Morgunblaðið - 21.09.2021, Blaðsíða 18

Morgunblaðið - 21.09.2021, Blaðsíða 18
18 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 21. SEPTEMBER 2021 ✝ Gígja Guð- finna Thor- oddsen fæddist 4. febrúar 1957 í Reykjavík. Hún lést á Landspít- alanum í Fossvogi 8. september 2021. Foreldrar hennar voru Ingv- eldur Bjarnadótt- ir frá Patreks- firði, húsmóðir og fótaaðgerðarkona í Reykja- vík, og Einar Thoroddsen frá Vatnsdal við Patreksfjörð, skipstjóri og yfirhafnsögu- maður í Reykjavík. Þau bjuggu lengst af við Hjarð- arhaga. Þar ólst Gígja upp og gekk í Melaskóla, Haga- skóla og svo Lindargötu- skóla. Hún var ógift og barn- laus. Systir Gígju er Ásta St. Thoroddsen, prófessor við HÍ, gift Bolla Héðinssyni hagfræðingi, eiga þau fjögur börn, Einar Gunnar, Sverri, Atla og Bryn- hildi. Bróðir Gígju er Ólafur E. Thóroddsen hæstaréttarlög- maður, hann á tvær dætur, Ólöfu Jónínu og Hrafnhildi. Gígja gegndi ýmsum störfum á yngri árum, vann hjá Eim- skip, SÍS og var starfsstúlka á Hagaborg. Gígja greindist með geðklofa 1983 og hefur síðan þá tengst flestum þeim opinberu stofnunum sem takast á við veikindi geð- sjúkra í lengri og skemmri tíma. Síðast bjó Gígja í Star- engi 6, búsetukjarna með stuðningi. Útför Gígju verður gerð frá Fossvogskirkju í dag, 21. september 2021, klukkan 15. Kveðja frá systur. „Elsku hjartað mitt, ég kem til þín á morgun.“ Þetta voru síð- ustu orð mín til Gígju. Ég notaði þessi orð sparlega, en þar sem ég fann að hún var lasin, þá lét ég „hjartað mitt“ fylgja. Hún svar- aði: „Þú veist þá að ég er lasin,“ sem ég játti. Tólf tímum síðar var hún öll. Við systur vorum ólíkar og þegar ég lít til baka má greina ýmislegt í fari Gígju sem barns og unglings sem kannski hefði átt að gefa gaum. Engan grunaði þó að hún væri haldin geðsjúkdómi sem myndi leika hana svo grátt sem raunin varð. Greiningin var foreldrum okkar þungbær. Mamma var ætíð vakin og sofin yfir velferð Gígju þar til halla fór undan fæti hjá henni sjálfri. Þær voru afar nánar og Gígja saknaði hennar mjög. Samskipti okkar systra urðu meiri eftir fráfall mömmu og það var kært með okkur þótt stundum slægi í brýnu. Símtölin voru oftast nokk- ur á dag en fyrir komu dagar sem hún hringdi ekki. Hún sagðist þá hafa verið að gefa mér smá frí. Einar Gunnar minn fæddist þegar Gígja var 15 ára og bjugg- um við mæðginin þá hjá foreldr- um mínum. Gígja var einstaklega barngóð og passaði hún frænda sinn oft næstu árin og átti hann sérstakan stað í hjarta hennar. Gígja var eftirminnileg flest- öllum sem henni kynntust. Hún var mjög litrík persóna, gleði- gjafi, hlý og góð, ávallt jákvæð þrátt fyrir langvarandi erfiðleika. Listfengi hennar og sköpunar- gleði var óviðjafnanleg og húm- orinn oft ráðandi. Frægar eru myndirnar hennar af geðlæknum í partíi þar sem alvarleikinn er að bera þá ofurliði og þeir svo skelli- hlæjandi í jarðarför. Hún var af- ar gjafmild á list sína og margar stofnanir skarta listaverkum hennar og enn fleiri einstaklingar sem hafa fengið málverk að gjöf. Hún leysti flesta út með lista- verki sem veittu henni þjónustu. Að mála var henni mikilvægt og hún lifði fyrir list sína. Öllum þótti vænt um Gígju og hún sjarmeraði alla. Hún náði að vefja flestum um fingur sér sem sést vel á því að ýmsir sem hún naut þjónustu frá komu og sinntu henni heima. Þar má nefna geð- lækninn, tannlækninn og fótaað- gerðafræðinginn. Seigla er orð sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa um Gígju. Hún háði marga heilsu- farslega hildi en með seiglunni komst hún yfir þær. Sama ár og pabbi dó, 1991, brenndist hún mjög illa og seiglan kom henni í gegnum það. Eftir að hafa reykt í um 40 ár fannst henni nóg komið. Hún hætti 24. apríl 2019, þáði engin hjálparlyf og lét sig hafa það að skjálfa í 10 daga til að komast yfir verstu fráhvarfsein- kennin. Hún gat ekkert málað þann tíma því hún gat ekki beitt pensli vegna skjálftans. Eftir að hún komst í sjálfstæða búsetu í Starengi 6 breyttist líf hennar mjög til batnaðar og síð- ustu ár lifði hún hamingjuríku lífi og var nokkuð sátt. Hún var stolt af heimili sínu og í raun er ótrú- legt hversu vel henni tókst að halda heimili eftir að hafa verið lengi á stofnunum. Starfsfólkið í Starenginu studdi hana vel og ánægjulegt hefur verið að sjá hversu vænt þeim þótti um hana og velferð hennar. Fyrir það ber að þakka. Gígja systir skilur eftir sig mikið tómarúm. Blessuð sé minn- ing hennar. Ásta St. Thoroddsen. Á morgni lífsins var Gígja glaðlynd lagleg stúlka, vel liðin hvar sem hún kom, vinkonuhópur hennar var traustur og börn voru hænd að henni. Lífið var gott og framtíðin blasti við. Gígja var áhugasöm um listir og skapandi viðfangsefni og sótti námskeið bæði hjá Helga Skúlasyni í leik- list og í myndlist hjá Hring Jó- hannessyni. Gígja tók upp listamannsnafn- ið GÍA og varð málun og teikning hennar helsta áhugamál síðustu áratugi. Gígja hélt ótal myndlist- arsýningar á eigin vegum á op- inberum vettvangi auk fjölda samsýninga sem hún tók þátt í. Því til viðbótar tók hún upp nýja hætti og hélt myndlistarsýningar á Facebook á hverjum miðviku- degi þegar nýjustu myndirnar birtust á síðunni hennar: Gígja Guðfinna Thoroddsen. Fyrir tæpum 40 árum var Gígja greind með geðklofa og eins og allir sem til slíks þekkja þá hafði margt gengið á áður en formleg greining fór fram. Gígja sætti sig ekki við hlutskipti sitt frekar en aðrir sem veikindum eru haldnir en lærði að lifa með sjúkdómnum og gera það besta úr þeim aðstæðum. Hennar við- komustaðir í veikindum voru Arnarholt, Kleppur, geðdeildir beggja sjúkrahúsanna í Reykja- vík, Flókagata og síðast í Star- engi 6 þar sem búa saman nokkr- ir einstaklingar með stuðningi. Þar fór vel um Gígju, hún undi hag sínum vel og gafst gott tæki- færi til að iðka myndlist sem hún gerði óspart. Myndir Gígju lýstu hugarheimi hennar sjálfrar, myndir sem hún gerði ýmist án fyrirmyndar eða eftir myndum gömlu meistaranna en hún átti gott safn bóka með myndum þeirra. Einnig sendu vinir og vandamenn henni póstkort víða að úr veröldinni og voru mynd- irnar á þeim gjarnan uppspretta myndefna hennar. Einnig teikn- aði hún myndir af þekktum ein- staklingum og færði þeim þær myndir síðan að gjöf. Í þeim hópi voru borgarstjórar og forsetar auk Ladda sem var alla tíð í sér- stöku uppáhaldi hjá henni, brá hún stundum á leik og hermdi af- ar vel eftir persónum hans og öðrum þjóðþekktum einstakling- um. Teikningar hennar af inn- lendu og erlendu frægðarfólki báru vott um þá hæfileika sem hún bjó yfir því myndirnar námu andlitsdrætti og karakter við- komandi afar vel hvort sem það var Halldór Laxness eða Marilyn Monroe. Í Safnasafninu við Eyjafjörð var sett upp sýning henni til heið- urs 2016. Með sýningunni sýndi safnið Gígju mikinn sóma og á fyrir það miklar þakkir skildar. Gígja naut einnig þess heiðurs að vera valin listamaður ársins 2017 hjá List án landamæra með til- heyrandi viðurkenningu og kynn- ingu. Enginn ræður sínum nætur- stað. Það voru orð að sönnu er Gígja gekk inn á bráðadeild vegna kviðverkja að kveldi og var örend að morgni. Mágkonu minni þakka ég rúmlega 40 ára sam- fylgd sem var í senn bæði gefandi og krefjandi. Gígja trúði á fram- haldslíf og ég vona hún fái nú not- ið samvista við móður sína sem hún saknaði mjög enda voru þær alla tíð mjög nánar en hún lést á afmælisdegi Gígju fyrir átta ár- um. Móðir Gígju, Ninna tengda- móðir mín, lét alla tíð einskis ófreistað að gera Gígju dóttur sinni lífið bærilegra. Blessuð veri minning þessarar góðu stúlku. Bolli Héðinsson. Nú hefur hún Gígja kvatt þessa jarðvist, það var óvænt og kannski svolítið í hennar anda. Hún hafði gaman af því að koma á óvart og ögra svolítið. Eftir stund með Gígju fékk maður allt- af nýjan flöt á tilveruna. Hún setti spurningarmerki við það viðtekna og það kemur fram í listinni hennar. Hún glímdi við andleg veikindi allt frá því að hún var ung kona í blóma lífsins. Það var þungbært bæði fyrir hana og ættingja. Þá voru úrræði og meðferð með öðr- um hætti en í dag, meiri einangr- un og fjarvera frá samfélaginu. Maður sér það best eftir á, hve þungbært það var Gígju í raun, þegar það kom í ljós hvernig hún blómstraði þegar hún fór í sjálf- stæða búsetu og gat lifað lífinu með sínum, í opnara samfélagi, þar sem hún varð virkari þátttak- andi. Hún fór á flug í listinni og sýndi svo ekki varð um villst hve frábær myndlistarmaður hún var. Húmorinn og stríðnin var aldrei langt undan í list hennar, en ekki síður réttsýni og heim- speki. Við Sigga höfum átt reglu- leg samskipti við hana undan- farna áratugi og tíðari nú síðari árin. Við eigum eftir að sakna sýninganna hennar, bæði í net- heimum og raunheimum, sím- hringinganna til að minna á sýn- inguna á Facebook og spjalla og þá var hún stundum búin að æfa brandara. Þá var oft hlegið dátt. Að heimsækja Gígju var einstakt, hún var búin að undirbúa heim- sóknina frá A-Ö og leikþáttur var alltaf partur af prógramminu. Gígja sýndi mikinn viljastyrk, bæði í listsköpun sinni og lífinu, t.d. þegar hún hætti að reykja. Við eigum eftir að sakna sím- hringinganna frá henni, heim- sóknanna til hennar og myndlist- arsýninganna. Gígja var einstök, minning hennar og list lifir. Farðu í friði elsku Gígja, með þökkum fyrir alla gleðina og gjaf- irnar sem þú gafst af örlæti þínu. Ólafur Örn Thoroddsen, Sigríður Jónsdóttir. Fögur sál er fallin frá segir einhvers staðar í gömlu kvæði nema það sé misminni og þessi lína hafi flögrað að mér daginn sem Gígja hvarf skyndilega úr þessum heimi því mikill er sá missir. Þessi ágæta símavinkona mín hringdi að minnsta kosti þrisvar í mánuði til að minna mig á að nú væru komnar nýjar myndir eftir hana á Facebook ef ég vildi vera svo vænn að skrifa eitthvað sniðugt um þær því starfsfólkinu á sambýlinu þætti það svo fyndið. Hún kallar ekki lengur norður yfir heiðar, hlær hvorki framar inn í tólið né fer með gamanmál, hún trúir mér ekki aftur fyrir þeirri dýpt sem um dimma daga leyndist undir sléttfleti yfirborðsins, angist og ráðleysi þegar syrti að, kvíða fyr- ir því að fara af bæ ein í stræt- isvagni eða fljúga yfir hálendið til að skoða sýningu sína í Safna- safninu eða nefna þá ægilegu eld- raun sem hún lenti í ung og fögur þegar heimurinn var fram undan með draumum og væntingum en fuðraði upp. Gígja var slík kona að fáar stóðu henni jafnfætis í gjafmildi, hún stráði ósjálfrátt gliti í slóð sína, gladdi fólk, gaf málverk sín þeim sem hún vissi að færu vel með þau, bjó stöðugt til ný verk af mikilli hugkvæmni, kímni og sjálfsöryggi. Kynni okkar hófust á Kjarvalsstöðum þar sem hún var heiðruð fyrir list sína og kom einhverra hluta vegna auga á mig þar sem ég stóð annars hugar út við glugga, sá aumur á mér og brosti svo fallega að kuldinn fyrir innan vék strax frá. Það var í eina skiptið sem við hittumst. Ég er henni þakklátur fyrir að hafa brætt ísinn og veitt mér innblást- ur á þeirri stund og síðar. Fyrir stuttu ákvað ég að losna undan Facebook vegna mikilla anna og hafði samviskubit af því að geta ekki skrifað inn á síðuna hjá Gígju minni en í staðinn var fastmælum bundið að ég heim- sækti hana næst þegar ég kæmi suður og veldi málverk á sýningu hér nyrðra. Ég minnist einlægrar símavinkonu minnar með sökn- uði og leita huggunar í þeim ynd- islegu myndverkum og teikning- um sem hún gaf safninu og eru ætíð í nálægð til að skoða og skynja og sýna í náinni framtíð svo fleiri fái notið töfra þeirra. Það er kannski ekki við hæfi að segja á sorgarstundu að lífinu sé lokið fyrir fullt og fast því fögur sál er ávallt innan seilingar eða tekur sér bólfestu í hjartanu og minnir á sig þegar tíminn er hall- kvæmur og himinninn blár fyrir utan gluggann en stakt mjall- arský ber fyrir augu og fegrar víðáttuna með hreinleika sínum. Níels Hafstein. Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama; en orðstír deyr aldregi, hveim er sér góðan getur. (Úr Hávamálum) Það þykir kannski einhverjum ekki viðeigandi að vísa til sjálfra Hávamála í minningargrein um konu sem átti við erfiðan geð- sjúkdóm að stríða og dvaldi löngum á geðsjúkrahúsi og á sambýli fyrir geðfatlaða. En að mati okkar undirritaðra á það samt enginn betur skilið en Gígja, sem var afar virðingarverð persóna. Hún var einstök perla sem gat sér góðan orðstír í lifandi lífi sem teiknari og listmálari, sem ljúflingur og sem húmoristi. Á yngri árum átti hún sér þann draum að verða leikkona sem hún hefði trúlega getað orðið ef marka má eftirhermuhæfileika hennar. En lífið tók aðra stefnu en hún hafði ætlað. Ung varð hún að sætta sig við að leggja drauma sína og þrár til hliðar og takast á við stærsta hlutverkið, alvöru lífsins. Það gerði hún með mikl- um sóma. Nú þegar Gígja hefur kvatt fellur tár af hvarmi. Það verður söknuður að öllum símhringing- unum, málverkasýningunum og heimsóknunum fyrir jólin. Hvíl í friði fallega sál. Minning þín mun lifa með okkur. Samúðarkveðjur til Ástu Thoroddsen og fjölskyldu hennar sem stóðu ávallt vörð um Gígju. Hrafnhildur Thoroddsen, Ólöf Thoroddsen, Auður Guðjónsdóttir. Við vinkonurnar kynntumst Gígju fyrst í Melaskóla og síðan bættust fleiri við í Hagaskóla. Fljótlega stofnuðum við sauma- klúbb sem enn er í fullu fjöri. Gígja hætti þó að vera með eftir nokkur ár, hún fór sínar eigin leiðir og fljótlega fóru veikindin að setja mark sitt á líf hennar. Geðklofinn var mættur. Vinkon- uböndin slitnuðu þó aldrei. Við höfum oft rifjað upp gömlu góðu dagana þegar við fórum út að skemmta okkur, Gígja alltaf svo sæt og fín í háhæluðum skóm og alltaf var spegilinn á sínum stað í vasanum. Gígju varð tíðrætt um veikindi sín og þau örlög sem lífið hafði ætlað henni. Hún saknaði alls þess sem hefði getað orðið og tækifæranna sem lífið gat boðið upp á. Eftir að hún byrjaði að mála fyrir alvöru snerist líf henn- ar að öllu leyti í kringum það. Hún var spennt að halda sýning- ar og það var henni mikils virði að við vinkonurnar kæmum á opnun allra sýninga hennar. Þegar hún svo byrjaði á facebook fór líf hennar að snúast að miklu leyti um það að mála nógu margar myndir í hverri viku til að geta verið með sýningu á hverjum miðvikudegi á facebook. Mynd- irnar hennar Gígju sýndu ótrú- legt hugmyndaflug og hún var mikill meistari í litanotkun. Mið- vikudagssýninganna verður sárt saknað af mörgum vinum hennar á facebook. Gígja hafði einnig mjög gaman af að herma eftir persónum og var orðin nokkuð góð í því. Í hvert skipti sem við heimsóttum hana fengum við sýnishorn af þeim hæfileikum og höfðum gaman af. Hún var svo innilega góð og vildi öllum vel. Það var stundum sem hún fékk okkur til að roðna því hún var svo hreinskilin og blátt áfram og mikill húmoristi. Gígja var mikið jólabarn og málaði alltaf nýtt kort á hverju ári, sem fór í prent- un ekki seinna en í lok septem- ber, hún vildi vera tímanlega í þessu og fannst oft október og nóvember hræðilega lengi að líða því hún var spennt að senda kort- in til vina og ættingja og heyra svo hvað þeim þætti um myndina. Svo fór að stundum var jólakortið frá Gígju komið inn um lúguna áður en október var liðinn, það var bara ekki hægt að bíða leng- ur. Við vinkonurnar munum sakna Gígju okkar og alls sem hún bauð upp á. Við vonum að henni líði vel á nýjum stað og megi sál hennar hvíla í friði. Birna Guðjónsdóttir, Guðrún Jóna Karlsdóttir, Regína Grettisdóttir, Svava Loftsdóttir, Þórunn A. Erhardsdóttir. Gígja Thoroddsen trúði því að ástin og listin byggju innra með okkur öllum. Þar hafði hún rétt fyrir sér og þótt aðgengi okkar geti verið misgott að þeim innri auðæfum þá finnast þau þar. Leiðir okkar Gígju lágu saman árið 2005 þegar ég hóf störf hjá listahátíðinni List án landamæra og Gígja bauð mér á heimili sitt á Flókagötu og sýndi mér verkin sín. Samstarf okkar á vettvangi listanna hófst þarna á Flókagöt- unni og með sýningu hennar í miðbæ Reykjavíkur vorið 2006. Á innan við mínútu varð ég heilluð af verkum hennar, myndheimi og henni sjálfri þar sem hún sagði mér frá merkilegri ævi sinni, lífi, námi, ástum og áskorunum og dró ekkert undan, enda hispurs- laus og einlæg eins og hún var allar götur síðan í okkar sam- starfi, sem þróaðist yfir í góðan vinskap. Gígja var stór persónuleiki og fjallaði í list sinni um aðrar stórar persónur í sögunni. Dagurinn þegar Obama var kosinn forseti var ekki liðinn þegar Gígja var búin að gera portrett af honum, persónugalleríið hennar var alla- vega og viðfangsefnin allt frá Maríu mey með Jesúbarnið til Lalla Johns. Í viðtali sem ég átti við hana spurði ég hana hvernig listamað- ur hún væri. Hún sagði að sér fyndist hún vera með eitthvað al- veg nýtt. Hún væri að vinna með gull, silfur og kopar og af ein- lægni og algjörlega laus við hroka sagðist hún vera besti myndlistarmaður í heimi. Verk Gígju heilla mig, þau sem hafa heillað mig mest í gegnum tíðina eru myndir Gígju af eigin reynslu af geðheilbrigðiskerfinu. Þær sýna af sömu einlægni og hispursleysi og önnur verk henn- ar einhvern sannleika, innsýn í heim sem við mörg þekkjum ekki og ekki mörg hafa gert skil í list- um líkt og Gígja gerði. Gígja bauð mér í heimsóknir til sín á Kleppsspítala, þar sem hún dvaldi um tíma. Á Kleppi var Gígja með vinnustofu í herbergi sínu, myndir upp um alla veggi, í gluggakistunni og í vinnslu á litlu skrifborði. Herbergið breyttist í „atelier“ listakonunnar eins og aðrir íverustaðir hennar enda vann hún að list sinni af elju alla tíð. Eitt sinn sýndi Gígja mér spítalann og myndir í tugatali eft- ir hana sem héngu í sölum og göngum á öllum hæðum. Gígja var gjafmild og verk hennar eru í eigu aðila líkt og Safnasafnsins, Landspítalans, Krabbameins- félagsins og Friðarsetursins Höfða. Gígja, eins og margt lista- fólk, vildi vera í samtali við fólk um verkin sín og deila þeim með heiminum, enda áttu verk hennar og hún sjálf sannarlega erindi. Gígja vann ötullega að sínum ferli í listinni og sýndi víðsvegar um borgina, síðustu árin var hún með vikulegar sýningar á face- book þar sem hún átti fjölda aðdáenda. Gígja hélt einkasýn- ingu á Safnasafninu árið 2016 og var útnefnd listamaður Listar án landamæra 2017. Í fallegu íbúðinni sinni þar sem hún bjó í seinni tíð vann hún að list sinni. Þangað var gott að koma, fá kaffi og súkkulaði, skoða listaverkin sem héngu upp um alla veggi og fara yfir málin. Ég minnist þessara stunda, samtala og símtala með djúpu þakklæti og söknuði. Blessuð sé minning stórbrot- innar listakonu og góðrar vin- konu. Margrét M. Norðdahl Gígja var mikill karakter sem hafði sterka nærveru og næma tilfinningu fyrir ýmsum blæ- brigðum í fari fólks, enda hafði hún mikla leiklistarhæfileika. Gígja var örlát á þessa hæfi- leika sína og breytti oft gráum hversdagslegum aðstæðum í skemmtun með leikinni dagskrá og eftirhermum. Gígja var mjög fylgin sér og gerði það sem hún ætlaði sér. Hún var búin að sigrast á alls konar áskorunum í lífinu og koma sér upp fallegu og hlýlegu heim- ili. Alltaf var Gígja með bros á vör, stutt í húmorinn og gleðina. Fyrst og fremst var Gígja þó myndlistarmaður og þar var hún sannarlega stórtæk. Verk hennar prýða margar opinberar stofnan- ir, enda var það hennar einlæga ósk að koma listaverkum sínum sem víðast, þannig að minningin um hana myndi lifa. Gígja átti að baki margar sýningar og viður- kenningar. Gígja nýtti sér líka tæknina og samfélagsmiðla til að koma list sinni á framfæri og allt- af var komin ný myndaröð á fés- bókina á miðvikudögum. Síðan fylgdist hún vel með aðdáendum sínum og athugasemdum þeirra um verkin. Myndefni hennar sýndu oft reynsluheim hennar. Auk þess sem sagnaandinn sveif oft yfir í Gígja Thoroddsen

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.