Feykir - 04.09.2019, Blaðsíða 8
Frá því að ég lauk námi úr Fósturskóla
Íslands hef ég starfað við kennslu og
stjórnun í leik- og grunnskólum. Það
munu vera um það bil 35 ár. Hef ég lært
og þroskast í gegnum þetta starf. Sumt
hefur verið virkilega erfitt en oftast er
gaman og fáir dagar eru eins, allt er þetta
þó lærdómsríkt og kennir svo margt um
lífið og manneskjuna (einu sinni hélt lítill
frændi minn að orðið manneskja væri
hræðilegt orð).
Ég man svo vel eftir því þegar ég hóf
störf á leikskóla í höfuðborginni nýlega
útskrifuð og með stóra drauma. Það var
mikill skellur að uppgötva að veruleikinn
var víst ekki eins og í bókunum sem
ég hafði lesið í náminu um skipulag og
umgjörð leikskólastarfs. Það má samt
segja að þetta hafi verið mjög þroskandi
og hvatti mann til að bretta upp ermar og
reyna að vinna úr því sem maður hafði.
Skólinn hafði að vísu búið okkur vel undir
það að vinna út frá aðstæðum, vera
sveigjanleg og grípa tækifæri sem gefast.
Einnig að sýna virðingu og tillitsemi og
heiðarleika í störfum okkar.
Hefur það veganesti reynst mér vel
í gegnum árin í starfi og leik og er
það mín trú að ef við erum heiðarleg,
sýnum virðingu og tillitsemi þá farnast
okkur vel í öllu sem við tökum okkur
fyrir hendur. Þetta á við á svo mörgum
sviðum í samfélaginu t.d. í fjölskyldum,
vinnustöðum, á samfélagsmiðlum og ekki
síst gagnvart náttúrunni. Ef allir reyna að
gera ávallt sitt besta (og aðeins betur ef
þess þarf) þá getum við gert ótrúlega hluti.
Vert er samt að hafa það í huga að enginn
er fullkominn og enginn getur gert allt en
allir geta gert eitthvað.
Að lokum vil ég vitna í Gunnar Hersvein
heimspeking og rithöfund en hann hefur
fjallað mikið um gildin í lífinu í sínum
verkum.
„Virðing felur í sér væntumþykju gagn-
vart öðrum og er svarið við fordómum. Hún
er nauðsynleg í samfélagi sem vill leggja
eitthvað af mörkum til að bæta heiminn.”
„Heiðarleiki er samhljómur milli hug-
sjóna og aðgerða í opnu og gagnsæju
samfélagi og felst í að eiga í samskiptum
án þess að bogna eða brjóta á öðrum.”
Ég skora á vinkonu mína Kristínu
Guðjónsdóttur að skrifa grein.
Veganesti
Sigríður B. Aadnegard, skólastjóri Húnavallaskóla
ÁSKORANDINN palli@feykir.is
Sigríður B. Aadnegard. MYND: AÐSEND
Heilir og sælir lesendur góðir.
Sá magnaði hagyrðingur, Adolf J. E.
Pedersen mun einhverju sinni hafa átt
næturgistingu á skálanum í Nýjadal. Þar
munu þessar vísur hafa orðið til:
Næturhiminn, næturglóð
nætur stjörnu hringur,
á næturhörpu næturljóð
næturgalinn syngur.
Einn ég sveima um auðan völl
undir mánaskini,
óska mér að Íslandströll
ætti nú að vini.
Máninn skín og skreytir blá
skaut með stjörnurósum.
Björtum ljóma bregður frá
bjarma af norðurljósum.
Þegar hinn góði bókavinur og safnari
Þorsteinn Þorsteinsson, Dalasýslumaður,
lést komst eftirfarandi vísa á kreik og bárust
böndin um höfund að skáldinu Guðmundi
Böðvarssyni.
Fallega flugið Þorsteinn tók
fór um himna kliður.
Lykla-Pétur lífsins bók
læsti í skyndi niður.
Áfram skal rifja upp gamalt efni. Það
mun hafa verið sá snjalli Stefán Jónsson,
sem kallaður var fréttamaður, sem orti
um nýgerða skoðanakönnun um fylgi
stjórnmálaflokka og varð tilefni þessarar
vísu:
Þeir yfirgefa hann einn og tveir
uns á hann sitt fylgi í skýjunum,
en Alþýðuflokkurinn fríkkar æ meir
því færri sem eru í honum.
Ekki kann ég að nefna höfund að næstu
vísu.
Fagurt hrósið fyrir það eitt
fær sú meyjan hreina.
Að hún tekur aldrei neitt
annarra þörf til greina.
Ólína Jónasdóttir á Sauðárkróki mun
einhverju sinni hafa litið út um glugga
á húsi sínu og séð þá þrjár stelpur og þrjá
stráka ganga framhjá. Varð þá þessi til:
Misjafnlega tíminn timbrar
og teygir þessi jarðarpeð.
Líttu á þessar litlu gimbrar
og lambhrútarnir skokka með.
Hinn kunni prófessor, Jón Helgason, mun
hafa skrifað eftirfarandi vísu á bók sína, Úr
landsuðri, sem hann gaf vini sínum.
Er opna ég þetta yrkingakver
með andfælum við ég hrekk.
Hvort er þetta heldur ort af mér
ellegar Ríkharði Beck?
Sú mikla skáldkona Guðfinna Þorsteins-
dóttir heyrði sagt frá því að farið væri að
framleiða útlendan áburð sem meðal annars
væri unninn úr lofti. Varð þá þessi til:
Tíminn marga ræður rún
sem rökkrið áður faldi.
Guðs úr englum tað á tún
taka þeir nú með valdi.
Held að það hafi verið læknirinn Hjálmar
Freysteinsson sem einhverju sinni orti svo:
Sannlega hef ég ævinni á
afrekað þetta og hitt.
Nú er ég orðinn óttalegt strá
það eykur verðgildi mitt.
Önnur vísa kemur hér eftir Hjálmar, mun
hún ort þegar fornleifauppgröfturinn á
Dysnesi stóð sem hæst.
Á Dysnesi er margt af góðum gripum
og gleðiefni var,
að kuml með fjórum skemmtiferðaskipum
skyldu finnast þar.
Næst á dagskrá þessi snjalla limra Helga R.
Einarssonar:
Nú keppst er um blessaðan kostinn
kjötið, mjólkina og ostinn.
Um kjörin menn ræða.
Mun kaupmönnum blæða?
Er grundvöllur græðginnar brostinn?
Nú síðustu ár hefur mikil umræða orðið
um alls konar smugur sem hægt er að
finna til þess að hafa sem flestar krónur af
ferðalöngum. Grínast var með að einn slíkur
hefði viljað borga fyrir að gista í skottinu á
bíl einhvers bónda. Ármann Þorgrímsson
hugleiddi nýja tekjumöguleika.
Ef þú vilt af mér þiggja
ódýran gististað,
ég gæti leyft þér að liggja
á lóðinni, viltu það?
Það mun hafa verið Friðrik Steingrímsson
sem orti næstu vísu. Mun hafa verið staddur
í Bárðardal í óskaplegri úrhellisrigningu.
Úrkoman er engu lík
ekkert svipað þekki.
Í Bárðardal er bleyta slík
að bússur duga ekki.
Heyrt hef ég þá sögu að einhverju sinni hafi
Sigurður Hansen verið spurður um hvernig
ætti að yrkja. Svarið kom.
Hafa ekki hátt um neitt
svo hugur verði slakur.
Og best er að yrkja yfirleitt
ofurlítið rakur.
Guðrún Magnúsdóttir, sem lengi
bjó í Bolungarvík, orti margar góðar
hringhendur. Gott að enda með einni af
þeim.
Hringhendunni heiður ber,
hún var kunn til forna.
Alþýðunnar orðgnótt þver
ef þeir brunnar þorna.
Veriði þar með sæl að sinni.
/Guðmundur
Valtýsson
Eiríksstöðum,
541 Blönduósi
Sími 452 7154
Vísnaþáttur 742
( GUÐMUNDUR VALTÝSSON ) palli@feykir.is
8 33/2019