Feykir - 04.09.2019, Blaðsíða 5
ÍÞRÓTTAFRÉTTIR F
Knattspyrna 2. deild : Tindastóll - Selfoss 1-4
Lið Tindastóls fallið í 3. deild
Tindastóll og Selfoss mættust á
Sauðárkróksvelli í 2. deild karla nú á
laugardaginn. Fyrir leikinn var lið Stólanna í
vonlausri stöðu þegar enn voru fjórar umferðir
eftir og í raun ljóst að kraftaverk dygði ekki til
að bjarga liðinu frá falli. Gestirnir eru
hinsvegar að berjast fyrir sæti í Inkasso-
deildinni að ári og Stólarnir reyndust lítil
fyrirstaða. Lokatölur voru 1-4 og lið Tindastóls
þar með fallið í 3. deild.
Þór Llorens Þórðarson kom gestunum yfir
eftir stundarfjórðung með skoti beint úr
aukaspyrnu. Hrvoje Tokic bætti við öðru marki
Selfyssinga á markamínútunni, þeirri
fertugustuogþriðju, eftir að hafa fengið boltann
inn fyrir vörn Stólanna. Staðan 0-2 í hálfleik.
Hrvoje bætti öðru marki á 69. mínútu og Ingi
Rafn Ingibergsson gerði fjórða mark Selfoss á 86.
mínútu. Í uppbótartíma lagaði Benjamín
Gunnlaugarson stöðuna fyrir Stólana með
laglegu marki beint úr aukaspyrnu og lokatölur
því 1-4.
Þar með varð niðurstaðan sú sem var í raun í
spilunum í allt sumar – fall Tindastóls. Hópurinn
var hreinlega ekki nógu sterkur fyrir 2. deildina.
Fyrsti sigurleikurinn kom ekki fyrr en í 11.
umferð og, merkilegt nokk, gegn liði Vestra sem
trónir nú á toppi deildarinnar. Svona er boltinn
nú skrítinn. Nú þarf að skrúfa fyrir lekann og
tryggja að Tindastólsmenn mæti samkeppnis-
hæfir til leiks í 3. deildinni að ári og rífi sig upp úr
henni sem allra fyrst.
Fyrst þarf þó að klára þrjá leiki í 2. deildinni
og standa í lappirnar í leiðinni. Áfram Tindastóll!
/ÓAB
Knattspyrna 4. deild : Hamar - Kormákur/Hvöt 3-2
Lið Kormáks/Hvatar í góðum séns
Leikmenn Kormáks/Hvatar mættu á Grýluvöllinn í
Hveragerði í blíðuveðri síðastliðinn föstudag og öttu
kappi við lið Hamars í átta liða úrslitum 4. deildar.
Húnvetningar mættu örlítið brotnir til leiks en tveir
Spánverjar voru í banni eftir hasarinn í lokaleik
liðsins í B-riðlinum viku áður. Það fór svo að
Hvergerðingar fóru með sigur af hólmi, lokatölur
3-2.
Það var Sigurður Bjarni Aadnegard sem kom
gestunum yfir á 31. mínútu en Samuel Andrew
Malson jafnaði úr víti fimm mínútum síðar. Staðan
1-1 í hálfleik. Malson kom Hamri yfir á 59. mínútu og
Pétur Ómarsson kom sínum mönnum í 3-1 þegar
rúmar 20 mínútur voru til leiksloka. Markahrókurinn
Hilmar Þór Kárason lagaði stöðuna fyrir Kormák/
Hvöt á 77. mínútu og lagaði þar með stöðu liðs síns
fyrir seinni leik liðanna sem var spilaður í gærkvöldi á
Blönduósi. Þá var Feykir í vinnslu og úrslit í viðureign
liðanna því ekki ljós þegar blaðið fór í prentun./ÓAB
Nýtt körfuboltalið á Króknum
Senda lið í 2. deild kvenna
Í kvöld verður haldinn stofnfundur nýs liðs
hjá körfuknattleiksdeild Tindastóls þar sem
ætlunin er að leika í 2. deild kvenna.
Fundurinn verður haldinn á Grand-Inn bar
kl. 21.00.
Að sögn Sigríðar Garðarsdóttur,
fjölmiðlafulltrúa liðsins, varð kveikjan að
stofnun liðsins til á körfuboltanámskeiði sem
Brynjar Þór Björnsson, fyrrum leikmaður
Tindastóls, hélt á Sauðárkróki í sumar. Þar
gafst öllum þeim sem höfðu gaman af því að
spila körfubolta tækifæri til að þjálfa undir
hans leiðsögn. „Á þessi námskeið mættu
nokkrar kempur og áhuginn varð svo mikill að
þær vildu ólmar koma saman einu sinni í viku
til að spila körfu. Þetta vatt svo upp á sig á þann
hátt að nú ætlum við okkur að spila í 2.
deildinni í vetur fyrir hönd Tindastóls.
Tilgangurinn er samt sem áður að hafa gaman
saman og njóta þessa að hreyfa sig í þeirri
skemmtilegru íþrótt sem karfan er,“ segir
Sigríður.
Eins og staðan er núna er enginn þjálfari en
það gæti alveg breyst, segir Sigríður, þegar búið
verður að láta á þetta reyna. Hún segir það
nánast alveg galopið hverjir mega vera með.
„Einu skilyrðin eru að vera kvenmaður. Þú
þarft ekki að vera góð, aðalmálið er að hafa
gaman af því að spila körfubolta.“
Keppnisfyrirkomulagið í 2. deildinni er þannig
að keppt er á örmótum þrisvar sinnum yfir
veturinn. Þá keppa öll þau lið sem skráð eru til
leiks í 2. deildinni á einum degi. „Í fyrra voru
fjögur lið skráð til leiks og ef þau halda öll
áfram og við komum inn þá erum við að tala
um fimm lið, þetta verður alveg frábært,“ segir
Sigríður.
„Við vonumst bara til að sjá sem flestar á
stofnfundi í kvöld og ef einhver þarna úti hefur
áhuga á að bætast í hópinn þá er um að gera að
hafa samband við okkur í gegnum Facebook
síðuna 2. deild kvenna Tindastóll því þar
verðum við mjög virkar í að svara öllum
fyrirspurnum. Annars bara Áfram Tindastóll.“
/PF
Benni gerði laglegt mark úr aukaspyrnu á laugardag en allt kom fyrir ekki.
MYND: ÓAB
Körfubolti
Sigur í fyrsta
æfingaleik Stólanna
Lið Tindastóls lék fyrsta
æfingaleik sinn fyrir komandi
tímabil í körfunni í Þorlákshöfn
nú á föstudaginn. Stólarnir eru
komnir með fullskipað lið en
það sama verður ekki sagt um
Þórsara sem tefldu fram
mörgum ungum köppum í
bland við þekktari stærðir.
Stólarnir hafa aðeins æft með
fullan hóp í viku eða svo og því
kom ekki á óvart að
haustbragur væri á liðinu.
Sigurinn var þó aldrei í hættu
en lokatölur voru 59-81.
Allir fjórir erlendu leikmenn
Tindastóls hófu leik ásamt Pétri
Birgis og voru nú frekar
þunglamalegir framan af en
Gerel Simmons sýndi þó
laglega takta. Pétur meiddist
strax í fyrsta leikhluta og kom
ekki meira við sögu í leiknum.
Baldur hreyfði liðið talsvert og
Axel, Helgi Rafn, Viðar, Hannes
og Friðrik fengu fljótlega að
sýna hvað í þeim býr. Stólarnir
voru tveimur stigum yfir eftir
fyrsta leikhluta en náðu fljótlega
góðu forskoti í öðrum leikhluta
og voru yfir 28-44 í hálfleik.
Bilic og Brodnik komu ágætlega
inn í leikinn þegar á leið og stóri
maðurinn Perkovic lét til sín
taka eftir að hafa verið ansi
ryðgaður í fyrri hálfleik.
Munurinn á liðunum í síðari
hálfleik var yfirleitt 15-20 stig
og á endanum voru það
bekkjamenn sem fengu að stíga
dansinn.
Það má reikna með að
stuðningsmönnum Stólanna
verði boðið upp á öðruvísi
körfubolta í vetur en síðustu
árin þar sem Martin virtist vilja
byggja upp á hraðari og léttari
mönnum en eru nú með
Stólunum í boði Baldurs Þórs.
Simmons var þó snöggur og
Bilic og Brodnik virkuðu
fjölhæfir. Það verður spennandi
að fylgjast með næstu vikurnar
hvernig liðið mótast. /ÓAB
Þórsari tekur víti sl. föstudag. MYND: ÓAB
33/2019 5