Lögmannablaðið - 2018, Qupperneq 25
LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 02/18 25
Að útskýra internetið fyrir maur
Heimir Örn Herbertsson hóf erindi sitt á léttum nótum
og vék að þeim ævintýralegu breytingum sem orðið hafa
á samfélaginu einungis á einum áratug. Byltingarkenndar
breytingar gerist sífellt hraðar og verði sífellt stórbrotnari
en fræðimenn hafa spáð því að þegar árið 2050 verði
heimurinn óþekkjanlegur frá því sem nú er. Heimir fjallaði
á skeleggan hátt um mismunandi tegundir gervigreindar og
þróun þeirrar tækni sem að hans mati mun ráða langmestu
um það hvað okkar bíður á næstu árum. Öll þekkjum við
gervigreind á afmörkuðu sviði, s.s. skáktölvur. Almenn
gervigreind er í þróun sem ætlað er að vera ,,á pari“
við greind manneskju en svokölluð ofurgreind kemur
væntanlega í kjölfarið þegar almenn gervigreind hefur
litið dagsins ljós. Fyrirbæri búið slíkri greind myndi hafa
greiningargetu á við allt mannkynið en Heimir tók fram
að álíka auðvelt væri að úrskýra fyrirbærið fyrir okkur sem
lifum nú og að útskýra internetið fyrir maur.
Ólögmætt samráð tveggja algríma í Öskjuhlíð?
Heimir sagði að í dag verði til jafnmikið af gögnum á
tveggja daga fresti og öll gögn samanlagt sem urðu til frá
upphafi mannskyns til ársins 2000. Við skiljum eftir okkur
stafræn fótspor með öllu sem við gerum á internetinu, þau
eru svo færð inn í tölvuforrit sem geta spáð fyrir um hegðun
okkar, breytni og ákvarðanir. Þetta gefur mikla möguleika
til markaðssetningar sem og til að hafa bein áhrif á breytni
okkar, til dæmis sem kjósenda og ekki síst sem neytenda.
Upplýsingar, auk stjórnunar og yfirráða á gagnasöfnum
og gagnabönkum, verða augljóslega sífellt þýðingarmeiri.
Á sviði samkeppnisréttar geta fyrirtæki sem dæmi nýtt
sér tæknina til að spá fyrir um verðlagningu keppinauta,
neytendum til tjóns en samkeppnin er almennt drifin áfram
af óvissu. Sjá mætti fyrir álitaefni í tengslum við bann við
ólögmætu samráði þegar fyrirtæki geta notað algrími (e.
algorithm) til að spá fyrir um hegðun og verðlagningu
keppinautana.
Eftir fjörlega og ævintýralega umfjöllun sem minnti á
vísindaskáldsögu færðust efnistökin ,,nær jörðu“ eins og
Heimir komst sjálfur að orði. Lauk hann framsögu sinni
á gamansömum nótum með dæmum um lögfræðileg
álitamál sem sprottið gætu af tækniframförum og þátttöku
róbóta í atvinnulífinu.
Tækifæri og þróun
Helga Kristín Auðunsdóttir er doktorsnemi við Fordham
háskólann í New York en hún fjallaði um mikilvægi þess
að við lögfræðingar nýtum tæknina okkur í hag og þau
tækifæri sem hún veitir til að verða ,,ódrepandi“ stétt. Helga
benti á það að þróun starfa og munur milli lögfræðinga
og lögmanna yrði sífellt óljósari með tilkomu fjórðu
iðnbyltingarinnar. Atvinnuleysi meðal lögfræðinga og
annarra undanfarin ár, hérlendis og erlendis, hefði leitt
af sér ýmsa nýsköpun og frábærar hugmyndir sem hefðu
ekki orðið nema vegna þess að hæft fólk án atvinnu hefði
fundið sig knúið til að skapa sér eigin verkefni. Þannig
hefðu lögmenn og lögfræðingar í góðu starfi engan hvata
til að breyta núverandi kerfi. En þegar löglærður hittir
ólöglærðan – þá gerist hlutirnir!
Útvistun innanhúslögmanna
Mårten Janson er fyrrum lögmaður í Finnlandi og kom
inn í umræðuna í gegnum fjarfundabúnað en hann
stofnaði fyrirtækið Fondia ásamt eiginkonu sinni, sem
var jafnframt lögmaður, árið 2004. Þau sáu þörf fyrir
nýsköpun á sviði lögfræðiþjónustu á markaðnum og fóru
að bjóða upp á lögfræðiþjónustu í áskrift. Fyrirtæki greiða
þeim fast mánaðargjald og lögfræðingar Fondia sjá um öll
lögfræðileg málefni þeirra á föstu verði. Þá greindi hann frá
því að Fondia hafi aldrei verið meðlimur í Lögmannafélagi
Finnlands en þarlendis gilda áþekkar reglur og hérlendis
um einkarétt lögmanna. Lögmannafélagið í Finnlandi
gerir engar athugsemdir við starfsemina og mun áfjáð í
að fá þau sem meðlimi. Þau hafa lýst því yfir að svo verði
ekki fyrr en lagaumhverfinu verði breytt.
Stödd í miðri byltingu
Næstur tók til máls Bjarni Þór Bjarnason en Deloitte hefur
verið leiðandi á sviði sjálfvirkni og að nýta tæknina til að
auka skilvirkni innanhúss. Hann minnti á það að fjórða
iðnbyltingin væri ekki handan við hornið, líkt og margir
héldu fram, heldur værum við stödd í henni miðri. Afar
mikilvægt væri að við gerðum okkur grein fyrir því og
nýttum þau tækifæri sem í því felast. Bjarni fjallaði um þær
breytingar sem fyrirséð væri að iðnbyltingin hefði í för með
sér fyrir rekstrarumhverfi lögmanna og lagði ofuráherslu
á þýðingu þess hvernig þessi tækni öll skapaði nýjar
væntingar til umbjóðenda lögmanna og lögfræðinga. Breytt
rekstrarumhverfi viðskiptavina lögfræðinga og lögmanna
gegndi lykilhlutverki sem og sú staðreynd að regluverk og
lagaumhverfið allt er sífellt að verða flóknara. Kæmi þar
til að mynda til áhrif hins stafræna hagkerfis og aukinn
alþjóðavæðing markaða sem einnig yrðu stærri og einkum
óáþreifanlegri. Bjarni galt varhug við þeirri tilhneigingu
okkar til að ofmeta áhrif tækniframfara til skamms tíma
en vanmeta langtímaáhrifin. Loks sýndi Bjarni áhrifaríkt
myndband með dæmum um hvernig Deloitte væri þegar