Ljósmæðrablaðið - ágú. 2020, Page 34
34 LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - ÁGÚST 2020
H U G L E I Ð I N G L J Ó S M Ó Ð U R
KONUR Á FLÓTTA LEITA SKJÓLS
Síðla árs 2018 var ég á hlaupum í „Einskinsmannslandi“ (No man´s
land) á grasbalaeyju í fljótinu Naf milli Bangladesh og Mjanmar, meðal
Róhingja sem eru þjóðarbrot frá Rakínhéraði í vestur Mjanmar. Fólk í
þúsunda tali, meirihluti þó konur og börn, bíður þar eftir að komast inn
til Bangladesh til að fá öruggt skjól. Það neyddist til að leggja á flótta
frá heimilum sínum í Rakín. Það er steikjandi hiti og ekkert skjól. Gras-
balaeyjurnar sem eru mjóar ræmur eru þéttsetnar fólki sem hefur ekkert
fyrir stafni nema að bíða.
Ég var kölluð til þar sem ein flóttakvennanna var að fæða. Þegar ég
kem að liggur konan undir berum himni við ána í skjóli annarra kvenna
sem eru að aðstoða. Það er ótrúlega mikil ró yfir öllu þrátt fyrir mann-
fjöldann. Barnið er að fæðast og ég hjálpa til. Stúlka kemur í heiminn,
grætur strax og ég legg hana í fang móður, svo kemur fylgjan. Allt
lítur vel út sem sagt, þetta er „eðlileg fæðing“. Ég reiði fram svokall-
aðan fæðingarpakka sem ég er með í bakpokanum, set snæri um nafla-
strenginn og sker með rakvélablaði, þurrka og pakka barni inn í teppi og
huga að móður samkvæmt venju en hún horfir stórum augum á undirrit-
aða og hefur örugglega hugsað „hvaðan kom þessi?“ Við brosum hvor
til annarrar, ég óska henni til hamingju og ég held hún skilji mig. Það er
enginn faðir með og með handapati skilst mér að hún hafi fætt sitt annað
barn, amma er með í för. Konan fær sápu og eitt og annað sem ég er
með í pokanum, vatn að drekka og ég sé til þess að þau komist á spítala
þar sem aðstæður eru alls ekki við hæfi fyrir móður og nýfætt barn.
Auðvitað eru kringumstæður þessarar konu einstakar og nokkuð ljóst
að hún sá ekki fyrir að fæða stúlkuna á flótta við þessar aðstæður, þar
sem öryggi og hreinlæti er verulega ábótavant. Að öllum líkindum hefur
hún aldrei átt kost á mæðravernd til að athuga hvort allt væri í lagi.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég verð vitni að ömurlegum aðstæðum
fæðandi kvenna í vinnu minni erlendis en þetta er í fyrsta skipti sem
ég aðstoða við fæðingu í „Einskinsmannslandi“ þar sem bæði móðir
og barn eru án ríkisfangs. Það er fátt sem bendir til annars en að sú
stutta muni búa í flóttamannabúðum í Bangladesh ásamt hundruðum
þúsunda annarra flóttamanna við aðstæður sem eru okkur verulega
framandi. Skortur er á aðgengi að heilbrigðisþjónustu, húsnæði, vatni,
mat, menntun og svo má lengi telja - þá þætti sem við teljum til sjálf-
sagðra mannréttinda.
Ég ætla ekki að dvelja við að segja sögur úr mörkinni heldur benda á
þá staðreynd að undanfarin ár hefur orðið töluverð breyting hér heima á
hópi barnshafandi kvenna sem við ljósmæður sinnum. Samfélag okkar
er mun fjölbreyttara en áður með auknum fjölda innflytjenda, þar með
töldum umsækjendum um alþjóðlega vernd og flóttamönnum. Átökin í
Sýrlandi og ófriðurinn í Mið-Austurlöndum hafa orðið til þess að fólk
þaðan neyðist til að leita skjóls í Evrópu og hefur það einnig leitað
hingað til Íslands. Við sjáum einnig fólk frá öðrum heimsálfum sem
leitar verndar hér. Ég hef séð með eigin augum og reynt hvernig átök,
flótti og fátækt hefur langvarandi neikvæð áhrif á andlega og líkamlega
heilsu fólks, ekki síst barnshafandi kvenna.
Það er áskorun að veita fólki á flótta, í leit að alþjóðlegri vernd, þá
þjónustu sem það þarfnast. Ég hef einnig unnið í Sýrlandi, Írak og Íran
og bý að þeirri reynslu en ég get ekki sett mig fullkomlega í þeirra
spor því sjálf hef ég ekki verið í þeirra stöðu. Sögur kvennanna eru
eins mismunandi og þær eru margar. Sumar hafa dvalið árum saman í
Evrópu við misjafnar aðstæður, jafnvel í flóttamannabúðum og leita enn
betra lífs fyrir sig og ófædd börnin. Mismunandi þjóðfélagshópar hafa
hefðir og gildi sem við oft þekkjum ekki, staða kvenna er ólík þeirri sem
við íslenskar konur stærum okkur af og tungumálaerfiðleikar koma í veg
fyrir viðunandi samskipti og skilning. Jafnvel þótt okkar lög geri ráð
fyrir að allir eigi rétt á sömu heilbrigðisþjónustu er líklegt, að mínu viti,
að þessar konur fái ekki eins góða þjónustu. Erlendar rannsóknir hafa til
dæmis bent á að aðfluttar konur hafi minna að segja um eigin umönnun,
finni fyrir óöryggi og upplifi mismunun í umönnun. Þetta gerist jafnvel í
löndum þar sem heilbrigðisþjónusta er á heimsmælikvarða.
Samsetning á hópi barnshafandi og fæðandi kvenna sem við ljós-
mæður sinnum hefur því tekið miklum breytingum á örfáum áratugum
og þá á ég ekki eingöngu við þann hóp sem ég fjalla um hér að ofan
heldur einnig bæði erlendar og íslenskar konur sem stríða við andlega
vanlíðan, fíkn eða alvarlega sjúkdóma á meðgöngu og eftir fæðingu.
Nýjar áskoranir í starfi taka á og við þurfum að fræðast um og skilja
aðstæður kvennanna þótt þær séu ólíkar því sem við þekkjum fyrir.
Þverfagleg samvinna við aðrar starfsstéttir og stofnanir er nauðsynleg til
að veita sem besta þjónustu og mæta þörfum þessara kvenna.
Við ljósmæður erum líklega einhver þrautseigasta stétt sögunnar og
höfum þurft að finna lausnir á tímum og í aðstæðum þar sem bjargir
hafa verið litlar eða engar. Ég er ekki að grobba mig, ég veit við erum
allar hörku töffarar. Og í hjarta okkar vitum við að þótt hver móðir og
hvert barn séu einstök og engum öðrum lík er okkar verk hvar sem er
ætíð það sama; að veita móður og barni eins góða aðstoð og hægt er, á
meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu, á eins traustan, öruggan og mann-
legan hátt og mögulegt er.
Hólmfríður Garðarsdóttir
Hólmfríður hefur starfað á hamfara- og átakasvæðum á vegum Rauða krossins í
yfir 20 ár.