Morgunblaðið - Sunnudagur - 05.09.2021, Blaðsíða 10
VIÐTAL
10 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 5.9. 2021
veit ekkert hvort ég sjái peningana mína nokk-
urn tímann aftur,“ segir Zeba.
„Bankarnir eru núna tómir. Það ganga sög-
ur um það að forsetinn og vinir hans hafi tekið
út úr seðlabankanum 169 milljónir dollara í
reiðufé og svo flúðu þeir land í flugvél,“ segir
Khairullah.
„Hann tæmdi bankana.“
Arsalan þýðir hugrekki
Og þið eigið lítinn dreng?
„Já, hann er 52 daga gamall og heitir Arsal-
an,“ segir Khairullah og útskýrir að nafnið
þýði hugrekki. Orð sem á vel við í dag því þau
hafa þurft að sýna mikið hugrekki.
„Daginn sem við flúðum var mikið öngþveiti
við flugvöllinn og talið er að þennan dag hafi
um milljón manns verið þar. Þetta var mið-
vikudaginn 25. ágúst, daginn áður en
sprengjuárásin var gerð á flugvellinum,“ segir
Khairullah og útskýrir að þau hafi þá verið
komin með leyfi til að fara til Íslands og stað-
festingu um það í tölvupósti.
„Við vorum með íslenska fánann, vegabréfin
og tölvupóstinn og með þessu áttum við að fá
að fara inn á flugvöllinn,“ segir hann.
„Okkur var sagt að halda út á völl þarna um
nóttina og við lögðum af stað að heiman í bíl,
ég og eiginmaður minn, bróðir, systir, mágur,
mamma og barnið okkar. En þegar við nálg-
uðust flugvöllinn sáum við að ekki var hægt að
keyra þar nálægt því þarna voru þúsundir
manna í kös,“ segir Zeba.
Hjónin fóru því úr bílnum og hélt Khairullah
á Arsalan litla.
„Það var verið að skjóta úr byssum. Ég hafði
miklar áhyggjur af litla barninu, að heyrn hans
myndi skaðast af hávaðanum,“ segir hún.
Khairullah hélt á barninu og reyndi að kom-
ast að hliðinu þar sem þeim yrði hleypt í gegn.
Troðningurinn var svo mikill að allt í einu tók
Khairullah eftir því að barnið hafði misst með-
vitund.
„Hann hreyfðist ekki og var orðinn kaldur
og opnaði hvorki augun né munninn. Ég hélt
hann væri dáinn. Ég fór með hann að húsi
þarna í nágrenninu og fékk að fara þar inn. Ég
setti hann niður og byrjaði að hnoða brjóst-
kassann og þá tók hann að anda á ný.“
Of margar sorgarsögur
„Ég var í sjokki, en á þessum tíma var Zeba í
röðinni til að sýna pappírana okkar. Ég
hringdi í hana og sagði henni að við værum að
fara til baka,“ segir hann og segir að barnið
hafi líklega hætt að anda vegna súrefnisskorts
af völdum troðningsins.
„Fólk var að ýta á hvert annað stanslaust,“
segir Zeba.
„Við fórum svo aftur að bílnum og ég náði
sambandi við starfskonur Jafnréttisskólans,
sem við vorum í stöðugu símasambandi við.
Þær sögðu okkur að það væri verið að skoða
hvort við kæmumst inn á flugvöllinn eftir ann-
arri leið. Ég setti því barnið í bílinn og fór að
athuga málið. Við treystum okkur ekki með
barnið því við vissum ekki hvernig ástandið
væri þarna. Ég sagðist koma aftur í bílinn ef
ég sæi að þetta væri í lagi en svo reyndist þessi
lausn fela í sér að fara aftur í gegnum þvöguna
en með aðstoð hermanna,“ segir Zeba og út-
skýrir að þau hafi þvælst þarna fram og til
baka þar til þau ákváðu að halda áfram án
barnsins.
„Það voru öskur og læti en íslenskur starfs-
maður á flugvellinum sem við höfðum verið
sett í samband við sendi sérsveit eftir okkur og
aðstoðaði okkur síðan við að komast í gegn hjá
amerísku hermönnunum. Við vorum hrædd
um líf sonarins, að hann myndi ekki lifa af
troðninginn. Það voru ungabörn sem dóu
þarna. Sum vegna súrefnisskorts og sum
vegna þess að þau tróðust undir. Sum
barnanna hafa orðið viðskila við foreldra sína.
Það eru of margar sorgarsögur,“ segir Khai-
rullah dapur í bragði.
„Svo komumst við um borð í herflugvél og
flugum til Pakistan. Þar vorum við í sólarhring
og flugum svo til Danmerkur og þaðan hing-
að.“
Framtíð fyrir soninn
Litli Arsalan varð eftir hjá ömmu sinni og
frænku.
„Mamma mín og systir hugsa um barnið en
það þarf tvo til, hann er svo óvær og með
magakveisu. Ég var með hann á brjósti en nú
fær hann þurrmjólk úr pela,“ segir hún.
„Þetta var afar erfið ákvörðun,“ segir Khai-
rullah og kona hans tekur undir það.
Hún strýkur tár af hvarmi.
Þau vinna nú að því að fá barnið heim til Ís-
lands.
„Við tókum þessa ákvörðun fyrir hans fram-
tíð. Hann myndi ekki eiga neina framtíð í Afg-
anistan. Það er óvíst að þar verði friður. Ég vil
að barnið okkar fái annað líf en við. Þess vegna
urðum við að skilja hann eftir svo við gætum
komist út úr Afganistan,“ segir Zeba og segir
að barnið hefði ekki átt framtíð ef foreldrar
þess hefðu verið drepnir í heimalandinu.
„Auk þess að vera menntuð og hafa unnið
fyrir stjórnvöld erum við af Hazara-þjóðflokki
sem eru stöðugt undir árásum frá talíbönum
og ISIS,“ segir Khairullah.
Hvernig ætlið þið að fá barnið hingað?
„Við vorum í sambandi við Irmu [Erlings-
dóttur, prófessor við HÍ og forstöðumann
Jafnréttisskólans] og hún sagði okkur þegar
við vorum enn á flugvellinum í Kabúl að ís-
lensk stjórnvöld hefðu samþykkt að systir mín
fengi að koma hingað með barnið okkar. Það
átti að láta reyna á þetta strax á miðvikudeg-
inum ef það skapaðist opnun inn á flugvöllinn
eftir öruggari leið en það gerðist ekki. Ástand-
ið var orðið of hættulegt. En ég óska þess að
mamma fái líka að koma,“ segir Zeba, en móð-
ir hennar er fæðingarlæknir.
„Systir mín er ung og hefur enga reynslu af
ungabörnum. Það þarf tvo til að sinna honum á
þessu langa ferðalagi; hann er mjög óvær.
Hann grætur mikið,“ segir hún.
„Núna er flugvöllurinn óstarfhæfur og ekki
hægt að fljúga þaðan. Talíbanar segjast ætla
að flytja inn tæknifólk frá Tyrklandi til að
hægt verði að opna flugvöllinn. En ég veit ekki
hvenær það verður,“ segir hún.
Ungu hjónin hafa líka að vonum miklar
áhyggjur af vinum og vandamönnum sem enn
eru í Afganistan.
„Eldri bróðir minn vann sem öryggisvörður
fyrir Ameríkana. Hann hefur margreynt að
komast úr landi til að bjarga sér en það hefur
ekki tekist. Yngri bróðir minn komst til
Bandaríkjanna,“ segir Khairullah.
Fólk hefur misst vonina
Nú hafa Zeba og Khairullah lokið sóttkví og
dvelja í bráðabirgðahúsnæði. Framtíðin er al-
gjörlega óráðin, enda eru þau nú allslaus í nýju
landi og sakna barnsins síns. Þau komu hingað
nánast aðeins með fötin sem þau stóðu í.
„Ég hafði pakkað í heila tösku fyrir barnið,
fullt af barnafötum og bleium fyrir ferðina. Ég
lagði mesta áherslu á að pakka fyrir barnið. Í
annarri tösku voru svo föt á okkur. Á flugvell-
inum gátum við svo ekki tekið báðar töskurnar
og við enduðum á að taka töskuna með barna-
fötunum. Hann á eiginlega engin föt,“ segir
Zeba og brosir út í annað þegar hún horfir á
manninn sinn.
Eru þið farin frá Afganistan fyrir fullt og
allt?
„Já. Ef það verður einhvern tímann friður er
allt of langt í það,“ segir Khairullah.
„Við höldum að það verði þarna borg-
arastyrjöld,“ segir Zeba.
„Nú reyna allir að flýja en öll landamæri eru
lokuð. Við getum ekki séð fram í tímann og
spáð hvað muni gerast þarna. Núna er útlitið
svart. Mjög svart,“ segir hann.
„Fólk hefur misst vonina og er vonsvikið.
Kollegar mínir hafa verið að senda mér skila-
boð og biðja mig um að tala við íslensk stjórn-
völd því þau eru í hættu. Þau vilja hjálp; allir
vilja finna leið til að flýja. Allir í Afganistan
hafa misst von og þar ríkir mikil óhamingja,“
segir Zeba sem segir sína gæfu felast í því að
hafa stundað hér nám og að hér hafi verið fólk
sem mundi eftir henni.
„Þegar talíbanar tóku yfir Kabúl sendi ég
skilaboð á kennara minn hér og spurði um leið
til að komast út úr Afganistan. Hún hafði sam-
band aftur degi seinna og sagði mér að utan-
ríkisráðuneytið væri að leita leiða til að hjálpa
okkur sem höfðu verið í skólanum. Nokkrum
dögum seinna fékk ég skilaboð frá Irmu þar
sem ég var beðin um allar upplýsingar. Þannig
komumst við út úr Afganistan,“ segir Zeba.
Þau bíða nú milli vonar og ótta eftir barni
sínu og lifa nú í óvissu.
„Við vitum ekkert hvað verður um okkur;
við höfum ekki fengið neinar upplýsingar enn
um hvar við munum búa.“
Zeba er í stöðugu sambandi við móður sína
og systur til að fylgjast með barninu og segist
ná sambandi við þær þótt oft sé lélegt netsam-
band.
„Systir mín sendir myndir og myndbönd.“
Hafið þið von um betri framtíð?
Zeba hefur orðið.
„Já, hér getum við átt góða framtíð fyrir
okkur og barnið okkar, ef allt fer að óskum.“
„Nú reyna allir að flýja en öll landamæri eru lokuð. Við getum ekki séð fram í tímann og spáð hvað
muni gerast þarna. Núna er útlitið svart. Mjög svart,“ segir Khairullah Yosufi frá Afganistan.
Morgunblaðið/Ásdís
Litli Arsalan er rétt um tveggja
mánaða gamall. Hann varð eftir í
Afganistan en kemst vonandi sem
fyrst í faðm foreldra sinna hér á landi.
’
Við tókum þessa ákvörðun
fyrir hans framtíð. Hann
myndi ekki eiga neina framtíð í
Afganistan. Það er óvíst að þar
verði friður. Ég vil að barnið
okkar fái annað líf en við.
Þess vegna urðum við að skilja
hann eftir svo við gætum
komist út úr Afganistan.