Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - Aug 2020, Blaðsíða 8

Ljósmæðrablaðið - Aug 2020, Blaðsíða 8
8 LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - ÁGÚST 2020 N E M AV E R K E F N I Haustið 2019 var byrjað að kenna eftir nýrri námskrá í ljósmóðurfræði, meistaranámi til starfsréttinda. Fyrsta klíníska námið var strax á fyrstu önninni og með öðru sniði en undanfarin ár. Markmiðið var að gefa nemum tækifæri til að vera á starfsvettvangi þar sem fyrst og fremst hraustum konum í eðlilegri meðgöngu og fæðingu er sinnt. Enn fremur að þeir fengju að kynnast samfelldri þjónustu ljósmæðra. Námsstaðirnir voru því innan heilsugæslu: í meðgönguvernd á heilsugæslustöðvum, á fæðingarstöðum leiddum af ljósmæðrum sem flokkaðir eru sem fyrsta stigs þjónusta eða C og D samkvæmt Leiðbeiningum landlæknis um val á fæðingarstað. Einnig fylgdu nemar ljósmæðrum sem sinna heimaþjónustu í sængurlegu. Stór þáttur í kennslu og námsverkefnum bæði á fyrra og seinna ári hefur verið að nemar halda utan um reynslu sína og þróun klínískrar fræðimennsku með dagbókarskrifum. Við fengum leyfi frá báðum árunum til að birta hér dagbókarbrot sem gefa okkur innsýn í námsreynslu fyrstu dagana þegar allt er svo nýtt og spennandi og þegar litið er um öxl á lokadögunum og fjallað er um spurninguna: Er ég tilbúin til að útskrifast og vera ljósmóðir? Emma Marie Swift og Ólöf Ásta Ólafsdóttir REYNSLA NEMA Í FYRSTA KLÍNÍSKA NÁMSKEIÐINU Í LJÓSMÓÐURFRÆÐI Fyrirmyndir ljósmæðranema í starfi eru margar og er ljóst við lestur dagbókanna að ljósmæðranemar eru vakandi fyrir ýmsum þáttum sem styrkja einstaklingsbundna nálgun, upplýst samþykki og valdeflingu konunnar í meðgönguverndinni. Það er gaman að sjá hversu margbreytilegt starfið í meðgönguverndinni er. Allar konurnar hafa mismunandi vangaveltur á mismunandi tímum í meðgöngunni og engin ein koma er eins, þó ég hafi á einum tímapunkti tekið á móti þremur konum í röð sem gengnar voru 36 vikur var hver heimsókn mismunandi og áhugavert að fylgjast með því. Ljósmæðurnar sem ég hef fylgt eru þvílíkir viskubrunnar og mér finnst ég heppin að fá að læra af þeim. Í dag fékk ég að vera með í meðgönguvernd. Það komu konur sem voru gengnar 36-38 vikur. Það sem við skoðuðum mest voru lega barnanna, hvort þau væru skorðuð eða ekki. Það var verið að meta stærð legbotna og athugað með hjartslætti barnanna. Ég fékk að prófa að meta legu barns í nokkrum skoðunum og það var mjög gaman. Mér fannst ótrúlega flott hvernig konurnar voru alltaf spurðar hvort það mætti snerta þær og síðan hvort það væri í lagi að ég myndi prófa. Mér fannst það áberandi í skoðunum hjá ljósmæðrunum sem ég fékk að fylgjast með í dag hvað þær spurðu alltaf um leyfi. Konurnar fóru sjálfar á klósett og stixuðu fyrir próteinum í þvagi. Það fannst mér einnig ótrúlega sniðugt. Ég hafði hugsað mér að ljósmæðurnar myndu gera það en það er að sjálfsögðu engin ástæða fyrir því og þá fá konurnar ábyrgð, taka þátt og vita hverju er verið að fylgjast með alltaf… Strax á fyrstu önn ljósmæðranámsins hafa sumir nemar skýra sýn á hvert þeir stefna og nýta námstækifærin markvisst til þess að auka þekkingu sína til þess að takast á við áskoranir framtíðarinnar. Þetta kom t.d. skýrt fram í dagbókarbroti nema sem tók hluta verknámsins á landsbyggðinni: Ég setti konu í sykurþolspróf vegna fjölskyldusögu. Það er kannski það sem er meðal annars frábrugðið meðgönguvernd í bænum. Ljósmæður hér sinna störfum sem aðrir fagaðilar sinna á höfuðborgarsvæðinu, eins og sykurþolsprófið til dæmis. Ég stefni að því að vera „út‘á landi ljósmóðir“ og finnst mjög áhugavert að fylgjast með þeim verkefnum og áskorunum sem ljósmæður hér mæta í sínu daglega starfi. Ég er nú þegar komin með lista yfir hluti sem ég vil öðlast færni í áður en ég flyt heim eftir útskrift og er mjög spennt að fara að getað unnið að þeim markmiðum, bæði á meðan á náminu stendur og eftir útskrift. Samfelld þjónusta og sambandið sem myndast milli ljósmóður og fæðandi konu var nemunum mjög hugleikið, enda fengu þeir mörg tækifæri til að sinna konum í samfelldri þjónustu í verknáminu. Næsta dagbókarbrot lýsir þessu vel: Ljósmóðirin sem var á morgunvaktinni hafði hingað til náð vel til hennar en vegna hræðslu konunnar þá hætti hún að ná til hennar og ég fann að sambandið á milli þeirra var lítið sem ekkert undir lokin. Hún kvaddi því hjónin og óskaði þeim góðs gengis og náði í ljósmóðurina sem var að koma á vakt en það var einmitt hennar ljósmóðir úr meðgönguverndinni og hafði verið hjá þeim í heimaþjónustunni við fyrra barn. Bara við það að hún gekk inn í herbergið sá ég hvernig hún róaðist öll og mér fannst svo ótrúlega magnað að sjá hvernig ljósmóðirin talaði við hana og náði henni algjörlega yfir hræðsluna á nokkrum mínútum. Það var mjög gott að sjá að við erum mismunandi eins og við erum margar í þessari stétt og er engin allra. Sú ljósmóðir sem hafði verið með þau allan daginn var ekkert síðri ljósmóðir en sú sem kom inn í rembingnum, heldur þekkti bara konuna minna. Mér fannst þetta sýna svart á hvítu hversu miklu máli samfelld þjónusta getur skipt, sérstaklega þegar konur eiga erfiða fæðingarupplifun að baki. Næstu tvær frásagnir lýsa því vel hversu krefjandi þessar fyrstu fæðingarupplifanir geta verið fyrir ljósmæðranemana: DAGBÓKARBROT LJÓSMÓÐUR- NEMA SKÓLAÁRIÐ 2019-2020 Ljósmæðranemar sem hófu nám haustið 2019.

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.