Lögmannablaðið - 2018, Qupperneq 20
20 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 02/18
orkugjöfum. Í sömu upplýsingum hafi komið fram
að seld raforka á Íslandi árið 2016 hafi verið 21% úr
endurnýjanlegri orku, 20% úr kjarnorku og 59% úr
jarðefnaeldsneyti. Þessar upplýsingar eru einfaldlega
rangar enda er flutningskerfi raforku á Íslandi hvergi
tengt öðrum kerfum og því vaknar spurningin: Stenst
lög að selja upprunaábyrgðirnar úr landi?
Í reglum Evrópuréttarins er upprunaábyrgð skilgreind
sem rafrænt skjal sem hefur aðeins það hlutverk að
sanna fyrir kaupanda að tiltekið hlutfall orku hafi verið
framleitt úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Þeir sem selja
neytendum orku þurfa því að geta sagt til um hvernig hún
er tilkomin og tilgreina það í reikningum. „Það má halda
því fram að ef þú ætlar að sanna hvaðan eitthvað kemur
þá þurfi það að geta fræðilega komið þaðan,“ sagði Hilmar.
Hilmar sagðist telja að það geti gengið gegn markmiðum
Evrópulöggjafar um upprunaábyrgðir að unnt sé að
selja upprunaábyrgðir frá ótengdum framleiðendum til
neytenda í Evrópu. Þá sé hin hliðin sú að ranglega sé verið
að halda því fram að á Íslandi sé verið að nota rafmagn
framleitt úr kjarnorku og jarðefnaeldsneyti. Tilgangurinn
með upprunaábyrgðum sé að auka framleiðslu á endur-
nýjanlegum orkugjöfum. Hilmar velti því að lokum upp
hvort ekki væri verið að ganga á stuðning almennings
og jafnvel verið að blekkja Evrópska neytendur sem eru
hinir endanlegu kaupendur. Fram kom í umræðum eftir
framsögu Hilmars að töluverð breyting hafi orðið á milli
ára og að í júní sé von á upplýsingum um árið 2017 sem
sýni mun minni útflutning upprunaábyrgða.
#metoo byltingin - Hvað svo?
Svala Ísfeld Ólafsdóttir sérfræðingur hjá dómsmála-
ráðuneytinu og dósent við lagadeild HR fór yfir #metoo
byltinguna. Hún sagði þetta vera stórmál þó það væri
það kannski ekki í lagalegum skilningi og lögin ekki til
þess fallin að taka á því. Svala fór yfir hvernig #metoo
byltingin hófst með ásökunum á hendur Harvey Weinstein
yfir í stofnun facebook hópa þar sem konur sem tilheyrðu
sömu hópum eða sömu starfstétt deildu sögum sínum og
rufu þögnina. Hópur fyrir konur í réttarvörslukerfinu var
stofnaður sem telur nú 730 konur. Sameiginleg yfirlýsing
var send á fjölmiðla þann 7. desember 2017, undir
yfirskriftinni „þögnin rofin“, en 156 konur skrifuðu undir
yfirlýsinguna og henni fylgdu 45 sögur. Svala deildi sínum
sögum úr hópnum og fór einnig yfir nokkrar sem henni
þótti minnisstæðar. Hún sagði sögurnar eiga samhljóm í
niðurstöðu rannsóknar Katrínar Johnson mannfræðings.
Katrín lagðist í rannsóknir fyrir meistararitgerð sína
og ákvað að kanna hvernig kynjahlutfall hefði áhrif á
menningu innan lögmannsstofa, andrúmsloft og hvort
kyn hefði áhrif á persónulegt vald lögmanna. Niðurstöður
Katrínar voru skýrar, kvenlögmenn þurfa að hafa meira
fyrir trúverðugleika og fagmannlegri ímynd. Katrín var
spurð að því í viðtali við Lögmannablaðið hvað kom
henni mest á óvart í rannsókninni, hún sagði það vera
hvað karllæg gildi og gamlar „steríótýpískar“ hugmyndir
um kynin væru ennþá við lýði. Hún sagði konur búa við
annan veruleika. Svala sagði þessa staðhæfingu, að konur
búi í raun við annan veruleika ramma inn allt sem #metoo
byltingin stendur fyrir. Byltingin hefur dregið fram þá
staðreynd að konur sem verða fyrir kynbundu ofbeldi,
áreiti eða niðurlægingu tilheyra ekki jaðarhópi heldur
koma úr öllum stéttum. Þetta felur í sér ákall um allir láti
sig þetta varða og félög lögfræðinga eiga að bregðast við
og reyna uppræta þá djúpstæðu og rótgrónu menningu
sem ríkt hefur.
Að endingu fór Svala yfir næstu skref sem hljóta að vera
aukin fræðsla í laganáminu og á hdl. námskeiðinu. Einstök
fagfélög, eins og DÍ, LMFÍ, LÍ og FKL ættu að koma saman
og ræða þessi mál eins og tilefni er til. Vinnustaðir þurfa
að taka sig á, setja sér stefnu og verkferla. Þá leggur Svala
til að sérstök #metoo nefnd verði sett á laggirnar sem fengi
það hlutverk að greina umfang vandans, skoða sögurnar,
kalla eftir hugmyndum og tillögum að aðgerðum. Markvisst
yrði þannig unnið að því að tryggja konum jafna stöðu á
við karla og þá virðingu sem þær verðskulda.
Anna Lilja Hallgrímsdóttir
Hilmar Gunnlaugsson.