Morgunblaðið

Dagsetning
  • fyrri mánuðurdesember 2020næsti mánuður
    SuÞrMiFiLa
    293012345
    6789101112
    13141516171819
    20212223242526
    272829303112
    3456789

Morgunblaðið - 29.12.2020, Blaðsíða 21

Morgunblaðið - 29.12.2020, Blaðsíða 21
Þorra frænda eru gamlar minn- ingar sem ylja um hjartarætur þegar hugsað er til baka. Það sem stendur upp úr í þín- um fjölmörgu hæfileikum eru ljóðin. Hvert einasta ár, á meðan þú hafðir heilsu til, fékk ég nýtt ljóð á afmælisdaginn. Hvert öðru glæsilegra og margar ljóðlínur sem hafa fest í huganum og koma reglulega fram sem dásamleg minning. Af ljóðunum hef ég lært mikið og reyni stundum sjálfur að setja saman nokkrar línur. Þú fylgdist með mér þegar ég var að glamra á orgelið í Birkilundinum, að reyna að semja lög og hjálpaðir með textagerðina og studdir mig við að reyna að skrifa nótur þó ég haldi reyndar að þú hafir ekkert kunnað það, en það var aukaat- riði. Ég vil enda á texta sem þú samdir fyrir mig þegar amma Ína átti stórafmæli fyrir rúmum 20 árum og var sunginn við lag Elvis Presley, Love me tender. Ég tók mér leyfi að breyta honum aðeins nú en textinn á vel við um þig sem alltaf varst til staðar og verður sárt saknað. Skilaðu kveðju til afa. Elskulega amma mín, nú kveðjustundin er. Umhyggjan og ástúð þín, yljar sífellt mér. Þó eftir degi, komi kvöld og kveðji ár og öld. Um eilífð, elsku amma mín, mín þökk er þúsundföld. (HB) Kveðja, Helgi Þór. MINNINGAR 21 MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 29. DESEMBER 2020 Nú eru þau öll horfin okkur og með þeim merkur kafli í sögu for- feðra okkar og mæðra. Lífshlaup þeirra systkinanna frá Hvammeyri er mikilvægur hluti af fjölskyldusögu okkar, en líka mikilvægur aldarspegill sem lýsir vel lífsbaráttu og lífsgildum þeirrar kynslóðar sem nú er að hverfa sjónum okkar. Þegar þau voru að alast upp var búið á hverj- um bæ í Tálknafirði. Lífsbaráttan var hörð og landkostir Hvamm- eyrar buðu ekki upp á mikinn bú- skap, nokkrar kindur, þrjár kýr og hænur, en sjórinn sá til þess að alltaf var matur á borðum, fiskur, selur og fugl. Þau hjónin Jóhanna og Jón Bjarni á Hvammeyri voru e.t.v. ekki dæmigerðir kotbændur á Vestfjörðum á þessum tíma. Jó- hanna hafði ung siglt suður og stundað nám við Flensborgar- skóla. Í kjölfarið gerðist hún kennari í Hænuvík á Barðaströnd þar til hún flutti aftur í Tálkna- fjörð og giftist Jóni Bjarna sem var nokkuð sérlundaður, bóka- og frímerkjasafnari og hagleiks- smiður. Þegar Ína var aðeins 6 ára lést kjölfestan Jóhanna, móðir henn- ar, frá fjórum ungum börnum. Sú lífsreynsla hefur án efað mótað þau systkinin. Á þeim erfiðu tím- um opnuðu móðursysturnar fyrir sunnan faðminn og heimili sín fyr- ir systurbörnum sínum. Hjá þess- um konum, sem voru fátækar ekkjur með full hús barna, dvöldu þrjú eldri systkinin á vetrum fram á fullorðinsár. Ég er afar stolt af þessum formæðrum mín- um sem stóðust hverja ágjöf og studdu hver aðra þegar vindurinn var í fangið. Úr þessum jarðvegi var móðursystir mín Kristín Jónsdóttir sprottin. Fjörðurinn, móðurmissirinn og lífsbaráttan mótaði þau systkinin og gerði þau að því sem þau voru, nægjusöm, samheldin, umhyggjusöm, með ríka samkennd með öðru fólki. Þær systurnar Halldóra og Ína áttu einstaklega traust og fallegt samband alla tíð. Þær töluðu sam- an nær daglega, studdu hvor aðra og deildu gleði og sorgum. Ég minnist Kristínar Jónsdóttur móðursystur minnar með þakk- læti og virðingu. Þeim Smára, Jóni Bjarna, Hrefnu og fjölskyldum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðj- ur. Jóhanna Einarsdóttir. ✝ Gestur Finns-son fæddist á Skriðuseli í Að- aldal 22. október 1923. Hann lést 15. desember 2020 á Droplaugarstöð- um í Reykjavík. Hann var sonur hjónanna Finns Valdimars Ind- riðasonar, f. 10. janúar 1890, d. 30. júní 1979, og Hallfríðar Sig- urbjörnsdóttur, f. 7. sept- ember 1891, d. 21. apríl 1943. Systkini Gests voru Baldur, f. 30. mars 1915, Indriði, f. 12. nóvember 1916, Sigrún, f. 19. janúar 1920, Dýrleif, f. 9. sept- ember 1922, Eiður, f. 24. maí 1926, d. 19. febrúar 1986, Anna Sigríður, f. 9. janúar 1929, Unnur, f. 6. apríl 1931, og Haukur, f. 8. febrúar 1933. Þau eru öll látin. Kona Gests var Guðrún Magnúsdóttir, f. 22. september 1923, d. 25. ágúst 1993. Fyrir átti Guðrún Guðna Sævar Guðmundsson, f. 27. desember 1942, d. 5. apríl 1966; Hafdísi Hafsteinsdóttur, f. 6. maí 1945, börn hennar eru Helga Sigurósk, f. 1971, Halldóra Björk, f. 1981, og Sigrún Elva, f. 1983; Unni Hafsteins- dóttur, f. 8. sept- ember 1946, börn hennar eru Sæ- rún, f. 1966, Kristinn Þór, f. 1968, Björn Finnbogi, f. 1980, og Harpa Dís, f. 1986. Barn Gests og Guðrúnar heitir Sissa Gestsdóttir, f. 7. október 1950. Börn hennar eru Gest- ur, f. 1969, Guðrún, f. 1971, Vagnbjörg, f. 1978, og Alex- andra, f. 1989. Útförin fer fram í Áskirkju þann 29. desember 2020 kl. 13. Í ljósi aðstæðna verða að- eins nánustu aðstandendur viðstaddir. Útförinni verður streymt á vefslóðinni: https://youtu.be/5nIGr4e0AoA Virkan hlekk á streymi má nálgast á https://www.mbl.is/andlat Elsku pabbi. Við minnumst þín með mikilli hlýju og þakklæti fyrir allt sem þú hefur verið okk- ur og okkar börnum. Þú varst alltaf til staðar, boðinn og búinn að hjálpa þar sem þörf var á og gerðir líf okkar innihaldsríkt. Þú þurftir mjög ungur að læra að lifa af við erfiðar aðstæður vegna fátæktar og veikinda móður þinnar sem vissulega markaði líf þitt. Þú varst okkur gott for- dæmi í reglusemi, leik og starfi og kenndir okkur margt eins og nægjusemi, að axla ábyrgð og ekki síst að bera virðingu fyrir náttúrunni og njóta hennar. Þið mamma voruð þekkt fyrir ein- staka snyrtimennsku og kennduð okkur að taka til hendinni og taka þátt í daglegum heimilis- störfum þegar við vorum ungar að aldri. Þú varst okkur góð fyr- irmynd, ósérhlífinn og hugsaðir alltaf um að öllum liði vel. Mál- tækið sælla er að gefa en þiggja átti sannarlega við um þig elsku pabbi. Þú áttir marga góða vini sem voru þér þakklátir fyrir trygglyndi þitt og aðra góða eig- inleika sem þú bjóst yfir. Við kveðjum þig elsku pabbi er þú heldur héðan á brott eftir langt og gott ævistarf. Þú hefur gefið okkur þín bestu ár. Það undrast víst enginn sem eitthvað þekkir til að af hvarmi falli nú sakn- aðartár. Þínar dætur, Sissa og Unnur. Elsku afi okkar er dáinn. Við viljum þakka þér fyrir allar dýr- mætu stundirnar sem við áttum með þér. Þú kenndir okkur svo margt, eins og að bera virðingu fyrir náttúrunni og að njóta sam- vista með fjölskyldunni. Minn- ingarnar flæða fram elsku afi, allar sumarbústaðaferðirnar, göngutúrar í náttúrunni þegar þú kenndir okkur að bera virð- ingu fyrir fuglunum sem byggðu sér hreiður og máttum við ekki koma of nálægt til að trufla ekki hreiðurgerðina. Svo voru það berjaferðirnar og þú lést þig ekki muna um það þótt þú þyrft- ir að klifra yfir girðingar til að komast í gott berjaland. Við heimsóttum þig oft á sunnudög- um með ömmu og þá bakaðir þú vöfflur og auðvitað var þeyttur rjómi með ásamt öðrum veiting- um. Alltaf áttir þú Fanta fyrir okkur börnin og bauðst upp á bingókúlur. Við vorum svo lán- söm að eiga svo langan tíma með þér og erum óendanlega þakklát fyrir það. Elsku afi, við eigum eftir að sakna þín. Nú legg ég augun aftur, ó, Guð, þinn náðarkraftur mín veri vörn í nótt. Æ, virst mig að þér taka, mér yfir láttu vaka þinn engil, svo ég sofi rótt. (Sveinbjörn Egilsson) Þín afabörn, Anja, Karen og Arnsteinn. Elsku afi. Ég var svo lánsöm að hafa þig í mínu lífi í fimmtíu og fjögur ár. Margar eru minn- ingarnar sem koma upp í hug- ann alveg frá því ég var smá- stelpa. Ég var fyrsta barnabarnið þitt og alla tíð fann ég mikla umhyggju frá þér. Þú varst duglegur að fara með mig í hin ýmsu ævintýri. Við fórum saman í göngutúra, tókum upp kartöflur, fórum í berjamó og lékum á leikvöllum. Sérstaklega þykir mér vænt um ferðalagið á bjöllunni þinni tvö saman í sveit- ina þína. Þar veiddum við silung í soðið sem smakkaðist svo ósköp vel. Frá fríum á sumrum áttum við svo eftirminnilegar minningar í sumarbústað mörg sumur. Þú passaðir að enginn yrði svangur og alltaf áttirðu kræsingar handa okkur barna- börnunum og síðar barnabarna- börnum. Þú varst góð fyrir- mynd, svo hjálpsamur og heilbrigður. Mikill reglumaður og alltaf svo duglegur. Börnun- um mínum varstu góður langafi. Mér þykir ég heppin að hafa átt þig sem afa og þakklát fyrir allt sem þú kenndir mér. Hvíldu í friði elsku afi minn. Særún. Elsku afi okkar. Við kveðjum þig nú í hinsta sinn. Takk fyrir allar samverustundirnar sem við áttum, útilegurnar, sumarbú- staðarferðirnar, berjatínsluferð- irnar og leikvellina. Við erum þakklát fyrir að hafa fengið svo langan tíma með þér og yljum okkur við margar góðar minningar. Sumarbú- staðaferðirnar standa upp úr enda margar og oft fór veturinn í að bíða eftir því að sumarið kæmi og afi spilaði við okkur og léki. Þar nutum við náttúrunnar með þér og lærðum að bera virð- ingu fyrir dýralífinu og hinum ís- lenska viðkvæma gróðri. Þú varst náttúrubarn, alþýðu- maður sem lifðir við kröpp kjör sem barn. Þú lifðir tíma sem við þekkjum ekki af eigin raun en lesum okkur til um í gömlum skruddum þar sem segir frá fólki sem barðist við mikla fá- tækt og kúgun, það var þinn raunveruleiki sem barn. Þú varst merkilegur maður, harð- duglegur, einstaklega ósérhlífinn og nægjusamur, reglumaður og máttir hvergi aumt sjá. Þú varst alltaf til staðar ef á þurfti. Elsku afi, góða ferð inn í sumarlandið og við berum áfram það sem þú kenndir okkur til komandi kyn- slóða. Þínar afastelpur, Gunný, Vagna og Alexandra. Elsku afi minn og nafni, þó að það sé sárt að kveðja þig í hinsta sinn, þá kemur þakklæti fyrst upp í huga minn. Að þú hafir fengið 97 ár og það lengst af full- frískur, er ekki sjálfgefið. Síð- ustu mánuðir voru erfiðir þar sem þú fékkst ekki tækifæri að fá þitt fólk í heimsókn vegna Covid en öllum að óvörum tókst þér að takast á við tæknina til að hafa samskipti við þitt fólk. Það er sérstakt að hafa átt afa sem var fæddur 1923 og ólst upp sín fyrstu sjö ár í torfbæ í Skriðuseli í Aðaldal sem í raun var bæði híbýli og fjárhús og er það óraunverulegt. Afi ólst upp við mikla fátækt ásamt foreldr- um sínum og systkinum þar sem lífsbaráttan var hörð en hann fór að heiman rétt fyrir tvítugt eftir fráfall móður sinnar og var stefnan tekin til Reykjavíkur þar sem einu tækifærin voru fyrir hendi til að fá vinnu. Hann lagði af stað á tveimur jafn fljótum og gekk meira og minna alla leið, hann fór á milli bæja og fékk gistingu, stundum gegn vinnu- framlagi. Í einhver skipti fékk hann far með bílum sem voru á leið suður en annars var gengið, þegar hann var kominn í Hval- fjörð réð hann sig á vertíð áður og í framhaldi af því sem vinnu- maður á bænum Þyril í Kjós hjá frænku sinni. Að lokum gekk hann til Reykjavíkur og fékk hlutavinnu hjá Kol og salt, þar mættu menn á bryggjuna snemma morguns og var hluti valinn til uppskipunar en aðrir héldu heim án þess að fá vinnu þann daginn. Hann hjólaði mikið á yngri árum og gekk mikið á meðan heilsan leyfði. Síðar fékk afi fasta vinnu hjá Eimskip. Þar starfaði hann í 50 ár og var hann ævinlega þakk- látur fyrir þá vinnu, enda ekki hlaupið að því að fá vinnu á þess- um árum. Afi var vel liðinn hjá Eimskip og kom það bersýnilega í ljós þegar hann átti að fá úr að gjöf sem þakklætisvott fyrir vel unnin störf en hann neitaði að taka við úrinu sem lýsti hans hógværð. Honum fannst að ekki þyrfti að verðlauna fólk fyrir að mæta til vinnu, heldur ætti ætti hann að þakka fyrir að hafa vinnu. Við höfðum sameiginlegan áhuga á fótbolta og horfðum saman á enska boltann, þrátt fyrir að eiga sitt hvort uppá- haldslið í enska boltanum var alltaf gaman að ræða málin og heyra allar frásagnir hans af leikjunum á Melavellinum, þar sem helstu afrekin áttu sér stað af hans sögn. Þá man ég vel er hann kenndi mér að fylla út get- raunaseðlana. Afi var mikið náttúrubarn og eru það forréttindi að hafa feng- ið að upplifa allar þær bústaða og útileguferðir sem við fórum á sumrin og hann þreyttist ekki á því að fræða okkur um fugla og annað sem sneri að náttúrunni. Að lokum langar mig að minn- ast á sögu sem lýsir afa best, en þegar hann var um 85 ára þá var hann hjá lækni í Kringlunni, og eftir einhverjar þol mælingar segir læknirinn að hann sé eins vel á sig kominn líkamlega og unglingur en það vildi afi ekki kannast við eins lítillátur og hann var. Þá spyr læknirinn hvernig hann hafið komið frá Dalbrautinni þar sem hann bjó, þá viðurkenndi afi að hann hafi nú gengið þaðan, þessi saga lýsir afa vel. Kveð ég afa með bæði þakk- læti og söknuði. Gestur H. Magnússon. Gestur Finnsson ✝ Jóhannes Frie-drich Vestdal Jónsson fæddist í Reykjavík 19. mars 1937. Hann lést 21. desember 2020 á Hjúkrunarheim- ilinu Sóltúni í Reykjavík. For- eldrar hans voru Marianne Elisabeth Vestdal, fædd Wer- ner, 1909 í Dresden í Þýskalandi, d. 2001, og Jón Er- lendsson Vestdal, efnaverkfræð- ingur og forstjóri Sementsverk- smiðju ríkisins á Akranesi, síðar í Reykjavík, f. 1908 á Breiða- bólsstöðum á Álftanesi, d. 1979. Systir Jóhannesar var Elísabet Mari- anne Vestdal Jóns- dóttir, f. 1939 í Reykjavík, d. 2003. Jóhannes kvæntist Elínu S. Benedikts- dóttur og eignuðust þau eina dóttur, Sólveigu, f. 26.9. 1962, þau skildu. Barnabarn Jóhann- esar, dóttir Sól- veigar og Þórs Saari, er Hildi- gunnur Þórsdóttir Saari, f. 1999. Útför Jóhannesar fer fram í dag, 29. desember 2020, í kyrr- þey. Fallinn er frá á 84. aldursári Jóhannes Friedrich Vestdal Jónsson frá Breiðabólsstöðum á Álftanesi. Jóhannesi kynntist ég á sínum tíma gegnum dóttur hans Sólveigu og er hann með þeim eftirminnilegri, en jafn- framt flóknari mönnum sem ég hef kynnst um ævina. Hann var margbrotinn maður sem lifði tímana tvenna og flókin æskuár á stríðsárunum og eftirköst þeirra settu mark sitt á hann, sem og mjög agað uppeldi á fremur einangruðu heimili for- eldra hans á Hávallagötunni í Reykjavík. Jóhannes átti sér margar hliðar, var allra manna skemmtilegastur og örlátur þegar svo bar við, en gat einnig verið snúinn í umgengni. Hann var mikill tónlistarunnandi og nánast alæta á tónlist og sann- kölluð alfræðibók þegar kom að klassískri tónlist, með skarpt eyra og þekkti auðveldlega í sundur hinar mismunandi upp- tökur á fjöldanum öllum af klassískri tónlist. Jóhannes var líka einn af feðrum pönkbylgj- unnar á Íslandi þegar hann á sínum tíma lánaði mörgum sprotum þess tónlistartímabils kjallarann á heimili sínu á Breiðabólsstöðum til hljóm- sveitaræfinga og þar stigu margar af þekktari hljómsveit- um tímabilsins, svo sem Þeyr og Kukl, sín fyrstu spor. Jó- hannes var skarpgreindur, hann var bridgespilari, áhuga- maður um skák og líka mikill fuglaáhugamaður og þegar hann bauð mér með sér í hina árlegu vorferð Fuglavinafélags- ins um Suðurnesin náði hann að vekja áhuga minn á fuglaskoð- un. Jóhannes bjó stóran hluta ævinnar á Breiðabólsstöðum á Álftanesi, í húsi sem afi hans hafði reist árið 1884 og er eitt af fyrstu tilhöggnu steinhúsum landsins. Hann talaði stundum um dvöl sína þar hjá afa sínum sem krakki og var greinilegt að þar hafði hann unað sér vel. Hann bar sterkar taugar til staðarins og var ekki um það gefið ef aðkomufólk gekk of langt í athafnasemi sinni á svæðinu. Honum var einnig annt um umhverfið á Norður- nesinu eins og þessi hluti Álftaness er kallaður og tók hiklaust til handargagns það sem aðrir á svæðinu höfðu skil- ið eftir og gamla húsið á Breiðabólsstöðum varð með tímanum að sannkölluðum æv- intýraheimi þar sem ægði sam- an hinum ólíklegustu hlutum. Jóhannes átti við veikindi að stríða síðustu árin og dvaldi í góðu yfirlæti á Hjúkrunar- heimilinu Sóltúni í Reykjavík og ný kynslóð er tekin við á Breiðabólsstöðum, ungt fólk sem annt er um staðinn og sem hefur af mikilli röggsemi gert upp þetta gamla sögufræga hús svo mikill sómi er að. Þeg- ar þetta er skrifað er undirrit- aður staddur í því sem áður var gamla véla- og verkfæra- geymslan á Breiðabólsstöðum sem Jóhannes heitinn afhenti okkur Sólveigu á sínum tíma til viðgerðar og varðveislu og sem var heimili okkar um skeið. Er ég lít hér út um gluggann á gamla fallega íbúðarhúsið er minningin um Jóhannes skýr þar sem hann fótafúinn fetar sig niður tröppurnar með stuðningi handriðsins sem dóttir hans smíðaði. Hann vappar um hlaðið í svolitla stund, gáir til veðurs og lítur svo í kringum sig á þann heim sem honum var svo kær, og kemur svo í heimsókn. Að kvöldi dánardags Jó- hannesar er ég kom heim og stóð hér á hlaðinu um stund, hugsandi um örlög manna, komu þessi orð upp í huga mér: „Jæja Jóhannes. Þú varst alveg ótrúlegur.“ Kæri fyrrverandi tengdafað- ir. Far vel. Takk fyrir allt og allt. Þór Saari Jóhannes Vestdal Ástkær eiginmaður minn, faðir okkar, tengdafaðir, afi og vinur, EINAR ÞÓR SIGURÞÓRSSON rafvirki, Háamúla í Fljótshlíð, lést miðvikudaginn 16. desember á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi. Útförin verður í Hlíðarendakirkju í Fljótshlíð miðvikudaginn 30. desember klukkan 13. Aðeins nánustu aðstandendur og vinir verða viðstaddir athöfnina en henni verður streymt á slóðinni: facebook.com/groups/utforeinars Auður Dóra Haraldsdóttir Katrín Einarsdóttir Valdimar Grétar Gunnarsson Haukur Þór Valdimarsson Sölvi Freyr Valdimarsson Atli Einarsson Harpa Kristjánsdóttir Egill Atlason Arnór Atlason Sara Atladóttir Freyr Friðriksson og fjölskylda Óskar Sveinn Friðriksson og fjölskylda

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað: 305. tölublað (29.12.2020)
https://timarit.is/issue/411877

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.

305. tölublað (29.12.2020)

Aðgerðir: