Bæjarins besta


Bæjarins besta - 29.01.1997, Blaðsíða 10

Bæjarins besta - 29.01.1997, Blaðsíða 10
10 MIÐVIKUDAGUR 29. JANÚAR 1997 Rommlegið saltað selspik besta beitan Í síðustu viku fór fram á norðanverðum Vestfjörðum, skyndisöfnun á skólavörum fyrir grunnskólabörn í Vojvo- dina-héraði í Serbíu. Vojvodina er nyrsta hérað Serbíu og hefur bágborið efnahagsástand og fjöldaatvinnuleysi í kjölfar nýafstaðinna stríðsátaka leikið íbúa þar sérlega grátt. Skóla- starf hefur verið erfitt vegna þess að börnin hafa ekki getað eignast einföldustu skriffæri og stílabækur, hvað þá aðrar nauðsynjar til skrifta og teikn- inga. Rauði kross Íslands fékk hjálparbeiðni frá serbneska Rauða krossinum og fór þess á leit við Rauða kross deildir hér vestra að þær söfnuðu í skyndi ritföngum, pappír, stíla- og reikningsbókum og teiknivör- um. Beiðni um vetrarfatnað fyrir sömu börn gat fatamiðstöð Rauða krossins á Akranesi afgreitt, en töluvert var samt komið með til deildanna og fer það með til Vojvodina. Rauða kross deildirnar í Dýrafirði, Önundarfirði, Súg- andafirði, Ísafirði og Bolung- arvík leituðu til grunnskóla- barna og foreldra þeirra á svæð- inu, fyrirtækja og stofnana um framlög. Viðbrögðin fóru fram úr öllum vonum. Er til þess tekið hve mikla alúð börnin lögðu við söfnun og kaup á öllu því sem um var beðið og hve dyggilega skólarnir, stjórn- endur þeirra og starfsmenn studdu framtakið. Börnin, kennararnir og annað starfsfólk skólanna pökkuðu öllu í kassa og settu með miða með kveðj- um til barnanna í Vojvodina. Mörg fyrirtæki gáfu í söfn- unina af mikilli rausn og var greinilegt að samhugur fylgdi hverjum poka og kassa, sem barst til Rauða kross hússins á Ísafirði og víðar. Hugur íbúa á norðanverðum Vestfjörðum ber þess merki, að hafa á síðustu árum bæði þegið hjálp í neyð og látið hana í té með því að taka á móti fólki í neyð. Þeir vita með hvílíku þakklæti og gleði gjafir þeirra verða þegnar. Gert var ráð fyrir að safnast myndi á eitt vörubretti. Þau voru orðin fjögur þegar form- legri söfnun lauk og átti þá eftir að bætast við rúmlega eitt til viðbótar. Kæru börn og unglingar! Hafið heila þökk fyrir dugnað ykkar og hjálp. Forsvarsmönn- um fyrirtækja og stofnana sem studdu söfnunina eru sömuleið- is færðar þakkir fyrir framlög þeirra. Rauða kross deildirnar á norðanverðum Vestfjörðum. Kærar þakkir fyrir stórkostleg viðbrögð! Ísafjarðardeild Rauða Kross Íslands „Þetta var nú þannig, að til mín kom maður, sem vildi kaupa feitan steinbít og eins og gengur og gerist þá tókum við spjall saman. Hann spurði hvort ekki væri erfitt orðið að fá hráefni til hákarlsverkunar og sagði ég svo vera ákveðinn hluta árs. Hann spurði þá hvort það væri ekki hægt að gera út á hákarlaveiðar og kvað ég það sjálfsagt hægt en að fara að kaupa skip og þess háttar væri bara della út í loftið. Það er skemmst frá því að segja að daginn eftir hringir í mig blaðamaður sem segist hafa heyrt frá frammámanni í þingliðinu okkar að ég væri að fara að gera út á hákarlaveiðar, - þannig var nú það,“ sagði Óskar Friðbjarnarson, fiskverkandi í Hnífsdal, aðspurður um fréttir þess efnis að hann hyggðist hefja hákarlaveiðar. Óskar sagði það reyndar vera orðið vandamál að fá hákarl til verkunar framan af ári, sem væri bagalegt því að hákarl sem færi í þorrann yrði að vera komin á land ekki seinna en í júlímánuði. „Þetta hefur breyst því hákarlinn kom alltaf með grálúðunni í troll vestfirsku togaranna sem nú eru einungis 3 í stað 11 áður og grálúðuveiðar eru orðnar svipur hjá sjón miðað við það sem áður var. Hákarl er sömuleiðis hættur að koma á land með rækjuskipum því settar hafa verið seiðaskiljur í troll þeirra sem gera það að verkum að karlarnir fá nánast ekki í soðið lengur.“ Óskar hefur, þrátt fyrir allt, fullan hug á að gera tilraun til hákarlaveiða jafnvel í samstarfi við eigendur rækjubáta sem oft eru verk- efnalitlir á vorin. Hann var spurður hvort ekki væri hægt að fá styrk út á svona tilraunaverkefni? „Ég hef ekki trú á að þótt ég skrifaði opinberum aðilum að þeir færu að veita mér styrk. Ég byrjaði sem brautryðjandi í verkun af þessu tagi og hef byggt upp það sem til þarf svo sem hjalla, kæliklefa, frystingu og annað. Ég hef ekki orðið var við að ég fengi lán eða styrki til þessara hluta, maður hefur bara orðið að gera þetta sjálfur. Rekstur af þessu tagi er utanveltu í kerfinu. Við fáum að borga í þessa sjóði en að við fáum eitthvað úr þeim, það er svo allt annar handleggur.“ Óskar sagði að á síðari hluta síðustu aldar hefði heill floti verið gerður út á hákarlaveiðar frá Eyjafirði, Vest- fjörðum og víðar og að veiðin hafi numið þúsundum ef ekki tugþúsundum hákarla. Lifrin var það eina sem var nýtt en hún var verðmætt hráefni sem notað var til að lýsa upp borgir Evrópu. Til marks um verðmætið þá var verð lýsistunnu á þessum tíma 60-100 krónur á meðan árskaup vinnumanns var 40 krónur. Óskar telur að hægt sé að veiða hákarl á línu víða við Vestfirði og sagði að nóg væri að lesa ævisögu Sæmundar Sæmundarsonar, „Virkir dagar“, að átta sig á því. „Þeir lögðu þar hákarlalínu og urðu aðhlátursefni fyrir vikið vegna þess að menn töldu að ekki væri hægt að draga hákarl nema á færi eins og tíðkast hafði. Þeir lögðu sem sagt línu en það liðu 3-4 dagar áður en hákarlinn kom á slóðina. Þeir voru með 108 króka á línunni sem var beitt með öllu sem tiltækt var um borð, allskyns óþverra og drasli. Þegar línan var dregin, kom í ljós að það voru 96 stykki á henni. Það getur tekið tíma að fá hákarlinn til að mæta á slóðina en hann er lyktnæmur mjög og rennur á lykt úr margra sjómílna fjarlægð.“ Óskar sagði að ef af veiðunum yrði, myndi hann ekki fara á sjóinn því hann væri bæði sjóveikur og sjó- hræddur. „Ég held að ég yrði bara að setja karlana á ákveðið recept til að fara eftir,“ sagði Óskar sem veit upp á hár hver besta hákarlabeitan er: „Rommlegið saltað selspik.“ Óskar Friðbjarnar og hákarlinn

x

Bæjarins besta

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bæjarins besta
https://timarit.is/publication/1104

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.