Morgunblaðið - Sunnudagur - 20.06.2021, Blaðsíða 17
inn hefði fallist á þessar kröfur og komið frá því prófi
með fljúgandi fánum, 32 stig af 32 stigum mögulegum.
Fyrir fundinn með Pútín hafði Biden sagt við blaða-
menn að eitt af því mikilvægasta í viðræðunum fram-
undan væri að fara alvarlega yfir stöðuna í Líbíu með
Pútín. Nefndi forsetinn Líbíu þrisvar sinnum í þessu
sambandi. Eftir fundinn var utanríkisráðuneytið spurt
út í hvað forsetinn væri að fara. Þá var send út leið-
rétting um að forsetinn hefði átt við Sýrland! Þetta
vakti undrun því að forsetinn les nánast hvert orð af
spjöldum aðstoðarfólks og þarf því að hafa töluvert
fyrir því að gera slík mistök.
Alþingi 140 ára
Það er hefðbundið að hnjóðað sé í Alþingi og minni-
hlutahópinn, þingmennina, sem þar vinna. En það er
ekki deilt um að Alþingishúsið sjálft er fagurt hús og
stílhreint. Hinn 1. júlí næstkomandi, eftir rúma viku,
verða 140 ár frá því að Alþingi kom í fyrsta sinn sam-
an í Alþingishúsinu.
Öll vitum við hversu tækni við mannvirkjagerð hef-
ur fleygt fram. Það vekur því nokkra undrun hve góð-
ur gangur var í byggingum þessa tíma. Þarna átti
gríðarlegt hús í hlut, á þeirra tíma mælikvarða. Húsið
var reist úr höggnum grásteini, sem að sögn Páls Lín-
dals var aðallega tekinn neðarlega í Skólavörðuholti.
„Fjöldi manna lærði steinsmíði í sambandi við þessa
framkvæmd. Verkinu þokaði vel áfram og sumarið
1880 er lagður hornsteinn hússins.“
Það er að minnsta kosti táknrænt að hinn 30. apríl
þetta ár koma líkkistur Jóns forseta og Ingibjargar,
konu hans, til Reykjavíkur. Jarðað var frá dómkirkj-
unni þann 4. maí og eru gular kistur þeirra bornar
hjá grunni hins nýja Alþingishúss. Þar er heilsað og
kvatt! Kisturnar eru þungar. Þær eru tvöfaldar og
önnur úr blýi og líkmenn því fjölmargir og skiptast
á.
Næsta vetur er hið mikla hús fullgert. Þar voru
ekki aðeins vistarverur Alþingis heldur var Lands-
bókasafnið þar og Landsskjalasafn. Það rýmkaðist
mjög um húsið þegar að þessi söfn fengu annað og
betra húsaskjól. En það þrengdi aftur að þegar að
Háskóla Íslands var komið fyrir í Alþingishúsinu
1911 og var skólinn þar í tæp 30 ár!
Eftir að skólinn fór varð skrifstofa ríkisstjóra Ís-
lands, og síðar forseta Íslands í þinghúsinu til ársins
1973, en flutti þá í Stjórnarráðshúsið við Lækjar-
torg. Þar voru skrifstofur forsætisráðherra og for-
seta saman til ársins 1996, en þáverandi forsætisráð-
herra ákvað þá að kaupa Staðarstað við Sóleyjargötu
undir skrifstofu fyrir embætti forseta Íslands. Það
hús tengdist þremur forsetum og fjölskyldum þeirra,
Sveini Björnssyni, Kristjáni Eldjárn og Ólafi Ragn-
ari Grímssyni. Hafa þessi kaup reynst vel.
Einstæð risna
Það hefur um nokkra hríð verið augljóst að þeir sem
telja sig eiga að vafstra í stjórnmálum en hafa þar
fátt og lítið fram að færa, telja ódýrt efni fyrir sig að
kasta steinum í íslenskan sjávarútveg sem um árabil
hefur verið hvað drýgstur að draga björg í þjóðar-
búið. Á sama tíma eru slíkar greinar víðast reistar á
ríkisstyrkjum sem eru auðvitað að lokum numdir úr
vösum borgaranna.
Íslendingar eru í miklu betri færum til að bregðast
við stórbrotinni vá, eins og kórónuveirunni nú, sem
tekið hefur toll í eitt og hálft ár. Spánska veikin var
miklu grimmúðlegri en veiran nú og auðvitað kemur
þar til að þjóðin býr miklu betur í öllum efnum nú en
þá og er sama hvar borið er niður.
Páll Líndal, sem áður var nefndur, birtir eftirfar-
andi kafla í bók sinni undir yfirskriftinni Einstæð
risna:
„Þegar spánska veikin geisaði í nóvember og des-
ember 1918 kom Thor Jensen upp matgjafaeldhúsi
og veitti þar öllum fæði sem vildu. Húsnæðið fékk
hann lánað hjá Sláturfélagi Suðurlands, því að þar
voru suðupottar stórir svo og langborð og bekkir. Í
fyrstu komu þarna um 100 börn og 20-30 fullorðnir
en fjölgaði brátt í 450 börn og 40-50 fullorðna. Allir
bekkir voru þá þétt setnir. Eldhúsið afgreiddi auk
þess 250-400 matarílát af hafragraut og mjólk út á
og einnig hafraseyði handa þjáðu fólki. Nýr, ósoðinn
fiskur, var og afgreiddur eftir ávísun lækna. Mat-
reitt var frá kl. 6-7 á morgnana og fram á nótt. Eftir
að matargjafirnar hófust hélt Thor Jensen út þrem-
ur togurum og gaf bæjarbúum afla þeirra.“
Morgunblaðið/Eggert
20.6. 2021 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 17