Lögmannablaðið - 2018, Blaðsíða 13

Lögmannablaðið - 2018, Blaðsíða 13
LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 02/18 13 í skilgreiningu hugtaks þegar miðað er við gildandi hugtak EES-tilskipunar. Páll lagði að lokum áherslu á mikilvægi þess að taka upp hugtök og skilgreiningar EES-tilskipana orðrétt. Með öðru móti náist ekki að túlka þau með sjálfstæðri og samræmdri skýringu að EES-rétti sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið og tryggja þannig samræmda framkvæmd reglnanna. Lög og áhrif þeirra á háttsemi Víðir Smári Petersen ræddi notkun hagfræði og atferlis- fræði við mat á áhrifum laga. Sterkasta tæki hagfræð innar sé kostnaðarábatagreining en með henni sé hægt að setja kerfisbundið „verðmiða“ á kosti og galla. Mat á áhrifum stjórnarfrumvarpa sbr. 66. gr. laga um opinber fjármál sé orðið ítarlegra nú en áður en þó mætti nota hagfræðina í meira mæli við matið. Megintilgangur þess að nota hagfræðileg tæki við lagasetningu sé að greina áhrif laga- setningar á háttsemi fólks. Nefndi hann sem dæmi að ef meta ætti hvort skipta ætti sakarreglunni út fyrir hlutlæga ábyrgð drægjum við sjálfsagt þá ályktun að með hlutlægri ábyrgð yrði frekar gætt varkárni. Það hafi hagfræðin hins vegar sýnt fram á að sé rangt. Varkárnisstigið haldist eins en aðilar sem verði ábyrgir eftir hlutlægri ábyrgðarreglu dragi heldur úr háttsemi sinni. Því næst vék hann að atferlisréttarhagfræði sem snýr að rannsóknum á hegðun neytenda og almennings við tilteknar aðstæður. Sagði hann mun á því hverju klassísk hagfræði gengi út frá og því sem empirískar rannsóknir sýndu fram á. Klassíska hagfræðin gengi þannig út frá því að fólk hugsi rökrétt en empirískar rannsóknir sýndi fram á að fólk sé með takmarkaða rökhugsun. Takmörkuð rök- hugsun sé markaðsbrestur og þar af leiðandi þurfi jafnvel að beita óhefðbundnum aðferðum við lagasetningu. Oft sé hægt að leiðrétta markaðsbrestinn með upplýsingum en þær megi þó ekki vera of ítarlegar samkvæmt atferlisréttar- hagfræðinni þar sem hætt sé við því að fólk afvegaleiðist. Því sé best að veita takmarkaðar upplýsingar á aðgengilegu formi. Að lokum vakti hann athygli á Nudge nálguninni og að í Bretlandi hafi verið starfandi Nudge Unit frá árinu 2010 sem notar atferlisfræði við lagasetningu. Pallborðsumræður Steingrímur J. Sigfússon tók fyrstur til máls og sagði skipta miklu máli að fara rétt af stað við lagasetningu. Undirbúningur skuli vera faglegur og vandaður og stefnt sé að ákveðnu markmiði. Huga verði að því hvort eigi að fara í heildarendurskoðun laga í stað þess að fara í viðamiklar breytingar. Hann kvað okkur standa veikara að vígi hvað varðar undirbúningsvinnu vegna frumvarpa en nágrannalönd okkar en tilkoma samráðsgáttarinnar sé mikil bót og við séum því á réttri leið. Til stæði að efla nefndarsvið Alþingis með því að ráða þrjá nýja sérfræðinga og mikilvægt væri að dreifa málum yfir þingtímann. Í umræðunni hafi einnig verið að breyta því að þingmál þurfi að flytja að nýju hvert haust. Bergþóra Halldórsdóttir taldi mikilvægt að taka umræðuna um mistök við lagasetningu og það hversu þröngar skorður smæðin setur okkur. Við þyrftum að vera meðvituð um afleiðingar þess að ein og sama manneskjan sinni mörgum málaflokkum líkt og tíðkist víða hér á landi. Hún fagnaði því þó að það væri markviss vilji til að gera betur en lagði áherslu á mikilvægi þess að samráð hefist snemma í ferlinu. Gunnar Helgi Kristinsson sagði að meginþungi opinberrar stefnumótunar ætti að liggja hjá Stjórnarráðinu þar sem þekkingin væri. Þegar mál komi til þingsins þurfi hins vegar að vera búið að ræða við hagsmunaaðila, rannsaka málið og ljúka samráði. Nefndi hann að 20% stjórnarfrumvarpa sé að meðaltali breytt í þinginu hér en 5% í Danmörku og 2% í Noregi. Vandinn við þessar tíðu breytingar sé m.a. sá að það vanti greinargerðina og það geti gert túlkun laganna vandasama. Að lokum Tilgangur þessarar málstofu var að skapa umræður um þær áskoranir og umbætur sem huga þarf að við gerð lagasetningar og gott var að sjá hversu margir láta sig málefnið varða. Erindi framsögumanna voru vönduð og áhugaverð og pallborðsumræðurnar fróðlegar og bein- skeyttar. Þó nokkrar fyrirspurnir bárust úr sal í lok málstofu og sköpuðust við það líflegar umræður sem Páll Þórhallsson stjórnaði af röggsemi. Ljóst er að samhljómur er um það að gera megi betur til að tryggja gæði lagasetningar. Efla þurfi undirbúning og samráð við gerð lagafrumvarpa ásamt því að huga að því að hafa undirbúningsvinnuna þverfaglega. Samráðsgátt Stjórnarráðsins ber vott um að við séum á réttri leið en vel má vanda það sem lengi skal standa. Elísabet Anna Jónsdóttir, lögfræðingur.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað: 2. tölublað (2018)
https://timarit.is/issue/411941

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.

2. tölublað (2018)

Aðgerðir: