Morgunblaðið - 20.01.2020, Síða 11
FRÉTTIR 11Innlent
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 20. JANÚAR 2020
Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
Athafnamaðurinn Loo Eng Wah
hefur fengið vilyrði fyrir tveimur at-
vinnulóðum á besta stað á Hellu þar
sem hann hyggst halda áfram upp-
byggingu ferðaþjónustu sinnar.
Annars vegar er um að ræða lóð við
bakka Rangár og hins vegar við
Miðvang, gegnt skrifstofu sveitarfé-
lagsins og miðstöð þjónustu þar.
„Loo er ekki af baki dottinn. Hann
sótti um þessar lóðir fyrir nokkrum
vikum og sveitarstjórn tók umsókn-
irnar fyrir. Þær voru samþykktar
með fyrirvara um útlit og áform,“
segir Haraldur Birgir Haraldsson,
skipulags- og byggingarfulltrúi
Rangárþings ytra.
Áform Loo um uppbyggingu
ferðaþjónustu á jörðunum Leyni 2
og 3 í Landsveit hafa vakið mikla at-
hygli eftir umfjöllun Morgunblaðs-
ins. Loo, sem fer fyrir hópi fjárfesta
frá Malasíu, hefur stórar hugmyndir
um svæðið en óánægju hefur gætt
með áform hans meðal hagsmuna-
aðila á svæðinu. Umfang uppbygg-
ingarinnar hefur verið gagnrýnt sem
og að uppbyggingin hafi hafist án
þess að tilskilinna leyfa hafi verið
aflað. Eftir mótmæli nágranna hefur
Loo breytt áformum sínum nokkuð
og eru þau minni í sniðum en upp-
haflega var stefnt að. Til að mynda
verða umdeild hjólhýsi á Leyni fjar-
lægð. Heildargestafjöldi er nú áætl-
aður um 170 manns en var upp-
haflega mun meiri. Sveitarstjórn
Rangárþings ytra samþykkti nýver-
ið nýja tillögu að deiliskipulagi á
svæðinu og er nú beðið niðurstöðu
Skipulagsstofnunar um hvort fram-
kvæmdir þar séu háðar mati á um-
hverfisáhrifum.
Reisir stoppistöð fyrir rútur
Nú virðist ljóst að Loo hefur
ákveðið að beina sjónum sínum að
Hellu samfara uppbyggingunni á
Leyni. Haraldur Birgir segir að lóð-
irnar tvær séu afar eftirsóknar-
verðar og forvitnilegt verði að sjá
hvernig Malasíumaðurinn hyggist
nýta þær.
Í umsókn fyrir lóðina að Rangár-
bakka kemur fram að Loo hyggist
reisa þar timburhús og vill að fram-
kvæmdir hefjist næsta sumar. Húsið
er hugsað undir minjagripaverslun,
upplýsingamiðstöð, gistingu, bíla-
leigu og sem jólahús. „Ég veit ekki
af hverju hann vill byggja þarna
jólahús. Kannski eru þau svona
heilluð af jólaundirbúningi og jól-
unum hér,“ segir Haraldur Birgir.
Lóðin við Miðvang 5 er að mati
skipulagsfulltrúans mjög spennandi
enda í miðju þjónustu bæjarins.
„Hún er í rauninni andlit Hellu og
inngangur upp á hálendið,“ segir
Haraldur Birgir og bendir á að nýtt
deiliskipulag bæjarins, sem nú er
unnið að, feli í sér stækkun á bíla-
stæði við Þrúðvang sem ætti að liðka
enn frekar fyrir þeim fjölmörgu
ferðamönnum sem þar fara um.
Þetta hyggst Loo nýta sér og byggja
skrifstofur fyrir félag sitt, New
Horizons, upplýsingamiðstöð fyrir
ferðamenn og stoppistöð fyrir rútur.
Ferðaþjónustufyrirtækið South-
coast Adventure ehf . frá Hvolsvelli
hefur fengið úthlutaða lóðina við
Miðvang 3. Það er því útlit fyrir tals-
verða uppbyggingu í ferðaþjónustu
á Hellu á næstu misserum.
Loo hyggst byggja
jólahús á Hellu
Ferðaþjónustubóndi frá Malasíu tryggir sér tvær lóðir
á Hellu Hefur stýrt umdeildri uppbyggingu á Leyni
Morgunblaðið/Hari
Framkvæmdagleði Malasíumaðurinn Loo Eng Wah beinir nú sjónum sínum
að Hellu og áformar uppbyggingu ferðaþjónustu þar, samfara áformum sín-
um Leyni 2 og 3 í Landsveit. Loo hefur þegar tryggt sér tvær lóðir.
Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Vöxtur ferðaþjónustunnar á
undanförnum árum hefur verið
mjög hraður og það hefur gerst
þrátt fyrir að samgöngur, að-
staða á vinsælum áfangastöðum
og fleira slíkt sé ekki í samræmi
við þarfir og kröfur nútímans.
Uppbygging innviða á Íslandi
hefur ekki fylgt þeirri þróun að
þjónusta við ferðafólk sé orðin sá
atvinnuvegur sem skilar mestu í
þjóðarbúið,“ segir Arnheiður Jó-
hannsdóttir, framkvæmdastjóri
Markaðsstofu Norðurlands.
Í síðustu viku var kaup-
stefnan Mannamót haldin í Kórn-
um í Kópavogi og þangað mættu
ferðaþjónar af öllu landinu til að
kynna sitt og selja. Algengt var
þar að einstaka héruð eða sveitir
sameinuðust um kynningu. Eyja-
fjarðarsveit er dæmi þar um og
þetta segir Arnheiður gott mál.
Samvinna auki slagkraft mark-
aðsstarfs.
Þörf á nýrri gátt
„Ferðaþjónustan úti á landi
er í sókn að því leyti að áhugi sem
við greinum til dæmis á erlend-
um ferðakaupstefnum og meðal
fjölmiðlafólks er mikill, þá sér-
staklega á afskekktari svæðum.
Á hinn bóginn er greinin í varn-
arbaráttu hvað víkur að upp-
byggingu allra innviða, til dæmis
vega og í flugi. Það er mikilvægt
að opna nýja gátt inn í landið
með flugi árið um kring, þá helst
á Akureyri,“ segir Arnheiður.
„Víða þarf að byggja nýja
vegi og styrkja vetrarþjónustu.
Þar get ég nefnt að nú erum við
að kynna Demantshringinn þar
sem Húsavík, Goðafoss, Mývatns-
sveit, Dettifoss og Ásbyrgi eru
meðal áfangastaða. Þar er baga-
legt að ekki sé reglulegur snjó-
mokstur að Dettifossi sem reynd-
ar á við um fleiri ferða-
mannastaði á Norðurlandi.
Margt gott hefur sannarlega
áunnist í því að byggja upp þá
grunnþjónustu sem ferðamenn
nýta sér. Jú, vissulega kostar
slíkt talsverða peninga en við
fáum líka mikið í staðinn. “
Gistinóttum fjölgar nyrðra
Erlendir ferðamenn sem
komu til landsins í fyrra voru rétt
tæplega tvær milljónir og fækk-
aði um 14% eða 329 þúsund frá
árinu 2018. Er þetta í fyrsta sinn
sem fólki sem til Íslands kemur
fækkar milli ára. Arnheiður segir
fall WOW helstu skýringu þessa,
en fækkunin sé þó minni en óttast
var. Á Norðurlandi hafi gistinótt-
um í fyrra meira að segja fjölgað
um 10% og 14% á Austurlandi. Á
hinn bóginn sé dvalartími erlend-
ara ferðamanna sem Ísland
sækja heim að styttast og æ fleiri
fari fyrst og síðast um suðvest-
urhluta landsins. Slíkt hafi leitt
til þess að mörg fyrirtæki í hinum
dreifðari byggðum séu lokuð yfir
vetrartímann enda ekki grund-
völlur fyrir heilsárstarfsemi.
„Ísland á mikil sóknarfæri,“
segir Arnheiður. „Síðustu árin
hafa Bandaríkjamenn flykkst
hingað og þá er markaðsstarf á
Asíumörkuðum að skila sér. Allt
slíkt kallar svo á að fyrirtækin og
starfsfólk þeirri lagi sig að og
mæti þörfum fólks frá Aust-
urlöndum fjær, sem eru allt aðr-
ar en Evrópubúa. Raunar veit ég
að stjórnendur fyrirtækja hafa
að undanförnu notað þann slaka
sem nú er til að stokka spilin í
rekstri sínum; fjármálin, starfs-
mannahald, að styrkja faglegar
áherslur og fleira.“
Kynna nýja viðkomustaði
Á síðasta ári var kynnt og
opnuð Norðurstrandarleiðin,
Arctic Coast Way, vegurinn frá
Vatnsnesi í Húnaþingi vestra
austur á Bakkafjörð. Við þessa
strandlengju eru margir áhuga-
verðir staðir sem stendur til að
kynna og festa í sessi sem við-
komustaði ferðamanna, svo sem
Kálfshamarsvík á Skaga og
Heimskautsgerðið á Raufarhöfn.
„Við eigum marga svona staði,
faldar perlur sem geta slegið í
gegn. Á alþjóðlegum ferðamark-
aði er Ísland stundum lagt að
jöfnu við Nepal og Nýja-Sjáland,
enda er hér einstök náttúra og
margt fleira sem ekki býðst í
nokkru öðru landi veraldar. Í því
felast mikil tækifæri,“ segir Arn-
heiður að síðustu.
Markaðsstarf Íslendinga í Asíu skilar sér
Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Ferðaþjónusta Uppbygging innviða á Íslandi hefur ekki fylgt þróun
atvinnuhátta, segir Arnheiður Jóhannsdóttir.
Ísland er lagt að
jöfnu við Nepal
Arnheiður Jóhannsdóttir er
úr Hrísey, fædd árið 1975. Hún
útskrifaðist sem rekstrarfræð-
ingur frá Háskólanum á Akur-
eyri 1999 og lauk ári síðar
mastersprófi í alþjóðamark-
aðsfræði frá háskóla í Glasgow
í Skotlandi. Starfaði fyrr á ár-
um hjá KPMG ráðgjöf, Nýsköp-
unarmiðstöð Íslands og við
uppbyggingu Air 66N flugklas-
ans á Akureyri.
Í ársbyrjun 2013 tók Arn-
heiður við starfi fram-
kvæmdastjóra Markaðsstofu
Norðurlands, sem sér um
kynningu og markaðsmál
ferðaþjónustu í landsfjórð-
ungnum.
Hver er hún?