Börn og menning - 01.09.2009, Síða 17
Alltaf leyndó alltaf gaman
17
sem við finnum allt sem við þurfum og það
er nánast eins og Leynilundur skynji þarfir
okkar og lesi hugsanir. Þar er til dæmis
bókahilla sem er þeirrar náttúru að ef maður
stendur fyrir framan hana og segir eitthvað
orð fyllast hillurnar af bókum sem innihalda
orðið og fróðleik sem tengist því. Þar er líka
hnattlíkan sem er eins og þrívíð netupplifun,
ef þrýst er á land á Ifkaninu birtast myndir á
veggjunum og við förum inn í upplýsingavef
um landið með myndum og hljóðdæmum.
Á einum veggnum hangir töfraspegill sem
sýnir okkur út í geim eða niður á hafsbotn ef
þarf, í kjallaranum er gallerí þar sem hanga
öll möguleg listaverk og líka myndir sem
leynifélagar senda okkur. Uppi, eiginlega á
palli á þakinu, býr svo húsvörðurinn, drekinn
Gilbert. Gilbert er útvarpsdreki sem enginn
veit hvernig lítur út, hann er hreistraður,
hærður og eldspúandi en um lit, stærð
og áferð er ekkert vitað. Þeim mun meira
er vitað um skapferli hans og áhugamál,
hann er til dæmis mikill lestrardreki, spilar
á harmonikku og nærist á bröndurum og
gátum frá leynifélögum sem senda honum
slíkan dagamun samviskusamlega. Á sumrin
fer Gilbert til köldu landanna og Leynilundur
er lokaður á meðan svo þá eru leynifundir
sendir út vítt og breitt að. Við nýtum okkur
grimmt að vera í útvarpi og með orðum
og hljóðum byggjum við heilan hugarheim.
Enginn veit hvernig drekinn Gilbert lítur út
og það hefur varla heyrst í honum og enginn
veit heldur hvar eða hvernig Leynilundur er,
ekki einu sinni við fundarstjórarnir sem erum
örugglega með ólíka mynd af bæði húsi og
húsverði í huga.
„Kæru Leynifélagar"
Útvarp hefur verið stórlega vanmetið sem
miðill fyrir börn undanfarin ár og áratugi.
Allir héldu að sjónvarpið og tölvurnar myndu
ganga að útvarpinu dauðu (Video killed the
radio star) en gleymdu að gera ráð fyrir því
dýrmætastaogjafnframtvannýttastaíbörnum
sem er ímyndunaraflið. Við í Leynifélaginu
pössum okkur á því að lýsa engu í of
miklum smáatriðum heldur leyfum hverjum
og einum að búa til sinn eigin Leynilund,
sinn eigin dreka. Við hvetjum krakka til að
gera eitthvað á meðan þau hlusta á útvarpið,
til dæmis að teikna eða taka til í herberginu
sínu en vitum líka um mörg börn sem
sofna út frá Leynifélaginu. Við nýtum okkur
„nútíma tækni" til að dreifa boðskapnum,
höfum til dæmis verið duglegar að auglýsa
hlaðvarpið en þar geta krakkar gerst
áskrifendur að leynifélagsfundum, sett þá á
iPod og hlustað þegar þeim hentar, til dæmis
á löngum bílferðum, Við vitum einnig til þess
að kennarar hafi notað efnistengda fundi
f kennslu en líka spilað þá í verkefnavinnu
og í nestistímum. Þannig að þó að fundirnir
séu klukkan átta á ákveðnum kvöldum er
hægt að hlusta á þá allan sólarhringinn.
Við reynum líka að höfða til foreldra þvf
auðvitað er útvarpshlustun barna á ábyrgð
foreldranna, ef börn vita ekki einu sinni hvað
útvarp er eða hvernig á að kveikja á því, sem
þau vita náttúrlega ekki ef þau hafa ekkert
þangað að sækja, verður að kveikja fyrir
þau, stilla á rétta rás og hlusta aðeins með
þeim. Þetta hafa greinilega margir foreldrar
gert. Við höfðum til foreldranna með því að
auglýsa í samlesnum auglýsingum og keyra
hengivagna (treilera) á rás tvö á tímum
þegar foreldrar eru að hlusta. Svo reynum
við líka að halda fundi sem öll fjölskyldan
getur haft gaman af. Við höfum fengið mjög
góð viðbrögð frá fullorðnum hlustendum,
nú síðast níutíu ára gömlum manni sem
sagðist verða barn aftur af því að hlusta á
Leynifélagið. Við erum montnar af því.
Ekki er mögulegt að mæla hlustun barna
12 ára og yngri á Leynifélagið með sömu
aðferðum og hlustun fullorðinna á annað
útvarpsefni þvi lögum samkvæmt má ekki
láta börn bera hlustunarmæla sem nema
hvaða útvarpsstöð er í gangi í umhverfinu.
Við verðum þvi að mæla hlustun eftir
viðbrögðum, bæði bréfum sem okkur berast
en ekki síst því hvernig er tekið á móti okkur
þegar við fölumst eftir viðtali eða segjum
til okkar. Samkvæmt þeim þekkir meira en
helmingur barna Leynifélagið.
„Á dagskrá fundarins í dag"
Áhugasvið barna er vítt og því hefur margt
komið á borð Leynifélagsins: básúnuleikur,
hestamannamót, pardusselir, Barbí, Noregur,
fótbolti, kreppan, einelti, umhverfisvernd,
lögfræði, skáldskapur, jóga og margt fleira.
Við tökum aðeins eitt efni fyrir á hverjum
fundi og gerum því eins góð skil og við
getum á þeim tíma sem við höfum. Eitt það
skemmtilegasta sem við gerum er að fara
með ungu fréttaritarana okkar í ferðalög,
ýmist með ruslabílnum, til tannlæknis eða
sprengjusérfræðings, í súkkulaðiverksmiðju,
á Bessastaði og þannig mætti lengi telja.
Börn hafa gaman af því að heyra í börnum í
útvarpinu og krakkar fá allt öðruvísi viðbrögð
frá fullorðnum en aðrir fullorðnir. Krakkar
spyrja líka miklu skemmtilegri spurninga en
við hefðum getað látið okkur detta í hug.
IBBY-jibbý
Það var í einu, tveimur, þremur orðum sagt:
Alveg frábært að fá vorvindaviðurkenningu
IBBY í vor. Það sýndi okkur að það eru
einhverjir að hlusta á okkur sem láta sig börn
varða og er ekki sama hvað er borið á borð
fyrir þau. Og fannst það sem við erum að
gera viðurkenningarinnar virði.
Höfundar eru umsjónarmenn
Leynifélagsins á RÁS 7 í Ríkisútvarpinu