Morgunblaðið - 09.08.2021, Page 29
MENNING 29
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 9. ÁGÚST 2021
Nánari upplýsingar um sýningartíma á sambio.is
TRYGGÐU ÞÉR
MIÐA INNÁ
SÝND MEÐ ÍSLENSKU
OG ENSKU TALI
SÝND MEÐ ÍSLENSKU TALI
96%
Ragnheiður Birgisdóttir
ragnheidurb@mbl.is
„Við þrjú hittumst í kaffibolla og
ræddum hvað okkur langaði að gera
og duttum svo niður á konsept. Það
kom upp þessi hugmynd að flytja
dægurlög eftir íslenska karlmenn
eða sem íslenskir karlmenn hafa
flutt og gert vinsæl,“ segir söng-
konan Kristjana Stefánsdóttir, sem
hefur haldið tónleika ásamt gítar-
leikaranum Ómari Guðjónssyni og
kontrabassaleikaranum Þorgrími
Jónssyni víðsvegar um landið í sum-
ar. „Allir lögðu eitthvað í púkkið og
svo hittumst við vikulega í tvo mán-
uði og mátuðum alls konar lög. Allir
komu með tillögur og svo enduðum
við með sextán laga lista með lögum
sem við erum búin að halda átta tón-
leika með.“
Þrennir síðustu tónleikar sumars-
ins eru fyrirhugaðir í þessari viku;
miðvikudaginn 11. ágúst kl. 21 í Út-
hlíðarkirkju í Biskupstungum;
fimmtudaginn 12. ágúst kl. 21 í Ey-
vindartungu, Laugarvatni og loks
sunnudaginn 15. ágúst kl. 15 í Skyr-
gerðinni í Hveragerði. Þessir loka-
tónleikar verða hluti af bæjarhátíð-
inni Blómstrandi dögum.
„Eitthvað svo dásamleg“
Þríeykið flytur útsetningar á lög-
um frá Bubba Morthens, Magnúsi
Eiríkssyni, Björgvini Halldórs, KK,
Stuðmönnum, Ragga Bjarna, Þóri
Baldurs, Páli Óskari og Gunnari
Þórðar.
„Þetta eru lög sem við ólumst upp
með og þykir vænt um en við erum
að reyna að finna einhvern nýjan
vinkil á þau. Við höfum aðeins verið
að vinna með spuna. Þetta verður
svolítið djassskotið en ekkert mikið.
Sum lögin eru bara eins og þau
koma beint af kúnni því þau eru bara
eitthvað svo dásamleg.“
Kristjana syngur þessi karlalög
og færir þau þar með að einhverju
leyti í nýjan búning. „Ég er samt
ekki að breyta kyni eða neinu. Ég
syng þetta bara eins og þeir, sem er
mjög skemmtilegt. Þetta skiptir í
rauninni ekki máli lengur,“ segir
Kristjana. Lögin megi alveg vera
svolítið hinsegin. Um miðjan júlí
komu þau víða við; á Höfn í Horna-
firði, Tehúsinu Egilsstöðum, Vopna-
firði, Félagsheimilinu Sæborg í
Hrísey, Hlöðunni Litla-Garði á
Akureyri, Englendingavík í Borg-
arnesi, í Seyðisfjarðarkirkju og í
Sandgerði. Ferðalagið gekk að sögn
Kristjönu afar vel þótt dagskráin
hafi verið þétt.
„Við gerðum þetta að pínu fjöl-
skylduferð í leiðinni. Strákarnir tóku
konur og börn með og við vorum á
tveimur bílum og gistum stundum
hjá vinum og vandamönnum. Við
fengum til dæmis stórkostlegar mót-
tökur úti í Hrísey.“
Þar tóku á móti þeim þau Stefán
Eiríksson útvarpsstjóri og Helga
Snæbjörnsdóttir, sem þekkja Þor-
grím bassaleikara og konuna hans.
„Við gistum hjá þeim og það var
mögnuð upplifun. Ætli það hafi ekki
verið mögnuðustu tónleikar ferð-
arinnar. Það var eitthvað svo mikill
galdur í þessu pínulitla félagsheimili
sem þau eiga þarna sem heitir Sæ-
borg. Það var rosalega gaman,“ seg-
ir söngkonan kampakát.
„Öll ferðin gekk ofsalega vel. Við
stoppuðum reglulega til að hella upp
á kaffi með prímus þannig að við
gerðum þetta að pínu ferðalagi í leið-
inni og þetta var skipulagt þannig að
við gátum keyrt þennan hring. Byrj-
uðum fyrir austan og keyrðum svo
norður og enduðum í Englendinga-
vík hjá henni Möggu Rósu.“
Gæti orðið efni í plötu
Kristjana segir að nú bíði þau
spennt hvort halda megi tónleikana
með óbreyttu sniði. „Maður krossar
bara fingur að það megi að minnsta
kosti halda smærri tónleika með
færra fólki. Við ætlum að reyna að
halda okkar striki því prógrammið
er svo skemmtilegt. Við erum jafn-
vel búin að vera að gæla við þá hug-
mynd að hljóðrita þetta. Þetta gæti
orðið efni í plötu.“
Mest eru það Íslendingar sem
sækja tónleika en þó segir Kristjana
að það slæðist inn eitthvað af erlend-
um ferðamönnum. „Til dæmis á
Seyðisfirði komu margir ferðamenn
sem voru að fara í bátinn eða að
koma úr honum.“
Þau eru heppin að hafa getað
haldið alla tónleikana hingað til án
allra takmarkana. „Það hefur verið
algjör upplifun og eitthvað svo gott
að syngja fyrir fólk aftur.“
Þau Kristjana og Svavar Knútur
hafa verið á tónleikaflakki á sumrin
síðustu 13 ár en ákváðu að taka sér
hlé frá því í sumar. „Þetta var lítið
verkefni sem vatt svona upp á sig.
Við ákváðum að taka okkur pásu í
sumar. Mig langaði að syngja djass
aftur og hann er núna farinn til
Þýskalands í sex vikur að túra. Svo
þetta var kærkomið en ég saknaði
þess allan tímann. Við erum að gæla
við að blása til tónleika, ef covid leyf-
ir, einhvern tímann í vetur hér í
Reykjavík,“ segir hún.
„Ég vona bara að við náum að lifa
með þessari veiru og finna ein-
hverjar lausnir sem virka þannig að
sviðslistafólk þurfi ekki að pakka í
land einu sinni enn. Ég er til dæmis
með raddþjálfun í Bubba-söng-
leiknum 9 líf og ég hef verið kölluð
inn fjórum sinnum og alltaf skellt í
lás aftur.“
Söngkona Kristjana Stefánsdóttir syngur lög íslenskra karla.
„Lög sem okkur þykir vænt um“
- Tónleikaferðalag Kristjönu Stefánsdóttur, Ómars Guðjónssonar og Þorgríms Jónssonar
Hópur „Við gerðum þetta að pínu fjölskylduferð í leiðinni.“
Þríeyki Kristjana, Þorgrímur og Ómar á göngu í Hrísey.