Morgunblaðið - 26.10.2021, Blaðsíða 14

Morgunblaðið - 26.10.2021, Blaðsíða 14
14 MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 26. OKTÓBER 2021 Hægt er að lýsa skoðun á ritstjórnargreinum Morgunblaðsins á http://www.mbl.is/mogginn/leidarar/ Undanfarna daga hafa verið fluttar ýmsar furðufréttir úr heimi embættis- mannaveldisins. Sumar broslegar, ef þær væru ekki svo hryggilegar þegar betur er að gáð. Á dögunum greindi Kristrún Frostadóttir, nýkjörinn þingmað- ur Samfylkingarinnar, frá því að 2 ára dóttur sinni hefði borist bréf. Þar var barninu tilkynnt að það væri komið á skrá yfir ein- staklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla. Þetta mun liður í aðgerðum og eftirliti gegn peningaþvætti og fjár- mögnun hryðjuverka. Þetta er meira í ætt við þvætting en þvætti. Þegar einhver starfsmaður Matvælastofnunar (MAST) las á vefnum að Ágúst Beinteinn Árna- son (Gústi B), rappari og fé- lagsmiðlafrömuður, héldi ref sem gæludýr, beið stofnunin ekki boð- anna heldur varð sér úti um hús- leitarheimild og fulltingi lögreglu til þess að snúa öllu við á heimili skáldsins í árangurslausri leit að rebba. Lögmaður Ágústs hefur dregið fram sannfærandi rök um að það sé lögum og reglugerðum samkvæmt ekki óheimilt að eiga ref að gæludýri. Samkeppniseftirlitið sá á dög- unum ástæðu til þess að hnýta í forsvarsmenn hagsmunasamtaka í atvinnulífi fyrir að hafa lagt orð í belg á vettvangi fjölmiðla um rof á aðfangakeðjum, yfirvofandi vöruskort, verðhækkanir og aðr- ar afleiðingar kórónukrepp- unnar. Voru tínd til dæmi um það, allt harla óumdeild ummæli, en jafnframt afar tímabær um veigamikil hagsmunamál hvers mannsbarns í landinu. Sam- keppniseftirlitið minnti á að sam- keppnislög settu hagsmunasam- tökum skorður í hagsmunagæslu og því yrðu forsvarsmenn þeirra að forðast umræðu um verð og verðlagningu. Af lagabókstafnum að dæma stendur Samkeppniseftirlitið raunar ekki mjög traustum fótum um þetta og langsótt að ætla for- vígismönnum hagsmunasamtak- anna að hafa með þessu reynt að ota tota félagsmanna sinna. En það er líka fjarstæðukennt hjá Samkeppniseftirlitinu að láta sem samkeppnislög upphefji á einhvern hátt tjáningarfrelsi nokkurs manns, sem tryggt er með stjórnarskrá og alþjóðlegum skuldbindingum. Fjölmiðlanefnd úrskurðaði í liðinni viku að fótboltahlaðvarp hefði brotið gegn reglum um skráningarskyldu fjölmiðla og bann við áfengisauglýsingum. Var hlaðvarpið því sektað um hálfa milljón króna, en af úr- skurði nefndarinnar er ljóst að hún telur höfuðsynd aðstand- anda hlaðvarpsins að hafa ekki sinnt skráningarskyldu fjöl- miðla. Nú er það raunar svo, að Fjöl- miðlanefnd sjálf rekur eigið hlað- varp, en skráir það þó ekki sem fjölmiðil. Íslensk hlaðvörp skipta nú hundruðum og fjölg- ar í hverri viku. Samkvæmt ofan- greindum úrskurði virðist það ætlan Fjölmiðla- nefndar að þau skrásetji sig öll, með tilheyrandi ómaki, skrif- finnsku og kostnaði. Er næst á dagskrá að hinar holdlegu stjörn- ur OnlyFans skrái sig hjá Fjöl- miðlanefnd með nákvæmri lýs- ingu á ritstjórnarstefnu og efnistökum? Erlendur teppasali af Evr- ópska efnahagssvæðinu auglýsti rýmingarútsölu á persneskum teppum hér á landi og fékk góðar viðtökur hjá neytendum. Hið sama átti ekki við um Neytenda- stofu, sem brást við af áður óþekktum viðbragðsflýti, krafðist þess að teppasalinn sannaði sak- leysi sitt á innan við sólarhring og sektaði hann svo umsvifalaust með hæstu sekt þegar stofunni þóttu svörin ekki fullnægjandi. Það er ótrúlegt að þar hafi Neytendastofa í hvívetna gætt rannsóknarskyldu sinnar, meðal- hófsreglu eða vandaðrar og rétt- látrar málsmeðferðar. Sömuleiðis er erfitt að trúa því að innfæddur teppasali hefði mátt þola slíka óbilgirni. Hvert og eitt þessara mála kann að þykja lítilfjörlegt, jafnvel skoplegt. En það er ekkert fyndið við það þegar embættismenn fara fram úr sér í krafti ríkisvaldsins, auk heldur út fyrir ramma lag- anna, jafnvel í bága við stjórnar- skrá. Því miður eru mál sem þessi ekki einsdæmi og það mætti nefna fleiri stofnanir til sög- unnar. Að hluta er hér við gamalkunn- ugan vanda hins opinbera að eiga. Báknið hefur tilhneigingu til þess að belgjast út og það á við einstakar stofnanir þess líka. Þar mæla forstöðumennirnir árang- urinn í málafjöld og fjölda undir- sáta, sektum og fjárheimildum. Þess vegna belgjast þær út og færa iðulega út kvíarnar, jafnvel þegar þær eiga í vandræðum með að sinna grundvallarverkefnum sínum. Af dæmunum hér að ofan er bersýnilegt að þessar eftirlits- stofnanir eru komnar á villigötur. Þar er að einhverju leyti um að ræða innanhússvanda og hæpna stjórnun þeirra. En vandinn ligg- ur án vafa einnig í þeim lögum sem stofnanirnar og störf þeirra eru grundvölluð á. Við blasir að verkefni þeirra eru ekki nægilega skýrt afmörkuð þegar í slíkt óefni er komið. Þá þarf að breyta lög- unum. Stjórnmálamenn tala um það fyrir hverjar kosningar að gera verði stjórnsýsluna einfaldari og skilvirkari, að grisja verði reglu- verkið svo kerfið virki fyrir fólk- ið, ekki öfugt. Þetta færðu fram- bjóðendur ýmissa flokka í tal fyrir nýliðnar kosningar. Ofan- greind atvik eru hvert um sig til- efni til þess að við stjórnar- myndun verði staðið við stóru orðin. Standa þarf við stóru orðin um að grisja regluverkið} Eftirlit á villigötum N auðsynlegir innviðir á borð við nú- tímasamgöngur, öflugt fjar- skiptasamband, góða heilbrigð- isþjónustu og menntun, sem stenst samanburð við höfuðborg- arsvæðið, er réttmæt krafa íbúa landsbyggð- arinnar. Sundabraut er þjóðhagslega hagkvæmasta vegaframkvæmdin sem völ er á í dag. Sunda- braut styttir akstur til höfuðborgarinnar líklega um hálftíma. Ef 6.000 manns ækju Sundabraut á dag sparaði það 3.000 vinnustundir á dag. Það munar um minna. Sundabraut skiptir miklu fyrir íbúa Norðvest- urkjördæmis, ekki síst fyrir Akranes og Vestur- land, og myndi styrkja verulega stöðu Akraness sem hluta af atvinnusvæði höfuðborgarinnar. Lagning Sundabrautar er það mikilvæg vega- framkvæmd og þjóðhagslega hagkvæm að setja ætti hana í forgang. Mikilvægt er að auka aðgengi ferðamanna að Vesturlandi og áfram til Vestfjarða og Norðurlands vestra með bættum samgöngum. Þar er Sundabraut mikilvægust, auk betri vegtenginga innan kjördæmisins og til Þingvalla og Suður- lands um Uxahryggi, sem og Breiðafjarðarferja sem stenst nútímakröfur. Nýja Breiðafjarðarferju þarf sem fyrst í stað þeirrar sem nú siglir. Núverandi Baldur annar ekki eftirspurn og öryggi farþega er ekki tryggt. Fjórðungssamband Vestfjarða ályktaði um þetta sl. helgi og benti á að Baldur og siglingar yfir Breiðafjörð væru grunnstoð í samgöngumálum Vest- firðinga. Fiskeldi á Vestfjörðum skilar milljörðum króna í þjóðarbúið og innan fimm ára mun ársfram- leiðsla fara yfir 50 þúsund tonn, helmingi meira en nú. Flutningar afurða og aðfanga munu því stóraukast og vegakerfið þarf að taka mið af því. Krafa sveitarfélaga á Vestfjörðum er að gamli Herjólfur verði notaður í Breiðafjarðarferðir uns ný ferja fæst. Hann hefur síðustu tvö ár ver- ið við bryggju í Eyjum, til vara fyrir Nýja Herj- ólf. Tekið er undir þessa kröfu hér. Núverandi Baldur stenst ekki nútímakröfur um þægindi í farþegaflutningum og er í engu samræmi við það að ferðaþjónusta er í dag mikilvægasta at- vinnugrein þjóðarinnar. Löngu tímabært er að nútíminn hefji innreið sína í samgöngumálum á Vestfjörðum. Má hér nefna mikilvægi þess að malbikun Dynjand- isheiðar verði lokið sem fyrst, að vegurinn um Suðurfirði til Bíldudals verði malbikaður og undirbúningur hefjist fyrir jarðgangagerð í gegnum Hálf- dán á milli Bíldudals og Tálknafjarðar (6,1 km) og undir Mikladal á milli Tálknafjarðar og Patreksfjarðar (2,8 km). Allt eru þetta verkefni sem þingmenn Norðvestur- kjördæmis verða að sameinast um enda mikilvæg fyrir kjör- dæmið og landið allt. Sundabraut er það þjóðhagslega mikilvæg samgöngubót að allir þingmenn ættu að geta sameinast um það verkefni. Eftir Hrun var Harpa byggð, sem efldi tónlistarlíf borg- arinnar. Eftir heimsfaraldurinn ætti þjóðin að sameinast um innviða- og samgöngubætur og lagningu Sundabrautar. Eyjólfur Ármannsson Pistill Sundabraut og ný Breiðafjarðarferja í forgang Höfundur er þingmaður Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi. STOFNAÐ 1913 Útgáfufélag: Árvakur hf., Reykjavík. Ritstjóri: Davíð Oddsson Aðstoðarritstjóri: Karl Blöndal Ritstjóri og framkvæmdastjóri: Haraldur Johannessen FRÉTTASKÝRING Andrés Magnússon andres@mbl.is U mræða um húsnæðismál í Reykjavík hefur verið mikil undanfarin ár, enda vel þekkt að erfitt getur verið að finna íbúðarhúsnæði í borg- inni og fasteignaverð hefur hækkað ört. Svo rammt hefur að þessu kveðið að sumir hafa talað um húsnæðis- kreppu í því samhengi og kennt um lóðaskorti, sem rekja megi til stefnu meirihlutans í borginni eða sinnu- leysis. Meirihlutinn segir hins vegar að mikil íbúðauppbygging eigi sér stað, en nýjar byggðir þurfi að bíða borgarlínunnar til 2034. Enginn lóðaskortur? Um þetta var nýlega fjallað í tímaritinu Vísbendingu, þar sem sagt var að ekki væri teljandi lóðaskortur í borginni, þó fallist væri á að mun meira þyrfti að byggja til þess að anna eftirspurn. Tvær ástæður voru nefndar fyrir því að uppbyggingin væri ekki meiri en raun bæri vitni. Annars vegar væru bankar tregir til að lána til íbúðabygginga, en hins vegar væru verktakar tregir til að byggja, eins og sæist af því að ekki væri nema hluti útgefinna bygging- arleyfa nýttur. Varla verður þó byggt í borgar- landinu nema lóðir fyrir íbúðar- húsnæði standi til boða. Auðvelt er að sjá á vef Reykjavíkurborgar, að þar eru engar lóðir í boði. Eins er fullyrðingin um að bankar vilji ekki lána, sem virðist ættuð frá borgar- stjóra, fremur hæpin. Stóru við- skiptabankarnir þrír hafa allir stað- fest að þeir hafi ekki hætt að lána til uppbyggingar. Á hinn bóginn dregur eðli máls samkvæmt úr útlánum þeg- ar umsvif dragast saman. Vannýtt byggingarleyfi? Aftur á móti er rétt að huga nán- ar að nýtingu útgefinna leyfa fyrir nýjum íbúðum, sem byggðar eru á gögnum byggingarfulltrúans í Reykjavík. Á takmarkaðri nýtingu þeirra eru vafalaust fjölbreytilegar skýringar, en sú helsta er að lík- indum eðlileg framvinda bygginga- framkvæmda, því flestir verktakar byggja í áföngum. Þrátt fyrir að leyfi fáist fyrir 200 íbúðum er fyrst ráðist í byggingu 50 íbúða áður en lengra er haldið. Ekki má heldur gleyma því að byggingarferlið er tímafrekt við bestu aðstæður, en enn frekar við þéttingu á byggðum svæðum. Það er mun flóknara en þegar nýtt land er brotið undir byggð og mun kostn- aðarsamara, en fyrir vikið hentar það lítt fyrir hagkvæma húsbyggingu. Þéttingarstefnan er með öðrum orð- um ólíklegri til þess að uppfylla þarf- ir efnaminni íbúðarkaupenda. Þetta má vel sjá á tölum Sam- taka iðnaðarins (SI), sem hafa um árabil talið íbúðir í byggingu. Þar er 1. byggingarstig, útgefið byggingar- leyfi, ekki talið með, þar sem reynsl- an sýnir að útgefið leyfi leiðir ekki sjálfkrafa til framkvæmda, þó það sé nauðsynleg forsenda. Að því leyti má segja að útgefið leyfi sé til marks um vonir og vænt- ingar, sem margt annað getur haft áhrif á um hvort og hvenær verður af. Þar má nefna kærur nágranna og þess háttar, en einnig eðlilega fram- vindu verka, eins og áður var nefnt. Það er ekki nýtt af nálinni, heldur má segja að það sé einkennandi fyrir byggingu íbúðarhúsnæðis hvort sem lóðaframboð er mikið eða lítið. Met árið 2019, en ekki 2021 Ef marka má fulltrúa meirihlut- ans stendur nú yfir metuppbygging íbúðarhúsnæðis í borginni. Tölur SI benda ekki til þess, heldur að met hafi verið sett árið 2019 en síðan hef- ur íbúðum í byggingu fækkað í hverri talningu. Kannski er þó sérstaklega fróð- legt að gaumgæfa svör, sem SI fengu í spurningakönnun meðal félags- manna sinna í byggingariðnaði í fyrrahaust. Þar var lóðaskorturinn mönnum ofarlega í huga, en einnig skortur á réttu lóðaframboði. Um 80% svarenda voru á því að skortur á lóðaframboði kæmi í veg fyrir hag- kvæma húsnæðisuppbyggingu. Þá telja tæp 80% svarenda að hag- kvæmt húsnæði verði ekki byggt á þéttingarreitum. Af því blasir við að mikilvægt er að tryggja stöðugt framboð á lóðum og auka lóðafram- boð á reitum sem ekki eru þegar byggðir. Lóðaframboð lykill að lausn íbúðavanda Morgunblaðið/Árni Sæberg Reykjavík Það er stutt síðan byggingarkranar gnæfðu víða yfir miðbæinn, en þéttingin þar bætti litlu við af hagkvæmu íbúðarhúsnæði.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.