Morgunblaðið - 09.01.2021, Qupperneq 41

Morgunblaðið - 09.01.2021, Qupperneq 41
VIÐTAL Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Þegar ljóst var að lítið sem ekkert yrði af tónleikahaldi í ár ákváðum við í vor að skella í þessa plötu,“ segir Helga Kvam um plötu sem nefnist Þráðurinn hvíti. Á plötunni flytur Helga ásamt Þórhildi Örvarsdóttur söngkonu níu ný lög eftir íslensk tón- skáld. „Þórhildur á eitt lag á plötunni og ég tvö, en önnur lög eru eftir Jón- as Sen, Sigurð Flosason, Harald V. Sveinbjörnsson og Kristjönu Stef- ánsdóttur,“ segir Helga og tekur fram að flest séu lögin samin fyrir þær Þórhildi á síðustu tveimur árum. Upptökur fóru fram í Akureyrar- kirkju í júlíbyrjun 2020 og upp- tökustjóri var Haukur Pálmason. Platan er nú þegar aðgengileg í öllum helstu tónlistarveitum ásamt því að vera komin út sem geisladiskur sem fæst hjá tónlistarkonunum. Snertir á mörgum stílum Titillag plötunnar samdi Jónas Sen við ljóð Davíðs Stefánssonar úr ljóða- bókinni Svörtum fjöðrum. „Ljóðið fjallar um konu sem er að spinna þráðinn hvíta, sem er táknmynd fyrir lífið. Okkur þótti afskaplega vænt um þetta lag og heitið er lýsandi fyrir plötuna, því hún inniheldur samsafn af alls kyns tónlist, allt frá klassík til djass með viðkomu í leikhústónlist og þjóðlagakenndri tónlist. Þessi plata snertir á mörgum stílum, en þráð- urinn hvíti er það sem heldur honum saman.“ Aðspurð segir Helga þær Þórhildi hafa starfað saman að fjölmörgum tónlistarverkefnum, stórum sem smáum, á síðustu árum. „Við kynnt- umst þegar við byrjuðum að kenna saman fyrir sjö eða áttum árum. Í framhaldinu spiluðum við saman undir merkjum Norðlenskra kvenna í tónlist. Svo fórum við í kjölfarið að vinna meira bara tvær saman og fara til dæmis hringinn í kringum landið með klassískt tónleikaprógramm. Síðustu árin höfum við verið að búa til stærri verkefni sem fela í sér dag- skrár í tali og tónum sem byggjast á stórum rannsóknarverkefnum þar sem við erum að segja sögur í bland við tónlist,“ segir Helga og nefnir sem dæmi um slíkar rannsóknir og flutning dagskrá þeirra um Huldu skáldkonu, Davíð Stefánsson, ís- lenska sönglagið og íslensk Mar- íuvers. „Á þessum tíma hefur orðið til mjög náið samstarf við íslensk sam- tímatónskáld og voru pöntuð eða frumflutt verk eða útsetningar á hverju ári síðastliðin fjögur ár,“ segir Helga og bendir á að Þráðurinn hvíti sé afrakstur hluta þeirrar vinnu. Ekki hægt án styrkja „Á síðasta ári unnum við rann- sóknarverkefni um álfa og tröll. Við ætluðum að halda tónleika í júní, en urðum að fresta þeim fram í septem- ber út af heimsfaraldrinum, en gátum heldur ekki haldið þá um haustið út af faraldrinum þannig að við endunum á að gera fjóra 50 mínútna hlaðvarps- þætti sem fóru í spilun á Soundcloud milli jóla og nýárs,“ segir Helga og bendir á að þættirnir innihaldi flutn- ing þeirra á 14 íslenskum lögum sem tengjast álfum og tröllum auk þess sem hlusta megi á viðtöl sem þær tóku við viðmælendur úr ýmsum átt- um. „Þannig er öll rannsóknarvinnan sem við vinnum venjulega fyrir tón- leika líka aðgengileg áheyrendum. Þegar við getum miðlað efninu á tón- leikum sjóðum við kannski 20 mín- útna viðtal við fræðimanneskju niður tvær hnitmiðaðar setningar í handriti hjá okkur,“ segir Helga og bætir við: „Rannsóknarvinnan skiptir ekki að- eins máli þegar maður er að setja saman prógrammið þannig að það gangi uppi jafnt fræðilega, sögulega, fagurfræðilega og tónlistarlega, held- ur dýpkar hún allan skilning manns og túlkun sem flytjanda,“ segir Helga og rifjar upp að þær Þórhildur hafi dvalið í vinnustofu í Róm í tíu daga þegar þær unnu rannsóknir sínar á Huldu skáldkonu árið 2018. „Við æfð- um þá á morgnana og sátum við handritsskrif og rannsóknir á kvöld- in. Það skiptir svo miklu máli að geta gefið sér góðan tíma til að rannsaka hlutina og setja saman,“ segir Helga og tekur fram að slíkt sé hins vegar ekki hægt án styrkja. „Við fengum listamannalaun auk þess sem full- veldissjóður styrkti okkur þegar við vorum að vinna Huldu og það munaði öllu,“ segir Helga og rifjar upp að dagskrána um Huldu hafi þær Þór- hildur flutt á 11 tónleikum vítt og breitt um landið. Náttúran veitir innblástur „Undirbúningurinn að plötunni nú var að hluta unninn í vinnustofum Circolo Scandinavo á vegum Nordisk kunstforening í Róm árið 2019 og í listamannadvöl hjá menningarstofu Fjarðabyggðar á Eskifirði í júní 2020. Auk þess er verkefnið styrkt af tón- listarsjóði og menningarsjóði FÍH,“ segir Helga og bendir á að ástríða tónlistarfólks fyrir starfi sínu sé það mikil að það sé oft að borga með sér fáist ekki styrkir til tónlistarflutnings eða upptöku. Innt eftir gildi þess að hljóðrita nýja íslenska tónlist segir Helga það mjög mikið. „Það er mjög mikilvægt að ný verk séu ekki aðeins til í nótna- formi heldur líka hljóðrituð, flutt á þeim tíma sem þessi tónlist er samin. Sérstaklega þegar verið er að vinna þetta í nánu samstarfi við tón- skáldin,“ segir Helga, en nóturnar sjálfar eru aðgengilegar almenningi hjá Íslenskri tónverkamiðstöð. Þar sem Helga á sjálf tvö lög á plötunni liggur beint við að spyrja hana hvað veiti henni innblástur sem tónskáldi. „Það er mjög misunandi eftir verkum. Lögin tvö á plötunni samdi ég við ljóð úr Svörtum fjöðrum eftir Davíð Stefánsson og þar veitti textinn mér auðvitað mikinn inn- blástur, en einnig saga Davíðs og að- stæður,“ segir Helga og tekur fram að náttúran sé líka áberandi í ljóðum Davíðs. „Ég sendi frá mér stuttskífu með píanóverkum 23. desember sl. og þau verk voru fyrst og fremst inn- blásin af íslenskri náttúru, þannig að hún er heilt yfir mikill áhrifavaldur,“ segir Helga. Saknar endurgjafarinnar Spurð hvort mikill munur sé á því fyrir hana að semja fyrir píanó ein- göngu eða líka fyrir söngrödd svarar Helga því játandi. „Verandi sjálf píanóleikari finnst mér miklu auð- veldara að semja fyrir píanó en söng- rödd,“ segir Helga og tekur fram að hún skynji texta fyrst og fremst sem takt. „Orðin hjálpa mér að setja niður taktinn. Þar sem ég er ekki söngkona skynja ég ekki með sama hætti hvort tiltekin tónbil geti verið erfið í söng og hvað er söngvænt,“ segir Helga og bendir á að þær Þórhildur eigi alltaf gott samtal um tónlistina og leitina að réttu tóntegundinni sem henti hverju sinni. „Stundum þarf að breyta um tóntegund til að fá rétta litinn á lagið. Sönglög mín eru samin með hana í huga og því hefur aldrei komið til greina að einhver annar söngvari en hún frumflytti þau.“ Ekki er hægt að sleppa Helgu án þess að spyrja hvort til standi að fagna plötunni með útgáfutónleikum. „Það er auðvitað erfitt meðan yfir- standandi samkomutakmarkanir eru í gildi,“ segir Helga og tekur fram að hún sé ekki mjög spennt fyrir því að halda tónleika í beinu streymi. „Það er auðvitað mjög skrýtið að gefa út tvær plötur og fjóra hlaðvarpsþætti nánast á laun án þess að fá þá endur- gjöf sem fæst á tónleikum,“ segir Helga og bendir á að í venjulegu ári haldi þær Þórhildur 40 til 60 tónleika á ári, en í fyrra tókst þeim aðeins að halda eina tónleika. „Við lifum auðvit- að í breyttum heimi,“ segir Helga og viðurkennir fúslega að erfitt sé að halda dampi þegar endurgjöfina skortir. „Með tilkomu Covid-19 hefur neysla á menningu breyst. Í stað þess að fólk sé að neyta og njóta í róleg- heitum virðist fólk svolítið tætt yfir þeim fjölda streymisviðburða sem í boði eru,“ segir Helga og tekur fram að persónulega sé hún mjög hikandi við að halda tónleika í streymi. „Stór hluti þess að koma fram felst í endur- gjöfinni frá áhorfendum og samver- unni í sama rými. Það er auðvitað ekki fyrir hendi í streymi,“ segir Helga og bendir á að niðurfelling tón- leika bitni ekki aðeins á endurgjöfinni heldur einnig pyngjunni og því sé mikilvægt að stjórnvöld endurhugsi styrkjakerfið fyrir listafólk. „Við Hilda erum reyndar svo heppnar að vera báðar með fastar tekjur sem tónlistarkennarar, þannig að höggið vegna heimsfaraldursins hefur verið aðeins minna. En mikið óskaplega sakna ég þess að hitta kollega mína, spila með þeim, fá innblástur og tæki- færi til að spila fyrir áheyrendur. Tónlistin er það sem ég hef brunnið fyrir alla ævi. Það að geta fært fólki músík er ástæða þess að ég valdi mér þetta ævistarf,“ segir Helga. Ljósmynd/Auðunn Níelsson Kollegar Helga Kvam píanóleikari og Þórhildur Örvarsdóttir söngkona hafa starfað náið saman síðustu ár. Þær hafa í vinnu sinni meðal annars beint sjónum að Maríutónlist, Svörtum fjöðrum og nú síðast álfum og tröllum. Saknar þess að spila fyrir fólk  Helga Kvam og Þórhildur Örvarsdóttir senda frá sér plötuna Þráðurinn hvíti  Platan inniheldur níu ný lög eftir sex íslensk tónskáld  Gáfu einnig nýverið út fjóra hlaðvarpsþætti um álfa og tröll MENNING 41 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 9. JANÚAR 2021 –– Meira fyrir lesendur NÁNARI UPPLÝSINGAR um auglýsingapláss: Berglind Bergmann Sími: 569 1246 berglindb@mbl.is BÍLA-SÉRBLAÐ BÍLA fylgir Morgunblaðinu þriðjudaginn 19. janúar 2021BLAÐ

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.