Harmonikublaðið - 01.05.2017, Side 16

Harmonikublaðið - 01.05.2017, Side 16
Páll Hjörtur Sigfusson f. 26. nóvember 1931 - d. 18. janúar 2017 Páll Hjörtur Sigfússon fæddist á Krossi í Fellasveit þann 26. nóvember árið 1931. Foreldrar Páls voru hjónin Sigfús Guttormsson og Sólrún Eiríksdóttir. Þau bjuggu fyrst á Dalhúsum á Eyvindarárdal og á Krossi í Fellasveit frá 1931. Páll var elstur níu systkina sem komust á legg en það elsta, sem var drengur, fæddist andvana. Systkini hans eru Oddur, Guðný Sólveig, Guttormur, Sveinn Eiríkur, Þórey, Baldur, Jón og Oddbjörg sem lést árið 2015. Páll giftist Þóreyju Guðnýju Eiríksdóttur frá Eskifirði. Páll og Þórey bjuggu á Hreiðarsstöðum í Fellum frá 1963 til 1992 en þá fluttust þau í Fellabæ. Frá sumrinu 2015 bjuggu þau á hjúkrunarheimilinu Dyngju á Egils- stöðum. Þau hjónin eignuðust sjö dætur. Þær eru Stefanía Hildur, Sólrún, Guðbjörg, Sólveig, sem lést árið 2015, Þórey Eiríka, Stefanía og Asgerður. Afkomendahópur þeirra er orðinn stór. Páll bjó yfir góðum tónlistarhæfileikum og átti merkilegan feril sem harmoniku- leikari. Hann var fær og eftirsóttur og spilaði á dansleikjum og samkomum um allt Fljótsdalshérað og einnig niðri á Fjörðum. Tónlistargáfuna fékk Páll í vöggugjöf en hann var sjálfmenntaður í list sinni. Hann notaði sér þó þau tækifæri sem gáfust til tónlistarnáms eftir að hann og Þórey fluttu í Fellabæ og lærði til að mynda nótnalestur í tvó vetur hjá Ármanni Einarssyni. Hann taldi Pál hæfileikaríkasta nemanda sem hann hefði nokkurn tíma haft. Foreldrar Páls voru tónelsk og fengust einnig við ljóðagerð. Amma Páls í föðurætt, Oddbjörg Sigfúsdóttir, var á heimilinu þegar Páll og systkini hans voru að alast upp. Hún spilaði á harmoniku og lék á böllum þegar hún var ung vinnukona í Vopnafirði fyrir aldamótin 1900. Tónlist, ljóð og söngur áttu fastan sess á æskuheimili Páls og þau systkinin fengu mikinn áhuga á þessu öllu. Flest þeirra gátu náð lagi á harmoniku og þeir Oddur, Guttormur og Jón hafa mikið fengist við harmonikuleik. Systkinin geta flest sett saman kveðskap og hafa ljóð birst eftir Odd og Oddbjörgu. Guttormur og Oddbjörg hafa samið lög sem hafa verið flutt opinberlega. Páll reyndi snemma að ná lagi á stofuorgelið á BCrossi. Það mun svo hafa verið í farskóla á Setbergi sem hann kynntist harmoniku sem hljóðfæri. Fyrstu harmonikuna, Scandalli að gerð, keypti Páll af Haraldi Gunnlaugssyni einum Setbergsbræðra. Þrír þeirra, Sigfús, Haraldur og Bragi, léku allir á harmoniku. Eftir að Páll eignaðist sína eigin harmoniku fór hann að læra og æfa lög með það að markmiði að geta spilað á böllum. Eini kosturinn var sá að læra lögin utan að eftir útvarpinu svo mikið hefur reynt á næma tónlistargáfu hans. Hann hafði fjölmörg lög á takteinum og spilaði þau öll eftir eyranu. Páli gekk vel að koma sér á framfæri og sem fyrr segir varð hann mjög vinsæll harmonikuleikari. Oftast var Páll með bræður sína með sér sem trommuleikara. Þeir Guttormur, Baldur og Jón komu við sögu í því hlutverki eftir því hver var heima við hverju sinni. Þetta var mest á sjötta áratugnum og fram á þann sjöunda en þá fóru bústörfin að binda hann meira. En á meðan Páll gaf sig í að spila lék hann í öllum samkomuhúsum á Fljótsdalshéraði og stundum var hann pantaður niður á firði. Á síldarárunum var böllum gjarnan slegið upp á fjörðunum samdægurs í landlegum skipa. Þá var ekki um annað að ræða en drífa sig úr verkum heima til að spila. Spilamennskan gaf nokkrar tekjur og það munaði um allt. En spilamennskan tók á. Það þurfti að kunna mörg lög og stundum stóðu böllin langt fram á nótt og jafnvel fram undir morgun. Páll fór á nokkrar vetrarvertíðir til Vestmannaeyja, hafði nikkuna með og spilaði á skólaböllum eldri nemenda. Hann fór þó aldrei til Eyja fyrr en þorrablótsvertíðin var búin en hann spilaði á fjölda þorrablóta á Héraði þar sem blótað var í hverjum hreppi. Stundum voru blót kvöld eftir kvöld. Páll var meðlimur í einni fýrstu danshljómsveit sem starfrækt var á Héraði. Hljómsveitin hét Tríó Þorvaldar. Með honum voru Þorvaldur Jónsson frá Torfastöðum í Jökulsárhlíð sem lék á harmoniku og Önundur Magnússon þá kaupfélagsstarfsmaður á Egilsstöðum. Onundur lék á klarínett en Páll á trommur. Það var sumarið 1956 sem þetta tríó hélt uppi fjöri. Páll var stofnfélagi í Harmonikufélagi Héraðsbúa 1984 og starfaði talsvert með félaginu. Páll spilaði smá saman sjaldnar opinberlega en hann lék á nikkuna sína svo til daglega og oft lék hann nokkur lög fyrir svefninn að loknu erfiðu dagsverki. Á seinni árum lék hann reglulega fyrir dansi þegar eldri borgarar á Egilsstöðum komu saman. Um tíma var hann einnig undirleikari hjá dansflokknum Fiðrildunum á Egilsstöðum. Páll hafði léttan spilastíl og sérlega góðan takt sem fólki þótti gott að dansa við. Sumir segja þann hljóm sem hann framreiddi einstakan og allir sem könnuðust við hann þekktu spilið hans Palla um leið og þeir heyrðu. Hann bjó að jákvæðri lífssýn, hógværð og mikilli geðprýði. Hann átti gott með að gleðjast á góðum stundum og vekja smitandi glaðværð með dillandi hlátri. Hógværðin birtist í því að hann vildi lítt halda merkum tónlistarferli sínum á lofti. Þó birtist grein í Harmonikublaðinu fyrir nokkrum árum þar sem farið var yfir feril hans. Við gerð greinarinnar kom vel í ljós hversu mikla ánægju Páll hafði af tónlist og eins kom fram í dagsljósið hversu merkilegur ferill hans sem tónlistarmanns var. Þess má geta að til er klukkutíma upptaka með danslögum spiluðum af Páli. Oft er sagt að einhver hafi gert eitthvað til dauðadags. Sannarlega lék Páll á harmoniku til dauðadags. Að kvöldi 18. janúar tók hann fram nikkuna sína, settist niður og lék nokkur lög. Hann lagði sig svo og sofnaði svefninum langa. Þórey kona hans og afkomendur hafa haft á orði að það hefði ekki getað verið betra að það síðasta sem Páll gerði í þessu lífi skyldi vera það sem hann hafði mesta ánægju af. Fyrir hönd Harmonikufélags Héraðsbúa Sigfus Guttormsson 16

x

Harmonikublaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Harmonikublaðið
https://timarit.is/publication/1088

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.