Morgunblaðið - 08.07.2020, Page 9
FRÉTTIR 9Innlent
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 8. JÚLÍ 2020
Löggiltur heyrnarfræðingur
Hlíðasmára 19 • 201 Kópavogur • Sími 534 9600 • heyrn.is
Heyrnarþjónusta í alfaraleið
Heyrðu umskiptin með háþróuðum ReSound gæðaheyrnartækjum.
Margir verðflokkar, SÍ niðurgreiðir heyrnartæki.
Heyrnargreining, ráðgjöf og heyrnartæki til reynslu afgreidd samdægurs.
Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
Lúsmý herjar á landsmenn í
skamman tíma á sumri, eða viku til
hálfan mánuð. Ef fullorðnu flug-
urnar hafa lifnað við um 20. júní ætti
tímabilinu að vera að ljúka með því
að flugan verpi og drepist. Hugs-
anlegt er að sums staðar komi önnur
ganga í ágúst eða september.
Svo virðist sem lúsmý hafi verið
á sveimi í sumar á svæðinu frá Snæ-
fellsnesi í vestri og til Rangárvalla-
sýslu í austri. Einnig í Eyjafirði og
ef til vill víðar á Norðurlandi. Er
þetta heldur víðara svæði en á und-
anförnum árum.
Leita eftir koltvísýringi
Gísli Már Gíslason, prófessor
við Háskóla Íslands, segir að fáir
hafi lagt sig eftir rannsóknum á
lúsmýi og engir vísindamenn hér-
lendis. Því sé ekki mikið vitað um
þetta smáa kvikindi sem er aðeins
rúmur millimetri að lengd og sést
varla með berum augum. Þess vegna
er lítið vitað um lífsferilinn.
Þó er vitað að lirfurnar þurfa
tíma til að vaxa upp, ef til vill upp-
undir ár, og það er ekki endilega á
sömu stöðum og fólk verður vart við
fullorðnu flugurnar. Er talið að lirf-
urnar séu í vatni eða deiglendi, eða
jafnvel í rökum rotnandi gróður-
sverði. Ekkert hefur verið staðfest
um það.
Flugurnar fljúga upp í júní, á
svipuðum tíma á öllum svæðum. Þær
þurfa blóð til að þroska egg og hafa
til þess viku eða hálfan mánuð. Þær
finna spendýr eða fólk með því að
leita eftir koltvísýringi sem berst
með andardrætti manna og sumra
dýra. Eins og fólk veit, sem fengið
hefur bit, ræðst flugan gjarnan á
fólk sofandi á nóttunni og bítur þá
útlimi sem standa undan sæng.
Lokuð úti
Getur það valdið heiftarlegum
ofnæmisviðbrögðum hjá fólki en
annars hvimleiðum kláða. Fólk
reynir með ýmsum ráðum að verja
sig, með skordýrafælum af ýmsu
tagi sem eiga að rugla lyktarskyn
flugunnar. Árangurinn er misjafn.
Vísindamenn telja að besta ráðið sé
að halda flugunni úti á kvöldin og
nóttunni með því að hafa húsið lokað
eða loka gluggum með þéttriðnu
neti. Flugan flýgur aðeins upp í
logni og þess vegna hafa margir vift-
ur í gangi á nóttunni í svefn-
herbergjum sínum.
Sömuleiðis eru mörg ráð við
kláðanum sem fólk fær í bitsárin, til
að mynda krem til kælingar.
Gísli Már telur að ofnæmis-
viðbrögð fólks minnki eftir því sem
það er bitið oftar. Hann telur einnig
að fólk kenni flugnabit mýflugna
stundum við lúsmý að ósekju en mý-
flugurnar hafa verið hér lengur en
maðurinn. Það sé til dæmis líklegra
að bit sem fólk fær úti við að degi til
sé mýbit en bit eftir lúsmý. Þá sé
ráðið að fara í skugga, mýið elti
mann ekki þangað.
Faraldur lúsmýs virðist hafa
hafist heldur seinna í ár en stundum
áður og herjað nokkuð mikið á fólk.
Gísli Már telur að leita megi skýr-
inganna í veðurfarinu. Veður hafi
verið gott síðustu vikur og heppilegt
fyrir lúsmý.
Morgunblaðið/Eggert
Lúsmý Þessi hefur sloppið vel. Dæmi er um tugi bita um allan líkama og jafnvel á annað hundrað, eftir eina nótt.
Herjar í skamman tíma
Faraldri lúsmýs ætti að vera að ljúka Hugsanlegt að önnur ganga komi
Óvenjumörg umferðaróhöpp hafa
orðið í umdæmi lögreglunnar á
Suðurnesjum á undanförnum dög-
um. Ökumaður sem ók inn á hring-
torgið við gatnamót Reykjanes-
brautar og Þjóðbrautar hafnaði
uppi á því og ók niður umferðar-
merki með þeim afleiðingum að bif-
reiðin valt á hliðina. Hann slapp án
teljandi meiðsla, segir í dagbók.
Annar ökumaður ók aftan á bif-
reið á Njarðarbraut. Hann var
grunaður um neyslu áfengis og
fíkniefna. Þá þurfti að flytja karl-
mann á Landspítala í Fossvogi eftir
að hann missti mótorhjól sitt út af
Nesvegi. Ekki er vitað um líðan
hans. Nokkur umferðaróhöpp til
viðbótar þessum urðu, en engin al-
varleg slys á fólki.
Tíð umferðaróhöpp
á Suðurnesjum
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Í frétt sem birtist í Morgunblaðinu í
gær, 7. júlí, var fullyrt að kvikmynd-
in Dýrið hefði verið sýnd á kvik-
myndahátíðinni í Cannes árið 2019
en hið rétta er að myndin hefur ekki
enn verið frumsýnd, þótt hún hafi
verið seld til nokkurra Evrópuríkja.
Frumsýningardagur liggur enn ekki
fyrir.
Auk þess fékk myndin 114,3 millj-
ónir í styrk en ekki 140 milljónir líkt
og nefnt var. Beðist er velvirðingar á
þessum mistökum.
LEIÐRÉTT
Dýrið ekki enn sýnt