Feykir - 29.01.2020, Blaðsíða 10
Elsku Hvammstangi
ÁSKORANDAPENNINN
Pistill þessi, sem ég
skila alltof seint því
frestunaráráttan náði tökum
á mér eins og svo oft áður,
verður ekki um veðrið, pólitík
eða eitthvað annað sem
enginn nennir að tala um
meira. Mig langar mikið
frekar að skrifa um hversu
dásamlegt það er að búa úti
á landi.
Hvammstangi, þetta litla,
fallega sjávarþorp sem býr yfir
ótrúlegasta fólki og hlutum.
Hér er menningarlífið svo
ótrúlega fjölbreytt og allir geta
fundið eitthvað við sitt hæfi og
þó ég sé kannski ekki alveg
hlutlaus þá er ég nokkuð viss
um að hvergi annars staðar
sé hægt að finna jafn mikið af
hæfileikaríku fólki þegar kemur
að söng og leiklist. Kostirnir
við að búa úti á landi eru
endalausir og vega upp á móti
göllunum sem eru alls ekki
margir og ég mun ekki nenna
að tala um þá hér.
Það sem stendur upp úr hjá
mér af kostunum er tíminn.
Auka tíminn sem þú færð
með fjölskyldunni þinni,
áhugamálinu þínu eða bara
sjálfum þér. Hér er stutt í allt
sem þú þarft, vinnu, leik- og
grunnskóla, Kaupfélagið og
í sund. Hér er engin umferð
að tefja þig og ef þú ert latur
eins og ég og fer allt á bíl þá
ertu búinn að sækja börnin,
fara í búð og kominn heim og
klukkan varla orðin korter yfir
fjögur. Enginn rauð ljós, enginn
pirringur eins og Reykjavík
síðdegis.
Áfram landsbyggðin!
- - - - - -
Ég skora á systur mína, hana
Guðrúnu Ósk að koma
með pistil.
Elísabet Eir. AÐSEND MYND
Elísabet Eir Steinbjörnsdóttir
Heilir og sælir lesendur góðir.
Í síðasta þætti spurði ég um Friðrik
Sigfússon og birti kunna vísu eftir hann.
Hef ég nú fengið ágætar upplýsingar úr
Skagafirði sem ég þakka fyrir. Friðrik mun
hafa verið ágætur hagyrðingur og verið
bóndi, meðal annars í Pyttagerði sem nú
er fyrir mörgum áratugum orðið eyðibýli
og mun staðsett við Héraðsvötn neðan
Ögmundarstaða, síðar mun hann hafa búið
í Jaðri og kannski víðar án þess að ég kunni
þá sögu.
Gott að hressa okkur í þessum óþverra
janúar með nokkrum vel gerðum hring-
hendum, höfundur er Guðrún Magnús-
dóttir, sem lengst af sinni ævi mun hafa búið
í Bolungarvík.
Frónska garðinn frægði mál
fróðleik varði sagan.
Syrti í harðan heljarál
hljóp í skarðið bagan.
Seint mun þurrð við Bragaból
böls þó snurður vaki.
Sút og Urður svartan stól
sitja að hurðarbaki.
Hringhendunni heiður ber
hún var kunn til forna.
Alþýðunnar orðgnótt þver
ef þeir brunnar þorna.
Sólarglóð sinn glæsta þráð
gullnum rjóðar eldi,
hrannaslóðir loft og láð
loga á hljóðu kveldi.
Heyrt hef ég að þegar Guðrún var komin
að því að skilja við þetta jarðlíf hafi hennar
síðasta hringhenda hljómað svo:
Öldin reikar úti við
eins og feykist laufblaðið.
Stöðvast leikur, styttist svið
stendur bleikur dyrnar við.
Fyrir nokkrum dögum var hringt í mig og
ég spurður um höfund að þekktri hestavísu.
Kannaðist ég vel við hana og gat upplýst að
höfundur hennar er Páll Guðmundsson,
áður bóndi á Hjálmsstöðum.
Hálsi lyfti listavel
löppum klippti vanginn.
Taumum svipti, tuggði mél
tölti og skipti um ganginn.
Annarri vísu man ég eftir sem ég held að sé
eftir Pál og skil ég hana talsvert mikið betur
en hina, þó ágæt sé.
Stekkur hrollur breiðan bý
bara skolli fljótur,
þegar kolli öl er í
er hans hollur fótur.
Nýlega fékk ég sendar nokkrar ágætar vísur
eftir okkar góða félaga hér áður fyrr, með
ósk um birtingu í þættinum, Ólaf Sigfússon
frá Forsæludal.
Þeir vita það allir sem rata í raun
að reynslan er kennari bestur,
og veitir þeim öruggri uppskerulaun
en alheimsins námsbókalestur.
Vísnaþáttur 752
( GUÐMUNDUR VALTÝSSON ) palli@feykir.is
Fá kennarann besta í heimi þú hlaust
svo heilræði engin skal þylja.
Ég veit og ég skil að þú bátinn þinn braust
á blindskerjum annarra vilja.
Sigraðu veröld sem var þér svo byrst
og vinndu þér ríki og hallir.
Sigraðu aðra en sjálfan þig fyrst
og svo munu virða þig allir.
Systir Ólafs, Ingibjörg sem flutti og bjó í
Vestur-Hún., hugsaði alltaf hlýtt til æsku-
stöðvanna. Hún yrkir svo:
Þá sem skinið skærast fá
skart úr geislum þínum.
Glóey velja og gefa þá
gamla dalnum mínum.
Ef mig misminnir ekki mun Sigrún
Hjálmarsdóttir frá Villingadal, sem yfirgaf
sínar æskustöðvar frekar ung að árum og
flutti vestur í Húnavatnssýslu, hafa ort svo
fallega bæn til heimahaganna:
Aldrei sá ég ána fegri.
Aldrei leit ég grænni jörð,
og tinda fjalla tígurlegri
með tárum kvaddi ég Eyjafjörð.
Rakst nýlega á í dóti mínu þessa ágætu vísu
eftir séra Helga Sveinsson, sem var prestur
í Hveragerði fyrir voðalega mörgum árum
síðan.
Þegar sektin sækir að
sálarfriði manna,
flýja þeir í felustað
frjálsu góðverkanna.
Fann á sama blaðsnepli þessa ágætu hring-
hendu eftir Rósberg.
Þó að syndin sumum hjá
saurgi lindir tærar.
Stolnum yndisstundum frá
stafa myndir kærar.
Eitt af þekktustu rímnaskáldum á 16. öld
var Þórður Magnússon, þá bóndi á Strjúgi í
Langadal. Þessi skrýtna vísa mun eftir hann:
Blindar margan blekkt lund
blandast síðan vegs grand,
reyndar verður stutt stund
að standa nái Ísland.
Til er frásögn af Þórði þar sem hann fór á
annan bæ og lá þar á hleri og hlustaði á þrjár
mæðgur ræða saman í baðstofu. Því lýsir
hann svo:
Á ljóranum var lítill skjár
lagði ég þar við eyra.
Í myrkri sátu mæðgur þrjár
margt var gaman að heyra.
Svo illa tókst víst til að þær mæðgur urðu
varar við skáldið og hættu fljótt tali sínu.
Um þau málalok yrkir skáldið síðustu vísu
þessa þáttar.
Við skulum ekki hafa hátt
hér er margt að ugga.
Ég hef heyrt í alla nátt
andardrátt á glugga.
Veriði þar með
sæl að sinni.
/Guðmundur
Valtýsson
Eiríksstöðum,
541 Blönduósi
Sími 452 7154
Greina á
afleiðingar
desemberóveðurs
Húnaþing vestra
Byggðarráð Húnaþings vestra tekur undir
bókun stjórnar Nautgriparæktarfélags
Vestur-Húnavatnssýslu sem lögð var fram á
fundi ráðsins í vikunni. Þar harmar stjórn
NFVH það tjón sem bændur urðu fyrir í
rafmagnsleysinu fyrir jól.
Í bókuninni kemur fram að nauðsynlegt
sé að taka saman kostnaðinn sem af tjóninu
hlaust og hlúa að bændum. „Mikilvægt er að
BÍ og sveitarfélögin þrýsti á stjórnvöld um að
finna fjármagn til að koma til móts við þann
fjárhagslega skaða sem bændur urðu fyrir.
Einnig er nauðsynlegt að draga lærdóm af
ástandinu og leita leiða til að koma í veg fyrir
að slíkt tjón skapist aftur.“
Fram kemur í fundargerð byggðarráðs að
sveitarstjórn Húnaþings vestra vinni nú að
greiningu á afleiðingum óveðursins og
aðgerðum í kjölfarið á því í samvinnu við
Búnaðarsamband Húnaþings- og Stranda.
Sveitarstjórn hefur einnig átt samtal við
fulltrúa ríkisins vegna tjóns sem varð af
völdum óveðursins og mun fylgja því eftir á
næstu vikum. /PF
10 04/2020