Morgunblaðið - 13.07.2020, Síða 14
14
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 13. JÚLÍ 2020
Hægt er að lýsa skoðun á ritstjórnargreinum Morgunblaðsins á http://www.mbl.is/mogginn/leidarar/
Þýska fjármála-fyrirtækiðWirecard,
sem einkum sér-
hæfði sig í greiðslu-
miðlun yfir netið,
lýsti yfir gjaldþroti
seint í síðasta mán-
uði, eftir að endurskoðendur
höfðu komist að þeirri niðurstöðu
að reikningum félagsins skeikaði
um sem nemur 1,9 milljörðum
evra, eða um 300 milljörðum
króna. Sú upphæð væri einfald-
lega „horfin“ og væru jafnvel
áhöld um hvort hún hefði nokk-
urn tímann verið til.
Framkvæmdastjóri félagsins
til síðustu átján ára, Markus
Braun, var í kjölfarið handtekinn
og búist er við langri og viðamik-
illi rannsókn á fjárreiðum félags-
ins. Mikið af þeirri rannsókn mun
eflaust beinast að Jan Marsalek,
framkvæmdastjóra rekstrarsviðs
Wirecard, en hann hefur í gegn-
um tíðina sveipað sjálfan sig mik-
illi dulúð og jafnvel státað af
meintum tengslum við leyniþjón-
ustur hinna ýmsu ríkja. Varð
hann sér meðal annars úti um há-
leynileg skjöl um Skripal-málið
og notaði þau til þess að vinna
fjárfesta á sitt band. Þess má
geta að Marsalek er nú horfinn,
en síðast var vitað um hann í
flugvél á leið til Filippseyja.
Þetta myndi eflaust hljóma
eins og söguþráðurinn í lélegum
spennutrylli, en alvara málsins
undirstrikast í þeirri staðreynd
að Wirecard náði þegar hæst stóð
markaðsvirði sem nam meira en
24 milljörðum evra, og í septem-
ber 2018 ýtti félagið Commerz-
bank út úr DAX30-hlutabréfa-
vísitölunni, sem
aftur þýddi að fjöldi
lífeyrissjóða um all-
an heima fjárfesti
sjálfkrafa í félaginu.
Á sama tíma
hvíldu dökkir
skuggar á félaginu,
en breska stórblaðið Financial
Times flutti af því reglulega
fréttir að ekki væri allt sem sýnd-
ist, sér í lagi í starfsemi félagsins
í Síngapúr, þar sem höfuðstöðvar
þess í Asíu voru. Öllum neikvæð-
um fréttaflutningi var hins vegar
mætt með mikilli hörku og siguðu
forsvarsmenn Wirecard lögfræð-
ingum sínum á alla sem svo mikið
sem hugsuðu illa til félagsins. Þá
hafa sumir af þeim sem gagn-
rýndu starfsemina orðið fyrir
netárásum og njósnum.
Málið hefur vakið mikla at-
hygli í Þýskalandi, enda var
Wirecard orðið þekkt vörumerki,
og tákn um að Þjóðverjar gætu
staðið jafnfætis þeim sem fremst
standa í fjártæknigeiranum. Þar
óttast menn að orðspor landsins
muni bíða stórfelldan hnekki, eft-
ir því sem meira kemst upp á
yfirborðið um skuggalega við-
skiptahætti Wirecard.
Ljóst er að hér er um að ræða
eitt stórfelldasta bókhalds-
hneyksli í sögu Þýskalands, og
jafnvel þótt víðar væri leitað.
Erfitt er að fullyrða um mála-
lyktir nú í upphafi rannsókn-
arinnar en hitt virðist ljóst að
hneyksli af þessu tagi muni kalla
á breytt vinnubrögð innan
Þýskalands þegar kemur að bók-
haldi, vottun ársreikninga og
mati á starfsemi fjármálafyrir-
tækja.
Fjármálarisinn
reyndist leyna
risastóru og enn
óútskýrðu gati}
Sérkennilegt hneyksli
Um helgina varþess minnst að
25 ár eru liðin frá
þjóðarmorðunum í
Srebrenica. Þar lét-
ust rúmlega 8.000
Bosníumenn þegar
hersveitir Bosníu-
Serba héldu inn í þorpið Srebre-
nica, sem Sameinuðu þjóðirnar
höfðu lýst yfir að ætti að vera
griðastaður. Karlar og drengir
voru teknir af lífi án dóms og
laga, og konur og stúlkur fluttar
í burtu, án þess að hollenskir
friðargæsluliðar á vegum Sam-
einuðu þjóðanna gætu komið í
veg fyrir það.
Harmleikurinn í Srebrenica er
enn, 25 árum síðar, sem svartur
blettur á sameiginlegri minningu
allrar Evrópu. Áfallið sem fylgdi
honum var ekki síst vegna þess
að í kjölfar helferðarinnar á
stríðsárunum höfðu leiðtogar
Evrópu talið sér trú um að álfan
myndi aldrei aftur sökkva í þá
forarmýri haturs sem þar birtist.
Á sama tíma sýndu atburðirnir
í Srebrenica, ásamt þjóðarmorð-
unum í Rúanda og Búrúndi ári
áður, hversu vanmáttug Evrópa
og alþjóðasamfélagið í heild sinni
gátu verið í viðbrögðum sínum
við hryllingsverkum sem þessum.
Nú, 25 árum síð-
ar, hefur þó tekist
að einhverju leyti
að koma lögum yfir
þá sem bera
ábyrgðina á þessum
skelfilegu fjölda-
morðum. Radovan
Karadzic, leiðtogi Bosníu-Serba
á þeim tíma, og Ratko Mladic,
hershöfðingi Bosníu-Serba, hafa
báðir verið sakfelldir af stríðs-
glæpadómstólnum fyrir þátt
þeirra í skipulagningu voðaverk-
anna, og um 17 manns til við-
bótar hafa einnig verið dæmdir
til fangelsisvistar vegna þátt-
töku þeirra í Srebrenica-
morðunum með einum eða öðr-
um hætti.
En dómar einir og sér ganga
skammt til þess að græða þau
sár sem voðaverkin ollu. Og ekki
bætir úr skák að innan Serbíu
eru margir sem enn líta á þá fé-
laga Karadzic og Mladic sem
þjóðhetjur og horfast þar með
ekki í augu við þann hrylling
sem þeir voru valdir að.
Það er því brýnt að rifja upp á
hverju ári hvað fór fram í
Srebrenica og um leið hvernig
hægt er að gera betur til þess að
koma í veg fyrir að slík voðaverk
endurtaki sig.
25 ár eru liðin frá
einum mestu
ódæðisverkum í
sögu Evrópu}
Srebrenica
S
tjórnvöld hafa brugðist því mikil-
væga hlutverki að skapa eftirliti
með sjávarauðlindinni fullnægjandi
umgjörð og hefur um leið mistekist
að gæta að hagsmunum fólksins í
landinu.
Umfjöllun fréttaþáttarins Kveiks í nóvember
2017 og skýrsla Ríkisendurskoðunar sem fylgdi
í kjölfarið að beiðni Alþingis voru ekki aðeins
áfellisdómur yfir eftirliti Fiskistofu heldur
einnig yfir stjórnvöldum og þeirri umgjörð sem
eftirlitinu er skapað. Grípa þarf til markvissra
ráðstafana til að tryggja árangursríkt eftirlit
sem er í samræmi við forsendur og ákvarðanir
Alþingis um að nytjastofnar sjávar séu nýttir
með sjálfbærum hætti.
Til að útfæra ábendingar Ríkisendurskoð-
unar skipaði sjávarútvegsráðherra fimm
manna verkefnisstjórn og bakhóp henni til ráðgjafar.
Verkefnastjórnin skilaði á dögunum skýrslu til ráðherra
um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni. Í skýrslunni er
að finna gagnlegar upplýsingar um hvernig eftirlitinu er
háttað og tillögur til úrbóta um eftirlit á sjó, með vigtun,
með samþjöppun aflaheimilda, um nýtingu nýjustu tækni,
áhættustýringu og viðurlög við brotum.
Auðlindir þjóðarinnar eiga ekki að vera á höndum fárra.
Það gengur gegn almannahagsmunum ef eftirliti með nýt-
ingu auðlindarinnar er ábótavant og enn fremur ef fáum
aðilum er gert kleift að fara með stærsta hluta fiskveiði-
auðlindarinnar. Mikil efnahagsleg og siðferðileg áhætta er
í því fólgin því þar með geta ítök fárra orðið mikil í ís-
lensku þjóðlífi, svo mikil að þeir verða í aðstöðu
til að kollvarpa efnahag landsins og byggða-
þróun og stýra gjörðum ráðherra.
Fyrir um 20 árum voru samþykkt á Alþingi
viðbætur við lög um stjórn fiskveiða sem ætlað
var að vinna gegn samþjöppun aflaheimilda. Til
þess að lögin þjóni tilgangi sínum ættu endur-
bætur á þeim, að mínu mati, að taka mið af ann-
arri nýlegri lagasetningu svo sem lögum um
fjármálafyrirtæki og lögum um skráningu raun-
verulegra eigenda.
Standi lögin óbreytt getur einn aðili mögu-
lega farið með allt að 12% af heildarverðmæti
aflahlutdeildar fiskiskipa og því til viðbótar átt
rétt undir helmingi í öllum öðrum fiskiskipum
sem fara með hin 88 prósentin. Þetta þýðir að
sami aðilinn getur farið með meirihluta af
heildarverðmæti aflahlutdeildar sem er til
skiptanna ár hvert.
Í stað þess að einn aðili þurfi að eiga meirihluta í öðrum
til að teljast tengdur aðili væri eðlilegra að miða við að
hámarki 25% eignarhlut, eins og viðmiðið er í lögum um
skráningu raunverulega eigenda. Auk þess að vinna gegn
samþjöppun mun þessi breyting auðvelda til muna eftirlit
Fiskistofu með hámarksaflahlutdeild.
Með þessari leið viðurkennum við hagkvæmni vegna
stærðar en þó ekki á kostnað heildarhagsmuna þjóðar-
innar og sjávarbyggða. Það eru þeir hagsmunir sem ávallt
þarf að verja. oddnyh@althingi.is
Oddný G.
Harðardóttir
Pistill
Fólkið og fiskurinn
Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.
STOFNAÐ 1913
Útgáfufélag: Árvakur hf., Reykjavík.
Ritstjóri:
Davíð Oddsson
Aðstoðarritstjóri:
Karl Blöndal
Ritstjóri og framkvæmdastjóri:
Haraldur Johannessen
BAKSVIÐ
Magnús Guðmundsson
magnusg@mbl.is
Nýverið kom út skýrsla umáhrif COVID-19 á ís-lenska tónlistargeirann.Að skýrslunni standa Fé-
lag íslenskra hljómlistarmanna, Félag
hljómplötuframleiðanda, Samtök flytj-
enda og hljómplötuframleiðenda,
STEF, Tónlistarborgin Reykjavík og
Útflutningsskrifstofa íslenskrar tón-
listar. Ritstjórar eru María Rut
Reynisdóttir og Bryndís Jónatans-
dóttir.
Harkhagkerfi
Í skýrslunni kemur fram að
tekjumöguleikar þeirra sem hafa at-
vinnu að því að sinna lifandi tónlistar-
flutningi þurrkuðust út á einni nóttu í
marsmánuði. Fjöldi listamanna starfar
við blandaða vinnu, að hluta launþegar
og að hluta verktakar í fjölda verkefna
innan þess sem hefur verið kallað
harkhagkerfið, þar sem listamenn
vinna að mörgum ólíkum verkefnum
hverju sinni með það að markmiði að
ná fram viðunandi heildartekjum.
Innan harkhagkerfisins koma til
fleiri þættir sem valda því að stærstur
hluti tónlistarmanna hefur enn ekki
fengið úrlausn sinna mála hjá Vinnu-
málastofnun, þrátt fyrir að vera í fullu
starfi í sínu fagi og ríflega það á árs-
grundvelli.
Við þetta bætist að margir tón-
listarmenn höfðu lagt út mikinn kostn-
að vegna ýmissa verkefna sem ekki
fæst endurgreiddur. Auk þess sem
nánast útilokað er að skipuleggja verk-
efni komandi vetrar, sérstaklega fyrir
þá sem starfa einnig utan landstein-
anna.
Viða þungar búsifjar
Farið var í nokkrar aðgerðir til
þess að bregðast við tekjumissi lista-
manna, en allar eru þær meira og
minna verkefnatengdar. Aðrar að-
gerðir, s.s. hlutabótaleiðin og lokunar-
styrkir, nýttust tónlistargeiranum illa,
þar sem leiðirnar falla illa eða ekki að
rekstrarformi sjálfstætt starfandi tón-
listarmanna.
Hrunið í tónlistargeiranum snýr
ekki aðeins að tónlistarmönnunum
sjálfum, heldur einnig tengdum
greinum. Tónleikahaldarar hafa verið
án tekna um langt skeið, tónlistar-
hátíðum aflýst, plötusala sem byggði
að stórum hluta á að þjónusta ferða-
menn orðið fyrir þungum búsifjum og
hið sama má segja um tónleikastaði.
Óljós heildarmynd
Í skýrslunni kemur ekki fram
áætlað heildartap tónlistargeirans af
völdum faraldursins. Spurð um þetta
atriði segir María Rut Reynisdóttir að
ekki hafi verið til næg gögn til þess að
ná slíkri heildarmynd og að slík
samantekt hefði orðið of tímafrek. „Við
tókum því ákvörðun um að birta svip-
myndir af ástandinu en það er mjög
erfitt að áætla tölur í tónlistarbrans-
anum, þar sem þær hafa ekki verið til.“
María Rut segir mikilvægt að
ráða bót á þessu hið fyrsta, því
tónlistargeirinn sé öflug atvinnugrein,
en núna sé kominn starfsmaður á
Hagstofuna sem sérhæfi sig í að vinna
í þessum tölum.
María Rut bætir við að mikil og
þakklát viðbrögð við skýrslunni frá
tónlistargeiranum sýni vel hversu að-
kallandi sé að ná utan um greinina.
„Við fengum líka strax viðbrögð frá
ráðuneytunum því það er mikilvægt að
fá svona verkfæri upp í hendurnar
þegar leita þarf úrbóta. Ég held að
maður verði að vera bjartsýnn
á að þetta skili bættu
starfsumhverfi og hér er
í hið minnsta hlað-
borð af tillögum
sem er auðvelt að
sækja í á næst-
unni.“
Tónlistargeirinn
grátt leikinn í Covid
Í skýrslunni eru settar fram
ýmsar hugmyndir til úrbóta á
afleitri stöðu tónlistarfólks.
Áhersla er lögð á að gera
sjálfstætt starfandi á eigin
kennitölu kleift að halda
áfram rekstri þrátt fyrir að
hlutabótaleiðin eða atvinnu-
leysisbætur séu nýttar. Lagt er
til að setja á laggirnar neyðar-
sjóð til þess að mæta sokkn-
um kostnaði og skoðað að
bæta tap tónhöfunda á höf-
undaréttargjöldum. Einnig má
nefna stuðning við tónleika-
hald innanlands og tón-
listarhátíðir, stuðning
við frumkvöðlastarf-
semi og nýsköpun,
endurskoðun á
sjóðum og lista-
mannalaunum og að
efla Útflutnings-
sjóð íslenskrar
tónlistar.
Hlaðborð
af tillögum
VANDI TÓNLISTAR
Bubbi Morthens
Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Tónlist Secret Solstice er ein af fjölmörgum tónlistarhátíðum sem hefur
verið aflýst í sumar með tilheyrandi tekjutapi fyrir íslenskan tónlistargeira.