Bæjarins besta


Bæjarins besta - 04.06.1997, Blaðsíða 6

Bæjarins besta - 04.06.1997, Blaðsíða 6
6 MIÐVIKUDAGUR 4. JÚNÍ 1997 BB á fundi með sjávarútvegs- ráðherra og þingmönnum í Bolungarvík Þingmenn Vestfjarða, Einar Oddur Kristjánsson og Einar K. Guðfinnsson ásamt sjávarútvegsráðherra, Þorsteini Pálssyni. Auðlindaskattur var talsvert til umræðu á fundi með Þorsteini Pálssyni, sjávarútvegsráðherra og þingmönnunum Einari K. Guðfinnssyni og Einari Oddi Kristjánssyni, sem sjálfstæðisfélögin í Bolungarvík stóðu fyrir síðasta fimmtudagskvöld. Fundurinn var fjölsóttur og fjörugur á köflum og greinilegt á aðsókninni að áhuginn á málefninu er mikill hjá Vestfirðingum. Þorsteinn Pálsson: „Auðlindaskattur leggst þyngst á landsbyggðina“ Þorsteinn Pálsson hóf umræðurnar og sagði m.a. í ræðu sinni að sambærilegum kaupmætti og gerist í nágrannalöndunum yrði ekki náð nema sjávarútvegurinn fengi að vaxa og styrkjast. Þorsteinn spurði síðan: „Eigum við, samkvæmt einhverjum sjónarmiðum sem talsmenn auðlindaskatts hafa sett fram, að taka þá áhættu að draga fjármunina út úr sjávarútveginum og setja þá í ríkissjóð, sem við vitum að leiðir ekki til sömu framfara eins og yrði ef atvinnulífið sjálft fær að deila arðinum út?“ Hann sagðist fullviss um að hann hefði t.d. ekki haft tækifæri til að skoða jafn myndarlega nýja fjárfestingu og frystihús Bakka hf. í Bolungarvík, ef fjármunirnir sem í hana fóru hefðu verið teknir í formi veiðifjárskatta og þeir settir í ríkissjóð. „Um þetta stendur deilan,“ sagði Þorsteinn. „Þetta er ekki bara spurning um fyrirtæki í sjávarútvegi heldur einnig stór spurning um stöðu byggðanna. Þessir skattaglöðu menn hafa verið að tala um að leggja á 16 milljarða fiskiskatt og nota þá til að lækka tekjuskatt. Auðvitað myndi lækkaður tekjuskattur koma öllum almenningi til góða en aðgerðin myndi hafa áhrif á stöðu fyrirtækjanna og byggðanna. Hér á Vestfjörðum myndi slík skattheimta þýða að 1,1 milljarður króna yrði tekinn á hverju ári út úr þessum byggðum og hann settur inn í ríkissjóð. Þetta jafngildir því að hver einstaklingur á Vestfjörðum þyrfti að leggja 120 þúsund krónum meira til ríkissjóðs á hverju ári. Hvergi annars staðar á landinu yrði skattheimtan jafn þungbær vegna þess að hér er sjávarútvegur stærra hlutfall af atvinnulífi en annars staðar. Þannig að Vestfirðingar myndu leggja mest af mörkum til þess að ná niður skattaframlagi Reykvíkinga til samneyslunnar.“ Sjávarútvegurinn á silfurfati til Evrópusambandsins Þorsteinn undraðist uppþot það sem varð hjá vinstri mönnum vegna hugmynda um að lífeyrissjóðirnir leggðu fjármuni í íslensk sjávarútvegsfyrirtæki. Þeir hefðu jafnvel hótað að ef þeir kæmust til valda yrði komið í veg fyrir þetta. Hann sagði það einkennilegar skoðanir þegar menn segðu að það væri allt í lagi að leggja peninga í heildsölur og þjónustufyrirtæki og jafnvel að fjárfesta erlendis, svo fremi að ekki væri fjárfest í sjávarútvegin- um. Þorsteinn sagði síðan: „Ef þessi áform nýju jafnaðarmannasamsteypunnar eiga að ná fram að ganga þá þurfa menn ekki að spyrja að leikslokum. Þá verður ekki mikið eftir af sjávarútvegi í landinu. Hann verður sjálfsagt færður Evrópusambandinu á silfurdiski þegar þar að kemur. Frá mínum bæjardyrum séð er það ekki óréttlæti að lands- byggðin fái sömu möguleika til þess að spyrna við í atvinnumálum og þéttbýlið, sem fyrst og fremst byggir á þjónustu. Jafnræðið er fólgið í því að gefa sjávarútvegsfyrirtækjunum og fólkinu sem í þeim vinnur, sömu möguleika og fólk hefur í öðrum atvinnu- greinum. Það er þess vegna sem ég vill berjast fyrir þeirri stefnu að sjávarútvegsfyrirtækin fái að dafna.“ Einar K. Guðfinnsson: „Ég kalla þennan auðlindaskatt, krataskatt“ Einar K. Guðfinnsson lýsti yfir áhyggjum vegna verkfallsins á Vestfjörðum sagði að út úr því myndi enginn koma ósár og ljóst væri að Vestfirðir í heild sinni myndu tapa, hvernig sem niðurstaðan yrði. Hann ræddi síðan veiðistjórnunina, fyrirkomu- lag hennar og þær deilur sem um hana hafa staðið. Hann viðurkenndi að ágreiningur hefði verið um ýmsa veigamikla þætti veiðistjórnunarinnar milli hans og Einars Odds annars vegar og Þorsteins Pálssonar hins vegar. Þeir hafi hins vegar lagt sig fram um að ræða þessi mál og komast að niðurstöðu. Einar sagði að jafnframt væri mjög margt sem sameinaði þá fél- aga í umræðunni um sjávarútvegsmál og þá ekki síst afstaða þeirra varðandi auðlindaskatt, sem Einar kallaði „krataskatt.“ Hann tók undir sjónarmið sjávarútvegsráðherra um að skatturinn legðist þyngst á landsbyggðina og hvatti Vestfirðinga til andstöðu gegn hugmyndinni. Einar Oddur Kristjánsson: „Hafrannsókn- arstofnun er ekki alvitur“ Einar Oddur Kristjánsson ræddi um mikilvægi smábátaútgerðar á Vestfjörðum og fagnaði þeirri pólitísku ákvörðun sem var tekin á síðasta ári um hvernig staðið skyldi að útgerð smábáta. Hann sagðist fullviss um að lögin sem sett voru þá hafi verið lífsnauðsynleg fyrir „lífsrými“ smábátaflotans og einyrkjann í íslenskri útgerð. Hann lagði áherslu á að Vestfirðingar ættu mjög mikið undir því að menn fengju notið atgervis síns og þeir fengju notið þeirra landgæða sem svæðið býður upp á. Hjá Einari Oddi kom fram að úrelding innan smábátaflotans hefði ekki orðið eins mikil og búist var við og það væru viss vonbrigði. „Ekki endilega það að ég vilji að menn hætti í útgerð, en það yrði óneitanlega lífvænlegra í greininni ef fleiri myndu úrelda,“ sagði Einar Oddur. Hjá Einari kom fram nokkur gagnrýni á Hafrannsóknarstofnun en hann sagði það mjög alvarlegt ef það væri rétt sem fiskifræð- ingar segðu, að það gæti alveg eins farið svo að Íslendingar væru fastir í 220 þúsund tonna ársafla. „Það er mjög skammarlegt ef við náum ekki fram betri nýliðun. Það hlýtur að vera miklu stærra atriði hvernig okkur tekst að ná upp nýliðun og þar með heildaraflamagninu, heldur en að standa í rifrildi um hvort trillur fái að fiska fimm eða tíu þúsund tonnunum meira eða minna. Við viljum ekki ofgera fiskimiðunum en við viljum fá tækifæri til þess að leggja orð í belg. Hafrannsóknarstofnun er ekki alvitur og það er nauðsynlegt að þekkingin og reynslan sem til er hringinn í kringum landið, hjá sjómanninum, útgerðar- manninum og í sjávarplássunum, sé höfð að leiðarljósi. Við eigum heimtingu á að hlustað sé á okkur vegna þess að það eiga allir kunnugir að vita af þeim óhemju erfiðleikum sem hafa skapast vegna niðurskurðar á þorskveiðum í þessum byggðum okkar. Við höfum þurft að fórna svo gríðarlega miklu á tiltölulega fáum árum og miklu meiru en flestir aðrir. Þess vegna þarf að leita allra leiða til að hámarka afrakstur okkar úr þorskstofninum,“ sagði Einar Oddur. Þegar ráðherra og þingmenn höfðu lokið máli sínu var orðið gefið laust. Það fékk fyrstur Ólafur Halldórsson frá Ísafirði, sem fagnaði yfirlýsingu sjávarútvegsráðherra um að þorskkvóta- aukningin ætti að skila sér í réttum hlutföllum til þeirra sem orð- ið höfðu fyrir skerðingu áður. „Það er prýðilegt að heyra þetta. Það eru ekki mörg ár síðan það var myndarleg togaraútgerð á hverjum einasta firði og vík allt frá Patreksfirði til Súðavíkur. Þessi yfirlýsing ráðherra hlýt- ur því að vera mjög ánægjuleg fyrir togaraútgerðarmenn á Patreksfirði, Bíldudal, Þingeyri, Flateyri og Suðureyri. Það að kvótinn skuli koma í réttum hlutföllum til baka hlýtur að gera það að verkum að sú myndarlega togaraútgerð sem á þessum stöðum var, tekur til starfa og færir fólkinu sem á þeim búa björg í bú,“ sagði Ólafur. Sjávarútvegsráðherra ræddi á fundinum um vanda hefðbund- innar botnfiskvinnslu og hvernig mætti stuðla að framförum í landvinnslunni með vöruþróun og aukinni markaðssókn. Ólafur sagði í sambandi við það, að fyrst þyrfti landvinnslan að geta starfað við heilbrigðan grundvöll. Hann dró í efa að fullvinnsla gæti skilað þeim arði sem skilað gæti eigendum eðlilegri ávöxtun og starfsfólki mannsæmandi launum, ef hefðbundin vinnsla gæti ekki starfað á heilbrigðum grunni, en Ólafur fullyrti að svo væri. Ólafur hélt því fram að vanda landvinnslunnar mætti að stærstum hluta rekja til þess hversu sjóvinnslan hefði tekið mikinn hluta af þorski og öðrum bolfiski frá landvinnslunni. Hann óskaði svara við því hvort eitthvað væri gert til að stemma stigu við vaxandi sjóvinnslu. Hann spurði einnig hvort ráðherra hefði látið reikna út verðmæti þeirra aflaheimilda sem Vestfirðir hafa misst frá því að kvótakerfið var sett á. Ólafur sagðist sjálfur fullviss um að verðmæti aflaheimildanna væri töluvert meira en sá 1,1 milljarður sem Þorsteinn talaði um að leggjast myndi á Vestfirði í formi auðlindaskatts. Að lokum sagði Ólafur: „Ég ætla að vona að mönnum beri gæfa til þess að aðlaga þetta kvótakerfi að því sem þarf, til að um það verði meiri sátt en er í dag. Ég held að það hafi vart farið fram hjá ráðherranum eða Ólafur Hall- dórsson: „Kerfið rekið fyr- ir hina fáu á kostnað hinna mörgu“

x

Bæjarins besta

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bæjarins besta
https://timarit.is/publication/1104

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.