Aðventfréttir - mar. 2014, Side 20
20
B3D í Vestmannaeyjum
Nákvæmlega tveimur árum eftir B3D
viðburðinn í Hörpu endurtókum
við leikinn í Vestmannaeyjum. Var
þetta gert til að marka upphaf 90 ára
afmælisárs safnaðarins þar. Í grunninn
var notast við sömu hugmyndafræði og
sýningargögn frá 2012 nýttust nánast
óbreytt.
Aðstæðurnar í Höllinni voru mjög
góðar sem leyfðu okkur að hafa
sýninguna tvíþætta, annars vegar
saga Biblíunnar og hins vegar sýning
á Biblíum sem hafa verið gefnar út á
Íslandi. Því miður hefur Hið íslenska
Biblíufélag ekki sýnt okkur sama
samstarfsvilja og fyrir tveimur árum.
Þá fengum við að sýna fágæt eintök af
fyrstu Biblíum sem eru aðeins örsjaldan
aðgengilegar almenningi. Í staðinn
gátum við sýnt mörg áhugaverð eintök
sem Bókasafn Vestmannaeyja hefur
að geyma auk eintaka úr okkar eigin
fórum.
Opinberar samkomur voru alls fjórar.
Eins og áður höfðum við þríþætta
dagskrá. Hún byrjaði á erindi sem
tengdist samfélagslegum málefnum
og henni lauk með biblíutengdri
hugleiðingu. Á milli erinda var
tónlistaratriði undir listrænni stjórn
Kitty Kovács og Balázs Stankowsky,
tónlistarfólki frá Vestmannaeyjum.
Við undirbúning viðburðarins kom
ýmislegt áhugavert í ljós. Erindin á
fyrri sýningunni snérust að miklu leyti
um hrunið og afleiðingar þess. Hvernig
eldra verðmætamat hafði gengið sér til
húðar og hvert væri best að leita til að
„endurreisa Ísland“ á grunni þeirrar
barnatrúar sem þrátt fyrir allt hefur
sterkan sess í þjóðarsál Íslendinga.
Þróunin í Vestmannaeyjum á
síðasta áratug var ekki með sama
hætti, eða allavega ekki eins ýkt og á
höfuðborgarsvæði og víðar. Í Eyjum
birtist góðærið sem kennt hefur verið
við árið 2007 ekki með jafn sterkum
eða jafnvel taumlausum hætti og þar af
leiðandi var áfall hrunsins heldur ekki
jafn sterkt. Auk þess var strax ljóst að í
Vestmannaeyjum eru einstaklingar ekki
nærri því eins feimnir að tala um kristna
trú sína og víða annars staðar.
Í tilefni sýningarinnar gafst mér
tækifæri til að tala um trúmál við
marga einstaklinga af ólíkum kimum
þjóðfélagsins. Í grunninn kom þar fram
að einstaklingarnir hafa sterka kristna
barnatrú og mörgum misbýður illt
umtal um trúararf okkar af hálfu sumra
stjórnmálamanna nútímans.
Gestafjöldi á sýningunni var ekki
svo mikill. Það kom greinilega fram
að Eyjamenn vissu af sýningunni og
vildu allt fyrir hana gera í tengslum við
undirbúning og frágang, en að mæta á
sýninguna virðist þó hafa verið stærra
skref en sumir treystu sér til. Þrír
skemmtilegir hópar fermingarbarna
glöddu okkur mikið en því miður
gátu grunnskólarnir ekki fundið glufu
í dagskrám sínum til að heimsækja
sýninguna.
Kvölddagkrárnar voru nokkuð
vel sóttar. Sérstaklega vöktu erindi
Eyjamannanna, Víðis Reynissonar og
Geirs Jóns Þórissonar, forvitni.
Nú erum við búin að halda B3D
viðburð í annað sinn. Það var ólíkt
auðveldara að endurtaka sýninguna
með nokkrum breytingum frekar en
að byrja alveg frá grunni. Það er ljóst
að við höfum hér í höndum okkar
gott verkfæri til að kynna Biblíuna á
forsendum íslenskrar menningar, bæði
fyrr og nú.
Spurningunni um afrakstur
viðburðarins verður sem fyrr erfitt að
svara. Er nóg að vekja einstaklinga til
umhugsunar? Hvert getur einn þanki
um Guð leitt? Hefur það ekki oft leitt til
sterkrar trúar þegar fram í sækir? Hvað
skilur sú reynsla eftir í huga barns að fá
að halda í þunga nagla úr járni við stóran
trékross? Eða kirkjukórsöngvarinn
sem les texta sálmsins eftir Helga
Hálfdánarson „Dauðinn dó en lífið lifir“
í myrkvaðri en tómri gröf Jesú?
Manfred Lemke