Ljósmæðrablaðið

Ukioqatigiit

Ljósmæðrablaðið - Aug 2020, Qupperneq 15

Ljósmæðrablaðið - Aug 2020, Qupperneq 15
15LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - ÁGÚST 2020 af... þannig að maður svona fannst kannski sjálfum alveg ágætt að vita að það væru aðrar konur að tala um eitthvað“. Stuðningur sem feður fundu var því í raun óbein afleiðing af þeim stuðningi sem konur þeirra upplifðu í hópnum og styrkti upplifun þeirra um að meðgangan og foreldrahlutverkið væri þeirra sameiginlega upplifun. Í foreldrahópunum upplifðu feðurnir sig þó einnig sem virka þátttakendur. Þeir fengu ráð um hvernig þeir gætu stutt konuna sína í gegnum ferlið og fengu einnig tækifæri til að taka þátt í umræðum. Feðurnir upplifðu þannig að ljósmæðurnar væru meðvitað að reyna að virkja þá, benda á hlutverk þeirra og hafa þá með í ráðum. „Og mér fannst rosa gott að sitja og fylgjast með og hlusta og líka bara díalógurinn eftir tímana og fyrir tímana, bara við maka að ræða það sem var verið að tala um og alla möguleikana sem eru í boði (...). Það fannst mér rosa gott oft eftir á, líka. Það lét manni líða eins og maður var svoldið svona partur af þessu“ (Sindri). Konunum fannst einnig hjálplegt að hafa barnsfeður sína með í hópunum. Þeim fannst mikilvægt að finna að þeir væru partur af ferlinu og upplýstir um þær breytingar sem framundan væru. Þeim fannst gott að þurfa ekki að miðla upplýsingum til þeirra eftir á heldur fengu þeir upplýsingarnar frá fyrstu hendi sem gerði það að verkum að parið var saman í þessu. TILFINNING UM ÖRYGGI Það sem byggir undir þemað tilfinning um öryggi var annars vegar það sem átti við aðstæðurnar sem sköpuðust í foreldrahópunum þ.e. að það hefði skapast þægilegt og afslappað andrúmsloft og fólk fann því fyrir öryggi strax frá upphafi. Hins vegar var það áherslan á umræðuefni og efnistök sem gaf þátttakendum tilfinningu um öryggi. Innan hópanna myndaðist snemma traust svo að verðandi foreldrar gátu tjáð sig opinskátt. Þátttakendur voru einnig ánægðir með áherslur í fræðslunni sem var á umræðuformi og jafningjagrundvelli: „Þetta var meira svona samtal, það sat miklu meira eftir, af því þetta var svo afslappað og svona, mikil rólegheit yfir þessu“ (Elín). Elín sagði jafnframt: „Frá mínu sjónarhorni þá var bara þetta hversu mikið öryggi mér fannst ég hafa, þetta var svona fyrir sálina og hjartað að geta komið þarna inn, það var mitt öryggi, mér leið aldrei illa eða fannst ég einhvern veginn ekki geta tjáð mig, hvernig mér leið, eða hugsunum mínum, meðgangan mín var bara dásamleg út af þessu öllu einhvern veginn“. Varðandi innihald fræðslunnar voru feðurnir sammála um að fræðslan hafi verið gagnleg og með áherslu á eðlilegt ferli. Þeim fannst það minnka kvíða fyrir fæðingunni: „maður verður alveg rólegri þegar maður heyrir tal á þessum nótum sko“ (Björn). Konurnar voru sammála þessu: „það er oft svo mikil neikvæð umræða en þarna var allt jákvætt, talað um allt af opnum og jákvæðum huga“. Hún segist sannfærð um að þessi jákvæða orðræða hafi stuðlað að ró hennar, bæði á meðgöngunni og í fæðingu: „ég held alveg klárlega að þetta hafi haft áhrif á hversu róleg ég var“ (Rakel). Hópmeðgönguverndin veitti svigrúm fyrir umræður sem höfðu góð áhrif á líðan þátttakenda: „þetta var svo ótrúlega huggandi og þægilegt að spjalla um þetta“ (Elín). Feðurnir tóku undir, umræðurnar veittu þeim ró, þeir sáu að aðrar konur voru að ganga í gegnum svipaða hluti og þannig gátu þeir litið meðgönguna eðlilegum augum. Þá töluðu konurnar um að á spjallþráðum fyrir barnshafandi konur á netinu væru umræður gjarnan á neikvæðum nótum og þær fundu öryggi í að koma reglulega í hópmeðgönguvernd. Elín sagði: „mér fannst ég einhvern veginn miklu öruggari, á meðan þessu stóð, með meðgönguna, af því að ég fékk alltaf svar við öllu á tveggja vikna fresti“. Feðurnir tóku undir það að hópmeðgönguverndin hefði verið gott mótvægi við bumbuhópa. Að þeirra mati höfðu umræður í bumbuhópum gjarnan valdið konunum kvíða og þá var gagnlegt að hitta hóp undir handleiðslu ljósmóður sem gat þá leiðrétt misskilning. JÁKVÆÐ BREYTING- GOTT JAFNVÆGI Flestir þátttakendur lýstu því með einhverjum hætti í viðtalinu að þessi breyting á fyrirkomulagi meðgönguverndarinnar væri jákvæð og að með henni fengju verðandi foreldrar frekar væntingar uppfylltar varðandi fræðslu og stuðning. Það er í raun grunnurinn að þriðja þemanu jákvæð breyting- gott jafnvægi. Þannig kom líka fram í viðtölunum að þátttakendur mátu það sem kost að geta jafnframt haft aðgengi að hefðbundinni meðgönguvernd en það var þó frekar áberandi í viðtölum við konurnar. Áður en hópmeðgönguverndin hófst skynjuðu konurnar að tilgangur meðgönguverndar væri hefðbundið eftirlit með líkamlegri heilsu og ekki væri mikið svigrúm til umræðu eða fræðslu. Þær greindu frá því að hópmeðgönguverndin hefði komið þeim skemmtilega á óvart og var kærkomin tilbreyting á hefðbundinni meðgönguvernd. Þær höfðu ekki sérstakar væntingar í upphafi en voru sammála um að þetta fyrirkomulag hefði gagnast þeim mjög og varð tilhlökkunarefni. Þeim fannst þær í raun heppnar að hafa fengið þetta tækifæri og sögðust hafa grætt meira á þessu fyrirkomulagi heldur en hefðbundinni meðgönguvernd. Elín sagði: „Ég vissi ekki alveg hvað ég væri að fara út í, en þetta var miklu skemmtilegra en ég bjóst við“. Aðspurðar hvort þær mæltu með slíku fyrirkomulagi fyrir aðrar konur svöruðu þær játandi, þær mæltu sterklega með því: „Mér fannst þetta bara frábært og ég klárlega myndi vilja að þið mynduð halda þessu áfram fyrir allar mæður sem eru að ganga með fyrsta barn“ (Elín). Verðandi feður voru sama sinnis og sögðust allir myndu mæla með þessu fyrirkomulagi fyrir verðandi foreldra. Feðurnir voru ánægðir með foreldrahópana vegna þess að þeir upplifðu sig sem virka þátttakendur en ekki sem fylgjendur maka sinna eins og þeim leið gjarnan í hefðbundinni meðgönguvernd. Björn sagði: „Ég hef alveg heyrt af nokkrum í kringum mig sem hafa bara upplifað sig sem einhvern blómapott þarna inni í stofunni [í mæðravernd] (...) [í hópmeðgönguvernd] fannst mér bara… það var gefið meira svigrúm til þess að við fengjum að vera með í öllum þessum hlutum sem var verið að ræða“. Annar faðir sagði að umræðurnar hefðu hjálpað sér að meðtaka upplýsingar og muna þær. Í hefðbundinni meðgönguvernd veigraði hann sér við að spyrja spurninga þar sem andrúmsloftið var öðruvísi: „Manni fannst þessir tímar þar sem hún er ein með ljósmóðurinni, manni finnst svona eins og (...) maður eigi bara ekkert að vera (...) það er einhvern veginn öðruvísi móment“ (Sindri). Konurnar lýstu svipaðri tilfinningu en þær upplifðu að hópmeðgönguverndin væri einskonar ísbrjótur fyrir hefðbundna meðgönguvernd, í kjölfarið þorðu konurnar frekar að spyrja spurninga og spjalla við ljósmóðurina eftir þátttökuna í foreldrahópunum: „ Sérstaklega eftir hópmeðgönguverndina, mér fannst ég vera opnari og þora að spjalla meira við ljósmóðurina“ (Elín). Aðspurðar voru konurnar sammála um að þær söknuðu einskis úr hefðbundinni meðgönguvernd á meðan á hópmeðgönguverndinni stóð, enda hefðu þær alltaf haft tækifæri til að tala við sína ljósmóður í einrúmi og það veitti þeim einnig öryggi. Hinsvegar tóku nokkrir þátttakendur það fram að þeim hefði fundist erfitt að fara úr miðjum samræðum í hópnum til að fara í heilsufarsmælingar í einrúmi með ljósmóður. Þau voru öll sammála um að tímalengdin á hverjum hópi sem var um 90 mínútur, hafi hentað þeim vel og höfðu engar athugasemdir við stærð hópsins. Það sem helst hefði getað farið betur varðandi framkvæmd hópanna var að húsnæði tveggja heilsugæslustöðvanna gerði ekki ráð fyrir slíkum hópum og því var nokkuð þröngt setið. UMRÆÐUR Aðalniðurstöður rannsóknarinnar, sem er sú fyrsta sem birtist um hópmeðgönguvernd á Íslandi, voru að foreldrar voru almennt mjög ánægðir með þetta fyrirkomulag og mæltu með hópmeðgönguvernd fyrir aðra verðandi foreldra. Þeim fannst fyrirkomulagið vera jákvæð breyting og skapa gott jafnvægi í þjónustu á meðgöngu. Niðurstaðan er því sú að vel hafi tekist til við að sameina hefðbundna meðgönguvernd og hópmeðgönguvernd í þessu tilraunaverkefni. Innan hópsins myndaðist samkennd og parið upplifði sig saman í þessu ferli. Mæðurnar upplifðu öryggi í hópnum og að þær væru ekki einar á báti. Þær mynduðu tengsl sín í milli út frá því sem þær áttu sameiginlegt, sem var meðgangan sjálf, og fannst hughreystandi

x

Ljósmæðrablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.