
Odds Ólafssonar og holl ráð Hjálmars
Vilhjálmssonar hafi verið höfuðstóll
Hússjóðs Öryrkjabandalagsins. í dag
erum við að framkvæma fyrir vextina
af þessum höfuðstóli.
Fyrir hönd stjórnar og starfsfólks
Hússjóðs Öryrkjabandalagsins þakka
ég leiðsögn og samfylgd Hjálmars og
votta aðstandendum hans samúð og
hluttekningu.
Minningin um merkan mann lifir.
Tómas Helgason.
Bergmál hugans
Liðin er tíð þeirra hlýju hlátra
er hljómuðu mér við eyra.
Kliðmjúka létta lindarhjalið
sem Ijúfast mér þótti að heyra.
Ómþýtt kvak úr kjarrinu heima,
sem kunni fegurð að skarta.
Ilminn úr moldinni höfgan og heitan,
heiðríkju unaðsbjarta.
Horfið á braut og aðeins í ómum,
sem ymja í fjarlægð sinni.
Tómahljóð magnast þó titri strengur,
því tómið er mest hér inni.
Bregður þó fyrir brosi á vegi,
en bara einu og einu.
Og nú er ekki í óþreyju beðið
eftir gleðinni hreinu.
En spurning vaknar. Ég veit þó svarið,
það vekur söknuð og kvíða.
Því er nú ekki í alvöru talað
eftir neinu að bíða. u c