Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - aug. 2020, Blaðsíða 16

Ljósmæðrablaðið - aug. 2020, Blaðsíða 16
16 LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - ÁGÚST 2020 að heyra hversu svipaðar vangaveltur þeirra voru. Þessu svipar til niðurstaðna í kanadískri viðtalsrannsókn þar sem þemað „ekki ein í þessari upplifun“ var lýsandi fyrir upplifun kvenna sem tóku þátt í hópmeðgönguvernd (27). Þessi samkennd getur veitt konum innra öryggi, minnkað kvíða og aukið trú þeirra á eigin getu. Í samræðum við aðrar barnshafandi konur finna þær að allar ganga þær í gegnum líkamlegar og andlegar breytingar af einhverju tagi og fást við einhverja fylgikvilla meðgöngunnar (27-29). Á sama hátt greindu McDonald og félagar (2014) frá niðurstöðum rannsóknar sinnar að samtöl við aðrar konur í hópmeðgönguvernd um algeng óþægindi eða meðgöngutengda kvilla hefði hjálpað þeim að skynja upplifun þeirra af því að vera barnshafandi sem eðlilegt ástand. Sömuleiðis áttuðu konurnar í rannsókninni sig á því að sumar í hópnum voru að upplifa enn erfiðari aðstæður en þær sjálfar sem hjálpaði þeim að setja sínar aðstæður í betra samhengi. Þær lýstu því hvernig umræðurnar hefðu endurskilgreint fyrir þeim hvað þeim hafði áður fundist eðlilegt á meðgöngu, og hefði þetta minnkað kvíða og óöryggi á meðgöngunni. Niðurstöður okkar sýna að nálgunin í hópmeðgönguverndinni höfðaði jafnframt vel til feðranna í rýnihópnum. Þeim fannst hópmeðgönguvernd vera góður vettvangur til þess að spyrja, fá svör og hlusta á reynslu og vangaveltur annarra. Feðurnir upplifðu sig velkomna í foreldrahópana og að ljósmæðurnar væru meðvitað að reyna að fá þeim hlutverk og hafa þá með í ráðum. Vegna reynslu feðranna af hefðbundinni meðgönguvernd fyrr á meðgöngunni töldu tveir þeirra hins vegar óvíst í fyrstu hvort þeir ættu erindi í foreldrahópana. Þeir sammæltust þó fljótlega um að það væri þess virði að mæta. Það er áhugavert að feðrunum þótti þeir frekar tilheyra og hafa hlutverk í hópunum en í hefðbundinni meðgönguvernd og kemur það í raun fram undir öllum þemunum. Það undirstrikar þörf verðandi feðra fyrir að tilheyra og vera viðurkenndur partur af ferlinu. Í áðurnefndri rannsókn Andersson og félaga (2012) fannst feðrunum hins vegar ljósmæðurnar frekar miða fræðslu og upplýsingagjöf að konunum en margar rannsóknir sýna að það sé reynsla verðandi feðra (14, 15). Foreldrunum fannst fræðslan mjög gagnleg og framsetning hennar veitti þeim öryggi og var valdeflandi. Þeim fannst kostur að nægur tími væri til umræðna en þannig var hægt að ræða málin út frá fleiri sjónarhornum en í hefðbundinni meðgönguvernd. Konurnar voru sammála um að sú þekking sem þær öðluðust í hópmeðgönguvernd veitti þeim trú á eigin getu og undirbjó þær, bæði fyrir fæðinguna og móðurhlutverkið. Það er í samræmi við niðurstöður annarra rannsókna en konum finnst mikilvægt að fá nægan tíma til að fá svör við spurningum sínum og kunna að meta allan þann tíma sem þær fá með ljósmóður (2, 29, 30). Þátttakendur af báðum kynjum nutu góðs af því að hlusta á vangaveltur og spurningar annarra. Feðurnir nefndu að í hópmeðgönguvernd hafi verið ræddir mjög persónulegir hlutir sem þeir efuðust um að þeir hefðu rætt og spurt um á öðrum vettvangi. Því er hægt að álykta að þátttakendur í hópmeðgönguvernd í þessari rannsókn hafi fengið góða fræðslu og átt innihaldsríkar samræður. Rennir það stoðum undir fyrri rannsóknir um efnið sem hafa sýnt fram á að foreldrar telja sig fá meiri upplýsingar í hópmeðgönguvernd en á námskeiðum sem voru boðin meðfram hefðbundinni meðgönguvernd (31). Finni konur fyrir meira öryggi innan hópsins en í hefðbundinni meðgönguvernd eru jafnframt vísbendingar um að það hafi áhrif á andlega líðan þeirra til hins betra en niðurstöður kanadískrar rannsóknar sýndu að streita, kvíði og þunglyndiseinkenni voru marktækt lægri hjá konum sem voru í hópmeðgönguvernd (32). Allir þátttakendur komu inn á hversu róandi þeim þótti að fá fræðslu um eðlilegt ferli. Þau töldu umræðuna á jákvæðari nótum en almennt í þeirra nærumhverfi, sem stuðlaði að innri ró og öryggi. Foreldrarnir sögðu fyrirkomulag hópmeðgönguverndar mjög gagnlegt og að hún hentaði betur en fyrirlestraformið sem gjarnan er á fæðingarfræðslu¬námskeiðum, en þegar fræðsla er í umræðuformi frekar en fyrirlestraformi er líklegra að þátttakendur spyrji spurninga, taki þátt í umræðum og að fræðslan sé miðuð að þeirra þörfum (1, 10, 11, 27). Við lestur viðtalanna má finna ákveðinn samhljóm um að hópmeðgönguverndin hafi komið foreldrum skemmtilega á óvart og hafði meiri ávinning en þau bjuggust við og var þannig jákvæð breyting. Niðurstöðurnar ríma við eigindlega rannsókn McNeil og félaga (2012) á upplifun 12 kanadískra kvenna af hópmeðgönguvernd en þar kom í ljós yfirþemað „að fá meira en ég vissi að ég þyrfti“. Konurnar í þeirri rannsókn höfðu búist við eftirliti með líkamlegri heilsu í meðgönguvernd en fengu svo miklu meira en þær bjuggust við. Í rannsóknum Herrman og félaga (2012) og Teate og félaga (2011) kom einnig fram að konur lýstu mikilli tilhlökkun fyrir hópmeðgönguvernd. Í niðurstöðum okkar kom fram að konurnar töldu tengslin við ljósmóðurina hafa dýpkað á meðan á hópmeðgönguvernd stóð. Það varð til þess að þær höfðu enn meira gagn af heimsóknum í hefðbundna meðgönguvernd í lok meðgöngunnar þar sem þeim fannst þær frekar þora að spjalla. Feðurnir tóku í sama streng, þeim fannst þeir loksins vera hluti af ferlinu, mega viðra sínar vangaveltur og spurningar. Niðurstöður McDonald og félaga (2014) í Kanada voru af svipuðum toga. Athyglisvert var þó að áður en hópmeðgönguverndin hófst höfðu bæði ljósmæður og þátttakendur áhyggjur af því að fyrirkomulagið myndi hafa neikvæð áhrif á samband ljósmóður og skjólstæðings, en allir þátttakendur voru sammála um að, þvert á móti, hefði hópmeðgönguverndin styrkt sambandið. Niðurstöður annarra rannsókna eru svipaðar en aukinn tími með ljósmóður í afslöppuðu umhverfi virðist auðvelda foreldrum að mynda meðferðarsamband (2, 27-29). Markmið hópmeðgönguverndar er að sameina hlutverk meðgönguverndar og fræðslunámskeiða og koma til móts við þarfir kvenna fyrir fræðslu og stuðning á meðgöngunni. Slík fræðslunámskeið eru ekki skilgreind sem hluti af grunnþjónustu og oftast þarf að greiða sérstaklega fyrir þátttöku en mikilvægt er að fæðingarfræðsla sé hluti af hefðbundinni meðgönguvernd (1, 11, 22, 33-35). TAKMARKANIR RANNSÓKNARINNAR Það fólst ákveðin áskorun í því að skipuleggja rýnihópaviðtöl við nýja foreldra. Í tveimur tilvikum afboðuðu mæður sig með stuttum fyrirvara eða gleymdu að mæta, því voru rýnihóparnir misstórir. Af sömu ástæðu var einnig mislangt liðið frá fæðingu barns þeirra þegar þær svo loks komust í viðtal. Fjórir feður tóku þátt í rýnihópnum, en það hefði styrkt rannsóknina ef fleiri þátttakendur hefðu fengist. FRAMTÍÐARRANNSÓKNIR Vísbendingar eru um að hópmeðgönguvernd gæti hentað verðandi foreldrum, en rannsóknina þarf að endurtaka með stærri hópi, svo hægt sé að draga frekari ályktanir. Áhugavert væri að bjóða hópmeðgönguvernd fyrir viðkvæma hópa, svo sem foreldra af erlendum uppruna og konur með sérstaka áhættuþætti á meðgöngu, svo sem sykursýki eða þær sem ganga með fjölbura. LOKAORÐ Niðurstöður okkar gefa vísbendingar um að hópmeðgönguvernd geti komið betur til móts við þarfir verðandi foreldra á Íslandi hvað varðar fræðslu og samtal um meðgöngu, fæðingu og foreldrahlutverkið. Mikilvægt er því að halda áfram að þróa þessa hugmynd með það að markmiði að gefa verðandi foreldrum aukið val um þjónustu á meðgöngu, auka samtalið milli verðandi foreldra og ljósmóður og beina ljósi að jákvæðum umræðum um eðlilegt barneignarferli á Íslandi. ÞAKKIR Þakkir fá þær ljósmæður á heilsugæslustöðvunum þremur sem tóku þátt í að veita hópmeðgönguvernd og verðandi foreldrar sem með opnum huga mættu í hópmeðgönguverndina. Án þeirra hefði þessi rannsókn ekki átt sér stað. Sérstakar þakkir fá þátttakendur í rannsókninni sem gáfu af tíma sínum og deildu með okkur sinni upplifun af hópmeðgönguvernd. Reynsla þeirra er mikilvægur þáttur í áframhaldandi þróun á hópmeðgönguvernd á Íslandi.

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.