Morgunblaðið - 12.12.2020, Qupperneq 30
30 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 12. DESEMBER 2020
Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
S
tarfsemi nýsköpunarfyrirtækisins
Margildis hefur vaxið fiskur um
hrygg á undanförnum árum og
fyrirtækið náð fótfestu á erlendum
mörkuðum með vörur sínar. Fram-
leiðslan grundvallast á einkaleyfisvarinni
kaldhreinsiaðferð sem Snorri Hreggviðsson
og Magnús Valgeir Gíslason þróuðu til full-
vinnslu hrálýsis úr uppsjávartegundum á borð
við síld, makríl og loðnu. „Lýsið sem Margildi
framleiðir er unnið úr fersku hráefni sem
tryggir mikil bragðgæði þannig að lýsisneysla
verður eintóm ánægja,“ segir Snorri.
„Hugmyndin kviknaði við tveggja manna tal
sem ég átti yfir rauðvínsglasi með vini mínum
sem veit eitt og annað um lýsisvinnslu og
ómega-3-fitusýrur,“ segir Snorri söguna.
„Samtalið barst út í það hvernig mætti nýta
betur og fullvinna til manneldis það frábæra
hráefni sem skapast við veiðar og vinnslu á ís-
lenskum uppsjávarfisktegundum.“ Erlingur
Viðar Leifsson gekk fljótlega til liðs við
Snorra og saman stofnuðu þeir Margildi til að
fylgja hugmyndinni eftir.
Með vægt bragð og lykt
Það lýsi sem verður til við vinnslu uppsjáv-
artegunda er ríkt að eftirsóknarverðum nær-
ingarefnum en hafði, þar til Margildi hóf starf-
semi, aðallega nýst til framleiðslu dýrafóðurs
fyrir fiskeldi því ekki var hægt að fullvinna
það til matvælaframleiðslu. Hefur Margildi í
dag fengið einkaleyfi fyrir hreinsunaraðferð
sinni bæði á Íslandi og í Evrópu og stendur
umsóknarferli yfir í Bandaríkjunum, Kanada,
Kína og víðar.
Með hreinsunninni fæst lýsi í hæsta gæða-
flokki sem hefur ýmsa kosti fram yfir hefð-
bundið lýsi sem unnið er úr lifur bolfiskteg-
unda eins og þorsks og ufsa. „Uppsjávar-
fisktegundir hafa styttri líftíma og fyrir vikið
er fiskurinn að miklu leyti laus við snefilefni á
borð við þungmálma og þráavirk efni sem ella
þyrfti að fjarlægja með ýmsum hreinsunar-
aðferðum. Mestur er samt munurinn á bragð-
gæðunum og hefur lýsi úr uppsjávarfiski mild-
ara bragð, m.a. vegna þess að það er unnið úr
mjög fersku hráefni,“ upplýsir Snorri en vörur
félagsins hafa hlotið „Superior Taste Aw-
ards“-viðurkenningu hinnar virtu alþjóðlegu
matargæðastofnunar International Taste
Institute fyrir lyktar- og bragðgæðin.
Þar sem varan hefur vægt bragð og angan
hentar hún vel til íblöndunar í önnur matvæli
og byggist viðskiptalíkan Margildis meðal
annars á að selja lýsið til framleiðenda sem
vilja auka hlutfall hollra fitusýra í matvælum
sínum. Hefur lýsi frá Margildi verið notað til
að bæta ómega-3-fitusýrum í skyr, ferskt
pasta, hnetusmjör, matarolíur og smjörva og
gefið góða raun. „Þá hefur lýsið okkar þann
eiginleika að halda gæðum sínum ríflega tvö-
falt lengur en hefðbundið lýsi því það er ein-
staklega stöðugt og þránar því seint.“
Ofurfæðutegundum blandað saman
Á alþjóðamarkaði selur Margildi vörur sínar
undir vörumerkinu Fiskolía (www.fisk-
olia.com) en á Íslandi selur fyrirtækið Pure
Arctic-síldarlýsi (www.purearctic.is) undir
sínu nafni. „Jafnframt seljum við lýsi á tunn-
um eða pakkað í neytendaumbúðir undir vöru-
merkjum annarra. Gaman er að segja frá því
að við höfum náð góðum árangri í sölu síld-
arlýsis til Suður-Kóreu en höfum einnig selt til
fjölda landa allt frá Nýja-Sjálandi og Kína til
Noregs, Þýskalands, Írlands, Bretlands og
Bandaríkjanna þar sem við hófum nýverið
markaðsátak með opnun eigin söluskrifstofu í
Connecticut,“ segir Snorri. „Gæludýramark-
aðurinn lofar einnig góðu þar sem síldarlýsinu
er blandað saman við gæðafóður til að bæta
næringarinnihald eða notað sem fæðubót-
arefni og lystauki fyrir gæludýr.“
Erlendum neytendum standa í dag til boða
fjórar vörur: óbragðbætt og bragðbætt síld-
arlýsi í flöskum, síldarlýsi í perlum og astax-
anthín-blandað síldarlýsi. Íslenskir neytendur
fá til viðbótar barnalýsið Krakkagott sem inni-
heldur minna magn vítamína í takt við daglega
vítamínþörf smáfólksins.
Astaxthantín-lýsið er kallað SportOmega
hérlendis en AstaxOmega erlendis og er ein-
stök vara sem samanstendur af tveimur teg-
undum ofurfæðu. Íslensk fyrirtæki hafa náð
góðum árangri við framleiðslu astaxthantíns
sem unnið er úr þörungum sem ræktaðir eru í
stýrðu umhverfi. Astaxthantín er kröftugt an-
doxunarefni sem þykir hafa margvísleg heilsu-
bætandi áhrif rétt eins og og ómega-3-
fitusýrurnar sem fást úr lýsi. „Íþróttafólk hef-
ur m.a. greint það að blanda ómega-3 og
astaxthantíns hjálpar líkamanum að jafna sig
eftir krefjandi æfingar, dregur úr harð-
sperrum, bólgum og eymslum í liðamótum,“
útskýrir Snorri. „Það væri ekki hægt að
blanda astaxthantín saman við hefðbundið lýsi
því að oxunaráhrifin myndu valda rýrnun á as-
taxanthíninu en þegar því er blandað við síld-
arlýsi heldur það styrk sínum og útkoman er
vara sem sameinar alla bestu kosti lýsis og as-
taxthantíns.“
Samtals hefur Margildi aflað um 250 millj-
óna króna frá engilfjárfestum og úr opinber-
um styrktarsjóðum, s.s. tækniþróunarsjóði og
AVS. Fram undan er að sækja viðbót-
arfjármögnun svo að fyrirtækið geti komið
upp sinni eigin verksmiðju en samkvæmt
áætlunum félagsins verður sjóðstreymi þess
jákvætt á næsta ári og veltan mun a.m.k. þre-
faldast. Sóknarfærin eru víða og er t.d. útrás
til Bandaríkjanna og Kanada hafin og eins fyr-
irhugað að leita tækifæra í Noregi: „Noregur
er nokkurs konar Kísildalur ómega-3-
framleiðslu á heimsvísu en fyrirtækin þar
framleiða lýsi einkum úr hráefni á borð við an-
sjósur og sardínur sem er flutt inn frá Suður-
Ameríku og norðvesturströnd Afríku. Norð-
menn veiða heilmikið magn af makríl og síld
og vert að skoða hvort megi ekki leigja norsk-
um aðilum aðgang að einkaleyfi okkar til að
framleiða lýsi úr þessu hágæðahráefni, eða
jafnvel að Margildi byggi upp eigin fram-
leiðslu á Noregsmarkaði þegar fram líða
stundir.“
Vaxandi skilningur á mikilvægi lýsis
Er ekki útlit fyrir annað en að lýsismarkaður-
inn muni fara stækkandi. Neytendur verða æ
betur meðvitaðir um heilsubætandi áhrif
þeirra fitusýra sem fást úr lýsi auk þess að
lýsi er ríkt að vítamínum. Í kórónuveiru-
faraldrinum hefur mikið verið fjallað um góð
áhrif D-vítamíns á ónæmiskerfið og líklegt að
eftirleiðis muni margir gæta þess að taka lýsi
reglulega til að fá nægilegt magn D-vítamíns í
kroppinn. Nýverið hefur í auknum mæli verið
horft til virkni lýsis í baráttunni við veirusýk-
ingar og nefnir Snorri að Norðmenn hófu ný-
verið rannsókn á þessu með um 70.000 þátt-
takendum. „Rannsóknir hafa sýnt fram á að
ómega-3-fitusýrur lýsis geta brotið niður hjúp
umhverfis veirur og þannig stuðlað að eyðingu
þeirra. Þessari rannsókn er ætlað að sanna
þær vísbendingar sem þegar liggja fyrir og
hafa verið vel þekktar í áratugi að þeir sem
taka lýsi fái síður kvef, hálsbólgu eða flensu.
Það virðist mikilvægt að vinna á veirunum í
öndunarvegi og því best að neyta fljótandi lýs-
is. Við lítum á þetta sem stórt tækifæri og
okkar framlag til að stuðla að bættri lýðheilsu
með því að gera fólki kleift að geta neytt bæði
holls og bragðgóðs lýsis.“
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Með augastað á lýsisrisunum í Noregi
Margildi selur í dag lýsi til kaup-
enda um allan heim. Lýsi úr
uppsjávartegundum hefur ýmsa
kosti og er astaxthantín-bland-
aða lýsið mjög áhugaverð vara.
Á erlendum mörkuðum selur Margildi
fjórar vörur. Astaxanthín-lýsið sameinar
tvær gerðir af ofurfæðu í einni flösku.
Snorri Hreggviðsson og
Erlingur Leifsson stýra
Margildi í dag. Þeir sjá
fram á áhugaverð tækifæri
í Noregi fyrir lýsisframleiðslu
úr uppsjávarfiski.