Morgunblaðið - 23.06.2021, Qupperneq 25
MENNING 25
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 23. JÚNÍ 2021
Hólmfríður María Ragnhildardóttir
hmr@mbl.is
Litasprengjur, klippimyndir,
peysuföt og falin andlit mæta þeim
gestum er heimsækja Safnasafnið
við Svalbarðsströnd rétt fyrir utan
Akureyri í sumar. Þemað á sum-
arsýningunum í ár fjallar um hina
svipbrigðaríku tjáningu í nánd inn-
an félagslegra takmarkana en fjöl-
breyttur hópur listamanna birtir
verk sín þar og eru þeir yngstu á
leikskólaaldri. Alls verða 12 sum-
arsýningar en safnið mun standa
opið daglega milli klukkan 10 og
17 fram til 12. september.
Níels Hafstein, annar af stofn-
endum safnsins og núverandi safn-
stjóri, lýsir því að hér sé um hrif-
næmar sýningar að ræða og segir
hann gestina jafnframt duglega að
tjá ánægju sína á samfélagsmiðl-
um. „Sumir fá tár í augun, halda
um hjartað og geta varla talað af
hrifningu. Það eru litasprengjur í
öllum þessum rýmum og það vek-
ur upp tilfinningar hjá fólki.“
Andlit áberandi í verkunum
Í anda þemans eru andlit afar
áberandi þáttur í sýningunum í ár
en listafólkið notar fjölbreyttar
leiðir og efnivið til að útfæra verk
sín en meðal annars verða til sýnis
grímur úr fuglabringum og öðru
náttúrulegu efni eftir Vilmund
Þorgrímsson, glettin útsaumsverk
eftir Loja Höskuldsson og sígildar
klippimyndir eftir Örn Karlsson.
Spurður hvernig þemað hafi
komið til segir Níels að ákvörð-
unin hafi verið frekar tilviljunar-
kennd. „Þetta kom nú eiginlega
bara óvart upp. Við vorum að
vinna að undirbúningi sýningar og
vorum að rannsaka málverk eftir
Sigurð Einarsson þegar við sáum
að það voru alls staðar falin andlit
í verkinu. Sum voru áberandi en
svo þegar maður fór að skoða
myndina komu fleiri og fleiri í
ljós.“
Safnasafnið leitar eftir því að fá
verk eftir ófaglært listafólk, nýút-
skrifaða nemendur eða ein-
staklinga sem fá síður tækifæri að
sýna á öðrum söfnum.
„Það er svo skemmtilegt yfir-
bragð yfir listaverkum ólærðra
listamanna á Íslandi. Við erum að
reyna að lyfta þessu fólki upp,
setja það á sama stall og lærða
listamenn,“ segir Níels og bætir
við að nú sé safnið að leita að
kvenkyns listamönnum sem litið
hefur verið fram hjá og hafa ekki
fengið verðskuldaða athygli.
Meðal þeirra listamanna sem
sýna á sumarsýningunni er hópur
úr grunn- og leikskóla á Sval-
barðseyri. Krakkarnir eru alvanir
og hafa alist upp með safninu og
sýna á hverju ári. Níels segir það
koma sér sífellt á óvart hve hæfi-
leikaríkir og hugmyndaglaðir þess-
ir hópar séu.
Spennandi tímar fram undan
Nú þegar hafa margir heimsótt
sýningarnar en í maí komu rúm-
lega 500 gestir á safnið. Að sögn
Níels eru þetta mestmegnis Ís-
lendingar þótt eitthvað sé farið að
bóla á erlendum ferðamönnum, þá
aðallega fullbólusettum Banda-
ríkjamönnum. Hann segir að safn-
ið hafi alls fengið 101 erlendan
ferðamann í fyrra en hann sér
fram á að sumarið í ár verði gott.
Í september verður svo sérsýn-
ing sem kallast Tímahylkið og
fjallar hún um yfirstandandi
heimsfaraldur en nemendur og
fjölskyldur þeirra í hreppnum
unnu saman að verkefninu og er
Anna Heiður Oddsdóttir sýning-
arstjóri verkefnisins. Voru krakk-
arnir meðal annars beðnir um að
velta fyrir sér áhrifum kórónuveir-
unnar á líf þeirra í dag og mögu-
lega í framtíðinni. Eftir sýninguna
í september verða listaverkin sett
í tímahylki sem fara í geymslu í
100 ár. Fellur það svo í hendur
komandi kynslóða að lesa í og
greina svörin sem finnast í þessum
hylkjum.
Litasprengjur og verk í tímahylkjum
- Spennandi sumarsýningar standa nú yfir á Safnasafninu við Svalbarðsströnd - Safnstjóri segir
gesti hafa tárast af hrifningu - Þemað svipbrigðarík tjáning í nánd innan félagslegra takmarkana
Forvitnilegt Nemendur úr Valsárskóla fylgjast með skemmtitækjasýningu Níelsar Hafstein safnstjóra Safnasafns-
ins og í bakgrunni má sjá verk nemendanna. Tólf sumarsýningar hafa verið opnaðar í safninu á Svalbarðsströnd.
Útsaumur Verk eftir Loja Höskuldsson. Andlit Verk eftir Sigurð Einarsson á sýningu í safninu.