Börn og menning - 2016, Síða 27
27Að henda reiður á heiminum
eftir ítrekuð átök við óáreiðanlegt umhverfi stefna Pi-
etro og félagar hans enn og aftur út í óvissuna í sögulok.
Pietro reynir þó alltaf að kortleggja umhverfið, oft
með ágætis árangri, og segja má að mikið af sögunni
snúist um að rata einhverja leið. Það á augljóslega við
um mörg af leynigöngunum en líka ýmislegt fleira.
Framarlega í bókinni reynir Pietro t.d. að sleppa und-
an mönnum sem sitja fyrir honum og tekst það með
óvæntri leið sem liggur ekki um göturnar. Mennirnir
halda að Pietro sé í sjálfheldu en hann sleppur eftir vegg
sem reynist „samsíða stígnum og lá yfir að næsta garð-
vegg og svo þarnæsta og þannig koll af kolli meðfram
allri götunni og yfir í aðra garða í öðrum götum“.
Annars konar leið sem reynist áhrifavaldur í sögunni
snýst um sjúkdóma og smit. Í sögubyrjun er Pietro
smitaður af plágunni sem hefur að líkindum tortímt
nánustu fjölskyldu hans og fjölmörgum öðrum íbúum í
staurahverfinu. Plágan er ástæðan fyrir því að borgarbú-
ar brenna hverfið til grunna í byrjun sögunnar og Pietro
lendir á flótta en flóttaleiðin verður jafnframt smitleið
þar sem Pietro flytur pláguna inn í borgina.
Meðvitaðri útgáfa af leiðarvali kemur til sögunnar
þegar Pietro og félagar hans leggja af stað í háborgina
því að þau hafa kort undir höndum þótt það gagnist
ekki fyllilega. Ég er sérlega veik fyrir landakortum,
jafnt í bókum sem annars staðar, og vildi óska að kortið
fylgdi sögunni. Það hefði kórónað annars fallegan frá-
gang bókarinnar að birta borgarkortið á saurblöðunum.
Vel hugsuð heimsmynd
Öll frásögnin ber með sér að söguheimurinn er gríðar-
vel hugsaður og oftast er honum miðlað haganlega til
lesenda á óbeinan hátt. Upphafið er æsispennandi þar
sem lesandinn veit fátt um hvar hann er staddur eða
hvað er að gerast og fær að átta sig á því smám saman
hver Pietro er, hvernig á því stendur að það blæðir
úr augunum á honum og af hverju dularfullir menn
með grímur eru að kveikja í húsunum nálægt honum.
Nokkru síðar hlerar Pietro vel gert samtal sem er ekki
síður upplýsandi fyrir lesendur en hann sjálfan. Enn
aðrar skýringar birtast óbeint í lýsingum á umhverfinu
eða útliti persóna og lesandinn fær sjálfur að raða saman
púsluspilinu.
Það er oftast kostur á bókinni að lesandinn er ekki
mataður með teskeið á útskýringum og ýmsir endar eru
óhnýttir sem skapar heilmikið svigrúm fyrir lesendur
til að velta hlutunum fyrir sér. Einnig er fagnaðarefni
hversu margbrotnar persónurnar eru og að auðveldlega
er hægt að sveiflast í afstöðunni til flestra þeirra. Bókin
snertir líka á ýmsum mikilvægum umfjöllunarefnum,
t.d. er tekist á við stéttskiptingu og ýmiss konar misrétti
á kraftmikinn hátt. Aftur á móti geta ákveðin atriði í
söguþræðinum virst ruglingsleg, allavega í fyrstu. Við
fyrsta lestur fannst mér t.d. fjölskyldutengsl Pietro við
nornina sem er haldið fanginni í háborginni ekki nógu
vel undirbyggð og ekki unnið úr þeim til hlítar. Við
annan lestur kom hins vegar í ljós að ég hafði einfald-
lega ekki tekið nógu vel eftir því framan af frásögninni
birtast glefsur af frásagnarþráðum sem tengdust þess-
um efnisþætti og þeir eru ofnir vandlega gegnum alla
söguna. Aðrir taka kannski eftir öllu þessu við fyrsta
lestur en missa hugsanlega af öðru því að sögusviðið
er svo ítarlega unnið að það getur stundum yfirgnæft
persónurnar og plottið. Það er samt ekki endilega galli.
Heimsmyndin í Koparborginni er aðdáunarvel hugsuð
og gerð. Hún hefur því heilmikið sjálfstætt gildi og hvað
söguþráðinn varðar getur meira að segja verið gaman
að týnast stundum og fá að móta eigin hugmyndir
um lausa enda eða óljósa rangala. Þar sem heimsmynd
sögunnar er margþætt og safarík hefur bókin líka þá
jákvæðu hlið að vera líkleg til að þola ítrekaðan lestur
vel þar sem í henni er hægt að uppgötva svo ótalmargt.
Höfundur er íslenskufræðingur.