Morgunblaðið - Sunnudagur - 08.03.2020, Blaðsíða 10
VIÐTAL
10 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 8.3. 2020
og bætir við að þeir hafi yfirleitt skemmt sér
stórvel við gerð þáttanna, þótt stundum hafi það
ekki verið auðvelt að vera með nýtt og ferskt
efni í viku hverri.
„Það var gaman og við vorum allir svo góðir
vinir. Þetta var dásamlegt tímabil,“ segir hann.
„Þetta áttu í upphafi að vera fjórir þættir en
endaði í áratugum, í raun heilu ævistarfi. Við
erum allir mjög ólíkir einstaklingar og bætum
hver annan upp. Stjörnurnar voru okkur hlið-
hollar þegar valdist í þennan hóp,“ segir hann
og segir þá félaga enn hittast af og til.
Pálmi segir að hann eigi í raun ekki sér uppá-
halds karakter úr Spaugstofunni.
„Ég lenti svolítið í því að herma eftir. Ekki
vegna þess að ég hefði einhverja sérstaka hæfi-
leika í það, en hinir gátu bara ekkert hermt
eftir,“ segir Pálmi og hlær.
„Mér fannst alltaf gaman að leika Steingrím
Hermannsson, þann mikla höfðingja sem ég bar
mikla virðingu fyrir,“ segir Pálmi og segir að
langflestir alþingismenn og ráðherrar hafi
kunnað vel að meta húmorinn.
„Þó var einn sem var mjög ósáttur við mig.
Hann reyndi að fá útvarpsstjóra til að taka þátt-
inn af dagskrá. Við höfðum heilmikil áhrif og ef
út í það er farið heilmikil völd. Þetta var ekki
bara eitthvert sprell. Þetta var beitt gagnrýni
og það kom fyrir að fólk hringdi í okkur til að
klaga einhvern og reyna að fá okkur til að gera
ákveðna hluti,“ segir Pálmi og ákveður að upp-
lýsa ekki meir um það.
„Í dag ætti að vera eitthvað sem væri ígildi
Spaugstofunnar. Það vantar tilfinnanlega svona
þátt; flestar þjóðir eru með svona þætti. Þetta
er eins og hirðfíflin í gamla daga, í svona þætti
má fólk segja sannleikann án þess að vera háls-
höggvið.“
Hvort á betur við þig, drama eða gaman-
leikur?
„Mér finnst alltaf gaman að gera sitt lítið að
hverju. Og vera í leikhúsi, kvikmyndum og sjón-
varpi. Það kemur kannski einhverjum á óvart
að í grunninn er ég dramatískur leikari og það
hefur verið mitt hlutskipti hér í leikhúsinu. En
það er gaman að leika gaman og drama jöfnum
höndum.“
Smellpassar í hlutverkið
Pálmi hefur leikið í á annað hundrað leikverkum
á ferlinum. Það er því af nógu að taka þegar
blaðamaður biður hann um að nefna það sem
stendur upp úr; kannski allt of miklu!
„Það er svolítið margt! Nú stendur það upp
úr sem ég er að gera núna. En það er af ýmsu að
taka, en eðli þessa starfs er þannig að leikari
fær kannski aldrei hlutverk alla sína ævi sem
gjörsamlega hentar honum. Kannski gerist það
einu sinni eða tvisvar. 80-90% af starfi leikarans
fara í að glíma við eitthvað sem hann á kannski
ekkert auðvelt með. Þess vegna er mikilvægt að
vel sé kastað í rullurnar.“
Manstu eftir svoleiðis hlutverki, sem passaði
þér fullkomlega?
„Já, mér finnst ég eiga heima í þessari Út-
sendingu. Þessi saga og þessi texti höfðaði mjög
til mín. Þessar ræður sem hann flytur hefði ég
geta verið að flytja sjálfur; það er mikill munur
ef maður getur talað frá hjartanu,“ segir hann.
„Þetta hlutverk náði strax til mín þegar ég
fór að lesa það. Ég man eftir myndinni á sínum
tíma en það hafði nú fennt yfir það. Þegar ég las
þetta fannst mér þetta hitta í mark. Svo er frá-
bær hópur sem stendur að þessu og frábært að
vinna með Góa. Hann er mikill listamaður og
svo er hann bara svo góð manneskja og
skemmtilegur, sem er nú það sem ég kann best
að meta í fari fólks.“
Gagnrýnendur á Íslandi hafa verið að deila
um hvort þessi saga eigi erindi í dag. Hvað
finnst þér?
„Ég næ ekki alltaf þessari leiklistarumfjöllun
hér. Mér finnst þetta vera algjörlega „spot on“.
Og þótt við séum í klæðaburði frá áttunda ára-
tugnum er galið að vantreysta áhorfendum og
halda að þeir geti ekki sett þetta í samhengi.
Það er hægt að yfirfæra þessa hugmyndafræði
yfir á samfélagsmiðlana í nútímanum og ef fólk
getur það ekki hefur það ekki mikið hugmynda-
flug. Mér hefur alltaf fundist þetta liggja lóð-
beint við,“ segir Pálmi og bendir á að í dag stýri
Trump öllum heiminum á twitter.
„Þetta er svipað og þegar við setjum upp
Shakespeare, Lé konung til dæmis. Þar má
finna alla galla og breyskleika mannsins, dauða-
syndir eins og hégóma og græðgi,“ segir Pálmi
og segir þessi klassísku leikrit alltaf eiga vel við.
„Það er oft sagt að tímarnir breytist og
mennirnir með. Mér finnst það bara della.
Tímarnir breytast en mennirnir ekki.“
Skjárinn ræður örlögum
„Þannig að mér finnst Útsendingin kallast á
við allt sem er að gerast í dag; alla þessa
mötun og falsfréttir. Fólk er farið að láta
samfélagsmiðla segja sér hvernig því eigi að
líða og hvað það eigi að gera. Og þá er ég að
vitna beint í minn mann,“ segir Pálmi.
„Howard Beale er orðinn pínulítið tæpur en
þá getur maður líka spurt; hver er tæpur, hann
eða allir í kringum hann? Eða allur heimurinn?
Áhorfið er farið niður á við og honum er sagt
upp; hann missir konuna sína og er farinn að
drekka. Hann hefur trúlega verið í áratugi að
segja fréttir sem voru í raun lygar. Hann var
alltaf að ljúga að fólki en svo byrjar hann að
segja fólki hvað honum virkilega finnst. Þessar
aðstæður knýja hann til þess,“ segir Pálmi og
segir sjónvarpið mikið valdatæki.
„Ef ég vitna í hann þá segir hann: „þessi skjár
er í augum fólks boðberi heilags sannleika.
Þessi skjár er hin æðsta opinberun. Þessi skjár
getur ráðið örlögum forseta, páfa, forsætisráð-
herra. Þessi skjár er mesta ægivald sem fyrir-
finnst í öllum þessum guðlausa heimi. Og aum-
ingja við ef yfirráðin yfir þessu tæki lenda þar
sem síst skyldi,“ “segir hann og heimfærir
þessa línur yfir á nútímann.
„Við vitum alveg af hverju Trump var kosinn,
við sjáum popúlista rísa upp víða um heim.
Þetta er ákveðin heilaþvottur. Fólk er svo fljótt
að trúa og auðvelt er að planta einhverju inn hjá
fólki. Og það gera fjölmiðlar og það er það sem
hann er að tala um. Skjáir í dag segja okkur
hvernig við eigum að klæða okkur, borða, ala
upp krakkana. Þessi nútímaveröld okkar bygg-
ist á þessum stanslausa áróðri.“
Þyrmir yfir mann
Hvernig horfir þú til framtíðar með heimsmálin,
ertu pólitískur?
„Já, ég er svolítið pólitískur. Stundum þyrmir
yfir mann. Ég velti því fyrir mér, og kannski er
mannkynið svo ungt, en við virðumst aldrei
læra neitt. Það er svo magnað; endalaus stríð og
þessi græðgi. Allir vilja skara eld að eigin köku.
Það hrundi hér allt og allt fór til andskotans en
það hefur enginn lært af því, það er allt í sama
farinu aftur. Með sama fólkinu,“ segir Pálmi.
„Sjáðu Evrópu, þar eru hægri fasistar að
poppa upp og mikið hatur. Og svo stjórnar
Trump heiminum! Hvernig gat það gerst að sá
hálfviti yrði valdamesti maður heims? Þar held
ég að miðlarnir og algóritmarnir hafi haft áhrif
á fólk í gegnum samfélagsmiðla.“
Heimur versnandi fer?
„Já, að mörgu leyti en margt er að mörgu
leyti betra. En uppgangur fasismans hræðir
mig. Pútín situr endalaust og í Bandaríkjunum
eru skýr merki þess að Trump sé að stýra dóm-
stólum. Svo verður hann endurkosinn,“ segir
Pálmi og hristir hausinn.
Honum er mikið niðri fyrir að Íslendingar
skuli ekki vera komnir með nýja stjórnarskrá.
„Þjóðin kaus þetta. Ég held að það gerist
ekkert af viti fyrr en við fáum nýja stjórnarskrá
þar sem kveðið er á um að auðlindir séu í
þjóðareign. Og að peningamenn geti ekki spilað
eins og þeim dettur í hug með allan almenning.
Við erum rík þjóð, af hverju er hér fullt af fá-
tæku fólki? Þessir ríku verða sífellt ríkari. Svo
ríkir hér virkjanagræðgi,“ segir Pálmi og bætir
við: „Rétt eins og í Útsendingu, þá snýst það
ekki bara um hann, heldur eru aðrir á sjón-
varpsstöðinni sem notfæra sér veikleika hans.
Þar gildir það: við sýnum bara það sem selur.
Það er bara þannig. Og þó að það séu mannlegir
harmleikir, þá á að sýna það sem selur. Og það
kemur siðferði ekkert við, heldur bara gróða.
Þannig að þessi saga, Útsendingin, hefur aldrei
átt betur við en núna, aldrei. Hún á miklu betur
við heldur en 1976 og ætti að höfða til mjög
margra.“
Hef varla sleppt hamrinum
Hvað er framundan?
„Ég vona að ég fari að komast í frí. Þessi vet-
ur er búinn að vera dálítið meira en meðalvetur.
Strax eftir frumsýningu á Útsendingunni tók-
um við aftur upp sýningar á Einræðisherran-
um, og í haust var ég í Ör og Meistaranum og
Margarítu. Þannig að þeir eru teljandi á fingr-
um annarrar handar frídagarnir sem ég hef
fengið síðan í ágúst eða september. Ég held að
ég sé búinn að skila mínu í vetur. Ég fer vestur
um páska og í sumar. Annars fer ég kannski
minna vestur núna þegar ég þarf að lappa upp á
húsið á heiðinni. Mér líður oft best þegar ég er
að dunda við eitthvert handverk. Það var ekki
þannig áður fyrr; þegar ég hætti í smíðinni og
fór í þetta ætlaði ég aldrei að taka á hamri aftur.
En svo gerðist það nú tveimur áratugum síðar,
og þá kannski af illri nauðsyn að ég tók aftur
upp hamarinn og hef varla sleppt honum síðan.
Mér finnst handverk svo göfugt.“
Hvað gerir þú til að slaka á?
„Ég á nú ekkert sérstaklega bágt með að
vera til. Að vísu þegar maður kemur úr svona
mikilli vinnu; svona hörðum „Smugutúrum“, þá
þarf maður að passa sig fyrstu vikurnar að fara
ekki á taugum því það tekur tíma að ná sér
niður. Sumir þurfa alltaf að vera að gera eitt-
hvað en ég er ekki þannig. Ég er mikið í úti-
veru, bæði í göngum og hjólreiðum. Mér leiðist
aldrei, þó að ég sé ekki að gera neitt nema að
slaka á.“
Pálmi fær glimrandi dóma fyrir leik
sinn í Útsendingunni og finnst
honum hlutverkið smellpassa sér.
’Mér finnst þetta vera algjörlega „spot on“. Og þótt við séumí klæðaburði frá áttunda áratugnum er galið að vantreystaáhorfendum og halda að þeir geti ekki sett þetta í samhengi.
Ljósmynd/Hörður Sveinsson