Börn og menning - 01.09.2013, Síða 8
Börn og menning
Myndasagan nýtur sífellt meiri virðingar á Vesturlöndum og hægt er að finna grafalvarleg verk sem sögð eru í þessu formi.
Sjálfsævisagan Persepolis eftir Marjane Satrapi sem segir frá uppvaxtarárum hennar í Iran á tímum írönsku byltingarinnar hefur
notið mikilla vinsælda. Einnig má nefna myndævisöguna Feynman eftir Jim Ottaviani og Leland Myrick sem segir frá ævi bandaríska
eðlisfræðingsins Richard Feynman sem hlaut Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði 1965. Og meðal þekktustu myndasagna samtímans er Maus
eftir Art Spiegelman en hún er eina myndasagan sem hlotið hefur hin virtu bandarísku Pulitzer bókmenntaverðlaun. Sagan segir frá
foreldrum Spiegelmans og helför nasista.
Lunginn úr útgáfu DC Comics og Marvel er ætlaður flestum
aldurshópum en verk fyrir eldri lesendur eru ávallt merkt sem slík
(e. mature readers). Bæði fyrirtækin gefa út sögur sem sérstaklega
eru samdar með yngri lesendur í huga, þá með þekktustu hetjum
útgáfurisanna í aðalhlutverki. Þær hafa einfaldari texta sem hæfa
lestrarkunnáttu yngri lesenda, söguþráðurinn er einfaldari og
teikningarnar að sama skapi lausar við tilraunastarfsemi. Segja má að
flestar ofurhetjusögur henti lesendum tólf ára og eldri en þær sögur
sem ætlaðar eru yngri lesendum henti sex til tólf ára börnum.
Ofurhetjugeirinn er og hefur verið ansi karllægur þó að ófáir
lesendur myndasagna séu konur, en nokkrar þeirra eru fastagestir í
myndasögudeild Nexus. Fáar konur starfa sem teiknarar og höfundar
innan ofurhetjugeirans og sömuleiðis eru fáar konur í þessum
sögum. Ofurhetjurnar eru í yfirgnæfandi meirihluta hvítir karlmenn.
Þær kvenhetjur sem komast á forsíður tímaritanna ná ekki viðlíka
vinsældum og karlkyns kollegar þeirra. Kvenhöfundum hefur fjölgað
síðustu árin innan ofurhetjugeirans og hefur ímynd kvenna innan
sagnaheimsins tekið nokkrum stakkaskiptum fyrir vikið. í dag er
auðveldara að benda á ofurhetjutitla sem eru ekki síður ætlaðir
konum en körlum.
Um leið og ofurhetjur sækja í sig veðrið í öðrum miðlum
(Hollywood hefur loks uppgötvað þennan anga vísindaskáldskapar
eins og hinn gífurlegi fjöldi ofurhetjukvikmynda síðustu árin ber vitni
um) er myndasögumiðillinn vestanhafs fjölbreyttari en nokkru sinni
fyrr. Ofurhetjurnar, þó að fyrirferðarmiklar séu, deila nú markaðnum
með fjölda annarra myndasagna sem eiga rætur að rekja til
vísindaskáldsagna, spennusagna, hrollvekja, gamansagna, ævintýra,
endurminninga og jafnvel fræðibóka.
Mest selda ritröðin í Nexus síðustu árin er til að mynda
bókaflokkurinn Fables eftir Bill Willingham, sem er nútímaævintýri
byggt á arfleifð Grimms-ævintýranna og er ætlaður unglingum og
fullorðnum. Vísindamyndaskáldsögurnar / the Last Man eftir Brian
K. Vaughan og Pia Guerra, Transmetropolltan eftir Darick Robertson
og Warren Ellis og Saga eftir Brian K. Vaughan og Fiona Staples njóta
allar mikilla vinsælda og hrollvekjur, líkt og hin geysivinsæla bókaröð
Walking Dead sem sköpuð var af Robert Kirkman og Tony Moore,
eiga vænan lesendahóp.
Bandarískar myndasögur í dag höfða til breiðari hóps lesenda
en nokkru sinni fyrr og einskorðast ekki lengur við hvítar karlkyns
ofurhetjur. Sú breidd sem nú ríkir á myndasögumarkaðnum
vestanhafs er ekki síst að þakka nýjum straumum að austan.
Japanskar myndasögur
Það varð bylting í myndasöguheiminum þegar japanskar
myndasögur fóru að koma út á Vesturlöndum. Þar opnaðist nýr
heimur (bókstaflega) fyrir vestrænum lesendum. Við getum þakkað
Vampire Knight
teiknimyndasögurnar
eftir Matsuri Hino
voru gefnar út i Japan
2004-2013.