Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - ágú. 2020, Blaðsíða 14

Ljósmæðrablaðið - ágú. 2020, Blaðsíða 14
14 LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - ÁGÚST 2020 tryggð með því að sama ljósmóðir sinnir konunni í meðgönguvernd alla meðgönguna, bæði í hinu hefðbundna formi og einnig með því að leiða umræður í hópnum. Í rannsókninni sem hér er lýst var markmiðið að kanna upplifun íslenskra kvenna og maka þeirra af foreldrahópum (eða hópmeðgönguvernd) sem boðið var upp á í meðgönguvernd á þremur heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Framkvæmd rannsóknarinnar og söfnun upplýsinga: Konum sem höfðu tekið þátt í hópmeðgönguvernd og mökum þeirra voru sendir tölvupóstar með boði um þátttöku í rannsókninni. Úrtakið var því sjálfboðaliðaúrtak. Áminning var send í tölvupósti um viku síðar og því fylgt eftir með símtali þar til 18 þátttakendur fengust eða þar til mettun gagna var náð (23). Í heild voru tekin sex viðtöl við 14 konur og 4 karlmenn. Þátttakendur höfðu val um stað fyrir viðtölin en flest viðtölin fóru fram í húsnæði Bjarkarinnar við Síðumúla 10, en eitt viðtalið fór fram í heimahúsi þar sem tvær konur komu saman. Viðtölin fóru fram á tímabilinu mars 2018 til mars 2019 og voru tekin af tveimur ljósmæðrum sem ekki höfðu tekið þátt í að veita hópmeðgönguvernd. Áður en viðtöl hófust var farið yfir tilgang rannsóknarinnar, þátttakendur hvattir til að deila sinni reynslu og upplifun og svo skrifuðu þátttakendur undir upplýst samþykki fyrir þátttöku í rannsókninni. Þátttakendur: Konurnar voru á aldrinum 22-34 ára, flestar voru með háskólapróf og allar höfðu eignast sitt fyrsta barn. Þrettán þeirra voru í sambúð með barnsföður. Þær komu úr fimm mismunandi hópum frá öllum þátttökustöðvum. Karlmennirnir voru á aldrinum 30- 36 ára, þrír voru í sambúð með barnsmóður sinni en einn var það ekki. Þeir voru allir með háskólamenntun og höfðu jafnframt eignast sitt fyrsta barn. Allir þátttakendur voru með íslenskt ríkisfang. Börn allra þátttakenda nema einnar konu fæddust eftir eðlilega meðgöngulengd á Landspítala Háskólasjúkrahúsi og heilsaðist öllum börnunum vel þegar viðtöl voru tekin. Börnin voru á aldrinum 3 vikna til 6 mánaða þegar viðtölin voru tekin. Gagnasöfnun: Viðtölin voru hálf-opin en slík viðtöl henta vel til að kanna reynsluheim fólks og leitast við að skilja fyrirbæri í þeirra tilveru (24). Þá er umræðuefnið fyrirframákveðið en innihald samræðnanna ræðst af áhuga viðmælanda og hlutum er skipta þá máli. Bakgrunnsupplýsingum þátttakenda var safnað áður en viðtalið hófst. Í upphafi viðtalsins voru spurningar opnar en eftir því sem leið á viðtalið var spurt út í einstök atriði sem komu upp en slíkt hentar vel til að ná fram ólíkum sjónarhornum og blæbrigðum í frásögninni (24). Á meðan á viðtölunum stóð voru konurnar gjarnan beðnar um að lýsa ýmsum atriðum betur til að fá betri útskýringu á þeirra upplifun. Í lokin var farið yfir helstu atriði viðtalsins til að kanna hvort þær væru sammála túlkun rannsakandans á því sem kom fram. Það er gert í þeim tilgangi að tryggja réttmæti niðurstaðnanna (24). Viðtölin tóku 41-50 mínútur. Gagnagreining: Viðtölin voru hljóðrituð og afrituð orðrétt. Því næst voru þau greind með innihaldsgreiningu (e. content analysis) af tveimur rannsakendum, fyrst í sitthvoru lagi og svo báru þeir saman gagnagreiningu sína. Sú aðferð felur í sér að greina innihald texta og hentar þessi greiningaraðferð vel þegar rannsakandi hefur umtalsvert magn af texta til að vinna úr (20, 25). Aðferðina er hægt að tengja bæði við eigindlega og megindlega rannsóknarhefð en í megindlegum rannsóknum þar sem innihaldsgreiningu er beitt er áhersla á að flokka og telja hugtök og fyrirbæri í stórum gagnasöfnum (26). Í þessari rannsókn var aðferðin nýtt til greiningar á texta úr viðtölum og var fyrsta skrefið að lesa viðtölin yfir og finna hvað var sameiginlegt í svörum þátttakenda. Því næst voru gögnin greind með kóðun sem miðar að því að finna hvaða þættir koma endurtekið fram og lýsa innihaldi viðtalanna. Þessir þættir eru síðan flokkaðir niður og bornir saman. Að lokum er þeim fléttað í þemu sem lýsa boðskap efnisins (20). Nöfnum þátttakenda var breytt til þess að tryggja nafnleynd. Aðeins rannsakendur höfðu aðgang að upptökum. NIÐURSTÖÐUR Í viðtölum við þátttakendur kom í ljós að margt var sameiginlegt í reynslu þeirra af hópmeðgönguvernd. Þeim þótti mikilvægt að tilheyra hópnum og finna sameiginlega upplifun varðandi ýmislegt sem tengdist meðgöngunni jafnframt því sem þátttakendum fannst koma betur fram að parið væri að taka þátt saman í meðgönguverndinni. Þessu lýsir fyrsta þemað saman í þessu. Annað þema var tilfinning um öryggi sem einkenndist af því að tilfinningu um kvíða eða áhyggjur sem þau upplifðu af samfélagslegri umræðu var svarað með umræðu um eðlilegt barneignarferli í hópmeðgönguverndinni og þetta veitti þeim öryggistilfinningu. Þriðja þemað jákvæð breyting- gott jafnvægi varpar ljósi á þá sameiginlegu reynslu þeirra að hópmeðgönguverndin kom þeim skemmtilega á óvart. Þrátt fyrir að hafa ekki haft sérstakar væntingar í upphafi, voru þau sammála um að þetta fyrirkomulag hefði gagnast þeim mjög vel, væri jákvæð breyting og að með henni fengju verðandi foreldrar frekar væntingar uppfylltar varðandi fræðslu og stuðning. SAMAN Í ÞESSU Þemað Saman í þessu getur vísað bæði til þess að tilheyra hópi verðandi foreldra en líka til þess að parið sé saman í að takast á við meðgönguna og nýtt hlutverk. Í frásögnum kvennanna kom glögglega fram að þær töldu mikinn ávinning af því að tjá sig í hópi annarra barnshafandi kvenna. Þær voru að velta fyrir sér sömu hlutum og fannst hughreystandi að heyra að aðrar í hópnum upplifðu það sama. Þannig fengu þær stuðning hver frá annarri: „Það var samkoman sem mér fannst skipta svo miklu máli, að fá að spjalla um akkúrat þetta, þetta er orðið svo stór partur af lífinu, allt sem er í gangi“ (Elín). Þær ræddu einnig gjarnan um meðgöngukvilla og fengu þá ráð hver hjá annarri. Með því að heyra frá öðrum að þetta væri krefjandi og um leið átta sig á því að aðrar konur ganga í gegnum svipaðar áskoranir litu þær á hina ýmsu meðgöngukvilla öðrum augum og í raun frekar sem eðlilegan hluta af meðgöngunni eða eins og Hildur orðaði það: „Ég fékk staðfestingu, hinum fannst þetta líka svona erfitt, ég er ekki að ímynda mér“. Feðurnir fundu einnig fyrir því að barnsmæður þeirra fengju stuðning frá hópnum. Þeir fengu þarna einstakt tækifæri til að hlusta á barnsmæður sínar deila sameiginlegri reynslu og fengu þannig innsýn inn í samfélag kvenna á meðgöngunni. Sindri lýsti þessu svona: „Maður lifir svolítið í gegnum konuna sína [hlær] í þessu öllu saman sko… maður hefur eiginlega áhyggjur af því sem hún hefur áhyggjur Tafla 1. Yfirlit yfir heilsufarsmat og umræðuefni í foreldrahópum eftir meðgöngulengd sem barnshafandi konur fengu við upphaf meðgöngu. Byggt á leiðbeiningum um meðgönguvernd heilbrigðra kvenna í eðlilegri meðgöngu (17) og fræðsluefni frá CenteringPregnancy©. Vika Heilsufarsmat Umræðuefni í foreldrahóp 28 Mæla legbotnshæð, blóðþrýsting og skima þvag. Bjóða skimun fyrir blóðleysi. Boðin skimun fyrir rauð- kornamótefnum ef þú ert í RhD neikvæðum blóðflokki • Hreyfingar fósturs í móðurkviði • Lífeðlisfræði fæðingar. Hvað gerist á fyrsta, öðru og þriðja stigi fæðingar? 31 Mæla legbotnshæð, blóðþrýsting og skima þvag • Val á fæðingarstað • Brjóstagjöf • Heimaþjónusta ljósmæðra og þjónusta brjóstagjafaráðgjafa • Óþægindi í lok meðgöngu • Hvernig veit ég að fæðing er hafin? 34 Mæla legbotnshæð, blóðþrýsting og skima þvag • K vítamín og ungbarnaeftirlit • Bjargráð í fæðingu og verkja- meðferðir • Keisaraskurður, áhaldafæðingar og önnur inngrip í fæðingu • Fæðingarsögur • Fæðingarplan 36 Mæla legbotnshæð, blóðþrýsting og skima þvag. Athuga fósturstöðu, ef barn er í sitjandi stöðu er boðin tilraun til vendingar. Boðin skimun fyrir rauðkornamótefnum ef þú ert í RhD neikvæðum blóðflokki • Fyrstu dagarnir eftir fæðingu (heimaþjónusta ljósmæðra, brjósta- gjöf, heimsóknir og stuðningur) • Fyrstu vikurnar eftir fæðingu (foreldrahlutverkið, svefn, næring, ungbarnavernd, bólusetn- ingar, félagslegt stuðningsnet, foreldramorgnar) • Fæðingarþunglyndi • Getnaðarvarnir

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.