Lögmannablaðið - 2018, Page 30

Lögmannablaðið - 2018, Page 30
30 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 02/18 og nú er t.d. meirihluti stjórnar skipaður konum. Það er hins vegar áhyggjuefni að þótt konum hafi fjölgað í stéttinni þá hefur þeim ekki fjölgað hlutfallslega sem sjálfstætt starfandi lögmönnum og brottfall úr stéttinni er mun meira meðal kvenna. Samkvæmt mjög áhugaverðri skýrslu um starfsumhverfi lögmanna og fjölskylduábyrgð sem var unnin á vegum LMFÍ og kom út í desember s.l. eru t.a.m. 35% kvenna með lögmannsréttindi sjálfstætt starfandi samanborið við 56% karla eru sjálfstætt starfandi og hafa þær tölur nánast ekkert breyst frá árinu 2005. Sú staðreynd bendir til þess að einhverju þurfi að breyta varðandi starfsumhverfi lögmanna og það þarf félagið að skoða. Í fjölbreyttari verkefnum úti á landi Hver er bakgrunnur þinn? Ég er fædd árið 1964 og uppalin á Akureyri. Ég lauk stúdentsprófi frá MA 1984 og kandídatsprófi frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1989. Eftir það fór ég til Frakklands og var þar í eitt ár að læra frönsku og sérhæfði mig í vín- og ostasmökkun. Svo fluttir þú á landsbyggðina, ekki rétt? Jú, ætli megi ekki segja um mig að ég sé miðaldra kona utan af landi! Ég réði mig sem fulltrúa hjá embætti sýslu- mannsins á Húsavík með það í huga að vera þar í einn vetur en ílengdist á Húsavík í 17 ár. Ég vann hjá sýslumanni í 6 ár og síðan stofnaði ég árið 1996 lögmannsstofu og fasteignasölu. Fyrstu árin var ég einyrki en síðan stofnuðum við þrír landsbyggðarlögmenn lögmannsstofuna Regula hver á sínu horni landsins; á Húsavík, Egilsstöðum og Höfn í Hornafirði. Við gáfum okkur út fyrir að vera lands byggðar- lögmannsstofa og stofnuðum síðar útibú í Reykjavík. Þar vann ég fyrst eftir að ég flutti suður en gekk síðar til liðs við Acta lögmannsstofu árið 2011. Acta var „kvennastofa“ en við vorum sjö konur sem rákum þá stofu. Acta lögmannsstofa sameinaðist síðan Lögfræðistofu Reykjavíkur vorið 2016 og þar erum við 18 lögmenn af báðum kynjum með sérþekkingu á öllum sviðum lögfræðinnar auk þess sem aldurssamsetning er fjölbreytt sem mér finnst mjög gott. Ég hef því reynslu af öllum þeim rekstrarformum sem viðgangast hjá lögmönnum í sjálfstæðum rekstri, þ.e. í einyrkjarekstri, „púllíu“ og „regnhlíf“. Er mikill munur á því að vera einyrki eða að vera partur af stærra mengi á stærri lögmannsstofu? Já, sérstaklega hvað varðar félagslega þáttinn, ég þrífst frekar illa bara ein og sér. Það fylgir því vissulega meira frjálsræði að vera einn en hins vegar hefur maður stuðning og nýtur aðstoðar hvenær sem á þarf að halda á stærri stofu. Þá vita það nú allir lögmenn að frelsi getur auðveldlega snúist upp í helsi. En er einhver munur á lögmannsstörfum í meðalstórum bæ á landsbyggðinni eða á höfuðborgarsvæðinu? Já, störfin eru að mörgu leyti fjölbreyttari úti á landi en sérhæfingin hins vegar meiri á höfuðborgarsvæðinu. Þegar ég var fyrir norðan þá kom ég til að mynda að sjóprófum, var oddviti í landskiptanefndum og kom eiginlega að öllum sviðum lögfræðinnar. Hvaða sérsvið hefur þú helst fengist við í störfum þínum? Ég hef mikið fengist við skiptastjórn og var meðal annars í slitastjórn SPB á tímabilinu 2009-2016. Þá hef ég töluvert sinnt fjölskyldurétti, bæði sifja- og erfðarétti, auk allrar alhliða lögmannsþjónustu. Þá hef ég setið í bankaráði Landsbankans frá árinu 2016. Tæknivæðing réttarkerfisins nauðsynleg Snúum okkur að LMFÍ, fyrir hverju hyggst þú beita þér sem formaður? Auðvitað er það þannig að hver formaður hefur sína ásýnd en það skiptir máli að hafa gott fólk með í stjórn og ég tel að nýkjörin stjórn Lögmannafélags Íslands sé afskaplega vel skipuð. Við tökum við góðu búi frá Reimari og fyrri stjórn og ég mun halda áfram að vinna að þeim málum sem þegar eru í gangi. Ég tel að formaður félagsins þurfi að koma fram sem öflugur málsvari réttarríkisins og mannréttinda. Það eru mörg mál sem þarfnast frekari skoðunar en brýnt er að félagið gæti hagsmuna lögmannastéttarinnar í hvívetna og standi vörð um sjálfstæði hennar. Þá er það einnig á ábyrgð félagsins að stuðla að framþróun réttarins og gæta réttaröryggis. Það hefur átt sér stað mikil vinna innan lögmannafélagsins við endurskoðun samþykkta og siðareglna félagsins auk þess sem nauðsynlegt er að fram fari allsherjarendurskoðun á lögmannalögunum. Lögmannafélagið hefur nokkrum sinnum sent tillögur til dómsmálaráðuneytis um breytingar á lögmannalögum en ekki haft erindi sem erfiði. Skylduendurmenntun lögmanna, skilyrði um starfsreynslu við öflun lögmannsréttinda og aðlögun að nýjum aðstæðum og tækni eru atriði sem vinna þarf að. Við verðum að fara að tileinka okkur stafræna tækni í meira mæli. Þau fornfálegu vinnubrögð sem fyrirfinnast innan réttarkerfisins eru varla boðleg lengur, það er verið að ljósrita sömu gögnin mörgum sinnum og í massavís, þau sömu og liggja þegar fyrir hjá dómstólunum. Þessu þarf

x

Lögmannablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Link to this issue: 2. tölublað (2018)
https://timarit.is/issue/411941

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.

2. tölublað (2018)

Actions: